i kina spiser de hunde

Kínverjar éta hunda og hafa vegna þess fordæmingu alþjóðasamfélagsins, bæði vegna hundaátsins og ekki síður vegna grimmúðlegrar meðferðar á hundunum. Ég hygg að því sé þannig farið að mörgum dettur hundaátið fljótlega í hug þegar Kína eða Kínverjar koma upp í hugann. Oftast þá í neikvæðri merkingu. Hundaátið snýst þess vegna nokkuð um ímynd þjóðarinnar. Líklega gæti hún verið betri létu blessaðir Kínverjarnir af þessum "ósið".

Við íslendingar  höfum nokkuð óvænt dottið inn í miðja umræðu alþjóðasamfélagsins í mjög neikvæðri merkingu.  Við höfðum (eða töldum okkur trú um) nokkuð jákvæða ímynd sem fyrirmyndarsamfélag.  Sú ímynd er brostin og við þurfum nú mjög á því að halda að bæta þessa ímynd og nota til þess allar færar leiðir.

Einhvern veginn hefur svo æxlast til að almenningsálit Vesturlandabúa hefur snúist gegn hvalveiðum og hvalkjötsáti.  Þetta finnst okkur skrítið eins og súrsaða rengið smakkast nú vel á þorrablótunum. Stórskrítið  enda eru þetta bara veruleikafirrt kaffihúsalið, alið upp á latte og malbiksryki.  Sennilega er það líka á móti hundaáti.  Samt hef ég sannfrétt að hundakjötið bragðist með eindæmum vel.

Mér finnst hvalkjöt gott og auðvitað eigum við að nýta okkur gjafir náttúrunnar, hvort heldur sem það eru hvalir eða hundar.  Í ljósi þessa er mér vafi í huga hvort hvalveiðar nú bæti ímyndina sem nú þegar er ansi beygluð og skæld.

Svo er mér spurn:  Er hægt að selja þetta hvalkjöt?  Samkvæmt fréttum hefur myndast hvalkjötsfjall í Japan.  Neysla þar hefur dregist verulega saman og hvalveiðar í suðurhöfum er nánast á framfæri stjórnvalda fjárhagslega.  Mér þætti fróðlegt að sjá hver geymslu- og flutningskostnaður var á langreyðarkjötstonnum sem nú munu loks vera komnar til Japan.  

Er það rétt að verðið hafi ekki dugað fyrir kostnaði?  Hver er þá ávinningurinn?


mbl.is 36 þingmenn vilja hvalveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Í fljótu bragði: Nákvæmlega enginn..

hilmar jónsson, 11.2.2009 kl. 22:34

2 Smámynd: Ár & síð

Ávinningurinn? Að reyna að skapa togstreitu svo menn missi sjónar á því sem skiptir máli.
Matthías

Ár & síð, 11.2.2009 kl. 22:54

3 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Matthías:  Hvað skiptir máli?  Það er nú þegar mikil togstreita um málið og með færslu minni reyni ég að varpa ljósi á þann tvískinnung sem er í málflutningi margra, bæði þeirra sem eru með og á móti.

Sjálfum finnst mér sjálfsagt að veiða hval að ákveðnum forsendum uppfylltum.  

1.  Veiðarnar séu arðbærar

2.  Ekki sé fórnað meiri hagsmunum fyrir minni

3.  Vistfræðilegar forsendur séu fyrir veiðunum.  Reynslan ætti að hafa kennt okkur að ekkert samhengi er milli fækkunar og þá minna afráns hvala á mót meiri afraksturs fiskimiða okkar þrátt fyrir þá staðreynd og hvalir éta ógrynnin öll af fiski, svifi og nánast öllu sem að kjafti þeirra kemur.

4.  Ef veiða skal hval séu veiðileyfin boðin upp.  Fráleitt er að gefa sér að bara einn aðili vilji og geti veitt hvali.

Með öðrum orðum menn þurfa að nálgast viðfangsefnið faglega en ekki með kreddur, fáfræði og fordóma í farteskinu.

Sveinn Ingi Lýðsson, 12.2.2009 kl. 08:04

4 Smámynd: Gísli Gíslason

Góðir punktar. 

Eðlilegt er í mínum huga stjórnvöld gefi út leyfi til nytja á þessari auðlind eins og annarri.  Iðnaðurinn finnur svo út hvort markaðir séu til staðar og hvort þetta sé arðbært.   Stjórnvöld hættu ekki að gefa út rækjukvóta þó að það hafi verið tap í þeim iðanaði í áraraðir.  Stjórnvöld gáfu bara út kvóta í samræmi við ráðgjöf Hafró. Sama á auðvitað að gilda um hvali. 

Það sem virðist mæla á móti hvalveiðum er

  1. togstreita á milli hvalveiða og ferðamannaiðnaðar.
  2. almenningsálit erlendis er víða á móti hvalveiðum

Hvalaskoðun og hvalveiðar geta vel farið saman og það þarf að finna leið fyrir þessa aðila að lifa saman.

Hvað varðar almenningsálitið erlendis þá stendur einfaldlega uppá stjórnvöld og hagsmuna aðila.  Kynning á okkar málsstað erlendis er nánast enginn.  Almenningur erlendis er mataður á röngum upplýsingum um hvalveiðar frá umhverfisverndarsamtökum.  Almenningur situr þ.a.l með ranghugmyndir um þennan iðnað.  Hér stendur uppá á stjórnvöld og hagsmunaaðila að kynna okkar málstað.  Þetta er trúlega stærsti þröskuldurinn áður en við getum farið að nýta þessa auðlind í sátt við umheiminn.

Gísli Gíslason, 12.2.2009 kl. 10:05

5 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Ég verð að játa efasemdir mínar.  Af fréttum og þeim upplýsingum sem hægt er að nálgast virðist sem svo að nánast eini markaður hvalkjöts sé í Japan.  Þar mun neysla hvalkjöts hafa dregist verulega saman frá því að hvalveiðibannið var sett um miðjan níunda áratuginn.

Ekki fyrir svo löngu horfði ég á klukkustundarlangan þátt á Discovery um hvalveiðar og nýtingu hvalaafurða í Japan.  Í þættinum sem mér fannst mjög hlutlægur var leitast við að setja fram ólík sjónarmið og draga fram staðreyndir.  Fram kom að hvalveiðar Japana eru ríkisstyrktar og að stærstum hluta til væru byggðasjónarmið lögð til grundvallar veiðunum.  Þær væru nánast eingöngu stundaðar frá frá stöðum sem hafa langa og ríka hvalveiðihefð. 

Vegna minnkandi sölu afurðanna hafa safnast upp miklar birgðir í frystigeymslum.  Til að rýma til er öllu umframkjöti eytt sé það orðið meira en sjö ára gamalt.  Líkt og okkur Íslendingum er Japönum mikill akkur í að halda fram rétti okkar til nýtingar á þessari auðlind.  Þeir hafa því stutt við þær þjóðir sem enn reyna hvalveiðar með því að kaupa af þeim kjöt þrátt fyrir eigin offramleiðslu.  Mikið átak hefur því verið sett af stað til að "kenna" nýrri kynslóð Japana að meta þennan góða mat.  Ekki er enn ljóst hver árangurinn verður af því átaki.

Mér finnst augaljóst að ef við ætlum okkur að framleiða einhverja vöru, í þessu tilfelli hvalkjöt, þurfa ákveðnar forsendur að liggja til grundvallar.  Ef markaður er lítill þurfum við að stækka hann eða jafnvel búa til nýja markaði (hvar?).  Við þurfum að byggja upp ímynd okkar og í ljósi aðstæðna nú er ég ekki viss um að hvalveiðar séu akkúrat eitthvað sem við þurfum nú.

Það eru miklir fordómar og fáfræði á ferðinni varðandi hvali og hvalveiðar.  Vandamálið er að í hvalaverndun liggja miklir peningalegir hagsmunir.  Verndarfyrritæki á borð við Sea Shepard raka saman fé með því að gefa fólki kost á að taka einstaka hvali eða málstaðinn undir sinn verndarvæng.  Ímyndin er sú að hvalir séu í útrýmingarhættu, þeir hafi vitsmunaþroska á við menn (alla vega suma) og annað í þeim dúr.  

Ég held að við eigum skilyrðislaust að halda til streitu sjálfsögum rétti okkar til hvalveiða en það þarf meira til að sannfæra mig um að hér sé einhver útflutningsvara á ferð.

Ef hægt er að sýna fram á að ég  hafi rangt fyrir mér skal ég glaður éta það ofan í mig og heilan hval að auki.

Sveinn Ingi Lýðsson, 12.2.2009 kl. 11:11

6 Smámynd: Gísli Gíslason

Heill og sæll aftur.  Góðir punktar eins og ávallt.

Eina leiðin til að finna út hvort þú hafir rangt fyrir þér að leyfa veiðar og athuga hvernig okkur reiðir af og hvort iðnaðurinn komi afurðunum á markað og geti rekið sig.  Það er iðnaðurinn en ekki stjórnvöld sem finna og búa til markaði en stjórnvöld verða að gefa iðnaðinum starfsleyfi til að svo megi verða.

Ég held og trúi raunar að þau komi kjötinu á markað og í verð en stóra spurningin er hvernig okkur reiðir af vegna þessa í alþjóðasamfélaginu.  Þar er mikið ógert við það að koma réttum upplýsingum til skila.

bestu kveðjur Gísli

Gísli Gíslason, 12.2.2009 kl. 13:59

7 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Já, eg veit ekki.  Að mínu áliti yrði þungt undir fæti að ætla að sannfæra heilt yfir erlenda með kynningu á okkar málsstað o.s.frv.  Í stuttu máli er álit erlendra yfirleitt þannig að hvalir eigi að fá að synda frjálsir um sjóinn og þá eigi ekki að drepa og þá alls ekki í atvinnuskyni.  Gegn þessu eru rök og kynning ákaflega bitlaus. 

En almennt séð vildi eg fa svar við þessum spurningum frá Einari K. lið fyrir lið, nákvæm svör.  Enga útúrsnúninga.  Þá mundi ég skoða svörin og meta efnisatriði máls og taka svo ákvörðun:


 
  1. Hvað kostar kíló af hrefnu- eða langreyðarkjöti út úr búð í Japan?
  2. Hvað kostar að flytja kjötið til Japan?
  3. Hvernig hyggjast útflytjendur forðast umskipun í ríkjum sem eiga aðild að CITES-samningnum um bann við verslun með dýr í útrýmingarhættu og þannig koma í veg fyrir að kjötið verði gert upptækt eða endursent (slíkt hefur gerst)?
  4. Eða, hyggjast hvalkjöjtsútflytjendur senda hundruð tonna af hvalkjöti með flugfrakt beint (yfir)  Norðurpólinn?
  5. Hvað er mikið eftir þegar flutningskostnaður hefur verið greiddur?
  6. Nægir það til að greiða 2-300 ársstörf?
  7. Eða, eru þetta tímabundin eða hlutastörf og hvað gera það þá mörg ársstörf?
  8. Hversu mikill hluti af dýrinu er selt? Og þá hvað fer í hvað? Og hverju er hent?
  9. Er til viljayfirlýsing ("letter of intent") frá japönskum kaupendum um magn á ársgrundvelli?
  10. Hvernig hefur sala á hvalkjöti Í Japan þróast á s.l. 10 ár?
  11. Er um söluaukningu að ræða? Eða hefur sala dregist saman?
  12. Hversu miklar birgðir af hvalkjöti eru til í Japan?
  13. Munu japönsk stjórnvöld einungis kaupa af íslenskum hvalveiðimönnum en ekki norskum?
  14. Eru málefnaleg rök fyrir að Japan flytji inn hvalkjöt frá Íslandi en ekki Noregi?
  15. Hvernig mun hvalkjötsmarkaðurinn í Japan þróast ef norskir hvalfangarar bæta við afurðum af 500 hrefnum?

http://www.natturuverndarsamtok.is/lifrikisjavar/frettirpage.asp?ID=2766

Ómar Bjarki Kristjánsson, 12.2.2009 kl. 20:11

8 Smámynd: Gísli Gíslason

Það eru margir stofnar af langreyðum  og það er óumdeilt að langreiðarstofnin við Ísland þolir veiðar.  Sama gildir um hrefnu stofninn.  þetta má sjá á http://www.hafro.is/Astand/2008/28-hvalir.pdf   Í samræmi við það eiga stjórnvöld að gefa út kvóta.  

Það er hinsvegar úrlausnar  efni stjórnvalda og hagsmunasamtaka að finna lausn hvernig hvalaskoðunarfyrirtæki og hvalveiði fer saman. 

Íslendingar gáfu úr rækjukvóta í áraraðir þó að íðnaðurinn hér á landi væri rekinn með tapi ár eftir ár.   Ekki datt stjórnvöldum að hætta við að gefa út kvóta vegna þess.  Það eru því engin alls engin rök að ekki eigi að gefa út kvóta vegna þess að stjórnvöld hafi áhyggjur af því að ekki verði afkoma í þessum iðnaði.

Það hvað kjöt hvað kjöt kostar og hvað sé hægt að hafa  út úr vinnslunni ræðst fyrst  þegar farið er að veiða og vinna kjötið.  Einnig hvað mikið verði nýtt af dýrinu.  Ef það er ekki hægt að selja kjötið eða koma því verð þá fer enginn veiði af stað.  En eins og fyrr segir þá er það ekki stjórnvalda að ákveða það fyrirfram heldur mun iðnaðurinn finna það út, en til að svo megi verða þarf að gefa út kvóta.

Það er hluti af sjálfbærri nýtingu hafanna að veiða einnig hvali.   Afstaða ýmissa náttúruverndarsamtaka til hvalveiða er furðuleg.  Í upphafi átti að bjarga síðasta hvalnum en nú virðist málflutningurinn ganga út á að þetta séu svo gáfuð dýr að ekki megi nýta og alls ekki gefa út kvóta vegna þess að kannski verði tap á vinnslunni.  Náttúruverndarsamtök erlendis hafa mörg hver alið á ranghugmyndum um þennan atvinnuveg og orðið ágengt skoðanamyndum fólks í hinum vestræna heimi.  Það er og verður ljótur blettur á mörgum þessara samtaka.   

Það er aftur á móti dapurt að bæði íslensk stjórnvöld og hagsmunasamtök í sjávarútvegi hafa ekki verið í nægjanlegum samskiptum við hin ýmsu samtök og kynning á málstað hvalveiða hefur þannig verið í molum í áratugi.   Skortur á samskiptum  við þessi samtök og skortur á virðingu fyrir þessum samtökum hefur því miður verið ríkjandi.

Í ljósi alls þessa þá gef ég ekki mikið  fyrir þessar spurningar sem vitnað er til hér að ofan sem Ómar Bjarki hefur  tekið af vef Náttúruverndarsamtak Íslands.  Svörin við þeim spurningum mun fyrst fást þegar farið verður að veiða og vinna hvali.   Hvalastofnar við landið þola veiðar og á þeim grunni á að gefa út kvóta.  

Gísli Gíslason, 14.2.2009 kl. 23:22

9 Smámynd: Fannar frá Rifi

mjög einfalt. ef hvalveiðar borga sig ekki, þá er með sjálfhætt því engin mun geta rekið hvalveiðar ef hann selur ekki kjötið. andstæðingar hvalveiða gífuryrða mikið því þeir vita eða óttast að hvalkjötið muni seljast. þannig að það á að leyfa hvalveiðar, ef enginn getur selt kjötið, nú þá er þeim sjálfhætt.  nánast hægt að segja, umræðum er hér með lokið.

Fannar frá Rifi, 17.2.2009 kl. 10:48

10 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Ég tek undir með Fannari að auðvitað er veiðum sjálfhætt sé engin markaður fyrir kjötið. Heppilegast er að óháður markaður sjái um þetta. En er markaðurinn frjáls og óháður þegar japanska ríkið kaupir hvalkjöt burtséð frá því hvort það seljist til neytenda og byggðasjónarmið séu fyrst og síðaðst lögð til grundvallar.

Mín skoðun er sú að bjóða eigi út hvalveiðikvótann en ekki afhenda hann sjálfkrafa til þeirra sem fyrir eru á markaðnum. Fyrst í stað eigum við að sinna eftirspurn innanlands og ef hægt er að selja kjötið á eðlilegum markaðsforsendum skulum við hiklaust halda áfram.

Síðan þarf að finna sértækar lausnir varðandi sambýli veiða og skoðunar er samkvæmt reynslu norðmanna fer það engan veginn saman. Því þarf væntanlega að afmarka sérstök hvalveiðisvæði.

Sveinn Ingi Lýðsson, 17.2.2009 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband