Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Er leiðtogi í sjónmáli?

Það ríkir undarlegt ástand á Íslandi.  Eins og hendi væri veifað bliknaði glansmyndin sem við höfðum búið okkur til og  vorum svo óspör að sýna umheiminum.  Við erum svo klár, við erum betri, við erum best.  Svo gerðist það.  Hrunið.  Við blasti nístingskaldur raunveruleikinn.  Raunveruleiki sem margir hafa ekki enn áttað sig á.

 

Fjárglæpamenn sem komist höfðu í áhrifastöður höfðu hreinlega stolið stórum hluta þjóðarauðsins, veðsett annara eigur upp fyrir haus, flutt þýfið í skattaparadísir Karabíska hafsins, Ermasundsins, Kýpur og efalaust á fleiri felustaði.

Við, almenningur í þessu guðs volaða landi eigum svo að borga skuldir þessara þjóðníðinga.  Af hverju?  Hvað hef ég gert til að verðskulda að vera nú skuldum vafinn, þurfa síðan að velta þeim yfir á börnin mín og barnabörnin.  Ekki eyddi, ég sóðaði eða sukkaði þjóðarauðæfunum á braut.

 

Á fjögurra ára fresti kjósum við okkur fulltrúa á löggjafarsamkomuna sem á að mynda löggjafarvaldið.  Löggjafarvaldið myndar síðan framkvæmdavaldið sem smátt og smátt í áranna ráðs hefur orðið einskonar YFIRVALD í landinu.  Löggjafarvaldið líkist mest eins konar afgreiðslustofnun YFIRVALDSINS sem einnig hefur dómsvaldið undir hælnum.  Framkvæmdavaldið deilir og drottnar og velur menn í alls kyns stofnanir, þ.á.m. stofnanir sem eiga að gæta fjármála og efnahags.  Tvær veigamestu stofnanir þessa málaflokks eru Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið.

Það blasir við hverjum viti bornum manni að þeir sem stjórnuðu (eða áttu að stjórna) þessum stofnunum brugðust algjörlega hlutverki sínu og stóðu eftir eins og hreinir afglapar.  Í hefðbundnu lýðveldisformi vestrænna ríkja hefðu stjórnendur þessara stofnana sagt störfum sínum lausum án tafar. Sömuleiðis þær stjórnir sem yfir þær eru settar.

Jafnframt hefðu þeir ráðherrar sem ábyrgð bera á þessum málaflokkum tafarlaust átt að segja af sér, viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra hvers afglapasaga er að verða efni í heila bók.

Nei, öll berum við ábyrgð, var okkur sagt, við megum bara alls ekki persónugera vandann.  Kannski vilja þeir sem þetta sögðu skýra út fyrir mér hvað þeir sem ábyrgð bera eiga að gera þegar þeir hafa brugðist því trausti sem við sýndum þeim?  Axla ábyrgð? Hvað er nú það?  Ef við komum að vörðunum sofandi á meðan innbrotsþjófarnir fóru ránshendi um eigur okkar, eigum við að treysta þeim til áframhaldandi varðstöðu?

 

Nei, alls ekki.

 

Í þessu tilfelli hefði leiðtogi framkvæmdavaldsins átt að sýna hæfileika og myndugleik.  Hans var verkið.  Setja afglapana af.  Strax.  Því miður var það ekki gert og það afhjúpaði alvarlegan veikleika ríkisstjórnarflokkanna.   Þessi alvarlegi veikleiki var skortur á leiðtoga.  Leiðtoga sem tæki af skarið og gerði það sem gera þurfti strax.  Formaður annars flokksins lá veikur á sjúkrahús en það var engin tiltækur að halda merkinu á lofti og taka forustuna. 

 

Nú eftir meira en 100 daga aðgerðaleysi bættist enn á slæmu fréttirnar, nú af alvarlegum veikindum forsætisráðherra.  Lengi getur vont versnað.  Báðir leiðtogar stjórnarflokkanna frá vegna veikinda.  Nú þurfum við á samstöðu að halda.  Sjálfstæðismenn vantar leiðtoga, sterkan leiðtoga, sem hefur skýra stefnu og framtíðarsýn.  Leiðtoga sem nær til fólksins og getur dregið til sín fylgismenn.  Leiðtoga sem þjóðin getur treyst.

 

Nú hefur verið ákveðið að fresta landsfundi.  Það er skiljanlegt.  Annars vegar er mikil þörf á að forustan geti skynjað á slíkum fundi hver veruleiki almennings er og ættu því skapað sér skýra heildarmynd og gert áætlanir og stefnu í samræmi við hana.  Hins vegar er nauðsyn á endurnýjun forustunnar. 
Sú nauðsyn er æpandi.  Hver getur tekið við? 

 

Þorgerður Katrín?  Þorgerði urðu á afdrifarík mistök þegar ljóst var eftir fall Kaupþings sjóðabrall þeirra hjóna.  Sterkasti leikur hennar í þeirri stöðu hefði verið að segja af sér.  Sýna í verki að hér væri foringi sem tilbúinn væri að axla ábyrgð sína og gera það.  Með slíkt að baki hefði leið hennar verið greið í formannsstólinn.

 

Bjarni Benediktsson?  Hann hefur verið lítt áberandi frá þvi hann steig inn í pólitíkina, kurteis, sjarmerandi og efalaust hæfileikaríkur maður en því miður hefur hann ekki sýnt neina þá takta sem vísað gætu í leiðtoga.  Jafnframt er hann í hugum margra fyrst og síðast fulltrúi þeirra afla sem kennd eru við Engeyjarættina.

 

Illugi Gunnarsson?  Sá ágæti maður hefur verið nefndur til sögunnar.  Hans lönd eru nokkuð ókönnuð en varla það leiðtogaefni sem leitað er eftir.

 

Þá er ég kominn að þeim kostinum sem mér líst hvað best á.  Ljóst er að flokknum er mikil þörf á endurnýjun og bætingu ímyndar sinnar í augum almennings.  Eins og að ofan greinir er sagan undanfarnar vikurnar vörðuð mistökum.  Sporin sem tekin voru stutt og ómarkviss líkt að göngu um myrkra mýri.  Mýri hinnar mörgu forarpytta.  Og það sem verra var. Við duttum ofan í þá alla.  Því miður.  Vegna þessa hefur traust flokksmanna á forustunni beðið alvarlegan hnekki.  Við þurfum nýtt blóð.  Það er mitt mat að það skuli sækja til kvenna.  Á undanförnum árum hefur Guðfinna Bjarnadóttir rækilega stimplað sig inn í íslenskt athafnalíf, fyrst sem rektor HR og síðar sem alþingismaður.  Hún er gáfuð, kjarkmikil og fylgin sér.  Í starfi hennar í HR fóru leiðtogahæfileikar hennar vart framhjá þeim sem þar þekktu til.  Guðfinna er tvímælalaust besti kandidatinn sem flokkurinn á í dag og ég hvet hana til að gefa kost á sér.

 

Þá vantar varaformanninn.  Hann þurfum við ungan ferskan, vel menntaðan og hann finn ég í Erlu Ósk Ásgeirsdóttur.  Erla hefur verið mjög virk í pólítík, í Vöku, félagi lýðræðisinnaðra stúdenta, Heimdalli og SUS.  Hún hefur getið sér gott og á öllum vígstöðvum og er mjög frambærileg við hlið Guðfinnu.

Þarna held ég við fyrstu hugsun að tækifæri Sjálfstæðisflokksins liggi.  Hefjum til öndvegis hin kvenlegu gildi.  Karlarnir eru búnir að prófa að renna sér á hálu svelli frjálshyggunnar og runnu þar flestir á rassinn.

 

Ingibjörgu og Geir óska ég alls hins besta með von skjótan, góðan bata.


Siðferðiskennd misboðið - jarðvegur óeirða

Nú er komið að því sem ég og margir aðrir höfum varað við.  Mótmælin hafa færst á stig 2, þ.e. átök við lögreglu, eldar kveiktir, lauslegum hlutum kastað, fólk sýnir óhamda gremju framan í sjónvarpsmyndavélar.  Þetta er ekkert annað ein bein afleiðing af því ráð- og dugleysi sem einkennir stjórnvöld.

 

Það er ekkert að gerast.  Alþingi sett í gær eftir hið torskiljanlega “jólaleyfi”.  Og hvað var á dagskránni.  Var það ávarp forsætis til þings og þjóðar? Nei.  Var það umræða um hið hroðalega ástand sem við erum stödd í?  Nei  Var það framlagnings frumvarps um efnahagsráðstafanir? Nei.  Var það tilkynning ríkisstjórnar um kosningar? Nei.

 

Nei, nei, nei.  Svona leit dagskrá þingsins út:

1. Óundirbúinn fyrirspurnatími.

2. Vátryggingastarfsemi (heildarlög, EES-reglur) 225. mál, lagafrumvarp viðskiptaráðherra. 1. umræða.

3. Greiðslur til líffæragjafa (heildarlög) 259. mál, lagafrumvarp félags- og tryggingamálaráðherra. 1. umræða.

4. Sala áfengis og tóbaks (sala léttvíns og bjórs) 37. mál, lagafrumvarp SKK. 1. umræða.

5. Olíugjald og kílómetragjald (endurgreiðsla gjalds) 40. mál, lagafrumvarp HöskÞ. 1. umræða.

6. Andstaða við eldflaugavarnakerfi í Austur-Evrópu 49. mál, þingsályktunartillaga

7. Tóbaksvarnir (reykherbergi á veitingastöðum) 57. mál, lagafrumvarp JM. 1. umræða.

8. Stjórnarskipunarlög (bráðabirgðalög, þingseta ráðherra) 58. mál, lagafrumvarp KHG. 1. umræða.

9. Prófessorsembætti á sviði byggðasafna og byggðafræða 59. mál, þingsályktunartillaga ÁJ. Fyrri umræða.

10. Skipafriðunarsjóður 60. mál, þingsályktunartillaga MS. Fyrri umræða.

11. Áhrif markaðsvæðingar á samfélagsþjónustu 66. mál, þingsályktunartillaga ÖJ. Fyrri umræða.

12. Umferðarlög (forgangsakreinar) 93. mál, lagafrumvarp

 

Ég vissi um dug- og ráðleysið en að halda úti dagskrá sem þessari þegar landið brennur ber vott um ótrúlegt dómgreindarleysi.  Vægast sagt.

 

Misbjóðum ekki réttlætiskennd almennings.  Þá er friðurinn úti.  Enn er tækifæri til að sýna vilja til verka.  Brýnasta úrlausnarefnið er að endurheimta traust.  Það verður erfiðara með hverjum aðgerðalausum deginum sem líður. 

 

Það þarf að hreinsa til og reka afglapamennina úr Seðlabanka, Fjármálaeftirliti, bönkunum auk þess sem fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra ættu að vera búnir að taka pokann sinn fyrir löngu væru þeir gæddir minnstu sómatilfinningu.


Ný vídd "bankarána"

Hugtökin "bankarán" og "bankaræningi" fá nýja vídd við lestur frétta undanfarinna daga.  Í næstu frétt segir frá afrekum lögreglunnar; Jú, þeir gómuðu kókosbolluþjófa í nótt!

Mér líður eins og ég sé staddur í miðri skáldsögu eftir Kafka.  


mbl.is Milljarðalán án áhættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr gjaldmiðill; Bananar í bananalýðveldi.

Það voru tveir lögreglubílar fyrir utan bensínstöðina.  Ég lagði bílnum og gekk inn.  Á móti mér komu tveir lögreglumenn með mann á milli sín.  Ég þekkti þann handjárnaða frá gamalli tíð og vissi líka að þar fór einn af útigangsmönnum borgarinnir.  Blessaður strákurinn, löngu orðinn útúr steiktur af langvarandi fíkniefnaneyslu auk þess sem honum hafði aldrei verið ljóst hvað hugtakið eignarréttur þýddi.  

Inni á stöðinni heyrði ég á tal starfsfólksins og sagði hneykslað frá því að "rónadjöfullinn" hefði verið gripinn  með tvær kók og bananaknippi inn á sér og reynt að komast með það úr án þess að borga. "Ógeðs skítagaur" sagði rauðhærða afgreiðslustelpan "af hverju lokar löggan ekki þetta inni" spurði hún með vandlætingartón á meðan ég reyndi að vekja athygli hennar á girnilegu rúnnstykki sem mig langaði að gæða mér á.

Ég settist við gluggann með kaffi og rúnnstykki.  Seinni lögreglubíllinn rann út af planinu.  Á borðinu lá Mogginn.  Ég fletti honum annars hugar en allt í einu staldraði ég við fréttina af emírsbróðurnum frá Katar og viðskiptum hans og Ólafs Ólafssonar við Kaupþing.  Enn ein vonda fréttin og það þyrmdi yfir mig.  Þar léku menn sér að því í fullkomnu siðleysi að moka til sín annarra fjármunum og skilja síðan skuldirnar eftir hjá mér, börnunum mínum, barnabörnunum og öllum öðrum íslendingum sem ekkert höfðu til saka unnið annað en trúa þessum siðlausu lygamörðunum sem sögðu allt í himnalagi, allar götur þar til veröldin hrundi.

Ég gerði orð þeirrar rauðhærðu að mínum: "Ógeðs skítagaurar. Búum við í einhverju andsk... bananalýðveldi eða hvað"?

Já, auðvitað búum við í bananalýðveldi.  Er þá ekki lausnin komin.  Auðvitað, skiptum á krónunni og tökum upp nýjan gjaldmiðil; Banana - hvað annað.

Á leiðinni að bílnum hugsaði ég með mér: "Hvað skyldu Ólafur þurfa að stela mörgum banönum til að verða leiddur út í handjárnum?

 


....augnablik meðan ég........................

Mál Al-Thani þess katverska bróður emírsins af Katar fær stöðugt á sig einkennilegri mynd. Ef minnsti flugufótur er fyrir þessari frétt Stöðvar 2 um málið þá staðfestir það þá glórulausu siðspillingu sem virðist hafa grasserað með kaupahéðna og fjárglæframanna landsins.

Á mannamáli er þetta ekkert flókið.  Hér hafa ótíndir svikahrappar verið á ferð ef satt er.  Í ljósi þessa vaknar spurningin hvers vegna svikin hafa ekki verið kærð?  Getur það verið að sá er hlunnfarinn var (Kaupþing) hafði einnig óhreint mjöl í sínu pokahorni og þoli því illa skoðun?

Nú reynir  á ríkissaksóknara sem lögum samkvæmt ber að hefja að eigin frumkvæði rannsókn á þessum ótrúlegu grunsemdum.  Ég bíð eftir því að sjá lögreglumenn með handjárn á lofti.  Svo erum við beðin um að persónugera ekki vandann.......

.....augnablik meðan ég.......


Eitthvað til að hafa áhyggjur af?

Er ekki bara þjóðin að endurheimta eignir sínar úr höndum braskara?  Mun það ekki skapa ný sóknarfæri?

Mér er spurn?


mbl.is Sjávarútvegsfyrirtæki berjast fyrir lífi sínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lokað fyrir opna umræðu íbúa Álftaness

Af gefnu tilefni hef ég sent forseta bæjarstjórnar Álftaness bréf með ósk um að opnað verði á þá lifandi lýðræðislegu umræðu sem hefur átt sér stað á spjallsvæði heimasíðu sveitarfélagsins.  Í síðustu bloggfærslu minni tilgreini ég ástæður lokunar vefsins.

Nú þegar málið er upplýst gerum við íbúar á Álftanesi kröfu um að spjallsvæðið verði opnað aftur.  Í því ljósi skrifaði ég eftirfarandi bréf:

Sveitarfélagið Álftanes

b/t forseta bæjarstjórnar

Bjarnastöðum

225 Álftanes

 

 

 

 

Efni:  Spjallvefur heimasíðu Sveitarfélagsins Álftaness.

 

Undanfarin ár hefur verið rekinn spjallvefur á heimasíðu Sveitarfélagsins Álftaness.  Þessi vefur hefur verið notaður til alls kyns umræðu um málefni sveitarfélagsins, tilkynningar og nánast um hvað eina sem fólki hefur legið á hjarta. 

 

Opin gagnsæ umræða er af hinu góða og er í fullu samræmi við stefnuskrár Á og D lista sem nú skipa bæjarstjórn.  Miklar deilur hafa verið um stjórnsýslu og gjörðir meirihluta og minnihluta bæjarstjórnar á undanförnum árum.  Því er brýnna en ella að halda opinni gagnrýninni umræðu á almennum vettvangi.  Til þess eru m.a. spjallvefir nytsamlegir og til þess fallnir að styrkja lýðræði í verki.

 

Fyrir nokkrum vikum var spjallvefnum lokað.  Ástæða þess er flestum kunn.  Þar hafði einstaklingur stigið út fyrir mörk hins boðlega og birt ósvífið níð um nafngreint fólk sem hafði það eitt til saka unnið að eignast eftirsótta lóð og viljað byggja á henni.  Ekki er ástæða til að rekja þá sorgarsögu frekar í þessu bréfi.

 

Af einhverjum ástæðum brugðust ábyrgðarmenn heimasíðunnar við með því að loka spjallvefnum í stað þess að fjarlægja fyrrgreint níð.  Lögreglurannsókn mun síðan hafa leitt í ljós hver var höfundur níðskrifanna.

 

Með tilliti til þess að málið er nú upplýst skora ég undirritaður íbúi í Sveitarfélaginu Álftanesi á ábyrgðarmenn heimasíðunnar að opna nú aftur umræddan spjallvef.  Hann er nánast eini vettvangur íbúanna til beinna skoðanaskipta þar sem ekki er nein blaðaútgáfa fyrir hendi í sveitarfélaginu.

 

Oft var þörf en nú er nauðsyn.

 

Álftanesi 12. jan. 2009

 

 

 

Sveinn Ingi Lýðsson kt. 100355-2219

Kirkjubrekku 22.

 

Afrit sent:

Bæjarfulltrúum

Fjölmiðlum

  Þeim sem hafa áhuga er velkomið að nýta sér texta bréfsins og senda viðkomandi bréflega, í faxi eða tölvupósti.  


Spilling á Álftanesi?

Það eru ekki góðar fréttir sem íbúum Álftaness hafa borist undanfarna daga. Reyndar af máli sem flestir þekkja, málinum um Miðskóga 8. Ekki ætla ég að rekja söguna hér en hana má finna í góðri umfjöllun Mörtu Helgadóttur frá 22. apríl 2008.
 
Lýðræðið
Á fjögurra ára fresti kjósa íbúar sér sveitarstjórn.  Þar ræður lýðræðislegur meirihlutavilji.  Í kosningum til bæjarstjórnar Álftaness 2006 náði Á-listinn meirihluta með 3ja atkvæða mun.  Í krafti þessara þriggja atkvæða hefur meirihlutinn nánast snúið öllu hér á hvolf þar sem óskir bæjarbúa og hagsmunir eru virtir að vettugi.  Það má m.a. nefna að nýtt miðsvæðisskipulag var gert með ærnum tilkostnaði og síðan keyrt í gegn í andstöðu við meirihluta bæjarbúa.  Þar virtust ráða mestu hagsmunir landeigenda og sérviska nokkurra "grænna" sem komnir voru að jötu bæjarstjórnar og réðu sér ekki fyrir kæti líkt og beljur á vordegi.
 
Fjármálin í rúst
Fjárhagur bæjarfélagsins hefur á þessum stutta tíma verið keyrður í þrot með framkvæmdum sem við hreinlega höfum og höfðum ekki efni á.  Minnihluti bæjarstjórnar varaði ítrekað við þessari óráðsíu og skuldasöfnun en á það var ekki hlustað frekar en aðra sem reyndu að halda uppi mótvægi við gjörðir bæjarstjórnarinnar.
 
Óþægileg gagnrýni á spjallvef
Um árabil hefur verið haldið úti spjallvef á heimasíðu sveitarfélagsins þar sem oft hefur verið lifandi kraftmikil umræða um málefni þess.  Svo kraftmikil á stundum að bæjarstjóra fannst nóg um og hótaði að loka síðunni.  Aldrei sá ég neitt á þessari síðu sem ekki þoldi dagsljósið en ljóst var að meirihlutanum fannst umræðan þar óþægileg. 
Ég skrifaði stundum hugleiðingar mínar þarna inn og var vissulega gagnrýninn.  Hélt mig við málefnin en aldrei fékk ég nein viðbrögð á þessum vettvangi.  Hins vegar á ég tölvupósta frá einstökum bæjarfulltrúum þar sem ég fékk það óþvegið.  Þessum skrifum linnti þegar ég hótaði því að gera póstana opinbera og hef ekki fengið slíkt síðan.  Sama aðferðafræði var á ferðinni þegar fyrrnefnd Marta bloggvinkona mín fékk upphringingu síðla kvölds frá þáverandi forseta bæjarstjórnar.
Þegar eigendur lóðarinnar Miðskóga 8 (við hlið húss forseta bæjarstjórnar) ætluðu að nýta sér byggingarrétt sinn á þessari eignarlóð brást forsetinn illa við og hikaði ekki við að beita sér beint og óbeint gegn fólki sem ekkert hafði til saka unnið annað en álpast til að kaupa lóð á "vitlausum" stað.  Engu var til sparað og meira að segja lagt út í breytingu á deiliskipulagi svæðisins, allt til þess að útsýni forsetans yrði nú ekki spillt.  Málið fór alla leið upp í Hæstarétt sem kvað upp þann ótvíræða úrskurð að lóðin væri byggingarlóð.
 
135 þús. á hverja fjölskyldu
Jafnframt skutu lóðareigendurnir málinu til Úrskurðarnefndar skipulagsmála sem úrskurðaði þeim í hag.  Sem sagt allt á sama veginn en enn þráuðust bæjaryfirvöld við.  Kostnaður vegna þessa er orðinn mjög mikill, útlagður kostnaður þolendanna á bilinu 30 - 50 milljónir og þá er ótalinn beinn kostnaður sveitarfélagsins  vegna málareksturs og breytingu á skipulagi.  Að sögn kunnugra mun sá kostnaður geta numið annari eins upphæð.   Úsvarsgreiðendur á Álftanesi mega því búast við að þurfa að leggja út 60 - 100 milljónir  vegna þessa eða allt að 27 þúsund krónum á hvern íbúa.  135 þúsund á hverja fimm manna fjölskyldu.
Skyldi ekki vera hægt að nota þessa peninga í annað í lúnum og þreyttum bæjarsjóði?
 
Níðskrif huldumanns
Um þverbak keyrði síðan þegar pistill birtist inn á fyrrnefndum spjallvef undir fölsku nafni.  Pistillinn var fullur af rógi og níði um eigendur lóðarinnar Miðskóga 8 auk svæsinna aðdróttana um aðkomu fulltrúa minnihlutans að málinu.  Þarna kom loksins kærkomið tækifæri til að loka þessum "leiðinda" spjallvef enda var það gert umsvifalaust og skrifstofustjóri sveitarfélagsins bað semþá  orðið höfðu fyrir svívirðingunum afsökunar.
Málið endaði á borði lögreglu og eins og komið hefur fram í fjölmiðlum er það talið sannað með myndbandsupptökum að þarna hafi forseti bæjarstjórnar verið að verki í eigin persónu.  Í kjölfarið sagði hann af sér.
 
Spillingarliðið greiði kostnaðinn, ekki útsvarsgreiðendur
Málið er allt hið ömurlegasta.  Ömurlegt fyrir alla hlutaðeigandi og er lýsandi dæmi um hvernig ráðamenn blanda saman eiginhagsmunum við hagsmuni umbjóðenda sinna og sjá þar ekki nein skil á. Slíkt getur aldrei flokkast undir annað en spillingu.  
Því verður að gera þá kröfu að þeir sem misbeittu þarna valdi sínu láti það ekki bitna meir á íbúum og geri sitt til að bæta orðið tjón.  Það minnsta er að hlutaðeigandi, þ.e. ráðandi meirihluti greiði áfallinn kostnað úr eigin vasa en sæki hann ekki í vasa útsvarsgreiðenda.
 
Meira má sjá um málið á eftirfarandi slóðum:
 

Björn Bjarnason að láta af embætti?

Þrálátur orðrómur hefur verið um að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra muni segja af sér ráðherradómi fyrr en síðar.  Þessi frétt birtist síðan á visi.is þar sem Björn svarar aðspurður að alltaf hafi legið ljóst fyrir að hann myndi ekki sitja út kjörtímabilið.

Varla er Björn að axla sín skinn vegna Íslandshrunsins.  Örugglega eru ráðherrar þar sem væri sæmra en Birni.   Björn hefur verið mjög umdeildur sem ráðherra og margir sýnt lítinn skilning á stjórnarathöfnum hans.  Þó að sumar gjörðir hans orki vissulega tvímælis er í mínum huga ljóst að Björn hefur lyft grettistaki í málefnum löggæslunnar.  Lögregluna hefur hann fært í mun skilvirkara og nútímalegra horf.  Hann hefur einnig sýnt bæði skilning og framsýni með því að efla sérsveit og búnað lögreglu í ljósi gjörbreyttrar heimsmyndar.

Björn er ekki allra og örugglega munu einhverjir segja að þar hafi farið fé betra.  Það tek ég ekki undir og heilstætt séð hefur hann verið einhver besti ráðherra lögreglumála síðustu áratuga.  Þetta þekki ég vel eftir langa reynslu í lögreglunni fram til aldamóta en til fjölda ára þar á undan var aðbúnaður og tækjakostur lögreglu nánast því aftan úr grárri forneskju.

Birni óska ég velfarnaðar í hverju því sem hann mun taka sér fyrir hendur.


Nýtt lýðræðisafl. Athyglisverð hugmynd um "sjálfseyðandi" lýðræðishreyfingu!

Í ljósi undanfarinna atburða og viðbragða íslenskra stjórnmálamanna hugsar hver sitt.  Mér finnst með ólíkindum að engir hafi axlað ábyrgð á fjármálahruninu þrátt fyrir að hafa verið trúað fyrir varðstöðunni.  Stjórnmálamenn ættu að bera ábyrgð gagnvart kjósendum og embættismenn gagnvart framkvæmdavaldinu.  Ég minnist ekki á hlut fjárplógsmannanna sem settu hér allt á hausinn og veltu skuldum sínum á almenning.  Alla vega ekki ógrátandi.

Aldrei í íslandssögunni hafa stjórnmálamenn afhjúpað jafnrækilega vanhæfni sína og ábyrgðarleysi.  Steininn tók úr í gær í Kastljósviðtali Ingibjargar S. Gísladóttur.  Þar gaf að líta hrokafullan, veruleikafirrtan pólitíkus sem virtist miða allt sitt við að halda völdum.  Skítt með allt annað.

Svona fólk á þjóðin ekki skilið.  Það er óviðunandi og sýnir ágalla þess kerfis sem við höfum búið við.  Reyndar köllum við það lýðræði en er það ekki í raun.  Mun frekar er hægt að tala um flokksræði sem við þegnarnir lútum.  Fáum að kjósa um tilbúna lista flokkanna á fjögurra ára fresti og sitjum svo uppi með eitthvað sem jafnvel enginn vildi.  Fólk sem situr sem fastast og ber fyrir sig að hafa verið kosið fyrir 18 mánuðum eins og Ingbjörg sagði í gærkvöldi.

Þessu verður að breyta og það er  hægt.  Til þess þarf skýra sýn, frumkvæði og vilja.  Hana hefur Egill Jóhannsson o.fl. sýnt.  Hann hefur lagt fram mjög athyglisverða hugmynd að hreyfingu sem hefði það eitt að markmiði að breyta stjórnskipan Ísland í átt til virks lýðræðis.  

Ég hvet alla til að lesa hugmyndir Egils en þær má finna hér:  http://egill.blog.is/blog/egill/entry/765418/


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband