Færsluflokkur: Lífstíll

Bjargráð skíðamanna í kreppustandi

Sýnir þetta ekki bara að íslendingar eru að læra að bjarga sér í kreppunni með ráðdeild og útsjónarsemi.  Annars væri gaman að sjá rekstrarreikning skíðasvæðanna og sjá hvað kortasala skilar í tekjum á móti útgjöldum og rekstri þessara svæða.

Einnig væri fróðlegt að fá upplýst hvað þetta áhugamál kostar skattgreiðendur á höfuðborgarsvæðinu. Það er merkilegt að hægt sé að moka fjármunum almennings til ákveðinna áhugamála sem virðast njóta velvildar pólitíkusa á meðan aðrar greinar almenningsíþrótta eru í algjöru fjársvelti.


mbl.is Vilja stöðva endursölu skíðapassa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt lýðræðisafl. Athyglisverð hugmynd um "sjálfseyðandi" lýðræðishreyfingu!

Í ljósi undanfarinna atburða og viðbragða íslenskra stjórnmálamanna hugsar hver sitt.  Mér finnst með ólíkindum að engir hafi axlað ábyrgð á fjármálahruninu þrátt fyrir að hafa verið trúað fyrir varðstöðunni.  Stjórnmálamenn ættu að bera ábyrgð gagnvart kjósendum og embættismenn gagnvart framkvæmdavaldinu.  Ég minnist ekki á hlut fjárplógsmannanna sem settu hér allt á hausinn og veltu skuldum sínum á almenning.  Alla vega ekki ógrátandi.

Aldrei í íslandssögunni hafa stjórnmálamenn afhjúpað jafnrækilega vanhæfni sína og ábyrgðarleysi.  Steininn tók úr í gær í Kastljósviðtali Ingibjargar S. Gísladóttur.  Þar gaf að líta hrokafullan, veruleikafirrtan pólitíkus sem virtist miða allt sitt við að halda völdum.  Skítt með allt annað.

Svona fólk á þjóðin ekki skilið.  Það er óviðunandi og sýnir ágalla þess kerfis sem við höfum búið við.  Reyndar köllum við það lýðræði en er það ekki í raun.  Mun frekar er hægt að tala um flokksræði sem við þegnarnir lútum.  Fáum að kjósa um tilbúna lista flokkanna á fjögurra ára fresti og sitjum svo uppi með eitthvað sem jafnvel enginn vildi.  Fólk sem situr sem fastast og ber fyrir sig að hafa verið kosið fyrir 18 mánuðum eins og Ingbjörg sagði í gærkvöldi.

Þessu verður að breyta og það er  hægt.  Til þess þarf skýra sýn, frumkvæði og vilja.  Hana hefur Egill Jóhannsson o.fl. sýnt.  Hann hefur lagt fram mjög athyglisverða hugmynd að hreyfingu sem hefði það eitt að markmiði að breyta stjórnskipan Ísland í átt til virks lýðræðis.  

Ég hvet alla til að lesa hugmyndir Egils en þær má finna hér:  http://egill.blog.is/blog/egill/entry/765418/


Á ég að borga meðlagið?

Sá skeleggi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór, hefur boðað nýtt frumvarp um tæknifrjógvanir.  Eftir því sem mér og öðrum hefur skilist er opnað þar á möguleika einstæðra kvenna til tæknifrjógvunar.  Já, er það ekki barasta hið besta mál?  Þegar málið er skoðað nánar vakna spurningar. 

Í fyrsta lagi hver er réttur þess barns sem getið er með tæknifrjóvun?  Hver er réttur barnsins til föðurs? Ég hélt í einfeldni minni að útgangspunkturinn í lögum um vernd barna og ungmenna væri réttur þeirra og velferð, ekki blindir eiginhagsmunir foreldra. 

Í öðru lagi hver greiðir meðlagið?  Jú viti menn, haldið ekki að kappinn Guðlaugur hafi lýst því yfir að ríkið myndi sjá um meðlagsgreiðslur!  RÍKIÐ! Hver er ríkið? Eru það ekki við öll sem búum í þessu landi?  Þar með talinn ég sjálfur.  Það er alveg á hreinu að ég sem hluti ríkisins (skattborgarana) neita að taka þátt í þvi að greiða meðlög með börnum sem ég á ekkert í. 

Nú ef einstæð kona óskar tæknifrjógvunar er þá ekki rétt að hún leggi fram áætlun um framfærslu hins ófædda barns næstu 18 árin a.m.k.  Væri ekki betra að hún gæti sýnt fram á það með ótvíræðum hætti?

Mér finnst þessi umræða á villigötum.  Hvað með að skoða siðferðilega þáttinn í þessu auk hins félagslega?   Ég  hef fulla samúð með þeim einstæðu konum sem þrá að eignast barn.  Hingað til hafa þær ekki verið í neinum vandræðum með að lokka einhvern álitlegan til samræðis......skuldabréfið til næstu átján ára er útgefið síðar.......


Ljóssins hátíð læðist gegn.....

Það verður vart jólalegra en nú, með stilltu veðri, nýfallinni mjöllinni og öllum ljósunum sem prýða umhverfið.  En þrátt fyrir alla yrti umgjörð, ljós, jólasnjó og jólagjafirnar sem bíða eiganda sinna undir jólatrénu þá kemur hin sanna jólastemminga alltaf innan frá.  Því ef hugur fylgir ekki máli þá verða jólin okkur innantóm.

Í dag fögnum við hátíð ljóssins, þess ljóss sem ber okkur síðan á næstu vikum og mánuðum til vors og sumars.  Kristnir og fagna fæðingu Jesú sem lagður var í jötu "þar suðurfrá" fyrir 2008 árum.  Hvort sem frásögnin sú er sönn eða ekki er hún falleg og boðskapur hennar eitthvað sem öllum er hollt að tileinka sér.  

Hjá mér byrja jólin á Þorláksmessu þegar við Lionsfélagar eldum skötu og annað fiskmeti og seljum til fjáröflunar.  Það er hluti jólastemmingarinnar að leggja sitt af mörkum öðrum til líknar.  Því kemur lyktin af skötunni mér í jólagírinn.  Flestum finnst lyktin vond og ég get tekið undir það.  En bragðið er gott og hefðirnar sem hafa skapast í kring um skötuát Þorláksmessunnar eru skemmileg viðbót við jólahaldið.  Ég var að lýsa þessari upplifun fyrir kunningja mínum sem greinilega fannst fátt um.  Að morgni Þorláksmessu var þessi vísa hans í póstinum mínum:

Bedúinar báru fregn

um barn í lágri jötu.

Ljóssins hátíð læðist gegn-

um lykt af kæstri skötu.

 

Kæru bloggvinir og aðrir lesendur.  Ég óska ykkur öllum gleðilegrar jóla. 


Eru jólin í boði Euro og Visa?

Stundum kvíði ég jólunum.  Það stafar fyrst og fremst af því gengdarlausa kapphlaupi sem hefst yfirleitt um miðjan nóvember og lýkur þegar við gúffum í okkur hamborgarhryggnum á aðfangadagskvöld.  Þetta er langt og strangt þetta kapphlaup og við keppendurnir eru  misjafnlega undir það búnir.  Svo er þetta eins í maraþoni, margir viðkomustaðir þar sem brosandi kaupmenn bíða okkar með freistingarnar.  "Svona nú, vertu með og fáðu þér eins og allir aðrir" og rétta varninginn fram.  Og við glepjumst, kaupum og stingum í pokaskjattann okkar sem reyndar gerir ekkert annað en þyngja okkur á hlaupinu.  Svona komum við á einum viðkomustað eftir annan og allt í einu verða flestir hlutir þess umkomnir þess að bráðnauðsynlegt sé að eignumst þá fyrir jólin.

Svo höldum við áfram fram yfir  mánaðamótin og nálgumst hægt og bítandi upp á hæsta hjallann sem er að sjálfsögðu nýtt kretitkortatímabil.  Vá, æði, ég meikaði það.  Og núna liggur leiðin í bili léttar við fæti og enn erum við að bæta freistingunum í pokann okkar á meðan kapphlaupið heldur áfram.  Miskunnarlaust í boði VISA og MasterCard og allra kaupahéðnanna sem eiga þessa guði með okkur.  Skyldu þeir nokkurn tíma hafa lagt nýfætt barn í jötu?

Þegar við nálgumst endamarkið kemur dofinn og þreytan, ljósin, bjöllurnar, og jólasöngvarnir sem klingt hafa í eyrunum allt kapphlaupið, verða eitthvað svo einsleit og tilbreytingalaus.  Eins og við tökum ekki eftir þeim. Og í markinu á aðfangadagskvöld þegar örmagna keppendurnir eiga þessa öruggu árlegu samverustund fjölskyldunnar og búið er að saga allar neðstu greinarnarnar af jólatrénu til að koma þar undir öllum freistingunum, marglitum og lokkandi.  Hverjar eru þá hingar raunverulegu gjafir og erum við þá tilbúin að gefa þær eða þiggja þegar okkur eru réttar þær.  Kannski tökum við ekki eftir þeim, svo upptekin sem við vorum í kapphlaupinu og nú litskrúðugum gjöfunum.

Jólin sem nálgast eru hátíð ljóssins.  Þess ljóss sem mun lýsa okkur inn í komandi vor.  Jólin eru hátíð hins nýfædda barns sem lagt var í jötu forðum daga í Austurlöndum.  Á jólum gefum við hvort öðru gjafir.  Eru þær gjafir bara freistingar í skrautpappír eða eru þær eitthvað annað og meira.   Eru það gjafir sem við viljum gefa og þiggja.

Okkar er valið.....eða setja VISAð á örlítið meiri yfirdrátt eftir áramótin.


Af drukknum einkennisklæddum bílstjóra, lögguhúfu sem skipti litum o.fl. smálegu

Sú saga sem hér verður sögð er sönn, lítillega færð í stílinn og öllum nöfnum hefur verið breytt.

 

 

 

Á fyrri hluta 8unda áratugarins var vinnuflokkur úr Reykjavík við vinnu úti á landi.  Hlutverk flokksins var að leggja síðustu rafmagnslínurnar í sveitir landins.  Þetta var gott sumar, sólríkt og það var gleði og kraftur sem einkenndi líf þessara ungu kraftmiklu stráka sem skipuðu flokkinn að undanskildum verkstjóranum og ráðskonunni sem voru mikið eldri.

Vinnuflokkurinn hélt til á eyðibýli sem reynt hafði verið að gera eins vistlegt til sumarvistarinnar og kostur var.  Eins og gerist og gengur var skemmtanalífið stundað af krafti enda sveitaböll um hverja helgi og oft úr mörgum að velja.  Stundum var því ekki bara eitt  ball á helgi, þau voru stundum tvö og jafnvel þrjú.  Já það var gaman að lifa og þessa helgi sem sagan okkar varð til var ball í næsta þorpi.  Vinnuflokkurinn bjó 40 kílómetra þaðan en á næsta bæ bjó héraðslögreglumaðurinn Kalli.  Hann var bóndi en stundaði löggæslu á böllum til að drýgja tekjurnar.

Liðsmenn flokksins skiptust yfirleytt að vera ökumenn á þessi böll og þetta kvöld hafði það dæmst á Binna sem var hið besta mál því yfirleitt þótti hann viðskotaillur með víni.  Það þótti hittast vel á hann yrði edru þetta kvöldið.

Leiðin lá sem sagt á ballið og allir skemmtu sér hið besta.  Þegar átti að halda heim um nóttina kom í ljós að bílstjórinn, hann Binni, hafði dottið í´að og sagði hinum drafandi að hann gæti sko alveg keyrt heim.  Félögunum fannst það ekki við hæfi og eftir að hafa skotið á ráðstefnu datt einhverjum það í hug að fá lögguna Kalla til að keyra bílinn heim.  Hann átti jú heima á næsta bæ.  Einhver talaði við Kalla sem sagðist vera til í þetta.

Biðin eftir að Kalli lyki skylduverkum sínum í löggunni var orðið ansi löng þegar kappinn birtist í svarta búningnum með hvítan kollinn, glaðbeittur, og spurði hvar bíllinn væri.  Jú, hann var þarna.  Dökkgrænn frambyggður Rússjeppi með sætum fyrir átta manns og verkfærageymslu aftast.   "Inn með ykkur" galaði hann og skellti sér undir stýri.   

Í bílnum lumaði einhver á vodkablöndu í flösku og lét hana ganga á milli.  "Hvur andskotinn er þetta" sagði Kalli lögga, "á ekki að bjóða manni líka".  "Þú ferð nú líklegast ekki að drekka, sjálf löggan og keyrandi bíl!" sagði einhver úr hópnum.  Jú viti menn; Kalli tók hvítu lögguhúfuna af sér og sveiflaði hanni í glæsilegum boga aftast í bílinn þar sem hún lenti á hvolfi ofan á smurolíufötu.

"Húfan er farinn" sagði Kalli og hrifsaði flöskuna til sín: "Nú er í lagi að detta í það"  og svolgraði stórum.  Skemmst er frá að segja að á undraskömmum tíma breyttist þessi héraðslögregluþjónn úr virðulegum embættismanni hins íslenska ríkis í blindfullan röflara.  Það fór að fara um suma í bílnum og ekki laust við að víman rynni af hinum þegar borðalagður ökumaðurinn sveiflaði bílnum kanta á milli og tók einbreiðu brýrnar á ferðinni en ekki fyrirhyggjunni.

Það var komið framundir morgun og stutt eftir heim þegar á veginum stóð gömul Cortina þar sem sprungið hafði á tveim dekkjum.  Eldri hjón voru á bílnum og vantaði sárleg aðstoð.  Sá borðalagði vippaði sér undan stýrinu og gleðibros færðist yfir varir hjónanna þegar þau sáu hjálpina birtast í líki lögreglumanns.  Sú brosvipra var ansi skammvinn þegar meintur bjargvættur hellti sér yfir þau með óbótakömmum og spurði hvurn andskotann þau væri að gera þarna á miðjum veginum.  Hann var orðinn áberandi drukkinn, hávær og dónalegur.  Svona maður enginn vill þekkja.

Þarna voru góð ráð dýr.  Menn litu hver á annan og allir hugsuðu það sama:  Burt héðan..einn, tveir og nú!  Siggi flokkstjóri stökk undir stýri, setti í gang á meðan hinir ruddust inn, allir sem einn.  Siggi gaf nú bensínið í botn og í fyrsta og eina sinnið spólaði gamli Rússinn af stað á rykugum malarveginum.  Til að komast framhjá fólksbílnum þurfti hann að sveigja út í tæpustu vegarbrún og eitt augnablik héldu menn að bíllinn færi fram af brúninni og ylti.  Það gerðist ekki sem betur fer en það var ótrúlega fyndið að sjá blindfulla lögguna á harða spretti á eftir bílnum þar til hann gafst upp.

Siggi ók eins og leið lá heim á leið og síðar sagði hann þetta vera í fyrsta og eina sinnið sem hann hefði ekið bíl undir áhrifum.  Það er trúlegt því Siggi er einn þeirra manna sem ekki mega vamm sitt vita.

Skemmst er frá að segja allir komust heilir heim og í heila viku var hvíta lögguhúfan aftur í Rússajeppanum.  Undir það síðasta var ekki laust við að farið væri að sjá nokkuð á hvíta litnum en á næsta föstudegi fréttum við af Kalla.  Hann hafði þá heimsótt ráðskonuna og beðið hana að finna húfuna góðu og taka hana til varðveislu.

Eitt var ljóst:  Ekki yrði hann aftur beðinn að vera bílstjóri.  Þessi maður varð reyndar ekki lengi í embætti eftir þetta þegar yfirmenn hans komust að því einhverra hluta vegna að hann væri ekki eins vandur að virðingu sinni og æskilegt þætti fyrir mann í hans stöðu.

 


mbl.is Ölvaður farþegi henti bílstjóranum út og ók sjálfur í bæinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álftnesingar vaknið! Hvað er búið að gera við verðlaunatillöguna um skipulag miðsvæðisins?

Í sveitartjórnarkosningum 2006 var hart tekist á um skipulagsmál svokallaðs miðsvæðis á Álftanesi.  Þar var samþykkt skipulagstillaga rökkuð niður af andstæðingum D-listans og sögð mótast fyrst og fremst af hagsmunum lóðabraskara og verktaka, talað var um "massíva háhýsabyggð" og annað í þeim dúr.  Skipulagið átti að vera nánast mannfjandsamlegt.  Þetta fólk talaði fjálglega um íbúalýðræði, vistvæna lágreista byggð sem ætti að hæfa hinu náttúruvæna Álftanesi.  Lofað var arkitektasamkeppni þar sem "raddir íbúa" fengju að njóta sín og lýðræðisástin yrði í hávegum höfð við meðferð málsins.  Grimmúðleg ófrægingarherferð var sett í gang og bæjarstjóri og bæjarstjórn rökkuð niður þar sem nánast öll þeirra hegðun og gerðir voru gerð tortryggileg eins og frekast var kostur.

D-listinn lagði málið undir í kosningum og tapaði.  Svo einfalt var það nú.  Nýjir valdhafar settust í stólana og ný skyldi efna loforðin.  Vissulega var samkeppni sett af stað um miðsvæðið.  Margar áhugaverðar tillögur bárust en það var samdóma niðurstaða dómnefndar að tillaga Gassa arkitekta væri best.   Í framhaldi af því voru þeir fengnir til að útfæra tillögur sínar nánar.

Nú beið ég spenntur eftir íbúalýðræðinu.  Alltaf verið spenntur fyrir svoleiðis.  Sérstaklega þegar gamlir kommar tala þannig.  Einhver bið hefur nú orðið á þessu lýðræði.  Kynningin hefur verið afskaplega einhliða og í algjöru skötulíki.  Bæklingar bornir til fólks þar sem kort og myndir voru svo ógreinilega að vart var hægt greina þar hismi frá kjarna.  Einn kynningarfundur var haldinn í september sem var þess eðlis að hann vakti upp fleiri spurningar en hann svaraði.   Ekki hefur verið hægt að sjá nein merki um svokallaða lýðræðisást valdhafanna og ekki var einu sinni haft fyrir því að leggja málið í vinnuferli hjá byggingar og skipulagsnefnd fyrr en 4. okt. s.l.

Á morgun er boðaður fundur nefndarinnar þar sem á að afgreiða málið úr nefndinni og síðar um daginn kl. 17:30 er boðað til fundar bæjarstjórnar þar sem á að afgreiða tillöguna.  Þegar tillagan er skoðuð kemur í ljós og stórfelldar breytingar hafa verið gerðar á verðlaunatillögunni.  Nú á að loka Breiðumýri að sunnanverðu þannig að stærstur hluti umferðar inn og út af svæðinu fer um Skólaveginn.  Þar er hann lagður um baklóðir íbúa við Suðurtún sem að auki þurfa að taka bensínstöð upp að húsveggnum.  Austur og suðurlóðir við Suðurtún hafa þótt einstaklega eftirsóknarverðar vegna einstaks óskerts útsýnis til Bessastaða,nágrannasveitarfélaganna og fjallahringurinn í austri blasir við.  Nú á að eyðileggja þetta með "massífum" blokkabyggingum meðfram Norðurnesveginu og til að bæta gráu ofan á svart eru þær skásettar þannig að útsýnið verður alveg tekið.  Í þessari tillögu er aldeilis ekki minni "háhýsa"byggð en í þeirri fyrri.  Þvert á móti auk þessa hryllilega náttúruhúss sem áætlað er að byggja gengt Bessastöðum.  

Ef þessu fólki var einhver alvara með fjasi sínu um samráð og íbúalýðræði af hverju er þá ekki íbúunum treystandi til að taka ákvörðum um skipulagstillögurnar.  Þá sem er í gildi og þá sem ætlunin er að samþykkja á morgun. 

Ég skora á ykkur, ráðandi meirihluta að standa ykkar plikt í því efni.  Þið getið ekki  hagað ykkur eins og nashyrningur í glervörubúð.   Kannski þið séuð farin að átta ykkur á að þið munuð ekki eiga neitt framhaldslíf sem valdhafar eftir næstu kosningar.  Ef svo er þá skýrir það margt.

Ég hvet fólk til að láta í sér heyra og láta ekki hvað sem er yfir sig ganga.  T.d. mætti mæta á bæjarstjórnarfundinn á morgun, 11. okt.  Hann byrjar kl. 17:30 í hátíðasal íþróttamiðstöðvarinnar. 

 P.S.  Rétt að vekja athygli á ansi beittum athugasemdum og upprifjunum á loforðum fyrir kosningarnar 2006.


Lifandi herðatré - tízkuljóminn hver?

Lengi hef ég horft í forundran og með óhug á tízkusýningar í sjónvarpi þar sem grindhoraðar, vannærðar stúlkur ganga fram bryggjuna með einkar ankannalegu göngulagi þar sem öðrum fæti er sveiflað fram fyrir hinn.  Svona gengur eðlilegt heilbrigt fólk alls ekki og því verður þetta, hjákátlegt svo ekki sé meira sagt.  Fleira er hjákátlegt eða réttara sagt sorglegt við þessar sýningar.

Vöxtur þessar stúlkna er líkastur því sem maður sér fyrir jólin ár hvert af hungruðum börnum Afríku þegar hjálparstofnanir biðla til ríkra feitra Vesturlandabúa um nokkar krónur til hjálpar hungruðum heimi.  Þessi vöxtur virðist hafa hentað tízkuhúsunum einkar vel þar sem þær (stúlkurnar) virðast allar af staðlaðri stærð og bera fötin álíka vel eins og herðavír (herðatré).  Þar með eru þessi grey orðin að fyrirmyndum stúlkubarna um allan heim sem reyna eftir mætti að tileinka sér útlit og lífstíl fyrirsætanna.  Ekki gramm af fitu ofan í kroppinn sem síðan er píndur í tækjasölum vorldklass og annara slíkra stöðva sem gera beinlínis út á ímyndina.

Afleiðingin blasir við á þessari áhrifaríku ljósmynd Oliviero Toscani sem hann tók fyrir tízkuhúsið Flash & Partner´s í Mílanó.  Myndin sýnir á átakanlegan hátt mannlega eymd stúlku sem óprúttnir tízkudólgar hafa skapað henni og fjölda annara ungra stúlkna.  Átröskunarsjúkdómar leggja þær að velli auk geðrænna vandamála sem fylgja þessum lífsmáta.  Hiklaust má bera afleiðingar þessa lífsstíls við afleiðingar fíkniefnaneyslu.

Sem betur fer virðast sum tízkuhúsanna vera að snúa við blaðinu og velja fyrirsætur sem hafa eðlilegan líkamsvöxt.  Þó verður við ramman reip að draga vegna mótstöðu lífsstílsiðnaðarins sem sem vill reka alla inn í tækjasali, borða alls kyns "fæðubótar"glundur og þar með móta alla í sama horf.  Þessi iðnaður veltir gífurlegum fjármunum í hinum vestræna heimi í dag og þessir menn munu ógjarnan vilja sjá af spæni úr þeim aski til annara hluta.


mbl.is Auglýsing vekur óhug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigum við að láta miðborgina drabbast niður til að þóknast einhverjum friðunartalibönum?

Fyrir mörgum árum eyddi ég sumrum mínum í það að aka og lóðsa erlenda ferðamenn um landið, þar með talið okkar ástkæru höfuborg.  Ég gleymi seint öldruðum breskum hjónum sem stigu út úr bílnum að kvöldi dags eftir skoðunarferð um Reykjavík.  Þau sögðust hafa lesið talsvert um Ísland og sögu þess en ekki vitað fyrr en nú að svona miklar loftárásir hefur verið gerðar á Reykjavík í seinni heimstyrjöldinni.  Ég leiðrétti þau að sagði að þýski herinn hefði gert 2 - 3 vesældarlegar tilraunir á austfjörðum til loftárása en aldrei hefðu verið gerðar loftárásir á Reykjavík.  Í framhaldi spurði ég hvers vegna þau héldu þetta.  "Jú byggðin er svo gisin og það er eftir að byggja upp á svo mörgum stöðum" var svarið.

Þarna upplukust augu mín fyrir ósamstæðri byggingarmynd miðborgarinnar, tætingslegu samansafni alls myns bygginga, allt frá kofum sem byggðir eru úr kassafjölum og öðru tilfallandi efni og allt til víðáttuljótra sálarlausra steinsteypukumbalda sem virðist hafa verið dritað niður af handahófi hér og þar.

Mörg þeirra húsa sem eru við Laugaveg og í nærliggjandi götum í Skuggahverfinu er reist af miklum vanefnum til íbúðar.  Byggt hefur verið við mörg þeirra en allt en flest eiga það sameiginlegt að henta engan veginn í miðborgarkjarna.  Enda hefur það verið þannig að mannlíf miðborgarinnar hefur verið deyjandi hægt og bítandi.  Ekki hefur mátt hrófla við neinu og allt á að friða.  En til hvers?  Þegar þess er spurt verður oftast fátt um svör.  Helst er nefnt til að húsið sé svo gamalt.  Það getur hreinlega ekki verið ástæða til friðunar ein og sér.  Öll hús eiga sér sögu, hvernig sem það er annars byggt.  Mjög ríkar sögulegar ástæður hljóta að vera til þess að hús séu friðuð þess vegna.

