Færsluflokkur: Dægurmál
Laugardagur, 24. maí 2008
Frábær árangur Íslendinga!
Ég hafði það af að sitja með fjölskyldunni heilt kvöld og horfa á júróvísíónina. Mikið af góðum lögum sem vegnaði misjafnlega. Persónulega var ég hrifnastur af Armenska laginu auk þess sem Finnar og Danir voru þrusugóðir.
Þau Regína og Friðrik performeruðu fullkomlega, góður söngur, notuðu sviðið vel og hreinlega geisluðu. Verstur andskoti að þau skyldu ekki hafa almennilegt lag til að syngja. Stigin 64 fengu þau út á frábæran söng, ekki lagið sem mér fannst ansi dapurt, engin laglína, enda engan hitt enn sem getur raulað laglínuna. Næst versta lag sem við höfum sent, bara "Það sem enginn sér" með Daníel Ágústi var lakara. Gulu hanskarnir hefðu verið betri, gullfalleg laglína sem hefði mátt gera virkilega góða með frekari vinnslu. En hvað um, við val á lagi úr forkeppninni kemur alltaf betur og betur í ljós slæmur tónlistarsmekkur - eða er kannski smekkur hinna allra svona slæmur?
En svo er það sigurlagið Believing með rússanum Dima Bilan. Það er ekki annað hægt að heyra en þetta sé að stórum hluta til sama lagið og Cat Stevens söng fyrir 40 árum, Wild World. Þetta getur hver og einn dæmt fyrir sig með að bera saman myndböndin hér að neðan:
Dima Bilan; Believing
Cat Stevens; Wild World
Ísland endaði í 14. sæti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 13. maí 2008
Á ég að borga meðlagið?
Sá skeleggi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór, hefur boðað nýtt frumvarp um tæknifrjógvanir. Eftir því sem mér og öðrum hefur skilist er opnað þar á möguleika einstæðra kvenna til tæknifrjógvunar. Já, er það ekki barasta hið besta mál? Þegar málið er skoðað nánar vakna spurningar.
Í fyrsta lagi hver er réttur þess barns sem getið er með tæknifrjóvun? Hver er réttur barnsins til föðurs? Ég hélt í einfeldni minni að útgangspunkturinn í lögum um vernd barna og ungmenna væri réttur þeirra og velferð, ekki blindir eiginhagsmunir foreldra.
Í öðru lagi hver greiðir meðlagið? Jú viti menn, haldið ekki að kappinn Guðlaugur hafi lýst því yfir að ríkið myndi sjá um meðlagsgreiðslur! RÍKIÐ! Hver er ríkið? Eru það ekki við öll sem búum í þessu landi? Þar með talinn ég sjálfur. Það er alveg á hreinu að ég sem hluti ríkisins (skattborgarana) neita að taka þátt í þvi að greiða meðlög með börnum sem ég á ekkert í.
Nú ef einstæð kona óskar tæknifrjógvunar er þá ekki rétt að hún leggi fram áætlun um framfærslu hins ófædda barns næstu 18 árin a.m.k. Væri ekki betra að hún gæti sýnt fram á það með ótvíræðum hætti?
Mér finnst þessi umræða á villigötum. Hvað með að skoða siðferðilega þáttinn í þessu auk hins félagslega? Ég hef fulla samúð með þeim einstæðu konum sem þrá að eignast barn. Hingað til hafa þær ekki verið í neinum vandræðum með að lokka einhvern álitlegan til samræðis......skuldabréfið til næstu átján ára er útgefið síðar.......
Föstudagur, 9. maí 2008
Að vinna keppni og sigra andstæðing
Er hér ekki smá hugtakaruglingur á ferð. Minn málskilningur segir að maður taki þátt í keppni, vinni hana eða tapi eftir atvikum. Að heyja keppni við einhvern getur annað tveggja endað með sigri eða tapi og þá fyrir andstæðingnum en maður tapar ekki fyrir keppninni.
Hún amma mín hefði sagt: "Láttu ekki svona rassbögu heyrast drengur minn".
Ég myndi því segja: Kópavogur vann Útsvar!
Kópavogur vann Útsvar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 26. apríl 2008
Árni Johnsen er sjálfum sér líkur, enn og aftur!
Enn einu sinni er Árni Johnsen búinn að koma sjálfum sér í vandræði. Nú síðast fyrir að ráðast með einstaklega óverðugum ærumeiðingum um Gunnar Gunnarsson aðstoðarvegamálastjóra. Manninum virðist ekki vera sjálfrátt og margt líkt með hegðan hans og sumra þeirra ofbeldissinnuðu vörubílstjóra sem hafa verið í sviðsljósinu síðustu daga.
Ekki er rétt að rekja allan feril Árna hér en hann hefur svo sem margt reynt um dagana blessaður; blaðamennsku, stjórn brekkusöngs (þrátt fyrir lagleysi og tvö gítargrip), merkingar á vörusendingum hjá BYKO, grjótnám af Snæfellsnesi (þar sem hann dvaldi um tíma fyrir "tæknileg mistök") og nú upp á síðkastið hefur manngarmurinn fengið jarðgöng til Vestmannaeyja á heilann. Ekki vil ég dæma um hvort unnt sé að gera jarðgöng til Eyja, en jafnvel þó teknar séu hans lægstu kostnaðartölur dugar það hvergi til að réttlæta slíka framkvæmd (ekki frekar en Héðinsfjarðargöngin). Í þessu gangnaæði hefur kappið borðið hann ofurliði og vart getur lakari talsmann nokkurs málefnis nema kannski Sturlu Jónsson vörubílstjóra.
Þrátt fyrir mjög alvarlegt trúnaðarbrot þegar hann sem alþingismaður gerðist sekur um þjófnað á almannaeigum og fénýtingu ýmissa þeirra verðmæta sem honum var falin umsýsla á var ekki að finna á honum minnstu iðrun. Eftir að hafa setið af sér hluta dómsins vestur á Snæfellsnesi bauð hann sig fram til þings í síðustu kosningum og náði þar kjöri, illu heilli. Þar sannaðist hið fornkveðna: Kjósendur fá allaf það sem þeir eiga skilið.
Árni er fyrst og fremst utangarðsmaður, lagast illa að siðaðra manna samfélagi og vill á stundum leysa málin með frekar ofbeldisfullum athöfnum svo sem að beita hnefum og fótum á þá sem honum er illa við svo sem homma, kjaftfora krata og aðra slíka. Ekki skal ég dæma hvort honum frýjar til vitsmuna en eitt er ljóst; Ætla má að Árni hafi varla notað það litla sem honum var gefið. Slík er hegðun hans og framkoma öll.
Þessi síðasta árás hans á Gunnar Gunnarsson er algjörlega í stíl hans, órökstudd, ruddaleg og full af biturð þess sem hefur þurft að bíta í það súra. Kannski hefði hann gefið Gunnari á kjaftinn hefði hann átt þess kost. Slíkum ávirðingum sitja embættismenn ekki undir og því ber að fagna ákvörðun Gunnars að kæra þingmanninn fyrir ærumeiðingar. Það er ekki hægt annað en að taka undir með Gunnari þegar hann segir setu hans á þingi Sjálfstæðisflokknum og íslensku þjóðinni til skammar. Það eru orð að sönnu.
Ætlar að kæra Árna Johnsen | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 24. apríl 2008
"Bíðið krakkar, við erum live eftir smástund......"
Það dýrmætasta sem nokkur fréttastofa á er tvennt; góðir fréttamenn og trúverðugleiki. Mikið er lagt upp úr þessum tveim atriðum og þegar blettur fellur á trúverðugleikann eða persónu fréttamannanna er stofunni vandi á höndum. Bregðast þarf skjótt við og annað tveggja að yfirmenn stofunnar skjóti skildi fyrir fréttamanninn með skýrri afdráttarlausri yfirlýsingu eða víkja viðkomandi frá störfum án nokkurs undandráttar eða tafar.
Sé þetta ekki gert svo er trúverðugleiki fréttastofunnar í uppnámi. Það sem nú er á allra vitorði og gerðist á bensínstöðvarplaninu í gær var fréttamanni Stöðvar 2, Láru Ómarsdóttur, ekki til sóma. Unglingar sem þarna voru hafa staðfest í samtölum við mig að Lára bað þau um að bíða með að eggja og flöskukast í smástund, þau yrðu "live" eftir örstutta stund og þá mættu þau kasta að vild sinni. Tökuvélinni var síðan stillt upp þannig að "athafnir" unglinganna sæjust sem allra best.
Starfsmaður Stöðvar 2 gaf þeim síðan merki þegar eggjakastið byrjaði. Sorrý ég trúi þessum krökkum en ekki "fréttamanninum/leikstjóranum" Láru. Ég hef nefnilega aldrei reynt þau að neinum ósannindum. Það voru mér vonbrigði að í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 var ekki tekið á þessu máli sem er henni til mikils vansa. Því lengur sem dregið er að opna málið verður það fréttastofunni æ dýrkeyptara.
Lára á varla annan kost en segja starfi sínu lausu, jafnvel þó þetta hafi átt að vera í "gríni".
Yfirlýsing frá Láru Ómarsdóttur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 26. febrúar 2008
Dómur fallinn. Umhugsunarefni fyrir þá bloggara sem fóru offari í þvagleggsmálinu
Mér finnst þessi dómur alveg í samræmi við tilefnið og óska Ómari til hamingu. Það gengur ekki að "ofbeldismenn" bloggsins fari þar hamförum gegn nafngreindum einstaklingum eða fjölskyldum þeirra. Því hlýtur það að vera umhugsunarefni fyrir þá bloggara sem aftur og aftur tröðkuðu á mönnum sem voru að vinna skyldustörf í svokölluðu "þvagleggsmáli".
Nú hefur dómur fallið í þvagleggsmálinu og má lesa dóminn í heild sinni á þessari slóð: http://domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=S200700275&Domur=4&type=1&Serial=1&Words=
Í dómnum kemur sannleikurinn fram. Allra leiða var leitað til að framkvæma þvagtökuna með eins vægum úrræðum og kostur var. Margir bloggararar hreinlega töpuðu sér í þessari umræðu og jusu óþverranum í allar áttir. Það var eins og fólk gerði sér ekki grein fyrir hverjar skyldur lögreglu eru í svona málum. Skyldur - ekki heimild. Það er mjög ítarlega farið ofan í skyldur löreglu við aðstæður sem þessar. Að sjálfsögðu var líka margt skynsamlegt sagt í umræðunni en því miður drukknuðu þær raddir í ofbeldisfullum fáfræðislegum skrifum sumra sem ég ætla ekki að nafngreina hér. Þeir taki sneið sem eiga.
Sekur um meiðyrði á bloggi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Föstudagur, 8. febrúar 2008
Búið að hleypa loftinu af Svandísi
Allt frá á haustdögum hefur verið mikill póltískur skjálfti vegna REI málsins, meirhluti borgarstjórnar féll og borgarfulltrúar sumir viðhaft stór orð um málið enda má segja að fullt tilefni hafi verið til þess. Svandís Svavarsdóttir kom fram í þessu máli sem fulltrúi heilbrigðrar skynsemi og skaut föstum skotum að borgarstjóra, Birni Inga og stjórnum OR og REI. Öllum mátti vera ljóst að málið var mjög slæmt og þarna hafði hrein og klár græðgi blindað mönnum sýn.
Sú úttekt sem nú hefur verið birt er hreint út sagt einhver alfurðulegasta loðmulla sem sést hefur lengi. Hvar er nú kraftur Svandísar og sexmenningana Sjálfstæðisflokksins? Það er engu líkara en stungið hafi verið prjóni í blöðru þegar hlustað er á Svandísi, nú síðast í Kastljósi. Þvílík flatneskja sem borgarbúum og öðrum landsmönnum er boðið upp á með skýrslu stýrihópsins er algjörlega óásættanleg. Kjósendur sem jafnframt eru eigendur þessara fyrirtækja eiga skýlausan rétt á betri vinnubrögum en þessum. Í Kastljósi var VÞV hreint aumkunarverður, gat engu svarað og stóð hvað eftir annað á gati. Það er held ég öllum ljóst að hans tími í pólítík er liðinn.
Gamli góði Villi. Sorglegt að svona fór. Betra hefði verið að enda feril sinn á annan hátt en þennan. Nú skilur maður kannski Björn Inga. Hann mat greinilega stöðuna þannig að betra væri að koma sér í björgunarbátinn áður er skipið sykki.
En Svandís og Dagur. Hvaða dúsu var stungið upp í ykkur?
Efast um umboð borgarstjóra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 6. febrúar 2008
Er siðrænt að eyða milljörðum af annarra fé?
Undanfarin misseri hafa dunið á landslýð fréttir af ofsagróða banka og alls kyns grúppa þetta og grúppa hitt hvort heldur á heimamarkaði ellegar í útrásinni góðu. Ekki tekur að tala um milljónir, tugi milljóna eða milljarða, heldur er oftast talið í tugum og jafnvel hundruðum milljarða. Tölur sem þessar draga svo mörg núll með sér að venjulegu fólki sundlar við og ber lítt skynbragð á upphæðirnar. Upphæðir sem eru órafjarri raunveruleika hinna venjulegu manna, launaþrælanna sem í reynd halda uppi ofsagróðanum með okurvaxtagreiðslum af handónýtri krónu. Þeirri krónu sem lögð hefur verið undir jöklabréfaþeytivindu erlendra braskara. Allar tölur í þessum stærðum eru nánast óskiljanlegar og erfitt að setja í samhengi við þau raunverulegu verðmæti sem í lífi íslendingsins skipa hvað hæsta sess, þ.e. íbúðin og kannski bíldruslan.
Þessi sýndarhyggja gegnsýrir orðið alla umræðu og fólki finnast milljarðar til eða frá ekki skipta neinu máli. Svo einhver dæmi séu tekin þótti ekki tiltökumál að borga borgarstjórastólinn undir Ólaf F. með kaupum á ónýtu spýtnabraki við Laugaveginn. Þeim sem sömdu við Ólaf F. verður ekki gert að borga dellunna heldur er reikningurinn sendur til skattgreiðenda. Fimmhundruð milljónir þar. Þessum sömu borgarfulltrúm finnst ekkert tiltökumál að setja Sundabraut í jarðgöng þó svo að það kosti skattgreiðendur a.m.k. 9 - 10 milljarða aukalega þrátt fyrir að að færustu sérfræðingar í umferðarmálum telji lausn Vegagerðarinnar bæði mun betri frá umferðarsjónarmiði auk þess að vera milljörðunum ódýrari. Fyrir þessa umframpeninga mætti leysa stóran hluta af öllum umferðarvandamálum höfuðborgarsvæðisins og leggja 2+1 veg frá Selfossi að Borgarnesi.
Mjög er pressað á stjórnvöld að falla frá hugmyndum um slíkan veg (2+1) til Selfoss og Borgarness og velja í stað þess margfalt dýrari lausn sem er 2+2 vegur. Engin umferðarleg rök liggja til lagningu 2+2 vegar auk þess sem kostnaður er margfaldur, verktíminn er mun lengri og á meðan við eyðum tugum milljarða í þetta æpa óunnin verk á okkur um allt landið. Verk sem spara ófá slysin og mikla fjármuni. Benda má á stórgóða grein eins fremsta umferðarsérfræðings landsins, Rögnvaldar Jónssonar verkfræðings, í Morgunblaðinu í dag um þetta mál. Það er eins og margir hafi görsamlega tapað allri vitrænni hugsun varðandi þessar framkvæmdir og vilji fyrst og fremst skara sem mest að eigin köku og þá á kostnað annarra sem skulu á bíða lengur brýnna úrbóta.
Mér finnst kominn tími til að staldra aðeins við og horfa heildrænt af ískaldri rökhyggju á þessi mál og taka ákvarðanir af skynsemi og í samræmi við nauðsyn hverju sinni. Stjórnmálamönnum er þar síst treystandi. Þeirra ákvarðanir miðast því miður oftast við stundarhyggju og atkvæði næstu kosninga.
Því er miður.
Miðvikudagur, 23. janúar 2008
Álftnesingar sýna samtakamátt sinn gegn óbilgjörnum bæjaryfirvöldum
Í samræðum manna á milli kom fram mjög eindregin andstaða við þessa hugmynd og í framhaldi af því leiddu þær Gerður Björk Sveinsdóttir og Brynja Guðmundsdóttir saman hóp fólks sem tilbúið var að leggja málinu lið.
Þessi hópur sem samanstendur af fólki úr fólki af öllum stigum, stéttum, flokkum og ekki flokkum. Hópurinn gekk hús úr húsi síðustu þrjú kvöld og tók við athugasemdum íbúa. Mér sem þátttakanda í hópnum kom þægilega á óvart hvað gífurleg andstaða var við þessum gjörningi og svo var áhuginn mikill að Álftnesingar sem staddir voru í fjarlægum heimsálfum höfðu samband og óskuðu eftir að fá að vera með. Þetta var stórkostleg upplifun fyrir mig sem er búinn að vera að hamra á þessu, í bloggi, blaðagreinum og viðtölum við íbúa. Kynning bæjarstjórnar á málinu hefur öll verið í skötulíki og ekkert tillit hefur verið tekið til sjónarmiða íbúa sem hafa verið að tjá sig í ræðu og riti sem og á íbúafundum.
Sem sagt veruleikafirringin virðist algjör hjá meirihluta bæjarstjórnar. Kannski verður þeim veruleiki hins almenna bæjarbúa ljós kl. 14:15 í dag þegar bæjarstjóra verða afhentar formlega mótmæli tæplega 600 kosningabærra Álftnesinga.
Einnig er mér kunnugt um að fjöldi fólks hefur sjálft skilað inn athugasemdum við skipulagið og skipta þær athugasemdir mörgum tugum. Líklega má reikna með allt að 700 athugasemdum við skipulagstillöguna og flestar þeirra snúa að lokun Breiðumýrar og Skólavegi.
Sjö hundruð athugasemdir:
Skyldi það fá þessa bæjarstjórn til að átta sig á að þeir eru kosnir til að þjóna íbúum en ekki öfugt?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 24. desember 2007
Ljóssins hátíð læðist gegn.....
Það verður vart jólalegra en nú, með stilltu veðri, nýfallinni mjöllinni og öllum ljósunum sem prýða umhverfið. En þrátt fyrir alla yrti umgjörð, ljós, jólasnjó og jólagjafirnar sem bíða eiganda sinna undir jólatrénu þá kemur hin sanna jólastemminga alltaf innan frá. Því ef hugur fylgir ekki máli þá verða jólin okkur innantóm.
Í dag fögnum við hátíð ljóssins, þess ljóss sem ber okkur síðan á næstu vikum og mánuðum til vors og sumars. Kristnir og fagna fæðingu Jesú sem lagður var í jötu "þar suðurfrá" fyrir 2008 árum. Hvort sem frásögnin sú er sönn eða ekki er hún falleg og boðskapur hennar eitthvað sem öllum er hollt að tileinka sér.
Hjá mér byrja jólin á Þorláksmessu þegar við Lionsfélagar eldum skötu og annað fiskmeti og seljum til fjáröflunar. Það er hluti jólastemmingarinnar að leggja sitt af mörkum öðrum til líknar. Því kemur lyktin af skötunni mér í jólagírinn. Flestum finnst lyktin vond og ég get tekið undir það. En bragðið er gott og hefðirnar sem hafa skapast í kring um skötuát Þorláksmessunnar eru skemmileg viðbót við jólahaldið. Ég var að lýsa þessari upplifun fyrir kunningja mínum sem greinilega fannst fátt um. Að morgni Þorláksmessu var þessi vísa hans í póstinum mínum:
Bedúinar báru fregn
um barn í lágri jötu.
Ljóssins hátíð læðist gegn-
um lykt af kæstri skötu.
Kæru bloggvinir og aðrir lesendur. Ég óska ykkur öllum gleðilegrar jóla.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)