Færsluflokkur: Dægurmál

Af drukknum einkennisklæddum bílstjóra, lögguhúfu sem skipti litum o.fl. smálegu

Sú saga sem hér verður sögð er sönn, lítillega færð í stílinn og öllum nöfnum hefur verið breytt.

 

 

 

Á fyrri hluta 8unda áratugarins var vinnuflokkur úr Reykjavík við vinnu úti á landi.  Hlutverk flokksins var að leggja síðustu rafmagnslínurnar í sveitir landins.  Þetta var gott sumar, sólríkt og það var gleði og kraftur sem einkenndi líf þessara ungu kraftmiklu stráka sem skipuðu flokkinn að undanskildum verkstjóranum og ráðskonunni sem voru mikið eldri.

Vinnuflokkurinn hélt til á eyðibýli sem reynt hafði verið að gera eins vistlegt til sumarvistarinnar og kostur var.  Eins og gerist og gengur var skemmtanalífið stundað af krafti enda sveitaböll um hverja helgi og oft úr mörgum að velja.  Stundum var því ekki bara eitt  ball á helgi, þau voru stundum tvö og jafnvel þrjú.  Já það var gaman að lifa og þessa helgi sem sagan okkar varð til var ball í næsta þorpi.  Vinnuflokkurinn bjó 40 kílómetra þaðan en á næsta bæ bjó héraðslögreglumaðurinn Kalli.  Hann var bóndi en stundaði löggæslu á böllum til að drýgja tekjurnar.

Liðsmenn flokksins skiptust yfirleytt að vera ökumenn á þessi böll og þetta kvöld hafði það dæmst á Binna sem var hið besta mál því yfirleitt þótti hann viðskotaillur með víni.  Það þótti hittast vel á hann yrði edru þetta kvöldið.

Leiðin lá sem sagt á ballið og allir skemmtu sér hið besta.  Þegar átti að halda heim um nóttina kom í ljós að bílstjórinn, hann Binni, hafði dottið í´að og sagði hinum drafandi að hann gæti sko alveg keyrt heim.  Félögunum fannst það ekki við hæfi og eftir að hafa skotið á ráðstefnu datt einhverjum það í hug að fá lögguna Kalla til að keyra bílinn heim.  Hann átti jú heima á næsta bæ.  Einhver talaði við Kalla sem sagðist vera til í þetta.

Biðin eftir að Kalli lyki skylduverkum sínum í löggunni var orðið ansi löng þegar kappinn birtist í svarta búningnum með hvítan kollinn, glaðbeittur, og spurði hvar bíllinn væri.  Jú, hann var þarna.  Dökkgrænn frambyggður Rússjeppi með sætum fyrir átta manns og verkfærageymslu aftast.   "Inn með ykkur" galaði hann og skellti sér undir stýri.   

Í bílnum lumaði einhver á vodkablöndu í flösku og lét hana ganga á milli.  "Hvur andskotinn er þetta" sagði Kalli lögga, "á ekki að bjóða manni líka".  "Þú ferð nú líklegast ekki að drekka, sjálf löggan og keyrandi bíl!" sagði einhver úr hópnum.  Jú viti menn; Kalli tók hvítu lögguhúfuna af sér og sveiflaði hanni í glæsilegum boga aftast í bílinn þar sem hún lenti á hvolfi ofan á smurolíufötu.

"Húfan er farinn" sagði Kalli og hrifsaði flöskuna til sín: "Nú er í lagi að detta í það"  og svolgraði stórum.  Skemmst er frá að segja að á undraskömmum tíma breyttist þessi héraðslögregluþjónn úr virðulegum embættismanni hins íslenska ríkis í blindfullan röflara.  Það fór að fara um suma í bílnum og ekki laust við að víman rynni af hinum þegar borðalagður ökumaðurinn sveiflaði bílnum kanta á milli og tók einbreiðu brýrnar á ferðinni en ekki fyrirhyggjunni.

Það var komið framundir morgun og stutt eftir heim þegar á veginum stóð gömul Cortina þar sem sprungið hafði á tveim dekkjum.  Eldri hjón voru á bílnum og vantaði sárleg aðstoð.  Sá borðalagði vippaði sér undan stýrinu og gleðibros færðist yfir varir hjónanna þegar þau sáu hjálpina birtast í líki lögreglumanns.  Sú brosvipra var ansi skammvinn þegar meintur bjargvættur hellti sér yfir þau með óbótakömmum og spurði hvurn andskotann þau væri að gera þarna á miðjum veginum.  Hann var orðinn áberandi drukkinn, hávær og dónalegur.  Svona maður enginn vill þekkja.

Þarna voru góð ráð dýr.  Menn litu hver á annan og allir hugsuðu það sama:  Burt héðan..einn, tveir og nú!  Siggi flokkstjóri stökk undir stýri, setti í gang á meðan hinir ruddust inn, allir sem einn.  Siggi gaf nú bensínið í botn og í fyrsta og eina sinnið spólaði gamli Rússinn af stað á rykugum malarveginum.  Til að komast framhjá fólksbílnum þurfti hann að sveigja út í tæpustu vegarbrún og eitt augnablik héldu menn að bíllinn færi fram af brúninni og ylti.  Það gerðist ekki sem betur fer en það var ótrúlega fyndið að sjá blindfulla lögguna á harða spretti á eftir bílnum þar til hann gafst upp.

Siggi ók eins og leið lá heim á leið og síðar sagði hann þetta vera í fyrsta og eina sinnið sem hann hefði ekið bíl undir áhrifum.  Það er trúlegt því Siggi er einn þeirra manna sem ekki mega vamm sitt vita.

Skemmst er frá að segja allir komust heilir heim og í heila viku var hvíta lögguhúfan aftur í Rússajeppanum.  Undir það síðasta var ekki laust við að farið væri að sjá nokkuð á hvíta litnum en á næsta föstudegi fréttum við af Kalla.  Hann hafði þá heimsótt ráðskonuna og beðið hana að finna húfuna góðu og taka hana til varðveislu.

Eitt var ljóst:  Ekki yrði hann aftur beðinn að vera bílstjóri.  Þessi maður varð reyndar ekki lengi í embætti eftir þetta þegar yfirmenn hans komust að því einhverra hluta vegna að hann væri ekki eins vandur að virðingu sinni og æskilegt þætti fyrir mann í hans stöðu.

 


mbl.is Ölvaður farþegi henti bílstjóranum út og ók sjálfur í bæinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skólabíll sem þekkist á (skíta)lyktinni!

  Á morgnana liggur leið mín um Hafnarfjarðarveginn og um hálf átta þegar ég ek gegn um Garðabæ liggur oft skelfilega vond útblásturlykt í loftinu, þ.e.a.s. þá fáu daga þegar er logn.  Óþefur þessi takmarkaðist við svæðið frá Engidal að Arnarneshæð.  Fljótlega fann ég upptök brælunnar.  Hún kom frá gamalli hvítri rútu sem ekið norður Hafnarfjarðarveginn  á svipuðum tíma og ég var á. 

Þessi gamla rúta er kyrfilega merkt TREX - Hópferðamiðstöðin ...eitthvað og að auki er á henni merki sem auðkenni skólabifreiðar.  Út úr vinstri hlið þessarar rútu stendur útblásturrörið þar sem þykkur dökkleitur reykjamökkur stendur út úr.  Ekki nóg með það að mökkurinn sé þykkur heldur er lyktin svo skelfilega vond að ég man varla eftir öðru eins frá því ég vann á æfagamalli JCB gröfu fyrir einhverjum áratugum síðan. Sú reykti eins og gamall kolatogari.

Stórar bifreiðar eru flokkaðar eftir stöðlum um útblásturmengun.  Staðlarnir eru nefndir Euro-1 - Euro-5 þar sem efsta talan stendur fyrir mestu kröfurnar.  Í einfeldni minni hélt ég að gerðar væru lágmarkskröfur til bíla sem flytja að dýrmætasta sem við eigum, börnin.  Það er greinilega ekki í þessu tilfelli.

Alla vega er þessi bíll til mikilla óþæginda fyrir aðra vegfarendur, hvað þá börnin sem eru flutt í honum.  Væntanlega er þessi aðili í verktöku fyrir einhvert sveitarfélag.  Sá verkkaupi hefur greinilega ekki háan "standard" varðandi skólabörnin svo ekki sé um aðra þolendur talað.


Blogg um blogg og bloggleiki - Tillaga til ritstjórnar

Núna ætla ég að brjóta loforð sem ég gaf sjálfum mér og öðrum en það var að ég skyldi aldrei blogga um bloggið.  Er þá hægt að komast lengra í vitleysunni en blogga um blogg?  Til að gera langa sögu stutta þá hefur ritstjórn bloggsins auðvelda' lesendum aðgengi að því sem efst er á baugi í bloggheimum með því að skipta færslum niður í flokka, ný blogg, heit blogg, vinsæl blogg o.sv.frv.  

Nú ber svo við að þegar heitabloggs dálkurinn er opnaður þá blasa þar við 24 færslur.  Helmingur þessara færslna eða 12 snúast um leik sem ágætur bloggverji, Kalli Tomm, ýtti úr vör fyrir nokkru.  Ekki það að þessi leikur eigi ekki rétt á sér.  Síður en svo.  Hins vegar er hann orðinn svo útbreiddur og kvíslast um allt moggabloggið að hann lítur orðið út eins og einhvert æxli.

Ég legg því til við ritstjórn bloggsins og búinn verði til sér dálkur fyrir bloggleiki.  Þar hafa þá þeir sitt sem þar hafa áhugann en truflar aðra minna sem eru kannski á svolítið öðrum nótum. 


Var þá Lína.Net ekki alslæmt eftir allt? Athyglisvert mál.

 

Athyglisverð frétt á RÚV í gærkvöldi sem fjallaði um verðmat  Gagnaveitu Reykjavíkur sem áður hét Lína.net.  Mat Landsbankans hljóðaði upp á 10 milljarða króna og miklar líkur til að verðið myndi a.m.k. þrefaldast á næstu árum.  Annar banki komst að svipaðri niðurstöðu.  Þetta eru mjög athyglisverðar upplýsingar í ljósi þess umróts og deilna sem skekið hafa fyrirtækið og stofnendur þess á liðnum árum. 

Eins og flestir ættu að muna var Lína.net verkefni á vegum Orkuveitu Reykjavíkur.  Stjórnarformaður OR á þessum tíma var Alfreð Þorsteinsson og var hann mjög áfram um vöxt og viðgang þessa verkefnis.  Af hálfu þáverandi minnihluta var allt sem viðkoma Línu.net gagnrýnt harðlega og talin alger sóun á fjármunum.  Þar gekk borgarfulltrúinn Guðlaugur Þór Þórðarson harðast fram og var á tíðum mjög óvæginn og persónugerði gagnrýni sína og andstöðu í garð Alfreðs.

Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar var málið mjög í brennidepli og notað til linnulausra árása á þáverandi meirihluta og fyrst og síðast Alfreð sem var úthrópaður sem einn af spilltustu stjórnmálamönnum landsins og jafnvel lagður í stokk með Finni Ingólfssyni og Árna Johnsen hvað það varðar.

Í ljósi þessa er ótrúlegt að heyra hver vöxtur og viðgangur þessa fyrirtækis er orðinn og „fimm milljarða sóunin" virðist vera orðin ansi mikils virði.

Ég vil taka fram að ég hef ekki neitt dálæti á framsóknarmönnum og tel margt af því þeir hafa staðið fyrir nánast vera eins og hryðjuverk gegn þjóðinni.  Má þar tiltaka alls kyns hafta og sérhagsmunapólítík, t.d. er  kvótasetning fiskveiða gott dæmi.  Varðandi Alfreð hef ég á tilfinningunni að hann sé langt frá því eins slæmur og pólitískir andstæðingar hans hafa útmálað hann.  Sumir hafa bent á Orkuveituhúsið (það ljóta hús)  og framúrkeyrslu fjármuna við byggingu þess.  En er það ekki nánast aðgild regla við opinberar byggingar að framúrkeyrslan fari svo og svo mikið framúr.  Ég minnist þjóðarbóhlöðu, perlu og ráðhúss svo eitthvað sé nefnt.  Ég held að sagan sé að sýna okkur framsýni og elju karlsins sem alltaf hélt sinni stefnu hvað sem aðrir sögðu.  Kannski ekki það lýðræðislegasta en skilar árangri.

Eftir að hafa látið af starfi stjórnarformanns OR var karlinn gerður að formanni byggingarnefndar nýs hátæknisjúkrahúss.  Það mál er reyndar efni í nokkrar boggfærslur.  Hans gamli andstæðingur, Guðlaugur Þór Þórðarson er nú sestur í stól heilbrigðisráðherra.  Og hann lætur Alfreð gossa.  Jamm og já.

Eru einhverjir fleiri en ég sem finna pólítíska skítalykt?


Eru ekki gerðar neinar kröfur til flytjandans áður en flutningsleyfi er veitt?

Hvernig ætli það sé.  Eru ekki gerðar neinar kröfur um verkþekkingu og tækjabúnað í svona flutningi?  Mér finnst þetta mál með ólíkindum.  Að flytja hús er vandaverk og ekki á færi nema kunnáttumanna.  Af fréttum má ætla svo ekki vera.   Einnig virðist vera sem tækjabúnaðurinn hafi ekki hæft verkefninu.  Vagnar til svona stórflutninga um ósléttar hallandi götur þarf að vera með stillanlegum hliðarhalla.  Slíkir vagnar eru til hér á landi auk þekkingar og reynslu framkvæmd flutninga sem þessara.  Af hverju var slíkur búnaður ekki notaður?

Getur hver sem er fengið leyfi til að transporta með stórflutninga á götum borgarinnar? 


mbl.is Ferðalagi húss lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í vasa kaupmanna fannst áður glötuð skattalækkun.

Athyglisverð vöruverðskönnun hjá ASÍ.  Þarna kemur það í ljós sem margir óttuðust.  Lækkun virðisaukaskattsins sem átti að koma neytendum til góða lendir öll í vasa kaupmanna eða svo virðist vera.   Enda var við öðru að búast?  Virðisaukaskattkerfið er orðið gapandi götótt, þriggja þrepa, með óteljandi undanþágum.   Það ætti að vera augljós hagur almennings og atvinnulífsins að skattkerfið sé einfalt og skilvirkt. 

Einfaldast væri að vera með eitt skattþrep í virðisaukaskatti og engar undanþágur til að svindla á.  Lækka mætti skattinn með slíkri einföldun, kannski niður í 12 - 14%.  Það myndi minnka verulega hættuna á undanskotum og einfalda skatteftirlit.

Slíkt mætti einnig hugsa sér með tekjuskattinn.  Einn flatan skatt 15 - 20% með persónuafslætti sem beintengdur yrði með lánskjaravísitölu.  Engar undanþágur.  Byggja yrði á sértækum aðgerðum varðandi þá sem sem minna mega sín, þ.e. koma á endurgreiðslukerfi.  Hætt yrði að lítillækka fólk með því að kalla slíkar greiðslur bætur heldur nefna þær einfaldlega tekjur.

Við erum komin í ógöngur með skattkerfið, flestir þeir tekjuhæstu greiða sáralítið til samfélagsins og þeir sem eingöngu greiða fjármagnstekjuskatt lifa eins og ómagar á sveitarfélögunum, þiggja alla þeirra þjónustu en greiða ekkert til þeirra.

Þetta verður að taka til gagngerrar endurskoðunar.

Ekki seinna en strax.


Vafasamir hitaveitumenn og harmonikuleikarar

Í kvöld var dyrabjöllunni hringt og fyrir dyrum stóð kona með skrifspjald í hendi og sagðist vera frá Hitaveitu Suðurnesja.  Hana langaði til að lesa af orkumæli.  Allt hið besta mál og ég í grandaleysi mínu hleypti henni inn í bílskúr þar sem mælirinn er.  Á leið út úr skúrnum fékk ég smá bakþanka og spurði hana um skilríki.  Hún sagðist engin slík hafa og ekkert sem sannaði hver hún væri annað en peysu sem merkt var logoi fyrirtækisins.  

Það er eitthvað mikið að öryggismálum hjá þessu fyrirtæki að sjá ekki starfsmönnum sínum fyrir skilríkjum þannig að þeir geti sagt á sér deili aðspurðir.  Það er vel þekkt aðferð misindismanna að þykjast vera frá síma eða veitufyrirtækjum og komast þannig inn á gafl hjá auðtrúa bjánum eins og mér.

Svo eru sumir að spila á harmoniku skilríkjalausir.  Sendi löggan þá ekki úr landi.  Eins gott að passa sitt. 

Ég ætla að setja hundinn á vakt í nótt....eða þannig. 


Að vaða út í pytt - hvað er til bjargar?

Mér líður hálf undarlega.  Svona svolítið eins og ég hafi verið hafður að fífli sem ég sennilega er.  Látum aðra dæma það.  Ég hef alla tíð haft áhuga á stjórnmálum og reynt að fylgjast með eftir föngum og stundum lagt litlar pillur í umræðu dagsins.  Mér er engin launung á að lengstum hef ég fylgt mínum flokki, Sjálfstæðisflokknum í flestum málum og hugsjónir hans fallið vel að mínum. 

Síðustu daga hefur tröllriðið fjölmiðlum mál vegna ríkisfangs stúlku sem mun vera tengd Jónínu Bjartmars umhverfisráðherra.  Ég ætla ekki að tíunda það mál hér því flestir ættu að þekkja það.  Það er alveg kristaltært í mínum huga að þarna hefur ekki verið farið eftir þeim venjulegu leikreglum sem gilt hafa um veitingu ríkisborgararéttar.   Af þeim framsóknarmönnum sem eftir eru hef ég haft nokkuð dálæti á Jónínu og fundist skoðanir hennar, framkoma og málflutningur allur bera vott um einurð og málafylgju.  Það urðu mér því nokkur vonbrigði að sjá hvernig hún brást við þessari umfjöllun.  Nóg um það.

Enn verra fannst mér til um Bjarna Benediktsson.  Þetta er maðurinn sem átti atkvæði mitt í komandi kosningum.   Þar var ég viss um að færi vandaður, heill og heiðarlegur stjórnmálamaður.  Nei,  því miður óð Bjarni tafarlaust út í foraðið þrátt fyrir aðvarnanir.  Hann og aðrir nefndarmenn hafa komið fram á þann hátt að ekki telst trúverðugt.  Alls ekki.  Og enn er Bjarni á leið út í pyttinn og er nú komin upp að hálsi.  Með honum hafa fleiri vaðið, Guðrún Ögmunds, þið vitið þessi með pappírstætarann, Guðjón Ólafur sem ég ætla ekki að segja neitt meira um og að síðustu lagði dómsmálaráðherrann af stað og rak tærnar í drullupyttinn.

Bjarni, Guðrún og Björn.  Það er enn hægt að snúa við og í guðanna bænum gerið hreint fyrir ykkar dyrum.  Guðjón Ólafi hafa hins vegar verið lagðar línurnar; „Árangur árfram og ekkert stopp".  Sem sagt beint í pyttinn.  Þó svo að ég sé fífl og seinn að fatta þá blasa ósannindin við alþjóð.  Ég man eftir manni sem rataði beint í sama pytt.  Manni sem heitir Árni Johnsen.  Árni hafði ekki vit á að snúa við upp úr sínum pytti og því fór sem fór.

Það er enn tækifæri.  Notið ykkur það.


Verndun Atlantshafslaxins - Til hamingu Orri

Þetta er með gleðilegustu fréttum vikunnar.  Hugsjónamaðurinn Orri Vigfússon hlýtur einhver virtustu umhverfisverðlaun heimsins, Goldberg verðlaunin, fyrir áratugabaráttu fyrir verndun Atlantshafsins.  Margir umhverfisverndarsinna mættu taka Orra til fyrirmyndar.  Hann lætur ekki duga að tala, hann framkvæmir og markmiðið er ljóst.  Ég er ekki viss um að íslendingar viti almennt mikið um þessa baráttu Orra en hann er því betur þekktari meðal áhugafólks um náttúruvernd og áhugamanna um laxveiði.  Reyndar fer áhugi á náttúrvernd og veiði yfirleitt saman.  Ríkustu hagsmunir sportveiðimanna eru að viðhalda stofnum veiðidýra sterkum og heilbrigðum.  

Orri hefur alla tíð verið trúr þessari hugsjón og fórnað miklu til.  Höfðingjadjarfur og óbanginn að kynna frumlegar hugmyndir þó sumum sé fyrirmunað að skilja þær, sbr. ummæli hans um þáverandi umhverfisráðherra.  Hófsemi en ákveðni er einkennandi fyrir þessa baráttu auk einkar frumlegra fjármögnunarhugmynda.  Ég vona að vel önnur náttúruverndarsamtök taki nú undir með Orra og félögum og sýni áhuga á umhverfisvernd á borði ekki bara í orði.

Orri, til hamingu.

Ég segi ekki annað! 


mbl.is Orri Vigfússon hlýtur helstu verðlaun baráttufólks fyrir verndun umhverfissins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er lífsnauðsyn að vera bjartsýnn - er það ekki?

Nágranni minn hefur dregið íslenska fánann að húni í morgun, sumardaginn fyrsta.  Hann gerir þetta með mikilli samviskusemi alla fánadaga.  Það er mikil prýði að þessu og stundum hef ég hugsað til þess að fá mér sjálfur fánastöng og flagga á tyllidögum.  Einhvern veginn hefur ekkert orðið úr þessu.  

Svo sannarlega frusu saman sumar og vetur.  Hitamælirinn sýndi -5°C kl. hálf átta þegar ég staulaðist niður í hafragraut, kaffi og lestur morgunblaðanna.  Sólin skein og þrátt fyrir frostið var mikið fjör hjá störunum sem hömust eins og óðir í vorverkum sínum.  Reyndar eru menn misjafnlega hrifnir af vorverkum þeirra sem leitt geta til flóaplágu ef óvarlega er farið.

Samkvæmt þjóðtrúnni veit á gott þegar vetur og sumar frjósa saman.  Það er fátt eins lýsandi fyrir bjartsýni þessarar eyþjóðar á mörkum hins byggilega að halda upp á sumardaginn fyrsta þegar víðast hvar er enn vetur, berja sér á brjóst þegar gaddurinn og hríðarbylurinn hafa skekið landið og draga fram eitthvað jákvætt;  já það hlýtur að vita á gott þegar frjósa saman sumar og vetur!  Yndislegt!

ÉG reyni að vera þessari bjartsýni trúr eftir bestu getu.  Auðvitað vona ég að vorið og sumarið verði gott, sólríkt en samt með hæfilegri vætu svona inn á milli.  Það er svo gott fyrir gróðurinn segja menn þegar rignir dögum og jafnvel vikum saman.  Alltaf sami bjartsýnistónninn.  Kom ekki fram í einhverri könnun að við væru bjartsýnasta þjóð í heimi?  Jú gott ef ekki var.  Enda okkur nauðsynlegt.  Við einfaldlega búum á þannig stað á móður Jörð.

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband