Stjórnlagaþing er nauðsyn núna!

Ef einhvertíma hefur verið nauðsyn á endurskoðun stjórnarskrár þá er það einmitt núna. Þjóðin hefur orðið fyrir miklu áfalli þar sem lukkuriddarar léku lausum hala og höfðu að engu það siðferðilega gildismat sem okkur var innrætt í æsku.
Ljóst er að þessi gildi þarf að pússa upp, endurskoða og endurskilgreina okkur sem sjálfstæða þjóð. M.a. virðist ljóst það óskrifaðar reglur sem flestum hafa fundist sjálfsagðar eru það ekki lengur. Af hverju? Nú, þær standa hvergi skrifaðar, segja lögspekingarnir.
Það er aumt samfélag og vart á vetur setjandi þar sem hugsunarháttur lögfræðinganna er í hávegum. Samfélag sem afneitar gildum heiðarleika, sannsögli, kærleika og samhjálpar er illa á vegi statt.
Notum því tækifærið nú og efnum til stjórnlagaþings. Gerum það samtímis þingkosningunum þannig að áhrif stjórnmálaflokka verði sem minnst. Hugsanlega mætti velja hluta þingfulltrúa af handahófi úr þjóðskrá. Alla vega skulum við forðast stjórnmálamenn í þessu starfi. Frá lýðveldisstofnum hafa þeir verið að dunda við endurskoðun stjórnarskrárinnar án þess að neitt hafi komið frá þeim sem vit er í.
mbl.is Pétur Blöndal styður stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sveinn minn. Mér finnst bara að það vanti líka nýtt fólk á Alþingi. Og það mætti alveg fækka þar stólum úr 63 í ca. 30. að mínu mati. En það getur verið vitleysa hjá mer. Ég er bara að fara bloggvina hringinn núna. Hafðu það sem best Sveinn minn og gangi þér vel í því sem þú tekur þér fyrir hendur.

Valgeir Matthías Pálsson (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 04:50

2 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Leyfi mér að setja hér inn erindi sem Aðalheiður ámundadóttir flutti um þessi mál á Borgarafundi..alveg þess virði að lesa vel í gegn.

STJÓRNARSKRÁ FÓLKSINS

Alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi 1. grein:  Allar þjóðir hafa sjálfsákvörðunarrétt. Vegna þess réttar ákveða þær frjálst stjórnmálalegar aðstæður sínar og framfylgja frjálst efnahagslegri, félagslegri og menningarlegri þróun sinni.

Það er engin tilviljun að ákvæði um sjálfsákvörðunarrétt þjóða situr í toppsæti helstu mannréttindasamninga heims. Sjálfsákvörðunarrétturinn er grundvöllur allra mannréttinda, grundvöllur lýðræðisins.

Íslenska þjóðin virkjaði sinn sjálfsákvörðunarrétt þegar hún stofnaði lýðveldið Ísland og greiddi atkvæði um stjórnarskrá þess lýðveldis. Þessi stjórnarskrá á að endurspegla vilja íslensku þjóðarinnar um hvernig íslenska ríkinu skuli stjórnað. Í einföldustu mynd má e.t.v. lýsa stjórnarskránni þannig að hún sé ráðningar-samningur sem þjóðin hefur gert við stjórnvöld. Stjórnarskráin segir til um hvernig lýðræðið skuli framkvæmt, hvernig landinu skuli stjórnað, og hvernig stjórnvöld skuli umgagnast borgarana.

Hvernig hefur svo gengið að framfylgja stjórnarskránni? og þar með talið sjálfsákvörðunarrétti okkar? Löggjafarvaldið hefur verið framselt til Alþjóðagjald-eyrissjóðsins og hvað segja svo stjórnmálamennirnir þegar kallað er eftir ábyrgð? Þetta er ekki okkur að kenna, við bara urðum að hlíta EES samningnum! Ekki vorum við spurð hvort við kærðum okkur um aðild að EES, og heimild fyrir slíkri aðild er ekki fyrir hendi í stjórnarskránni. Ef stjórnvöld hafa samningsbundið íslenska ríkið í trássi við stjórnarskránna, þá verður það að vera á þeirra ábyrgð.

En ef við viljum breyta þróun mála hér, getum við þá ekki bara breytt stjórnarskránni?  Neeei, það getum við ekki. Alltsvo ekki þjóðin,  þjóðin getur ekki breytt stjórnarskránni. Það hefur nú verið séð fyrir því! Breytingaákvæði stjórnarskrárinnar gerir ráð fyrir því að tillögur um stjórnarskrárbreytingar séu bornar upp á alþingi og nái slík tillaga samþykki skal rjúfa þing þá þegar og boða til almennra kosninga. Ef nýkjörið þing samþykkir ályktunina óbreytta, telst hún samþykkt.

Af hverju þarf að rjúfa þing á milli og boða til kosninga? Jú til þess að íslenskir borgarar geti tekið afstöðu til stjórnarskrárbreytinganna.  Man einhver hér til þess að hafa tekið afstöðu til  stjórnarskrárbreytinga í kjörklefanum? Nei, málið er nefnilega, að þjóðin hefur í raun aldrei tekið afstöðu til stjórnarskrárbreytinga!

Að einhverju leiti vegna þess að kjósendur hafa yfirleitt um annað að hugsa í kjörklefanum en breytingar á stjórnarskrá. En fyrst og fremst vegna þess að þingheimur hefur iðulega talið það brýna nauðsyn að ná þverpólískri samstöðu um öll mikilvæg málefni. Ég skal taka dæmi, Segjum sem svo að lagt yrði fram frumvarp um heimild til framsals fullveldis og ég  (sem borgari) vilji alls ekki sjá slíkt ákvæði í stjórnarskránni. Hvað á ég að kjósa til að koma minni afstöðu til skila, ef allir flokkar hefðu sameinast um að setja slíka heimild í stjórnarskránna?

Og svona er bara raunveruleikinn í langflestum tilvikum.  Um þetta  get ég  t.d. vísað í orð Birgis Ármannssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, en hann er hálf pirraður útí Ríkisstjórn vegna fyrirhugaðra breytinga á stjórnarskrá. Hann segir:   „Í fyrsta lagi finnst mér að fram til þessa hafi vantað pólitískt samráð um þær breytingar sem ríkisstjórnin hefur boðað. Í því sambandi nefni ég að allar stjórnarskrárbreytingar sem farið hafa í gegn á undanförnum áratugum hafi verið byggðar á víðtæku samráði og pólitískri sátt,"

Þetta er ástæða þess að við höfum aldrei fengið að taka afstöðu til  stjórnar-skrárbreytinga. Þingið hefur trekk í trekk breytt sínum eigin ráðningarsamningi, án þess að leita samþykkis vinnuveitandans, stjórnarskrárgjafans, fólksins í landinu. Þetta er okkar stjórnarskrá!

Þegar stjórnarmyndunarviðræður VG og S stóðu yfir, sendi ég öllum þingflokks-formönnum bréf og grátbað um að lýðræðislegur réttur þjóðarinnar yrði ekki virtur að vettugi. Ég gerði það að tillögu minni að einungis einu ákvæði stjórnar-skrárinnar yrði breytt og það er ákvæði 79. greinar. Það mætti t.d. orða svona:

Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki skal leggja hana undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.

Aðrar fyrirliggjandi breytingar geta og verða að bíða þar til þessu hefur verið breytt. Aðrar breytingar mætti gera strax að loknum kosningum og færu þá eftir þessu ákvæði, þ.e. í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi hugmynd, sem er allsekki ný af nálinni, virðist hafa fengið einhvern hljómgrunn innan þings, en þó ekki svo, að þessi eina breyting verði látin nægja, því fleiri stjórnlagafrumvörp eru í pípunum. Allt voða göfugt auðvitað; auðlindir í almannaeign og stjórnlagaþingið sem við höfum verið að heimta. Nú fyrst verður þetta eitraða samráð nauðsynlegt (þ.e. fyrir flokkana ekki fólkið) hafið þið skoðað frumvarp Framsóknarflokksins um stjórnlagaþing? Það lítur voða vel út við fyrstu sýn;  þjóðin á að kjósa sér fulltrúa á stjórnlagaþing, forsetinn má ekki vera fulltrúi, ekki ráðherrar,  ekki alþingismenn eða varaþingmenn. Þetta er akkúrat það sem þjóðin hefur óskað eftir ekki satt; óflokkspólitískt stjórnlagaþing! En gamanið tekur að kárna þegar líður á þetta göfuga frumvarp, því þegar stjórnlagaþingið hefur verið kosið og það er samankomið á það að tilnefna allt að 31 fulltrúa til viðbótar, til setu í hlutaðeigandi starfsnefndum stjórnlagaþings með tillögurétti og málfrelsi. Þessir nýju fulltrúar skulu tilnefndir af almannasamtökum, stjórnmálasamtökum og hagsmunasamtökum! Gasalega hljómar þetta vel! Stjórnmálaöflin ætla að troða sér inn og taka frá sæti handa sérhagsmunaliðinu. Hvort það verður nú ekki pólitísk sátt um svona nokkuð!

En ok, þetta var útúrdúr, því ég held enn í vonina um að við fáum stjórnarskrár-valdið í okkar hendur, enda eins gott því við þekkjum ótal dæmi þess að þjóðir sem fá ekki notið sjálfsákvörðunarréttar síns, hafa tilhneigingu til að verða pirraðar.

Hvernig viljum við svo verja sjálfsákvörðunarrétti okkar þegar þar að kemur? Hvað viljum við setja á oddinn?

Það er þekkt að þegar stóráföll dynja yfir ríki og þjóðir, eru það mannréttindin sem fá fyrst að fjúka. Í kjölfar 11. september 2001 setti George Bush skýra stefnu: þjóðarhagsmunir fyrst - mannréttindi síðast. Við þekkjum framhaldið, Bush var endurkjörinn árið 2004. Bandarískur almenningur lagði blessun sína yfir stefnuna: Þjóðarhagsmunir fyrst mannréttindi síðast. Viljum við fara sömu leið? Neyðarlögin voru sett með fullri meðvitund um að þau brytu í bága við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Þjóðarhagsmunir fyrst mannréttindi síðast.

Og nú vilja menn bæta gráu ofan á svart og setja auknar heimildir til mannréttindabrota í neyðarlögin og ég spyr, er virkilega samhljómur um það í samfélaginu að þjóðarhagsmunir komi fyrst og mannréttindi síðast - eru það ekki æðstu þjóðarhagsmunir okkar að vernda mannréttindin? Hafa menn ekki verið að tala um styrkar stoðir samfélagsins? Notum þær stoðir, frekar enn að stytta okkur leið! Okkur mun mistakast að virkja lýðræðið ef við viljum gefa afslátt af mannréttindum, þar með talið, óþægilegu mannréttindunum. Lýðræði og mannréttindi eru svo samofin að það er ekki hægt að taka annað í burtu frá hinu.

Það er mín skoðun að nauðsynlegt sé, nú sem aldrei fyrr, að hlúa betur að mannréttindunum okkar, því mér lýst hreint ekki á þá öfugþróun sem virðist vera í gangi í þeim málaflokki. Auk neyðarlaganna má nefna hvernig hert er að tjáningarfrelsinu okkar, t.d. þeirra sem staðið hafa í þessari pontu á samskonar fundi. Þeir örfáu fjölmiðlamenn sem stunda ærlegar fréttaskýringar og rannsóknarblaðamennsku eru látnir taka pokann sinn.

Þá hafa Íslendingar átt þess kost, í 30 ár, að senda Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna erindi vegna mannréttindabrota. En í fyrsta skipti sem reynir á þennan rétt, kemur í ljós að hann er algerlega innihaldslaus. Það er svo mikill misskilningur að þetta mál snúist bara um sjómenn og kvótakerfið, því hér hefur réttur okkar (og komandi kynslóða) til að leita til þessarar nefndar, verið þurrkaður út. Því hver mun láta sér detta í hug að eyða tíma sínum og peningum í að leita til þessarar nefndar í framtíðinni þegar það liggur fyrir að stjórnvöld munu gefa skít í niðurstöður hennar? 

En nú er gerð krafa um það í samfélaginu að svona blekkingarleikir verði afnumdir. Sé það enn rótföst skoðun stjórnvalda að mannréttindasamningar séu mest uppá punt, þá geri ég það að tillögu minni að íslensk stjórnvöld hætti að fela sig bak við skrúðmælgi og sýndarmennsku á alþjóðavettvangi, komi til dyranna eins og þau eru klædd og afturkalli aðild sína að þeim mannréttindasamningum sem ekki telst þörf á að framfylgja.

Kæru meðbræður og systur, Mikilvægi mannréttinda er ótvírætt í því virka lýðræði sem við viljum byggja hér upp. Auk þeirra umbóta sem þorri almennings krefst á kosningalöggjöf og valddreifingu milli handhafa ríkisvaldsins, vil ég nefna nokkur atriði sem ég (og margir fleiri) tel algerlega nauðsynleg í þeim lýðræðisumbótum sem vonandi nást fram á næstu misserum.

Í fyrsta lagi, að þjóðin hafi forræði yfir sinni stjórnarskrá og breytingum á henni

Í öðru lagi, að tryggt verði að hér starfi frjálsir og óháðir fjölmiðlar.  

Í þriðja lagi, að tryggt verði í stjórnarskrá að börn eða ungmenni fái viðhlítandi fræðslu um stjórnarskránna og þá sérstaklega um mannréttindaákvæði hennar. Því slík menntun er grundvöllur þess að við fáum notið mannréttinda og lýðræðis.

Og síðast enn ekki síst að mannréttindaákvæðin verði höfð fremst í stjórnarskránni en ekki aftast eins og nú er.  Þannig er því best lýst yfir að FÓLKIÐ KOMI FYRST  !!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 18.2.2009 kl. 12:17

3 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

AfsaKAÐU HVERSU LANGT ÞETTA ER EN ÞÚ EYÐIR ÞESSU ÞÁ BARA ÚT!!! Þegar þú ert BÚINN  að lesa

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 18.2.2009 kl. 12:18

4 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Ég hef tekið þá ákvörðun að ráða Katrínu Snæhólm sem kosningastjóra hjá mér fyrir framboð mitt til stjórnlagaþings... Hún er hinn ötulasti dreyfingaraðili 'Stjórnarskrár fólksins'. Takk fyrir að láta boðskapinn berast Katrín...

Aðalheiður Ámundadóttir, 18.2.2009 kl. 13:21

5 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Takk fyrir að deila þessu Katrín og Aðalheiður.  Ég skal viðurkenna að ég dró nokkrum sinnum djúpt andann áður en ég réðst í lesturinn á "commentinu".  Heilt yfir get ég verið sammála flestu því sem þar er ritað. 

Ég hef verið þeirrar skoðunar og ekki megi vera of auðvelt að breyta stjórnaskrá.  Því sé heppilegast að taka þann beiska kaleik af atvinnustjórnmálamönnum okkar og kjósa samhliða alþingiskosningum til stjórnlagaþings þar sem öll þjóðin verður í framboði.  

Tillögur þessa stjórnlagaþings þurfa síðan samþykki eða synjum Alþingis.  Sama hvort tillögurnar verða samþykktar eða þeim synjað skal þingið rofið og boðað til alþingiskosninga að nýju.  Með slíku fyrirkomulagi ættum við að tryggja sem lýðræðislegasta meðferð málsins.

Sveinn Ingi Lýðsson, 18.2.2009 kl. 14:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband