Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Reyna að maka krókinn á meintum olíuverðshækkunum

Það var kominn tími á að alvöru lækkunarferli hæfist hér innanlands en á undanförnum mánuðum hefur olían ekki bara lækkað á heimsmarkaði heldur hefur verðið hrunið úr tæpum 150 dollurum niður fyrir 50 dollara á tunnuna.

Það er eins og íslensku olíufélögin hafi ekki tekið eftir þessari lækkun og aðspurðir kenna talsmenn þeirra óhagstæðu gengi um.  Sú skýring er alls ekki haldbær því síðustu tvo mánuði hefur gengi krónunnar í Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evrópu verið hækkandi.

Þessar verðsveiflur reyna margir að nýta sér.  Sláandi dæmi um slíkt eru svör starfsmanns ferðaskrifstofu þegar ég kannaði hvað kostaði far með ferjunni Norrönu frá Seyðisfirði til Danmerkur á "low season" og aftur til baka á "high season".  Í pakkanum var fargjald hjóna í tveggja manna innklefa, jeppabifreið + meðalstórt  fellihýsi.  Allt þetta átti að kosta a sjötta hundruð þúsunda og hafði hækkað gífurlega frá fyrra ári þegar ég var að velta fyrir mér slíkri ferð.  Spurður um ástæðu þessarar miklu hækkana sagði hann hana vera hækkandi olíuverð!

Það er gott að geta kennt kettinum um þegar eitthvað fer aflaga!


mbl.is Atlantsolía lækkar dísilverð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram svona Katrín Jakobsdóttir!

Í öllum fuminu og flumbruganginum við sölu Landsbankans á sínum tíma gleymdust þau miklu verðmæti í formi listaverka sem geymd voru í bankanum.  Það var eins og enginn hefði hugað að þessu og "Bjöggarnir"  hefðu eignast þessar þjóðargersemar "svona óvart". 

Það er því sérstakt fagnaðarefni er menntamálaráðherrann tekur þarna af skarið varðandi eignarhald íslensku þjóðarinnar á þessum listaverkum.  Fyrir það á hún hrós skilið.


mbl.is Vill listaverk bankanna í ríkiseigu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnlagaþing er nauðsyn núna!

Ef einhvertíma hefur verið nauðsyn á endurskoðun stjórnarskrár þá er það einmitt núna. Þjóðin hefur orðið fyrir miklu áfalli þar sem lukkuriddarar léku lausum hala og höfðu að engu það siðferðilega gildismat sem okkur var innrætt í æsku.
Ljóst er að þessi gildi þarf að pússa upp, endurskoða og endurskilgreina okkur sem sjálfstæða þjóð. M.a. virðist ljóst það óskrifaðar reglur sem flestum hafa fundist sjálfsagðar eru það ekki lengur. Af hverju? Nú, þær standa hvergi skrifaðar, segja lögspekingarnir.
Það er aumt samfélag og vart á vetur setjandi þar sem hugsunarháttur lögfræðinganna er í hávegum. Samfélag sem afneitar gildum heiðarleika, sannsögli, kærleika og samhjálpar er illa á vegi statt.
Notum því tækifærið nú og efnum til stjórnlagaþings. Gerum það samtímis þingkosningunum þannig að áhrif stjórnmálaflokka verði sem minnst. Hugsanlega mætti velja hluta þingfulltrúa af handahófi úr þjóðskrá. Alla vega skulum við forðast stjórnmálamenn í þessu starfi. Frá lýðveldisstofnum hafa þeir verið að dunda við endurskoðun stjórnarskrárinnar án þess að neitt hafi komið frá þeim sem vit er í.
mbl.is Pétur Blöndal styður stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er skítalykt af þessari bílasölu bankans?

Hvað er að gerast þarna? Er ekki alveg ljóst að Kaupþing hið nýja er í eigu ríkisins? Ef svo er hvernig stendur þá á því að Ríkiskaupum er ekki falið að selja þessa bíla eins og annara bíla í eigu ríkis og fyrirtækja í eigu þess?

Ljótar sögur um þessi viðskipti fara nú fjöllum hærra. Mér finnst alveg ljóst að bankinn þarf að gera þarna hreint fyrir sínum dyrum varðandi þessa sölu.  Eða eru stjórnendur bankans ekki vissir um hver sé eigandi hans?Það hljóta að hafa verið eðlilegri viðskiptahættir að bjóða þessa bíla upp eftir hefðbundum leiðum, þ.e. hjá Ríkiskaup úr því bankinn er í ríkiseign.


mbl.is Seldu lúxusbíla Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

i kina spiser de hunde

Kínverjar éta hunda og hafa vegna þess fordæmingu alþjóðasamfélagsins, bæði vegna hundaátsins og ekki síður vegna grimmúðlegrar meðferðar á hundunum. Ég hygg að því sé þannig farið að mörgum dettur hundaátið fljótlega í hug þegar Kína eða Kínverjar koma upp í hugann. Oftast þá í neikvæðri merkingu. Hundaátið snýst þess vegna nokkuð um ímynd þjóðarinnar. Líklega gæti hún verið betri létu blessaðir Kínverjarnir af þessum "ósið".

Við íslendingar  höfum nokkuð óvænt dottið inn í miðja umræðu alþjóðasamfélagsins í mjög neikvæðri merkingu.  Við höfðum (eða töldum okkur trú um) nokkuð jákvæða ímynd sem fyrirmyndarsamfélag.  Sú ímynd er brostin og við þurfum nú mjög á því að halda að bæta þessa ímynd og nota til þess allar færar leiðir.

Einhvern veginn hefur svo æxlast til að almenningsálit Vesturlandabúa hefur snúist gegn hvalveiðum og hvalkjötsáti.  Þetta finnst okkur skrítið eins og súrsaða rengið smakkast nú vel á þorrablótunum. Stórskrítið  enda eru þetta bara veruleikafirrt kaffihúsalið, alið upp á latte og malbiksryki.  Sennilega er það líka á móti hundaáti.  Samt hef ég sannfrétt að hundakjötið bragðist með eindæmum vel.

Mér finnst hvalkjöt gott og auðvitað eigum við að nýta okkur gjafir náttúrunnar, hvort heldur sem það eru hvalir eða hundar.  Í ljósi þessa er mér vafi í huga hvort hvalveiðar nú bæti ímyndina sem nú þegar er ansi beygluð og skæld.

Svo er mér spurn:  Er hægt að selja þetta hvalkjöt?  Samkvæmt fréttum hefur myndast hvalkjötsfjall í Japan.  Neysla þar hefur dregist verulega saman og hvalveiðar í suðurhöfum er nánast á framfæri stjórnvalda fjárhagslega.  Mér þætti fróðlegt að sjá hver geymslu- og flutningskostnaður var á langreyðarkjötstonnum sem nú munu loks vera komnar til Japan.  

Er það rétt að verðið hafi ekki dugað fyrir kostnaði?  Hver er þá ávinningurinn?


mbl.is 36 þingmenn vilja hvalveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjáið myndbandið þegar Davíð hringdi "viðvörunarbjöllum" 3. mars 2008.

Margt góðra gripa er að finna í safni Seðlabanka Íslands.  Þar mun meðal annars að finna hinar merku viðvörunarbjöllur sem Davíð Oddsson bankastjóri hafi hringt reglulega vegna hættulegrar stöðu íslensku bankana og vegna bliku sem dregið hafi á himinn hins íslenska efnahagslífs.

Í ljósi þess er áhugavert að skoða þetta viðtal þar sem Davíð "hringir" bjöllunum.  Er ekki rétt að þessar "bjöllur" verði geymdar á Þjóðminjasafninu með öðrum gersemum þjóðarinnar?


Er þetta hlutverk forsetans?

Mér finnst forsetinn kominn út á heldur hálan ís með þessum ummælum sínum.  Nógu slæmt er ástandið þó hann reyni að halda sér í sviðsljósinu með þessum svigurmælum.  Til sanns vegar má færa að yfirlýsing hans eigi við rök að styðjast.  Þetta er bara ekki hlutverk hans að gefa yfirlýsingar sem þessar.  Til þess höfum við ríkisstjórn. 

Svona bull er alveg sambærilegt við það sem kemur frá seðlabankastjóranum og er búið að valda okkur ómældum skaða.  Enda eru þeir líkir um margt, athyglissjúkir hrokagikkir, tilbúnir hvenær sem er að vekja athygli með alls kyns yfirlýsingum og fjölmiðlabrellum.

Betur þeir geri sér grein fyrir muninum á neikvæðri athygli og jákvæðri. 


mbl.is Þjóðverjar fái engar bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarnakona í framboð

Það er því ánægjulegt að sjá þessa efnilegu konu taka slaginn í komandi prófkjörsbaráttu. Erlu þekki ég að góðu og veit að hún er svo sannarlega traustsins verð.
Ekki kæmi mér á óvart að hér færi fram einn af framtíðarleiðtogum okkar.
mbl.is Erla Ósk ætlar í 5. sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaktir af værum blundi

Hversu langt nær hroki og afneitun þessara manna.  Látum liggja milli hluta öll afglöp formannsins en það liggur ljóst fyrir að þeir og bankinn eru rúnir öllu trausti heima sem heiman.

Okkur en nauðsyn á að afla okkur trausts.  Hluti af því er að skipta út þeim mönnum sem brugist hafa traustinu.  

Það er óskiljanlegt að virða ekki frestinn sem forsætisráðherra gaf.  Kannski hefur þetta komið þeim á óvart?

Ég bara spyr.


mbl.is Seðlabankastjórar svara Jóhönnu líklega í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

...þegar rykið sest

Athyglisverð skoðanakönnun Frjálsrar verslunar.  Um leið og rykið sest sést hversu fljótt fylgið hrynur af VG sem á tímabili mældist sem stærsti flokkurinn.  Það er slíka fróðlegt á sjá hvert straumarnir liggja í væntanlegu formannskjöri í Sjálfstæðisflokknum.  Mín skoðun er reyndar sú að flokkurinn eigi sér efnilegan forustumann, Guðfinnu Bjarnadóttur, en hún hefur ekki sýnt neinn áhuga á formennskunni.  Þá eru eftir Bjarni Benediktsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.  Bjarni virðist njóta talsverðrar hylli en fyrir hvað veit ég ekki.  Þorgerður Katrín hefur í sæti varaformanns sýnt skörulega takta en það spillir fyrir henni nú að hafa ekki tæklað sín mál í haust þegar fjármálaspilling æðstu stjórnenda Kaupþings komst í hámæli.

Að taka ekki af skarið þá og segja af sér öllum vegtyllum voru mistök.  Það hefði sýnt bæði kjark, dómgreind og ábyrgð að hafa gert það.  Hafandi gert það ætti hún greiða leið beint í formannsætið.  Því miður gerði hún það ekki og er henni fótakefli nú.  

Bjarni tengist einnig vafasömum málum sem stjórnarformaður N1 en hafði dug til þess að koma sér þar frá borði áður en í óefni var komið.  Það verður að telja honum til tekna.  Á hinn bóginn hefur hann fátt sýnt af leiðtogahæfileikum og staða hans á þingi og í flokkum legið á hillu meðalmennskunnar.  

Það er ekki nóg að hafa nafnið, útlitið og ættina.  Slíkt fleytir mönnum kannski af stað en dugar sjaldnast að ná bakkanum handan fljótsins.


mbl.is Bjarni og Þorgerður Katrín oftast nefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband