Spilling á Álftanesi?

Það eru ekki góðar fréttir sem íbúum Álftaness hafa borist undanfarna daga. Reyndar af máli sem flestir þekkja, málinum um Miðskóga 8. Ekki ætla ég að rekja söguna hér en hana má finna í góðri umfjöllun Mörtu Helgadóttur frá 22. apríl 2008.
 
Lýðræðið
Á fjögurra ára fresti kjósa íbúar sér sveitarstjórn.  Þar ræður lýðræðislegur meirihlutavilji.  Í kosningum til bæjarstjórnar Álftaness 2006 náði Á-listinn meirihluta með 3ja atkvæða mun.  Í krafti þessara þriggja atkvæða hefur meirihlutinn nánast snúið öllu hér á hvolf þar sem óskir bæjarbúa og hagsmunir eru virtir að vettugi.  Það má m.a. nefna að nýtt miðsvæðisskipulag var gert með ærnum tilkostnaði og síðan keyrt í gegn í andstöðu við meirihluta bæjarbúa.  Þar virtust ráða mestu hagsmunir landeigenda og sérviska nokkurra "grænna" sem komnir voru að jötu bæjarstjórnar og réðu sér ekki fyrir kæti líkt og beljur á vordegi.
 
Fjármálin í rúst
Fjárhagur bæjarfélagsins hefur á þessum stutta tíma verið keyrður í þrot með framkvæmdum sem við hreinlega höfum og höfðum ekki efni á.  Minnihluti bæjarstjórnar varaði ítrekað við þessari óráðsíu og skuldasöfnun en á það var ekki hlustað frekar en aðra sem reyndu að halda uppi mótvægi við gjörðir bæjarstjórnarinnar.
 
Óþægileg gagnrýni á spjallvef
Um árabil hefur verið haldið úti spjallvef á heimasíðu sveitarfélagsins þar sem oft hefur verið lifandi kraftmikil umræða um málefni þess.  Svo kraftmikil á stundum að bæjarstjóra fannst nóg um og hótaði að loka síðunni.  Aldrei sá ég neitt á þessari síðu sem ekki þoldi dagsljósið en ljóst var að meirihlutanum fannst umræðan þar óþægileg. 
Ég skrifaði stundum hugleiðingar mínar þarna inn og var vissulega gagnrýninn.  Hélt mig við málefnin en aldrei fékk ég nein viðbrögð á þessum vettvangi.  Hins vegar á ég tölvupósta frá einstökum bæjarfulltrúum þar sem ég fékk það óþvegið.  Þessum skrifum linnti þegar ég hótaði því að gera póstana opinbera og hef ekki fengið slíkt síðan.  Sama aðferðafræði var á ferðinni þegar fyrrnefnd Marta bloggvinkona mín fékk upphringingu síðla kvölds frá þáverandi forseta bæjarstjórnar.
Þegar eigendur lóðarinnar Miðskóga 8 (við hlið húss forseta bæjarstjórnar) ætluðu að nýta sér byggingarrétt sinn á þessari eignarlóð brást forsetinn illa við og hikaði ekki við að beita sér beint og óbeint gegn fólki sem ekkert hafði til saka unnið annað en álpast til að kaupa lóð á "vitlausum" stað.  Engu var til sparað og meira að segja lagt út í breytingu á deiliskipulagi svæðisins, allt til þess að útsýni forsetans yrði nú ekki spillt.  Málið fór alla leið upp í Hæstarétt sem kvað upp þann ótvíræða úrskurð að lóðin væri byggingarlóð.
 
135 þús. á hverja fjölskyldu
Jafnframt skutu lóðareigendurnir málinu til Úrskurðarnefndar skipulagsmála sem úrskurðaði þeim í hag.  Sem sagt allt á sama veginn en enn þráuðust bæjaryfirvöld við.  Kostnaður vegna þessa er orðinn mjög mikill, útlagður kostnaður þolendanna á bilinu 30 - 50 milljónir og þá er ótalinn beinn kostnaður sveitarfélagsins  vegna málareksturs og breytingu á skipulagi.  Að sögn kunnugra mun sá kostnaður geta numið annari eins upphæð.   Úsvarsgreiðendur á Álftanesi mega því búast við að þurfa að leggja út 60 - 100 milljónir  vegna þessa eða allt að 27 þúsund krónum á hvern íbúa.  135 þúsund á hverja fimm manna fjölskyldu.
Skyldi ekki vera hægt að nota þessa peninga í annað í lúnum og þreyttum bæjarsjóði?
 
Níðskrif huldumanns
Um þverbak keyrði síðan þegar pistill birtist inn á fyrrnefndum spjallvef undir fölsku nafni.  Pistillinn var fullur af rógi og níði um eigendur lóðarinnar Miðskóga 8 auk svæsinna aðdróttana um aðkomu fulltrúa minnihlutans að málinu.  Þarna kom loksins kærkomið tækifæri til að loka þessum "leiðinda" spjallvef enda var það gert umsvifalaust og skrifstofustjóri sveitarfélagsins bað semþá  orðið höfðu fyrir svívirðingunum afsökunar.
Málið endaði á borði lögreglu og eins og komið hefur fram í fjölmiðlum er það talið sannað með myndbandsupptökum að þarna hafi forseti bæjarstjórnar verið að verki í eigin persónu.  Í kjölfarið sagði hann af sér.
 
Spillingarliðið greiði kostnaðinn, ekki útsvarsgreiðendur
Málið er allt hið ömurlegasta.  Ömurlegt fyrir alla hlutaðeigandi og er lýsandi dæmi um hvernig ráðamenn blanda saman eiginhagsmunum við hagsmuni umbjóðenda sinna og sjá þar ekki nein skil á. Slíkt getur aldrei flokkast undir annað en spillingu.  
Því verður að gera þá kröfu að þeir sem misbeittu þarna valdi sínu láti það ekki bitna meir á íbúum og geri sitt til að bæta orðið tjón.  Það minnsta er að hlutaðeigandi, þ.e. ráðandi meirihluti greiði áfallinn kostnað úr eigin vasa en sæki hann ekki í vasa útsvarsgreiðenda.
 
Meira má sjá um málið á eftirfarandi slóðum:
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið var maður heppinn að flytja ekki á Álftanesið. Það munaði þó litlu en þá voru ábyrgir menn við völd ekki þeir einkahagsmunaseggir sem tóku við eftir síðustu kostningar og hafa misnotað sér ósmekklega aðstöðu sína í málefnum nessins. Vonandi kjósa íbúar betur næst. En einhverja áratugi mun taka fyrir almenning að borga skuldirnar sem þetta fólk er búið að kalla yfir venjulega íbúa Álftaness. því ekki borar spilltir sveitarstjórnarmenn skuldir sínar í sveitastjórnarmálum frekar en útrásarvíkingar landsins og stjórnmálamenn í landsmálunum. 

Jón Halldór Gunnarsson (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 21:07

2 identicon

Sæll Sveinn

Þetta er vel skrifuð og góð grein hjá þér óskandi væri að sjá hana í Fréttablaðinu líka.

Það er allveg magnað að Kristján stígi ekki skrefið til fulls og skrái sig úr Samfylkingunni, þar á hann svo sannarlega ekki heima, skilst að hann hafi verið hvattur til þess en látið það sem vind um eyru þjóta.....

Henrik Thorarensen (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 10:17

3 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Sæll Sveinn, ég tók á sínum tíma þátt í umræðunni á síðu Mörtu smörtu bloggvinkonu okkar og var það aðferðarfræði bæjarstjórans sem mér var hugleikin, eins og að hringja í Mörtu í staðin fyrir að svara henni opinberlega og það sem ég mundi vilja sjá, þegar þið eruð búin að kjósa ykkur nýja bæjarstjórn, er að þið losið ykkur við meinið úr bænum ykkar, það er nákvæmlega þannig sem hann vill vinna og þannig á að svara honum OG birta póstana sem hann er að svara þér, þú á opinberum vetvangi en hann í felum.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 11.1.2009 kl. 13:09

4 Smámynd: Sigrún Óskars

Góður pistill hjá þér - þetta er eitt hörmungarmál og sérstakt hvað Á-listinn hefur gengið langt með þessum manni.

Sigrún Óskars, 11.1.2009 kl. 20:07

5 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Þakka fyrir athugasemdirnar. Ég ákvað að birta þetta ekki í Fréttablaðinu né Morgunblaðinu þar sem mjög erfitt er að koma greinum þar að núna.

Blöðin eru yfirfull af aðsendum greinum sem nánast allar eru um það sama; HRUNIÐ.

Ég hef líka fengið athugsemdir í síma frá fólki sem ekki vill tjá sig opinberlega en það er ljóst að mörgum er heitt í hamsi í garð Á-listafólksins. Það ber mikla ábyrgð, viðurkennir hana ekki og þar af leiðandi alls ekki tilbúið að axla hana.

Ekki bara spilling heldur líka blinda á eigin gjörðir.

Sveinn Ingi Lýðsson, 11.1.2009 kl. 20:36

6 identicon

Þetta er góður pistill hjá þér Sveinn eins og við er að búast frá þér.  Ég tek undir hvert einasta orð sem hér stendur.  Ég vildi bæta því við að ég hafði samband við skrifstofustjóra Álftaness og óskaði eftir að umræðuvefur sveitarfélagsins yrði opnaður hið snarasta, einkum í ljósi þess að nú liggur fyrir að það var fyrrv. forseti bæjarstjórnar sem misfór með reglur umræðuvefsins ( reglur sem hann sjálfur samdi!).  Viðbrögð skrifstofustjórans voru á þá leið að engin ákvörðun hefði verið tekin um framtíð umræðuvefsins.  Ég lýsti yfir vonbrigðum með þessi svör og furðaði mig á því að meirihlutinn, sem kennir sig við félagshyggju og hafði stór orð fyrir kosningar að "opna lýðræðið" og gera alla stjórnsýslu sveitarfélagsins "gegnsærri", svo vitnað sé í kosningaloforð þeirra.  Ég spyr afhverju hræðast þessir menn svo opna umræðu og skoðanir íbúana? Spyr sá sem ekki veit!

Andri Kárason (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 22:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband