Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Nýtt lýðræðisafl. Athyglisverð hugmynd um "sjálfseyðandi" lýðræðishreyfingu!

Í ljósi undanfarinna atburða og viðbragða íslenskra stjórnmálamanna hugsar hver sitt.  Mér finnst með ólíkindum að engir hafi axlað ábyrgð á fjármálahruninu þrátt fyrir að hafa verið trúað fyrir varðstöðunni.  Stjórnmálamenn ættu að bera ábyrgð gagnvart kjósendum og embættismenn gagnvart framkvæmdavaldinu.  Ég minnist ekki á hlut fjárplógsmannanna sem settu hér allt á hausinn og veltu skuldum sínum á almenning.  Alla vega ekki ógrátandi.

Aldrei í íslandssögunni hafa stjórnmálamenn afhjúpað jafnrækilega vanhæfni sína og ábyrgðarleysi.  Steininn tók úr í gær í Kastljósviðtali Ingibjargar S. Gísladóttur.  Þar gaf að líta hrokafullan, veruleikafirrtan pólitíkus sem virtist miða allt sitt við að halda völdum.  Skítt með allt annað.

Svona fólk á þjóðin ekki skilið.  Það er óviðunandi og sýnir ágalla þess kerfis sem við höfum búið við.  Reyndar köllum við það lýðræði en er það ekki í raun.  Mun frekar er hægt að tala um flokksræði sem við þegnarnir lútum.  Fáum að kjósa um tilbúna lista flokkanna á fjögurra ára fresti og sitjum svo uppi með eitthvað sem jafnvel enginn vildi.  Fólk sem situr sem fastast og ber fyrir sig að hafa verið kosið fyrir 18 mánuðum eins og Ingbjörg sagði í gærkvöldi.

Þessu verður að breyta og það er  hægt.  Til þess þarf skýra sýn, frumkvæði og vilja.  Hana hefur Egill Jóhannsson o.fl. sýnt.  Hann hefur lagt fram mjög athyglisverða hugmynd að hreyfingu sem hefði það eitt að markmiði að breyta stjórnskipan Ísland í átt til virks lýðræðis.  

Ég hvet alla til að lesa hugmyndir Egils en þær má finna hér:  http://egill.blog.is/blog/egill/entry/765418/


Er ekki verið að kasta tækifærum á glæ?

Í stöðunni voru tveir kostir; annar að taka enga áhættu og skjóta hann strax eða fanga hann lifandi, og flytja aftur til síns heima.  Ég ætla að velta seinni kostinum fyrir mér.   Voru ekki meiriháttar tækifæri í stöðunni til að bæta ímynd okkar á alþjóðlegum vettvangi og treina þetta alveg í botn.  Búa til fjölmiðlasirkus, safna peningum hjá veruleikafirrtum malbiksbörnum, flytja dýrið norður í íshafið þar sem hans réttu heimkynni eru.  Setja á hann gerfihnattasendi og sjá öllum sem vilja fyrir botnlausum fréttum, sönnum og lognum, búa til barnabók, minjagripi o.þ.h.

Okkur veitti ekki af, drepandi hvali, hægri vinstri, skítandi út "betri stofuna" með fáránlegum stíflumannvirkjum og díoxíðspúandi jarðgufuverum.  Við eigum að nýta öll tækifæri til að fegra ímynd okkar.

PS. Þeim sem ekki skilja mun á alvöru og kaldhæðni ætla ég að biðja um að sleppa að skrifa athugasemdir.  Það er gaman á hræra upp í drullupyttum svona öðru hverju....en samt öllu má ofgera. 


mbl.is Ísbjörninn felldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigum við ekki að hlusta á Ísleif Jónson varðandi Sundabraut?

Sleginn var nýr en ekki óvæntur tónn í Sundabrautarumræðunni með grein Ísleifs Jónssonar í Mogganum í dag.  Það gerir tóninn athyglisverðan er hver slær hann.  Ísleifur er ekki var einhver besserwisser út í bæ heldur reynslubolti í skoðun jarðlaga og borunum sem fyrrum stjórnandi Jarðborana ríkisins um árabil. 

Þegar  hann tjáir sig um jarðgagnagerð er rétt að hlusta og ég veit um marga jarðvísindamenn sem eru honum sammála.  Í umræðunni um Sundabraut er tiltölulega stutt síðan slegið fram hugmynd um jarðgöng.  Áður hafði verið rætt fyrst og fremst um Eyjaleiðina og hábrú yfir í Gufunes.  Vegagerðin hefur alltaf haldið fram eyjaleið sem besta kosti, fyrst og fremst út frá því að sú lausn þjóni mun betur umferðarhagsmunum borgarbúa og gesta þeirra, hafi minni umhverfisáhrif og sé það að auki mun ódýrari.  Ég held t.d. að fólk almennt geri sér ekki grein fyrir því mikla raski sem fylgir jarðgangagerð og þá hugsa ég sérstaklega til Laugarnessins.

 Hins vegar er ég ekki sammála honum varðandi breikkun Hringvegarins í gegn um Mosfellsbæ.  Það er löngu komin brýn þörf á Sundabrautina alla leið upp á Kjalarnes.  Að kljúfa Mosfellsbæinn í tvennt með hraðbraut er vond hugmynd.


mbl.is Varar við Sundagöngum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að þekkja góðan smið....

 

 

 

 

 

Sá er tvisvar mælir en sagar einu sinni.


Etanól sem eldsneyti á bíla - Mikil losun köfnunarefnisoxíðs. Hvern er verið að blekkja?

Það er morgunljóst að ekki er allt sem sýnist.  Fátt er hægt að segja manni til að koma á óvart.  Þó sperrti ég bæði eyru við að hlusta á frétt RÚV um brennslu svonefnds lífræns eldsneytis.  Þar kemur eftirfarandi fram:

Lífrænt eldsneyti sem unnið er úr repju og maís gefur frá sér meira af gróðurhúsa- lofttegundum en eldsneyti úr jarðefnum. Þetta kom fram við rannsókn vísindamanna í Bretlandi, Bandaríkjunum og Þýskalandi.

Munurinn var 70%með repjueldsneyti og 50% með maíseldsneyti. Aðrar tegundir gáfu frá sér minna en jarðefnaeldsneyti. Etanól úr maís er helsta lífræna eldsneytið í Bandaríkjunum en í Evrópu er 80% af öllu lífrænu eldsneyti unnið úr repju.

Þá spyr ég:  Er verið að hafa okkur aftur að fífli, samanber vetnisvitleysuna sem reynt var að troða ofan í kokið á okkur?


Íslenskt hugvit. TCT eldsneytiskerfi; bylting á sviði umhverfismála?

Í síðustu færslum mínum hef ég fjallað um það dæmalausa auglýsingaskrum sem haldið er að almenningi varðandi losun svokallaðra gróðurhúsalofttegunda.  Að sjálfsögðu hafa ósvífnir fjárplógsmenn fundið greiða leið að pyngju samborgara sinna með því að selja þeim alls kyns skyndilausnir eins og Hybrid bíla, láta fólk "kolefnisjafna" bíla sína og annað gáfulegt í þessum dúr.  Þarna er höfðað til samvisku fólks sem telur sig geta lagt sitt lóð á vogarskál umhverfisverndar með því að láta einhverja aðra um verndina, bara ef það getur keyrt áfram þriggja tonna ameríska trukkinn sem eyðir jafnvel á þriðja tug lítra á hverja hundrað kílómetra.

Samt er hægt að finna ljós í þessari "kolefnamóðu". 

Síðast liðin 17 ár hefur íslenskur hugvitsmaður, Kristján B. Ómarsson, þróað ofur einfalda hugmynd að eldsneytiskerfi fyrir brunahreyfla.  Hann hefur lagt í þessa hugmynd sína lífið og sálina þrátt fyrir að fáir hafi haft trú á henni fyrst í stað og fjármunir væru af skornum skammti.

Nú er þessi hugmynd hans að verða að veruleika með fjöldaframleiðslu á svokölluðum TCT (Total Combustion Technology) blöndungi.  Þessi blöndungur byggir á alveg gjörbreyttri tækni við blöndun eldsneytis og loft þannig að nýting eldsneytisins verður mun betri.  

Það sem skiptir okkur kannski mestu máli er að þessi tækni minnkar losun CO2 allt að 80% og HC+NOx allt að 35%.  Þetta er eitthvað sem engum hefur tekist áður og nú þegar framleiðsla er að hefjast á fyrstu gerð TCT fyrir smávélar eru mjög miklar vonir bundnar við að þessi tækni geti breytt miklu um losun gróðurhúsalofttegunda frá öllum tegundum brunahreyfla.  Þessi tækni ræður við allt fljótandi eldsneyti allt frá bensíni til jurtaolíu auk gass.

Slæmu fréttirnar eru þær að fyrirtæki Kristjáns, Fjölblendir ehf, er að flytja starfsemi sína úr landi til N-Írlands þar sem allur aðbúnaður nýsköpunarfyrirtækja er margfalt betri en hér á landi.  Þar hefur reyndar prófunarferli þessarar tækni farið að mestu fram á undanförnum árum.  Miklir fjármunir hafa verið lagðir í kaup á einkaleyfum sem víðast um heiminn þannig að í dag er þessi hugmynd vel vernduð.

Hér er á ferðinni eitthvað sem kalla má raunhæfa leið til lausnar á hluta þess vanda sem heimurinn stendur frammi fyrir.  Væri ekki nær fyrir stjórnvöld að taka fyrir alvöru á vanda nýsköpunarfyrirtækja þannig það þau flýi ekki land eitt af öðru.

Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér nánar TCT tæknina skal bent á heimasíðu Fjölblendis ehf.


Kolefnisjöfnunardellan

Eitthvert snjallasta auglýsingatrikk seinni tíma eru allar þær bábiljur og bull sem haldið er að almenningi og varða svokölluð gróðurhúsaáhrif (global warming).  Nýjasta dellan er svokölluð kolefnisjöfnun.   Þar er fólki talin trú um að nægilegt sé að gróðursetja svo og svo mörg tré á einhverjum óskilgreinum stað og það dugi til að gleypa allt CO2 sem heimilisbíllinn framleiðir.  Það er ekki á fólk logið.  Það kaupir allt.  Já ég meina allt, bara ef því er pakkað í nógu fallegar umbúðir og gæti hugsanlega höfðað til samvisku þess.

Væri ekki nær að sleppa kolefnisjöfnun af stóra ameríska trukknum og velja eitthvað umhverfisvænna sem gerir nákvæmlega sama gagn.  Af hverju er fólki ekki gert auðveldara að nota reiðhjól sem samgöngutæki?  Af hverju er fólki ekki gert auðveldara að kaupa litla dísilbíla?  Af hverju eru almenningssamgöngur ekki gerðar að raunhæfum valkosti svo einhver dæmi séu nefnd.

Það eru svo ótalmargir hlutir sem við getum gert til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.  Kolefnisjöfnunin er öllu líkara sölu aflátsbréfa páfagarðs hér á öldum áður.  

Meira síðar. 


Verndun Atlantshafslaxins - Til hamingu Orri

Þetta er með gleðilegustu fréttum vikunnar.  Hugsjónamaðurinn Orri Vigfússon hlýtur einhver virtustu umhverfisverðlaun heimsins, Goldberg verðlaunin, fyrir áratugabaráttu fyrir verndun Atlantshafsins.  Margir umhverfisverndarsinna mættu taka Orra til fyrirmyndar.  Hann lætur ekki duga að tala, hann framkvæmir og markmiðið er ljóst.  Ég er ekki viss um að íslendingar viti almennt mikið um þessa baráttu Orra en hann er því betur þekktari meðal áhugafólks um náttúruvernd og áhugamanna um laxveiði.  Reyndar fer áhugi á náttúrvernd og veiði yfirleitt saman.  Ríkustu hagsmunir sportveiðimanna eru að viðhalda stofnum veiðidýra sterkum og heilbrigðum.  

Orri hefur alla tíð verið trúr þessari hugsjón og fórnað miklu til.  Höfðingjadjarfur og óbanginn að kynna frumlegar hugmyndir þó sumum sé fyrirmunað að skilja þær, sbr. ummæli hans um þáverandi umhverfisráðherra.  Hófsemi en ákveðni er einkennandi fyrir þessa baráttu auk einkar frumlegra fjármögnunarhugmynda.  Ég vona að vel önnur náttúruverndarsamtök taki nú undir með Orra og félögum og sýni áhuga á umhverfisvernd á borði ekki bara í orði.

Orri, til hamingu.

Ég segi ekki annað! 


mbl.is Orri Vigfússon hlýtur helstu verðlaun baráttufólks fyrir verndun umhverfissins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband