Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Píslarvætti?

Til eru þau samfélög í heiminum þar sem eignarréttur er óljóst eða jafnvel fjarlægt hugtak. Eitt eiga þessi samfélög þó sameiginlegt: Þau eru talin mjög frumstæð í menningarlegu tilliti. Þessi samfélög er m.a. að finna á afskekktum svæðum S-Ameríku, í Mið-Afríku og Súmötru og Borneó.

Nú er því þannig farið í okkar samfélagi að eignarréttur er tiltölulega skýrt greindur og afmarkaður. Afnotaréttur er annað og þá yfirleitt háður samþykki þess er með eignarréttinn fer.Nú getur mönnum greint á hvers sé eignar- og eða afnotaréttur. Til að fá úr slíku skorið höfðum ákveðið að koma slíkum ágreiningi fyrir hjá dómstólum sem skera þar úr.

Það sem er að gerast á Vatnsstíg er að hópur fólks hefur tekið yfir ónotað hús; reyndar í annarra eigu og hefur hafið það sem hópurinn kallar nytjarétt.  Svo er að sjá að þarna fari fyrir harður kjarni ungmenna auk ýmissa nytsamra sakleysingja, sem beiti þessari aðferð til að efna til ágreinings og í framhaldi til slagsmála við lögreglu.  Þau vita sem er að lögreglu verður gert lögum samkvæmt að rýma húsið geri eigandi kröfu þar um.  Þar skiptir engu máli hvaða skoðun lögreglan eða lögreglumennirnir hafi á hústökuhópnum eða efnislegum gerðum þeirra.  Lögreglunnar er að halda uppi lögum og rétti.  

Að leika og geta leikið píslarvott virðist vera markmið hópsins og þar helgar tilgangurinn meðalið.

 


mbl.is Götuvirki hústökufólksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnlagaþing er nauðsyn núna!

Ef einhvertíma hefur verið nauðsyn á endurskoðun stjórnarskrár þá er það einmitt núna. Þjóðin hefur orðið fyrir miklu áfalli þar sem lukkuriddarar léku lausum hala og höfðu að engu það siðferðilega gildismat sem okkur var innrætt í æsku.
Ljóst er að þessi gildi þarf að pússa upp, endurskoða og endurskilgreina okkur sem sjálfstæða þjóð. M.a. virðist ljóst það óskrifaðar reglur sem flestum hafa fundist sjálfsagðar eru það ekki lengur. Af hverju? Nú, þær standa hvergi skrifaðar, segja lögspekingarnir.
Það er aumt samfélag og vart á vetur setjandi þar sem hugsunarháttur lögfræðinganna er í hávegum. Samfélag sem afneitar gildum heiðarleika, sannsögli, kærleika og samhjálpar er illa á vegi statt.
Notum því tækifærið nú og efnum til stjórnlagaþings. Gerum það samtímis þingkosningunum þannig að áhrif stjórnmálaflokka verði sem minnst. Hugsanlega mætti velja hluta þingfulltrúa af handahófi úr þjóðskrá. Alla vega skulum við forðast stjórnmálamenn í þessu starfi. Frá lýðveldisstofnum hafa þeir verið að dunda við endurskoðun stjórnarskrárinnar án þess að neitt hafi komið frá þeim sem vit er í.
mbl.is Pétur Blöndal styður stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

i kina spiser de hunde

Kínverjar éta hunda og hafa vegna þess fordæmingu alþjóðasamfélagsins, bæði vegna hundaátsins og ekki síður vegna grimmúðlegrar meðferðar á hundunum. Ég hygg að því sé þannig farið að mörgum dettur hundaátið fljótlega í hug þegar Kína eða Kínverjar koma upp í hugann. Oftast þá í neikvæðri merkingu. Hundaátið snýst þess vegna nokkuð um ímynd þjóðarinnar. Líklega gæti hún verið betri létu blessaðir Kínverjarnir af þessum "ósið".

Við íslendingar  höfum nokkuð óvænt dottið inn í miðja umræðu alþjóðasamfélagsins í mjög neikvæðri merkingu.  Við höfðum (eða töldum okkur trú um) nokkuð jákvæða ímynd sem fyrirmyndarsamfélag.  Sú ímynd er brostin og við þurfum nú mjög á því að halda að bæta þessa ímynd og nota til þess allar færar leiðir.

Einhvern veginn hefur svo æxlast til að almenningsálit Vesturlandabúa hefur snúist gegn hvalveiðum og hvalkjötsáti.  Þetta finnst okkur skrítið eins og súrsaða rengið smakkast nú vel á þorrablótunum. Stórskrítið  enda eru þetta bara veruleikafirrt kaffihúsalið, alið upp á latte og malbiksryki.  Sennilega er það líka á móti hundaáti.  Samt hef ég sannfrétt að hundakjötið bragðist með eindæmum vel.

Mér finnst hvalkjöt gott og auðvitað eigum við að nýta okkur gjafir náttúrunnar, hvort heldur sem það eru hvalir eða hundar.  Í ljósi þessa er mér vafi í huga hvort hvalveiðar nú bæti ímyndina sem nú þegar er ansi beygluð og skæld.

Svo er mér spurn:  Er hægt að selja þetta hvalkjöt?  Samkvæmt fréttum hefur myndast hvalkjötsfjall í Japan.  Neysla þar hefur dregist verulega saman og hvalveiðar í suðurhöfum er nánast á framfæri stjórnvalda fjárhagslega.  Mér þætti fróðlegt að sjá hver geymslu- og flutningskostnaður var á langreyðarkjötstonnum sem nú munu loks vera komnar til Japan.  

Er það rétt að verðið hafi ekki dugað fyrir kostnaði?  Hver er þá ávinningurinn?


mbl.is 36 þingmenn vilja hvalveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðferðiskennd misboðið - jarðvegur óeirða

Nú er komið að því sem ég og margir aðrir höfum varað við.  Mótmælin hafa færst á stig 2, þ.e. átök við lögreglu, eldar kveiktir, lauslegum hlutum kastað, fólk sýnir óhamda gremju framan í sjónvarpsmyndavélar.  Þetta er ekkert annað ein bein afleiðing af því ráð- og dugleysi sem einkennir stjórnvöld.

 

Það er ekkert að gerast.  Alþingi sett í gær eftir hið torskiljanlega “jólaleyfi”.  Og hvað var á dagskránni.  Var það ávarp forsætis til þings og þjóðar? Nei.  Var það umræða um hið hroðalega ástand sem við erum stödd í?  Nei  Var það framlagnings frumvarps um efnahagsráðstafanir? Nei.  Var það tilkynning ríkisstjórnar um kosningar? Nei.

 

Nei, nei, nei.  Svona leit dagskrá þingsins út:

1. Óundirbúinn fyrirspurnatími.

2. Vátryggingastarfsemi (heildarlög, EES-reglur) 225. mál, lagafrumvarp viðskiptaráðherra. 1. umræða.

3. Greiðslur til líffæragjafa (heildarlög) 259. mál, lagafrumvarp félags- og tryggingamálaráðherra. 1. umræða.

4. Sala áfengis og tóbaks (sala léttvíns og bjórs) 37. mál, lagafrumvarp SKK. 1. umræða.

5. Olíugjald og kílómetragjald (endurgreiðsla gjalds) 40. mál, lagafrumvarp HöskÞ. 1. umræða.

6. Andstaða við eldflaugavarnakerfi í Austur-Evrópu 49. mál, þingsályktunartillaga

7. Tóbaksvarnir (reykherbergi á veitingastöðum) 57. mál, lagafrumvarp JM. 1. umræða.

8. Stjórnarskipunarlög (bráðabirgðalög, þingseta ráðherra) 58. mál, lagafrumvarp KHG. 1. umræða.

9. Prófessorsembætti á sviði byggðasafna og byggðafræða 59. mál, þingsályktunartillaga ÁJ. Fyrri umræða.

10. Skipafriðunarsjóður 60. mál, þingsályktunartillaga MS. Fyrri umræða.

11. Áhrif markaðsvæðingar á samfélagsþjónustu 66. mál, þingsályktunartillaga ÖJ. Fyrri umræða.

12. Umferðarlög (forgangsakreinar) 93. mál, lagafrumvarp

 

Ég vissi um dug- og ráðleysið en að halda úti dagskrá sem þessari þegar landið brennur ber vott um ótrúlegt dómgreindarleysi.  Vægast sagt.

 

Misbjóðum ekki réttlætiskennd almennings.  Þá er friðurinn úti.  Enn er tækifæri til að sýna vilja til verka.  Brýnasta úrlausnarefnið er að endurheimta traust.  Það verður erfiðara með hverjum aðgerðalausum deginum sem líður. 

 

Það þarf að hreinsa til og reka afglapamennina úr Seðlabanka, Fjármálaeftirliti, bönkunum auk þess sem fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra ættu að vera búnir að taka pokann sinn fyrir löngu væru þeir gæddir minnstu sómatilfinningu.


....augnablik meðan ég........................

Mál Al-Thani þess katverska bróður emírsins af Katar fær stöðugt á sig einkennilegri mynd. Ef minnsti flugufótur er fyrir þessari frétt Stöðvar 2 um málið þá staðfestir það þá glórulausu siðspillingu sem virðist hafa grasserað með kaupahéðna og fjárglæframanna landsins.

Á mannamáli er þetta ekkert flókið.  Hér hafa ótíndir svikahrappar verið á ferð ef satt er.  Í ljósi þessa vaknar spurningin hvers vegna svikin hafa ekki verið kærð?  Getur það verið að sá er hlunnfarinn var (Kaupþing) hafði einnig óhreint mjöl í sínu pokahorni og þoli því illa skoðun?

Nú reynir  á ríkissaksóknara sem lögum samkvæmt ber að hefja að eigin frumkvæði rannsókn á þessum ótrúlegu grunsemdum.  Ég bíð eftir því að sjá lögreglumenn með handjárn á lofti.  Svo erum við beðin um að persónugera ekki vandann.......

.....augnablik meðan ég.......


Ný gildi - Ný viðmið - Nýja Ísland

Undanfarnar vikur hafa verið þær viðburðaríkustu í lífi íslensku þjóðarinnar síðan lýðveldið var stofnað 1944.  Þrátt fyrir duglega og kraftmikla þjóð kom í ljós að  mörg af gildum okkar voru á sandi byggð og margar meinsemdir hrjáð þjóðarlíkamann. Mein sem við höfum oftar en ekki afgreitt með fullkominni afneitun. Hverju er um að kenna verður manni spurnarefni. Var það minnimáttarkennd - þjóðernisremba, þið vitið -How do you like Iceland- syndromið eða var það eitthvað annað.  Ekki get ég dæmt um það. Hitt er ljóst að hægt og bítandi hafa þessi mein vaxið og dafnað og étið okkur innanfrá. Tvö dæmi:

Verðtrygging var sett á í kjölfar óðaverðbólgu áttunda áratugarins, ekki sem lausn á vanda heldur sem plástur á mein. Ekki var gerð minnsta tilraun til að lækna það heldur var lagður sérstakur skattur á þjóðina. Skatturinn er verðtryggingin. Með þessum skatti greiddum við niður kostnað við að halda úti sérstökum gjaldmiðli. Gjaldmiðli sem var eins og eitthvað þjóðartákn, líkt og  heilög belja sem ekki mátti snerta og hafði sama status og þjóðfáninn og þjóðsöngurinn. Þetta höfum við burðast með öll þessi ár. Þegar einhver hefur verið svo djarfur að kvarta, þá hefur viðkomandi verið úthrópaður sem landráðamaður. Æðsti prestur þessa trúarhóps hinnar heilögu krónu hefur setið í Seðlabankanum er nú orðinn tákngerfingur um spillingu valdhafanna.

Hitt dæmið er kvótakerfið í sjávarútvegi. Fram til þessara daga má telja þetta einokunarkerfi spillingar og sérhagsmuna eitthvert mesta fjárhagslega umhverfisslys síðan danska einokunarverslunin var aflögð. Fyrir fólkið úti í sjávarþorpunum er "kreppan" eitthvað sem það þekkir af eigin raun. Fólk sem hefur mátt þola fjárhagslegt skipbrot og niðurlægingu þegar sægreifinn seldi lífsafkomu þeirra til hæstbjóðanda. Eftir sat hnípið samfélag í átthagafjötrum, atvinna lítil eða stopul, húsin urðu verðlaus og annað eftir því. Nú er tími til að taka til hendinni í þessari meinsemd. Á þessu sviði sem öðrum þurfum við að moka út úr flórnum. Viðurkenna eign þjóðarinnar á auðlindinni og haga meðferð okkar á henni samkvæmt því.

Nú verðum við að endurmeta gildi okkar, framtíðarsýn og markmið.  Viðmiðin hafa breyst og því eigum við kannski ekki bara að tala um Nýja Glitni, Nýja Landsbanka og nýja þetta og nýja hitt. Tækifærið er núna, tökum saman höndum og sköpum hið NÝJA - ÍSLAND.


Myndu múslimskir alþingismenn tilbúnir að ganga til kirkju við þingsetningu?

Alþingismenn mættu í vinnuna í dag.  Ég vona að sumarleyfið þeirra hafi verið vel heppnað.  Ræður forsetana, Íslands og Alþingis voru athygliverðar, Ólafur skaut pólitískum skotum að vanda en í þessa sinn hitti hann markið.  Meira um það síðar.

Umhugsunarvert er hvernig þingsetningin fer fram.  Þá á ég fyrst og fremst við þann trúarlega svip sem þingsetningin hefur.  Þessi ríkistrú sem við erum skikkuð að greiða fyrir er þarna í kompaníi með stjórnmálum sem ekki hefur þótt góð latína t.d. í löndum múslima.  Þar finnst okkur forkastanlegt hvernig trú og stjórnmál blandast saman illu heilli oftast nær.

Á meðan forseti þjóðarinnar lætur sig hafa það að ganga til kirkju við hlið biskupsins með ríkisstjórn og þingheim að baki sér finnst mér tæpast hægt fordæma aðra fyrir það sama.  Eru allir þingmenn kristnir?  Allt í einu gætum við haft þingmenn sem væru annarar trúar.  Væru þeir tilbúnir að ganga til kirkju og meðtaka þar erkibiskups boðskap?

Þrátt fyrir að vera sjálfur kristinn legg ég til að þessari kirkjugöngu þingheims verði hætt.  Hún er einfaldlega ekki við hæfi.   Stjórnmálum og trú á ekki að blanda saman. 

Alls ekki. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband