Ísbjörn verður skáldi að yrkisefni

Nú verður ísbjarnardrápið mönnum að yrkisefni og ekki ástæðulausu.  Því meira sem þetta er skoðað er ljóst að menn hlupu verulega á sig.  Í norðurhéruðum Kanada sækja ísbirnir mjög til mannabyggða og eru þar fólki til ama.  Það heyrir þó til algerra undantekninga ráðist þeir að mönnum.  Þarna éta þeir allt sem til fellur og eru ruslagámar íbúanna stundum illa útleiknar.  Fólk fælir þá gjarnan á braut með grænum og bláum blysum eða loftlúðrum eins og notaðir eru á kappleikjum.

En veiðimanninum, náttúrubarninu og skáldinu Jóni Halldórssyni á Hólmavík varð þetta að eftirfarandi yrkisefni: 

 

Þú komst yfir hafið á heiðskírum degi
á hreina Íslands jörð
úr nístingsköldum norðurvegi
að nema Skagafjörð.

Þú stikaðir frjáls um fjallanna sali
um fagra Íslands grund;
velkominn gekkstu um grösuga dali
gleymdir þér um stund.

Þú örmagna, máttfarinn, lagðist í laut
á ljúfri Íslands fold
uns kyrrðin dreif þig í draumanna skaut
í dúnmjúkri gróðurmold.

Þar sáu þig tortryggnir blauðgeðja bændur
þeir byggja Íslands lönd.
Vitstola hringdu í vopnfæra frændur
sem vildu þig þegar í bönd.

Þeir umkringdu þig, sem þekktir ei hlekki
en þvældist um íslenskt hlað.
Þeir skelfast frelsið sem skilja það ekki
og skjóta í hjartastað.

 

Athugasemd:  Mér er nú kunnugt um að Bragi Valdimar Skúlason Baggalútur er höfundur kvæðisins en ekki ofannefndur Jón Halldórsson.  Mér var bent á þetta kvæði inn á heimasíðu Jóns og þar var ekki getið annars höfundar.  Vegna þessa misskilnings og fljótfærni minnar vil ég biðja uppáhaldstextahöfund minn Braga Baggalút innvirðulega afsökunar.  

Vegna þessa er gott að minna á þá sjálfsögðu kurteisi að geta höfundar sjái menn ástæðu til að birta hugverk sem þessi á síðum sínum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elías Halldór Ágústsson

Ég hélt að þetta væri eftir Enter Baggalút, öðru nafni Braga Valdimar Skúlason, sjá http://baggalutur.is/skrif.php?t=6&id=1468

Elías Halldór Ágústsson, 5.6.2008 kl. 13:32

2 Smámynd: Theódór Norðkvist

Bjössi einn bjálað allt gerði
góndi á laganna verði.
Þeir ákváðu að skjóta
skepnuna ljóta,
langt inni í Skagaferði.

(Skagaferði = Skagafirði.)

Theódór Norðkvist, 5.6.2008 kl. 22:48

3 identicon

Ekki er þetta nú nein Lilja. En ég páraði þetta engu að síður niður, alveg sjálfur – og komu þar Hólmvíkingar hvergi nærri.

B.

Bragi Valdimar (IP-tala skráð) 6.6.2008 kl. 13:24

4 identicon

Hvernig væri að hafa heimildirnar réttar?

Dexxa (IP-tala skráð) 6.6.2008 kl. 15:51

5 Smámynd: Ólafur Jóhannsson

Það er ljótt að stela, jafnvel ljótara en að skjóta hvítabjörn.

Skamm, skamm, Strandamenn.

No. 11

Ólafur Jóhannsson, 6.6.2008 kl. 21:01

6 Smámynd: Heimir Tómasson

Ég held að þó væri ekki nema vegna ritstílsins þá væri hægt að þekkja hugverk Enters.

Heimir Tómasson, 6.6.2008 kl. 22:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband