Færsluflokkur: Bloggar
Mánudagur, 25. ágúst 2008
Vanvitaháttur
Mín skoðun hefur lengi verið sú að taka ætti upp stigskift ökuréttindi, Eitt þeirra atriða væri að takmarka réttindi byrjenda með bráðabirgðaskírteini varðandi afl ökutækisins, líkt og gert er með mótorhjólaréttindi þ.e. hestöfl deilt með þyngd. Þannig mætti koma í veg fyrir þann vanvitagang sem sést á þessu myndskeiði.
Athæfi sem þetta lýsir ótrúlegu virðingar- og dómgreindarleysi gagnvart samborgurum sínum, í þessu tilfelli börnum á skólalóð.
Ofsaakstur á skólalóð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 14. júlí 2008
Óréttlæti einokunarkerfis
Í ljósi hins nýlega álits mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna er ekki nema eðlilegt að einhver láti nú reyna á kerfið. Kerfið sem vart verður saman jafnað við meira óréttlæti í íslandssögunni en dönsku einokunarverslunina. Kerfi sem er einokun einnar stéttar á rétti til fiskveiða úr sameign þjóðarinnar. Kerfi sem svipt hefur óteljandi einstaklinga og fjölskyldur afkomumöguleikum sínum, gert eignir þeirra verðlausar og að auki svipt margan manninn sjálfsvirðingunni.
Kerfi sem þetta og er búið til af stjórnmálamönnum sem virðast hafa verið fjarstýrðir frá skrifstofu LÍÚ. Kerfi sem er hreinlega úr takt við allt annað í þjóðfélaginu og er mannfjandsamlegt. Það er hreint ótrúlegt að horfa upp á nátttröll sem kvótakerfið í nútíma samfélagi frjálsrar verslunar og viðskipta. Þarna heldur einstaklingurinn Ásmundur á sjóinn vitandi það að hinn langi armur ólaganna, Fiskistofa, mun krækja hann að landi fyrr en síðar og lögsækja hann fyrir verknaðinn.
Hér er mikið réttlætismál á ferðinni. Hér er maður sem þarf stuðning okkar allra í baráttunni. Ekki minni stuðning en aðrir flóttamenn sem þurfa að berjast fyrir réttindum sínum og okkar hinna. Því hvet ég alla til að láta nú í sér heyra og veita honum stuðning.
Mótmælir kvótakerfinu með veiðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 4. júlí 2008
Svona gera menn ekki
Þessi orð sagði "ónefndur" stjórnmálaskörungur þegar honum ofbauð framganga samráðherra síns varðandi skattlagningu barna.
Mér sýnist hér vera gróft mannréttindabrot á ferðinni svo ekki sé talað um almenna miskunnsemi í garð minni máttar. Hingað til hefur stjórnvöldum verið í lófa lagið að redda alls kyns íþróttamönnum ríkisborgararétt auk þess sem vart þarf að rifja upp hraðafgreiðslur til Bobby Fisher heitins og VIP afgreiðslu til tengdadóttur þáverandi umhverfisráðherra.
Ég skora á forsætis- og utanríkisráðherra að taka nú málin í sínar hendur, taka við manninum aftur og veita honum landvistarleyfi af mannúðarástæðum og síðan reddar alþingi honum ríkisborgararétti þegar það kemur saman í haust.
Aðrar eins "barbabrellur" hafa nú verið framkvæmdar eins og ofangreind dæmi sanna.
Svo hvet ég alla til að skrifa undir áskorun til dómsmálaráðherra sem finna má hér: http://www.thepetitionsite.com/1/PaulRamses
Við getum líka sýnt samstöðu með því að mæta fyrir utan Arnarhvol (dómsmálaráðuneytið) milli 12-13 í dag.
Fjölskyldu fleygt úr landi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 16. júní 2008
Ísbjarnablúsinn enn í gangi
Aftur er kominn ísbjörn á Skagann. Núna er hann við Hraun á Skaga að gúffa sig út á æðareggjum og öðru góðgæti. Nú er tækifærið, náið nú kvikindinu og nýtið tækifærið í botn. Setið fjölmiðlasirkusinn í gang, gefið bangsa nafn, gefa úr snöggsoðinn íbjarnablús, höfðið til tilfinninga, setja á markað barnabók og allt það annað sem fólki dettur í hug.
Þessir ísbirnir sem eru búnir að vera á skagaröltinu, hvað eru þeir hættulegir og hvað ætli þeir séu búnir að éta marga veiðimenn og bændur.
Grunur um annan ísbjörn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 5. júní 2008
Ísbjörn verður skáldi að yrkisefni
Nú verður ísbjarnardrápið mönnum að yrkisefni og ekki ástæðulausu. Því meira sem þetta er skoðað er ljóst að menn hlupu verulega á sig. Í norðurhéruðum Kanada sækja ísbirnir mjög til mannabyggða og eru þar fólki til ama. Það heyrir þó til algerra undantekninga ráðist þeir að mönnum. Þarna éta þeir allt sem til fellur og eru ruslagámar íbúanna stundum illa útleiknar. Fólk fælir þá gjarnan á braut með grænum og bláum blysum eða loftlúðrum eins og notaðir eru á kappleikjum.
En veiðimanninum, náttúrubarninu og skáldinu Jóni Halldórssyni á Hólmavík varð þetta að eftirfarandi yrkisefni:
Þú komst yfir hafið á heiðskírum degi
á hreina Íslands jörð
úr nístingsköldum norðurvegi
að nema Skagafjörð.
Þú stikaðir frjáls um fjallanna sali
um fagra Íslands grund;
velkominn gekkstu um grösuga dali
gleymdir þér um stund.
Þú örmagna, máttfarinn, lagðist í laut
á ljúfri Íslands fold
uns kyrrðin dreif þig í draumanna skaut
í dúnmjúkri gróðurmold.
Þar sáu þig tortryggnir blauðgeðja bændur
þeir byggja Íslands lönd.
Vitstola hringdu í vopnfæra frændur
sem vildu þig þegar í bönd.
Þeir umkringdu þig, sem þekktir ei hlekki
en þvældist um íslenskt hlað.
Þeir skelfast frelsið sem skilja það ekki
og skjóta í hjartastað.
Athugasemd: Mér er nú kunnugt um að Bragi Valdimar Skúlason Baggalútur er höfundur kvæðisins en ekki ofannefndur Jón Halldórsson. Mér var bent á þetta kvæði inn á heimasíðu Jóns og þar var ekki getið annars höfundar. Vegna þessa misskilnings og fljótfærni minnar vil ég biðja uppáhaldstextahöfund minn Braga Baggalút innvirðulega afsökunar.
Vegna þessa er gott að minna á þá sjálfsögðu kurteisi að geta höfundar sjái menn ástæðu til að birta hugverk sem þessi á síðum sínum.
Bloggar | Breytt 6.6.2008 kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Fimmtudagur, 5. júní 2008
Öfgafólk kemur óorði á trúna
Þetta sýnir okkur svo ekki verður um villst að engu máli skiptir hvað trúin heitir. Öfgafólk og bókstafstrúarmenn koma alltaf óorði á hana, íslam, kristni eða hvað þetta heitir nú allt svo ekki sé minnst á alla sérhópana sem hverjir um sig túlka bókstafinn hver á sinn hátt.
Múslimar brugðust ókvæða við sakleysislegum skopmyndum af spámanninum, fóru um með eldi og háreisti, kristinn sértrúnarhópur lútherskra sleppti sér þegar Spaugstofan gerði grín að krossfestingunni um árið og núna bregðast kaþólikkar ókvæða við auglýsingum Símans. Persónulega finnst mér auglýsingin skemmtileg og hittir vel í mark.
Ég velti hins vegar fyrir mér hvar mörkin liggja milli vanlætingar og fánabrenna. Ætli það sé ekki næst?
Segja upp viðskiptum við Símann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 3. júní 2008
Er ekki verið að kasta tækifærum á glæ?
Í stöðunni voru tveir kostir; annar að taka enga áhættu og skjóta hann strax eða fanga hann lifandi, og flytja aftur til síns heima. Ég ætla að velta seinni kostinum fyrir mér. Voru ekki meiriháttar tækifæri í stöðunni til að bæta ímynd okkar á alþjóðlegum vettvangi og treina þetta alveg í botn. Búa til fjölmiðlasirkus, safna peningum hjá veruleikafirrtum malbiksbörnum, flytja dýrið norður í íshafið þar sem hans réttu heimkynni eru. Setja á hann gerfihnattasendi og sjá öllum sem vilja fyrir botnlausum fréttum, sönnum og lognum, búa til barnabók, minjagripi o.þ.h.
Okkur veitti ekki af, drepandi hvali, hægri vinstri, skítandi út "betri stofuna" með fáránlegum stíflumannvirkjum og díoxíðspúandi jarðgufuverum. Við eigum að nýta öll tækifæri til að fegra ímynd okkar.
PS. Þeim sem ekki skilja mun á alvöru og kaldhæðni ætla ég að biðja um að sleppa að skrifa athugasemdir. Það er gaman á hræra upp í drullupyttum svona öðru hverju....en samt öllu má ofgera.
Ísbjörninn felldur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 3. júní 2008
Afleit þjónusta Sorpu
Öðru hvoru liggur leið mín á móttökustöðvar Sorpu. Gerist helst þegar maður fyllist einhverjum fítonskrafti og ræðst á draslið í bílskúrnum eða framkvæmd er stórtiltekt á lóðinni. Nú skal ég viðurkenna að þetta er ekki það skemmtilegasta sem ég geri en samt reyni ég að sinna tiltektinni eins léttur í lund eins og mér er unnt.....þangað til ég þarf að losna við ruslið. Ruslið sem ég er samviskusamlega búinn að flokka og raða eftir leiðbeiningum Sorpu. Léttur í sinni hélt ég á eina af móttökustöðum Sorpu þar sem ég beið í röð eftir að komast inn á stöðina. Sem sagt það voru fleiri en ég sem höfðu fengið tiltektaræði þennan daginn. Í hliðinu var ungur piltur sem vopnaður málbandi og vasareikni tók á móti viðskiptavinunum. Þessi tól sín notaði pilturinn af mikilli innlifun þegar hann mældi hátt og lágt þann hluta sorpsins sem hann taldi vera gjaldskyldan. Þó svo að tekist hafi að kenna honum notkun málbands og vasareiknis hafði greinilega gleymst að kenna honum mannleg samskipti.
Orðastaður sá er hann átti við viðskiptavinina endaði yfirleitt í ónotum og einn þeirra brást þannig við að hann ók heldur þjösnalega á braut með sitt sorp. Hann var næstur fyrir framan mig með garðúrgang í kerru auk eins vörubrettis. Brettið var gjaldskylt, það fór ekki á milli mála hjá piltinum sem mældi það sem hálfan rúmmetra og BORGA - Takk. Þetta var nóg og þjáningabróðir minn á hvíta Renaultinum með fínu rauðmáluðu kerruna var nóg boðið og ók fast og ákveðið burt á meðan sá ungi baðaði út höndunum fullur vandlætingar.
Grun hef ég um að mörgum fleirum hafi fundist nóg um og sjálfur hef ég lent í svona trakteringum þarna. Í stað þess að láta rukka sig fyrir ruslið hafa menn tekið til þess ráðs að losna við það með öðrum og ógeðfelldari hætti og kasta því á víðavangi. Þetta má sjá víða í kringum um þéttbýlið s.s. eins og þessar myndir sem eru teknar í nágrenni Hafnarfjarðar sýna. Svona má auðveldlega finna víða í
Opnunartími á móttökustöðvum er augljóslega alltof stuttur, opnað í hádeginu og aftur lokað kl. hálf átta á kvöldið. Flestir ljúka vinnu síðdegis og ef menn ætla að nýta sér þjónustu (?) fyrirtækisins þurfa menn og konur á láta hendur standa fram úr ermum. Í gær þurfti ég að fara tvær ferðir, sú seinni með skáp sem ég ætlaði að setja í Góða hirðinn. Sorrý, ég var tveim mínútum of seinn og það var lokað á nefið á mér. Annað hliðið var samt opið og spurði starfsmann hvort ég mætti halda á skápnum inn í gáminn fyrir Góða hirðinn. Fullt af fólki var enn á römpunum að losa sig við úrgang og Góðahirðisgámurinn var galopinn og nóg pláss. Svar starfsmannsins var NEI, ÉG er búin að LOKA!
Ég vil taka fram að við flesta starfsmenn Sorpu hef ég átt góð samskipti við en of algengt er að verða vitni að framkomu sem þessari.
Skoðun mín hefur lengi verið sú að rangt sé að innheimta losunargjald á móttökustöðvum. Heppilegra væri að leggja gjald á í samræmi við losunarvægi þeirra og fólk fengi hluta þess gjalds endurgreitt við skil á móttökustöð. Með því að gera sorp að verðmætum mætti líka koma á samkeppni í sorphirðu og sorpmóttöku. Sennilega væri það vænlegast til að breyta viðmóti einstakra starfsmanna gagnvart viðskiptavinum sínum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 9. maí 2008
Að vinna keppni og sigra andstæðing
Er hér ekki smá hugtakaruglingur á ferð. Minn málskilningur segir að maður taki þátt í keppni, vinni hana eða tapi eftir atvikum. Að heyja keppni við einhvern getur annað tveggja endað með sigri eða tapi og þá fyrir andstæðingnum en maður tapar ekki fyrir keppninni.
Hún amma mín hefði sagt: "Láttu ekki svona rassbögu heyrast drengur minn".
Ég myndi því segja: Kópavogur vann Útsvar!
Kópavogur vann Útsvar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 4. maí 2008
Hann ætti ekki að fara lengra með þetta pilturinn, það verður bara erfiðara hjá honum að lifa með þessari skömm alla ævina ef þetta fréttist
Hér segi ég sögu af dreng sem varð fyrir því að að fullorðinn maður dveljandi á heimilinu misnotaði hann kynferðislega. Þess misnotkun stóð yfir frá því 11 - 14 ára aldurs hans. Fermingarárið hans tók móðirin eftir að blóði í rúmfötum og nærbuxum drengsins og þegar hún spurði ástæðunnar fór hann fyrst undan í flæmingi og sagðist bara vera eitthvað illt í rassinum.
Ekki leyfði hann móður sinni að sjá hver orsökin væri en hún kom því þannig fyrir að hann væri sendur til læknis. Þar kom í ljós að endaþarmur drengsins var skaddaður en drengurinn færðist undan að segja hver orsökin væri í fyrstu en sagði síðan foreldrum sínum frá. Læknirinn hafði tafarlaust samband við barnaverndarnefnd og tilkynnti um málið.
Það varð til þess að misnotkunin hætti en níðingurinn hótaði drengnum öllu illu sagði hann frá. Sama dag og hann sagði frá létu foreldrar hans manninn fara af heimilinu. Formaður barnaverndarnefndarinnar í nærliggjandi þorpi þar sem drengurinn bjó var sóknarpresturinn. Auk hans voru tvær eldri konur í nefndinni. Drengurinn var kallaður fyrir nefndina ásamt foreldrum sínum og þar sagði hann frá með erfiðsmunum því sem gerst hafði. Honum fannst spurningarnar skrítnar eins og þegar hann var spurður um hvor hann hefði verið að æsa manninn upp eða freista hans til þessara óeðlilegu athafna.
Eftir viðtalið var honum sagt að fara fram á gang loka hurðinni og bíða frammi. Frammi á ganginum lagði hann við hlustir og heyrði æsta rödd móður sinnar sem heimtaði að sýslumaðurinn yrði látinn vita og kærður. Önnur barnaverndarkonan sagði þá hvort þetta myndi ekki bara jafna sig, mannfýlan væri farin í annað landshorn. Presturinn afgreiddi síðan málið á einfaldan hátt; Best væri fyrir piltinn að fara ekki lengra með þetta, það yrði bara erfiðara hjá honum að lifa með þessari skömm ef málið myndi fréttast.
Drengurinn, þá fullorðinn maður, sagði mér þessa sögu eftir aðstæður sem urðu honum harmdrægar. Orð prestsins liðu sér aldrei úr minni, enn þann dag sviði sig undan þeim, meir en nokkru öðru en hent hefði hann á lífsleiðinni. Lífsgangan varð æði skrykkjótt og ekki fann hann veginn og aftur og aftur lenti hann í öngstrætum og blindgötum oftast í slæmum félagskap við kónginn Bakkus. Við þekktumst ekki í langan tíma en hann leitaði trúnaðar og hafði þörf fyrir að segja frá. Hann sagði líka að hann hefði aldrei hitt níðinginn eftir þetta en frétt af honum öðru hverju og oft hefði sig langað að vara við honum en kjarkinn hefði skort. Sér hefði líka stundum dottið í hug að drepa hann en til þess verks hefði kjarkinn einn skort.
Þessi saga hefur oft skotið upp kollinum í huga mínum þegar ég heyri og frétti af níðingsverkum brenglaðra manna. Þeir skilja eftir sig brotnar sálir, skemmda sjálfsmynd og stundum líkamlegan skaða. Ég hef líka stundum hugleitt hvort þessi hugsun prestsins eigi sér hliðstæður í dag.
Vonandi ekki. Ég segi þessa sögu vegna þess að hún verði til að opna huga fólks og þó ég viti það ekki og aldrei spurt er ég viss um að drengurinn væri því samþykkur.
P.S. Drengurinn lést liðlega fertugur að aldri af völdum fíkniefnaneyslu, foreldar hans báðir látnir fyrir nokkru, níðingurinn féll fyrir eigin hendi eftir upp um hann komst í öðru máli en sá eini sem er lifandi í hárri elli er presturinn. Hann lét af prestskap fyrir nokkrum árum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)