Allt hefur þetta orðið til þess að miðbærinn hefur drabbast niður og verslun hefur flúið inn í Kringlur og Smáralindir.  Sem er slæm þróun.  Þær hugmyndir sem Samson Properties hefur nú sett fram um uppbyggingu á Barónsreitnum hljóta allir þeir að fagna sem vilja hag miðborgarinnar sem mestan.  Við getum ekki bara fryst söguna og eðlilega þróun byggðar og mannlífs.  Við högum okkur eins og phskopatar sem vilja það helst að litla barnið þeirra verið barn að eilífu, klæða það í ungbarnafötin, þó komið sé á fermingaraldurinn og babla enn við það smábarnamál.  Annað tveggja höldum við ástandinu eins og það er og verslun og þjónusta mun finna sér annan samastað eða við sameinumst um eðlilega uppbyggingu sem tekur mið af nútímanum.  Ekki fyrir hundrað árum. 


mbl.is Hugmyndir að nýjum miðborgarkjarna í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskt hugvit. TCT eldsneytiskerfi; bylting á sviði umhverfismála?

Í síðustu færslum mínum hef ég fjallað um það dæmalausa auglýsingaskrum sem haldið er að almenningi varðandi losun svokallaðra gróðurhúsalofttegunda.  Að sjálfsögðu hafa ósvífnir fjárplógsmenn fundið greiða leið að pyngju samborgara sinna með því að selja þeim alls kyns skyndilausnir eins og Hybrid bíla, láta fólk "kolefnisjafna" bíla sína og annað gáfulegt í þessum dúr.  Þarna er höfðað til samvisku fólks sem telur sig geta lagt sitt lóð á vogarskál umhverfisverndar með því að láta einhverja aðra um verndina, bara ef það getur keyrt áfram þriggja tonna ameríska trukkinn sem eyðir jafnvel á þriðja tug lítra á hverja hundrað kílómetra.

Samt er hægt að finna ljós í þessari "kolefnamóðu". 

Síðast liðin 17 ár hefur íslenskur hugvitsmaður, Kristján B. Ómarsson, þróað ofur einfalda hugmynd að eldsneytiskerfi fyrir brunahreyfla.  Hann hefur lagt í þessa hugmynd sína lífið og sálina þrátt fyrir að fáir hafi haft trú á henni fyrst í stað og fjármunir væru af skornum skammti.

Nú er þessi hugmynd hans að verða að veruleika með fjöldaframleiðslu á svokölluðum TCT (Total Combustion Technology) blöndungi.  Þessi blöndungur byggir á alveg gjörbreyttri tækni við blöndun eldsneytis og loft þannig að nýting eldsneytisins verður mun betri.  

Það sem skiptir okkur kannski mestu máli er að þessi tækni minnkar losun CO2 allt að 80% og HC+NOx allt að 35%.  Þetta er eitthvað sem engum hefur tekist áður og nú þegar framleiðsla er að hefjast á fyrstu gerð TCT fyrir smávélar eru mjög miklar vonir bundnar við að þessi tækni geti breytt miklu um losun gróðurhúsalofttegunda frá öllum tegundum brunahreyfla.  Þessi tækni ræður við allt fljótandi eldsneyti allt frá bensíni til jurtaolíu auk gass.

Slæmu fréttirnar eru þær að fyrirtæki Kristjáns, Fjölblendir ehf, er að flytja starfsemi sína úr landi til N-Írlands þar sem allur aðbúnaður nýsköpunarfyrirtækja er margfalt betri en hér á landi.  Þar hefur reyndar prófunarferli þessarar tækni farið að mestu fram á undanförnum árum.  Miklir fjármunir hafa verið lagðir í kaup á einkaleyfum sem víðast um heiminn þannig að í dag er þessi hugmynd vel vernduð.

Hér er á ferðinni eitthvað sem kalla má raunhæfa leið til lausnar á hluta þess vanda sem heimurinn stendur frammi fyrir.  Væri ekki nær fyrir stjórnvöld að taka fyrir alvöru á vanda nýsköpunarfyrirtækja þannig það þau flýi ekki land eitt af öðru.

Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér nánar TCT tæknina skal bent á heimasíðu Fjölblendis ehf.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband