Færsluflokkur: Dægurmál

Á leið til Lóu

Hún stóð þarna á horninu, álút með veskið sitt í beggja handa taki svona svipað og lyftingamaður upphafi réttstöðulyftu. Þarna á horninu á Ervallagötu og Batavegi var ekkert slíkt að gerast. Bara kyrrstaða. Ég sá hana útundan mér þegar ég beygði inn á Ervallagötuna og vonaði að slabbið undan hjólum bílsins hefði ekki slest á hana.
Mynd hennar festist í huganum, staðan, stellingin, aldurinn og fábreyttur klæðnaðurinn. Ég sinnti erindum mínum og keypti skrúfurnar sem áttu að festa fallegu myndina mína upp í kvöld. Skyldi hún fara betur fyrir ofan skrifborðið eða átti ég að setja hana fram á ganginn. Þá sæju hana fleiri. Þettað og fleira var ég að hugsa á leiðinni til baka. Um leið og ég ók um gatnamótin inn á Bataveginn sá ég hana aftur. Hún hafði fært sig aðeins fjær akbrautinni, eins gott, því fyrri staðurinn var nánast hættulegur. Stellingin sú sama. Þetta gat ekki verið í lagi hugsaði ég í heitum bílnum á leiðinni aftur í vinnuna. Eins gott að flýta sér, ekki gott að stelast svona burt úr vinnunni þar sem haugur af verkefnum biðu.
Fallega myndin mín og vinnan þynntust út í huganum en myndin af konunni festist því betur. Skýrðist upp; þessi álúta stelling, gamlar upplitaðar íþróttabuxur, græn prjónapeysa hneppt í hálsinn og gráar hárlýjunarnar sem stóðun niðurundan blárri kollhúfu sem skartaði 66°N merkinu. Svarta veskið. Ég kom að hringtorgi en í stað þess að aka beinustu leið áfram í vinnunna hafði ég snúið við. Vera konunnar þarna var ekki í lagi og hugsunin um hana dró mig til baka.
Það var farið að snjóa aftur. Kannski frekar slydda því snjókornin voru hlussustór og blaut. Hundslappadrífa var þetta kallað í minni sveit. Axlir og höfuð hennar hvít af snjókomunni þar sem hún stóð grafkyrr. Enn á sama stað. Ég renndi bílnum upp á stéttina, stoppaði og steig út. Hugsaði eitt andartak hvað ég væri eiginlega að gera þarna. Farinn enn og aftur að skipta mér af einhverju sem mér kæmi nákvæmlega ekkert við. Hún leit augnablik upp þegar ég nálgaðist og það fyrsta sem ég tók eftir voru rauð för á fölu nefi eftir gleraugu. Gleraugu sem vantaði.
- Góðann daginn, sagði ég og kynnti mig.
-Hvar er Lóa svaraði hún um leið og blimskakkaði augunum á mig, - ég er bara að fara til Lóu.
-Hver er Lóa, spurði ég, - ertu eitthvað að villast?
-Lóa, Lóa mín ætlaði að sækja mig, ég er bara að fara til Lóu, um leið og hún hagræddi veskinu í höndunum.
-Hver er Lóa? spurði ég, -og hvar áttu heima?
Hún leit upp og horfði í augun á mér. –Finndu Lóu, finndu Lóu, og úr augnkróki hennar sá tár renna. Augun voru skörp og hvöss en í þeim var fjarrænt blik. –Er þér ekki kalt að standa hérna? spurði ég um leið og ég tók í hendi hennar. Hendin var ísköld en hún sagði bara:
-Lóa mín, Lóa mín.
-Ég skal hjálpa þér en þú verður að segja mér hvar þú átt heima. Ég sá hávaxna vel klædda unga konu nálgast.
–Hvað er að hérna, spurði hún.
-Hún finnur ekki einhverja Lóu, sagði ég, -vill ekki segja eða veit ekki hvar hún á heima. Unga konan spurði:
-Hvað heitirðu? og beindi spurningunni að þeirri gömlu.
Ekkert svar en tárunum hafði fjölgað á kinnum hennar og í augum hennar mátti lesa algjört umkomuleysi. Unga konan hafði opnað veskið hennar.
–Hvað ertu að gera? spurði ég.
-Bara að reyna að finna einhver skilríki, kort eða eitthvað, ertu búinn að hringja á lögguna. Það verður að koma kellingunni eitthvað. Hún er ábyggilega búin að standa hér í tvo tíma.
-Nú, sagði ég hissa, þér hefur ekki dottið í hug að hringja og láta athuga málið?
-Kannski, ansaði hún, ég hef bara andskotans nóg með mig. Bíddu, bíddu hér er mynd af henni. Hún dróð eitthvað grænt upp úr veskinu.
-Lóa, Lóa mín hvar ertu, ekki taka þetta, sagði hún og reyndi að toga græna snepilinn úr höndum konunnar.
-Helduru að sú gamla sé ekki með ökuskírteini sagði konan sigri hrósandi og veifaði grænu ökuskírteininu framan í mig. Tárunum fjölgaði nú á kinnum gömlu konunnar og ekkakippir fóru um herðarnar. Á skírteininu stóð nafnið: Guðbjörg Alda Pálsdóttir Holti II, Lónsfirði. Ok, það var þó kennitala. Fædd 1 jan. 1929. Bara nokkrir dagar í níutíu ára afmælið.
-Anskotans andskoti tautaði Guðbörg Alda Pálsdóttir og leit reiðilega á konuna.
-Vertu bara róleg, við erum að hjálpa þér sagði konan, ég heiti Þóra og bý hérna á móti. Á meðan hringdi ég á Neyðarlínuna og eftir kennitölunni komst ég að því að hún átti heimili á Dvalarheimilinu. Á meðan ég talaði við neyðarlínumanninn sá ég snjóinn við fætur hennar litast gulan. Hún hafði skipt skapi. Var orðin reið.
-Af hverju hringdir þú ekki Lóu? Ertu að kalla á lögguna, ég vil hana ekki.
-Segðu mér númerið hennar Lóu, spurði ég.
-Ég man það ekki, ég vil fara heim.
-Á ég að keyra þig heim spurði ég.
-Geturðu það, sagði konan sem nú hét Þóra. Hún hafði farið úr kápunni og sett hana yfir herðar Guðbjargar Öldu.
-Ekkert má sagði ég og síðan leiddum við gömlu konuna að bílnum og hjálpuðum henni í framsætið.
Ég tók kápuna af henni og rétti Þóru. –Takk fyrir hjálpina sagði ég um leið og ég settist undir stýri.
Það voru tíu tröppur upp að inngangi Dvalarheimilisins. Tíu tröppur og við leiddumst upp þær og inn um dyrnar. Þar var ys og þys og starfsfólk á fleygiferð fram og til baka um anddyrið. Eitthvað sem líktist móttöku blasti við en þar var enginn til svara.
-Afsakaðu sagði ég og sneri mér að stúlku í bláum slopp. –Sorry, æ dónt tala íslansk svaraði hún og brosti. Líklega var hún ekki ættuð úr Grímsnesinu, dökkt yfirbragðið benti frekar til fjarlægari heimshluta. Svo hélt hún áfram án þess svo mikið sem gjóa augum á þá aumu konu, Guðbjörgu Öldu Pálsdóttur. Ég sneri mér að einkennisklæddum manni sem leit út fyrir að vera einhverskonar öryggisvörður:
-Fyrirgefðu, ég kom með hana Guðb.......
-Talaðu við afgreiðsluna svaraði hann, benti á móttökubúrið og dró upp talstöð. Úr talstöðinni heyrðist rödd sem spurði hvort hann ætlaði ekki að koma í kaffi.
Hjálpin barst í líki breiðvaxinnar frúar sem kom siglandi þvert yfir anddyrið eins og skonnorta undir seglum. Hér kom sú sem valdið hafði.
-Gugga mín, hvað er að sjá þig elskan mín? Öll blaut....hvað er að sjá. Varstu nú enn einu sinni á einhverju flakki. Hún leit á mig og mældi mig út frá toppi til táar.
-Hvaða herramaður er þetta nú, og benti með gullskreyttum fingri á mig. Frú Guðbjörg Alda Pálsdóttir leit á mig með þessu hvassa augnaráði sem ég hafði sé fyrst í augum hennar.
-Hann vildi ekki keyra mig til Lóu, sagði hún ákveðið og gekk af stað inn eftir ganginum. Ég leit á þá gullskreyttu og spurði hvort yrði ekki í lagi.
-Jú, jú elskan mín, takk fyrir að skutla henni Guggu. Hún er orðin svo rugluð blessunin. Hún hefur líklega ætlað til Lóu.
-Hver er Lóa? spurði ég.
-Lóa, veistu það ekki, það er dóttir hennar. Hún býr í Vestmannaeyjum. Hún kímdi, ýtti gleraugunum upp á nefið og sagði:
-Hún er búinn að vera á leiðinni til Lóu síðustu tíu – tólf árin blessuð. Alltaf að fara út sama hvernig viðrar. Henni er alltaf bjargað – alla vega hingað til. Svo snerist hún líka á hæl og hélt á eftir vinkonu sinni. Sneri sér svo við brosti út í annað og sagði:
-Gleðileg jól vinur. Hafðu það bara gott.


Nafnlaus óhróðursherferð Ástþórs Magnússonar afhjúpuð!

Ástþór Magnússon var í gær staðinn að verki við að reka nafnlausa óhróðurssíðu sem hefur farið í herför gegn DV. DV er svo sem ekki vant að virðingu sinni en engin hefur verið duglegri að gagnrýna nafnlaus óhróðurskrif að undanförnu en téður Ástþór.Hér að neðan er mynd (screenshot) af vefsíðuni domaintools.com þar sem þessi tengsl koma skýrt fram. Sama IP tala, 213.181.100.145, er skráð fyrir öllum neðantöldum vefsvæðum:

forseti

 Það er alveg ljóst að Ástþór þarf að gefa skýringar á þessari mynd.  Reyndar er búið að breyta öllu núna, væntanlega til að fela slóðina.

Það er reyndar alveg á mörkum að maður sé að eltast við mann eins og Ástþór sem sumir hafa líkt við "þorpsfífl" en mér finnst einfaldlega nóg komið hjá honum af svo "góðu.

Ástþór hefur á bloggsíðu sinni reynt að fara undan í flæmingi þrátt fyrir áskoranir að svara skýrt af eða á.

Það er reyndar með ólíkindum að þessi maður skulu vera búinn að kosta okkur skattgreiðendur stórfé með einhverjum grínframboðum (vonandi er  honum ekki alvara) til forseta lýðveldisins. 


Válisti forsetaframbjóðandans

Athyglisverðar upplýsingar sem koma hér fram hjá kerfisfræðingnum Hjalta Þór Sveinssyni.  Með því að greina IP töluna kemur í ljós að frá henni koma m.a. forsetakosningar.is auk fjölda annarra.  Ein þeirra er sorprit.com sem hefur haldið úti svokölluðum "válista" auglýsenda.  A.m.k. einn verslunareigandi hefur stigið fram og lýst hótunum um að verslun hans yrði sett á "válistann" ef hann hætti ekki að auglýsa á DV.

Án þess að haldið sé uppi vörnum fyrir siðferði ritstjóra DV vakna spurningar á hvaða plani siðferðis þessi fyrrum forsetaframbjóðandi er?  Eða eigum við heldur að segja "þorpsfíflið"?


Erum við að gleyma Fullveldisdeginum?

Á leiðinni í vinnuna í morgun hlutstaði ég á Rás 2.  Þar var morgunþáttastjórnandinn að bjóða hlustendum góðann daginn, sagði hann merkilegan, sérlega fyrir þá sök að þennan dag, 1. des. hafi Rás 2 farið í loftið í fyrsta sinn fyrir 25 árum.  Síðan taldi stjórnandinn upp hvað helst annað hefði gerst þennan dag í sögu þjóðarinnar.

Ekki man ég hvað stjórnandinn taldi upp en hitt man ég að ekki minntist hann einu orði á að Ísland hlaut fullveldi þennan dag, 1. des. 1918.  Íslensk þjóð á þess vegna 90 ára fullveldisafmæli í dag.  Einhvern veginn er það svo að þessi merkilegi dagur hefur fallið nokkuð í skuggann af 17. júní en er þó engu að síður ein merkasta og stærsta varðan á þrautagöngu þjóðarinnar til sjálfstæðis.  Meira að segja fellur dagurinn í skuggann af 25 ára afmæli Rásar 2.  Vissulega má óska þeim rásarmönnum og konum til hamingum með áfangann en hann telst þó ansi léttvægur miðað við 90 ára afmæli sjálfstæðrar þjóðar.

Ísland. Til hamingu með daginn!


Okkur vantar snjó!

Mikið óskaplega fara þessir snjólausu vetur hérna á suðvestur horni Kríslands í mínar fínustu. Maður lítur á dagatalið á morgnana. Jú það er desember, kíki út um gluggann. Skyldi nú hafa snjóað í nótt. Shjitt, nei, ekki nú frekar en endranær. Telst svakaheppinn ef ekki er rok og rigning. Stálheppinn ef vindurinn er eitthvað innan við 20 m/sek og það er orðið jafn sjaldgæft eins og vinna í lottóinu þá daga ársins (oftast á sumrin) þegar örlítil snjóhula hefur litað jörðina um nóttina.
Þessi örsmáu litlu korn lifa yfirleitt ekki nema nokkra klukkutíma, mesta lagi, stundum er ævi þeirra talin í mínútum. Þau sem ekki falla fyrir yfirfrostmarksveðurstofukríslandshitastigi eru strádrepin af saltspúandi vegaskriðdrekum og viðhalda þannig pækilsöltuðu malbikinu af stakri samviskusemi.
Hefur einhver smakkað nætursaltað malbik?
Þetta andskotans svartnætti kríslands er hundleiðinlegt. Minnkum myrkrið, meiri snjó, meiri snjó.
Hann er líka atvinnuskapandi. Er það ekki gott hjá okkur íbúum Kríslands?

Hagfræði fyrir byrjendur


  Í þorpi einu birtist maður og kvaðst vilja kaupa apa af þorpsbúum á 1000 krónur stykkið. Þar sem mikið var um apa í nágrenni þorpsins fóru þorpsbúar að veiða apana og selja manninum þá. Maðurinn keypti þúsundir apa af þorpsbúum á 1000 krónur.  Þegar framboðið fór að minnka bauðst maðurinn til að borga 2000 krónur fyrir apann. Aftur jókst framboðið um tíma, en síðan minnkaði það enn frekar og hætti loks alveg þar sem erfiðara var fyrir þorpsbúa að finna fleiri apa til að selja.
  Maðurinn tilkynnti þá að hann mundi borga 5000 krónur fyrir hvern apa sem hann fengi, en hann þyrfti að skreppa frá í smá tíma og aðstoðarmaður hans mundi sjá um kaupin á meðan. Eftir að maðurinn var farin hóaði aðstoðarmaðurinn þorpsbúum saman og bauðst til að selja þeim apana, sem voru geymdir í búrum, á 3500 krónur stykkið. Fólkið gæti svo þegar maðurinn kæmi aftur selt honum apana á 5000 krónur. Þorpsbúar söfnuðu saman öllu sínu sparifé og keyptu apana af aðstoðarmanninum. Síðan hefur ekkert spurst til mannsins eða aðstoðarmannsins.   Ofangreinda sögu fékk ég senda áðan.  Eftir að hafa lesið hana skildi ég allt í einu betur íslenska bankakerfið og hlutabréfamarkaðinn.

Fyrirbyggjandi viðhald?

Þrátt fyrir alvöru málsins er ekki hægt annað en brosa út í annað.  Mannanna verk eru aldrei fullkomin og til allrar hamingju varð ekki skaði af.  Elliði fékk hins vegar "fyrirbyggjandi viðhald".

Vona að öllum heilsist vel.


mbl.is Í þræðingu með hraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísbjörn verður skáldi að yrkisefni

Nú verður ísbjarnardrápið mönnum að yrkisefni og ekki ástæðulausu.  Því meira sem þetta er skoðað er ljóst að menn hlupu verulega á sig.  Í norðurhéruðum Kanada sækja ísbirnir mjög til mannabyggða og eru þar fólki til ama.  Það heyrir þó til algerra undantekninga ráðist þeir að mönnum.  Þarna éta þeir allt sem til fellur og eru ruslagámar íbúanna stundum illa útleiknar.  Fólk fælir þá gjarnan á braut með grænum og bláum blysum eða loftlúðrum eins og notaðir eru á kappleikjum.

En veiðimanninum, náttúrubarninu og skáldinu Jóni Halldórssyni á Hólmavík varð þetta að eftirfarandi yrkisefni: 

 

Þú komst yfir hafið á heiðskírum degi
á hreina Íslands jörð
úr nístingsköldum norðurvegi
að nema Skagafjörð.

Þú stikaðir frjáls um fjallanna sali
um fagra Íslands grund;
velkominn gekkstu um grösuga dali
gleymdir þér um stund.

Þú örmagna, máttfarinn, lagðist í laut
á ljúfri Íslands fold
uns kyrrðin dreif þig í draumanna skaut
í dúnmjúkri gróðurmold.

Þar sáu þig tortryggnir blauðgeðja bændur
þeir byggja Íslands lönd.
Vitstola hringdu í vopnfæra frændur
sem vildu þig þegar í bönd.

Þeir umkringdu þig, sem þekktir ei hlekki
en þvældist um íslenskt hlað.
Þeir skelfast frelsið sem skilja það ekki
og skjóta í hjartastað.

 

Athugasemd:  Mér er nú kunnugt um að Bragi Valdimar Skúlason Baggalútur er höfundur kvæðisins en ekki ofannefndur Jón Halldórsson.  Mér var bent á þetta kvæði inn á heimasíðu Jóns og þar var ekki getið annars höfundar.  Vegna þessa misskilnings og fljótfærni minnar vil ég biðja uppáhaldstextahöfund minn Braga Baggalút innvirðulega afsökunar.  

Vegna þessa er gott að minna á þá sjálfsögðu kurteisi að geta höfundar sjái menn ástæðu til að birta hugverk sem þessi á síðum sínum. 


Er ekki verið að kasta tækifærum á glæ?

Í stöðunni voru tveir kostir; annar að taka enga áhættu og skjóta hann strax eða fanga hann lifandi, og flytja aftur til síns heima.  Ég ætla að velta seinni kostinum fyrir mér.   Voru ekki meiriháttar tækifæri í stöðunni til að bæta ímynd okkar á alþjóðlegum vettvangi og treina þetta alveg í botn.  Búa til fjölmiðlasirkus, safna peningum hjá veruleikafirrtum malbiksbörnum, flytja dýrið norður í íshafið þar sem hans réttu heimkynni eru.  Setja á hann gerfihnattasendi og sjá öllum sem vilja fyrir botnlausum fréttum, sönnum og lognum, búa til barnabók, minjagripi o.þ.h.

Okkur veitti ekki af, drepandi hvali, hægri vinstri, skítandi út "betri stofuna" með fáránlegum stíflumannvirkjum og díoxíðspúandi jarðgufuverum.  Við eigum að nýta öll tækifæri til að fegra ímynd okkar.

PS. Þeim sem ekki skilja mun á alvöru og kaldhæðni ætla ég að biðja um að sleppa að skrifa athugasemdir.  Það er gaman á hræra upp í drullupyttum svona öðru hverju....en samt öllu má ofgera. 


mbl.is Ísbjörninn felldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afleit þjónusta Sorpu

Öðru hvoru liggur leið mín á móttökustöðvar Sorpu.  Gerist helst þegar maður fyllist einhverjum fítonskrafti og ræðst á draslið í bílskúrnum eða framkvæmd er stórtiltekt á lóðinni.  Nú skal ég viðurkenna að þetta er ekki það skemmtilegasta sem ég geri en samt reyni ég að sinna tiltektinni eins léttur í lund eins og mér er unnt.....þangað til ég þarf að losna við ruslið.  Ruslið sem ég er samviskusamlega búinn að flokka og raða eftir leiðbeiningum Sorpu.  Léttur í sinni hélt ég á eina af móttökustöðum Sorpu þar sem ég beið í röð eftir að komast inn á stöðina.  Sem sagt það voru fleiri en ég sem höfðu fengið tiltektaræði þennan daginn.  Í hliðinu var ungur piltur sem vopnaður málbandi og vasareikni tók á móti viðskiptavinunum.  Þessi tól sín notaði pilturinn af mikilli innlifun þegar hann mældi hátt og lágt þann hluta sorpsins sem hann taldi vera gjaldskyldan.  Þó svo að tekist hafi að kenna honum notkun málbands og vasareiknis hafði greinilega gleymst að kenna honum mannleg samskipti.

IMGP3430
 

Orðastaður sá er hann átti við viðskiptavinina endaði yfirleitt í ónotum og einn þeirra brást þannig við að hann ók heldur þjösnalega á braut með sitt sorp.  Hann var næstur fyrir framan mig með garðúrgang í kerru auk eins vörubrettis.  Brettið var gjaldskylt, það fór ekki á milli mála hjá piltinum sem mældi það sem hálfan rúmmetra og BORGA - Takk.  Þetta var nóg og þjáningabróðir minn á hvíta Renaultinum með fínu rauðmáluðu kerruna var nóg boðið og ók fast og ákveðið  burt á meðan sá ungi baðaði út höndunum fullur vandlætingar.

IMGP3430

Grun hef ég um að mörgum fleirum hafi fundist nóg um og sjálfur hef ég lent í svona trakteringum þarna.  Í stað þess að láta rukka sig fyrir ruslið hafa menn tekið til þess ráðs að losna við það með öðrum og ógeðfelldari hætti og kasta því á víðavangi.  Þetta má sjá víða í kringum um þéttbýlið s.s. eins og þessar myndir sem eru teknar í nágrenni Hafnarfjarðar sýna.  Svona má auðveldlega finna víða í

 

 

 

Opnunartími á móttökustöðvum er augljóslega alltof stuttur, opnað í hádeginu og aftur lokað kl. hálf átta á kvöldið.  Flestir ljúka vinnu síðdegis og ef menn ætla að nýta sér þjónustu (?) fyrirtækisins þurfa menn og konur á láta hendur standa fram úr ermum.  Í gær þurfti ég að fara tvær ferðir, sú seinni með skáp sem ég ætlaði að setja í Góða hirðinn.  Sorrý, ég var tveim mínútum of seinn og það var lokað á nefið á mér.  Annað hliðið var samt opið og spurði starfsmann hvort ég mætti halda á skápnum inn í gáminn fyrir Góða hirðinn.  Fullt af fólki var enn á römpunum að losa sig við úrgang og Góðahirðisgámurinn var galopinn og nóg pláss.  Svar starfsmannsins var NEI, ÉG er búin að LOKA!

Ég vil taka fram að við flesta starfsmenn Sorpu hef ég átt góð samskipti við en of algengt er að verða vitni að framkomu sem þessari. 

Skoðun mín hefur lengi verið sú að rangt sé að innheimta losunargjald á móttökustöðvum.  Heppilegra væri að leggja gjald á í samræmi við losunarvægi þeirra og fólk fengi hluta þess gjalds endurgreitt við skil á móttökustöð.  Með því að gera sorp að verðmætum mætti líka koma á samkeppni í sorphirðu og sorpmóttöku.  Sennilega væri það vænlegast til að breyta viðmóti einstakra starfsmanna gagnvart viðskiptavinum sínum. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband