Var þá Lína.Net ekki alslæmt eftir allt? Athyglisvert mál.

 

Athyglisverð frétt á RÚV í gærkvöldi sem fjallaði um verðmat  Gagnaveitu Reykjavíkur sem áður hét Lína.net.  Mat Landsbankans hljóðaði upp á 10 milljarða króna og miklar líkur til að verðið myndi a.m.k. þrefaldast á næstu árum.  Annar banki komst að svipaðri niðurstöðu.  Þetta eru mjög athyglisverðar upplýsingar í ljósi þess umróts og deilna sem skekið hafa fyrirtækið og stofnendur þess á liðnum árum. 

Eins og flestir ættu að muna var Lína.net verkefni á vegum Orkuveitu Reykjavíkur.  Stjórnarformaður OR á þessum tíma var Alfreð Þorsteinsson og var hann mjög áfram um vöxt og viðgang þessa verkefnis.  Af hálfu þáverandi minnihluta var allt sem viðkoma Línu.net gagnrýnt harðlega og talin alger sóun á fjármunum.  Þar gekk borgarfulltrúinn Guðlaugur Þór Þórðarson harðast fram og var á tíðum mjög óvæginn og persónugerði gagnrýni sína og andstöðu í garð Alfreðs.

Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar var málið mjög í brennidepli og notað til linnulausra árása á þáverandi meirihluta og fyrst og síðast Alfreð sem var úthrópaður sem einn af spilltustu stjórnmálamönnum landsins og jafnvel lagður í stokk með Finni Ingólfssyni og Árna Johnsen hvað það varðar.

Í ljósi þessa er ótrúlegt að heyra hver vöxtur og viðgangur þessa fyrirtækis er orðinn og „fimm milljarða sóunin" virðist vera orðin ansi mikils virði.

Ég vil taka fram að ég hef ekki neitt dálæti á framsóknarmönnum og tel margt af því þeir hafa staðið fyrir nánast vera eins og hryðjuverk gegn þjóðinni.  Má þar tiltaka alls kyns hafta og sérhagsmunapólítík, t.d. er  kvótasetning fiskveiða gott dæmi.  Varðandi Alfreð hef ég á tilfinningunni að hann sé langt frá því eins slæmur og pólitískir andstæðingar hans hafa útmálað hann.  Sumir hafa bent á Orkuveituhúsið (það ljóta hús)  og framúrkeyrslu fjármuna við byggingu þess.  En er það ekki nánast aðgild regla við opinberar byggingar að framúrkeyrslan fari svo og svo mikið framúr.  Ég minnist þjóðarbóhlöðu, perlu og ráðhúss svo eitthvað sé nefnt.  Ég held að sagan sé að sýna okkur framsýni og elju karlsins sem alltaf hélt sinni stefnu hvað sem aðrir sögðu.  Kannski ekki það lýðræðislegasta en skilar árangri.

Eftir að hafa látið af starfi stjórnarformanns OR var karlinn gerður að formanni byggingarnefndar nýs hátæknisjúkrahúss.  Það mál er reyndar efni í nokkrar boggfærslur.  Hans gamli andstæðingur, Guðlaugur Þór Þórðarson er nú sestur í stól heilbrigðisráðherra.  Og hann lætur Alfreð gossa.  Jamm og já.

Eru einhverjir fleiri en ég sem finna pólítíska skítalykt?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er alveg sammála skrifum þínum. Það var alveg ótrúlegt hvernig djöflast var á þessu verkefni, Línu.net. Þetta náði engri átt. En frábært að það sé hægt að troða þessu upp í þá sem höfðu sig mest fram á sínum tíma hvað þetta batterý er metið á í dag. SÓUN fjármuna my arz. Þetta segir okkur bara hvað það er engan veginn samasemmerki milli þess að vera í pólitík og hafa vit á rekstri og viðskiptum og viðskiptatækifærum.

Vildi það væri hægt opinberlega að fá gömlu andstæðinga línu.net til að þurfa að lesa upp í sjónvarpi fyrri orð sín og svo segja hvað fyrirtækið er metið á í dag... það væri snilld

:o)

Ingólfur Bjarni Sveinsson (IP-tala skráð) 21.9.2007 kl. 10:01

2 Smámynd: Emelia Einarsson

Athyglisvert.

Emelia Einarsson, 21.9.2007 kl. 21:31

3 Smámynd: Emelia Einarsson

Er þetta staðreynd sbr.:  Þar gekk borgarfulltrúinn Guðlaugur Þór Þórðarson harðast fram og var á tíðum mjög óvæginn og persónugerði gagnrýni sína og andstöðu í garð Alfreðs." ?

Emelia Einarsson, 21.9.2007 kl. 21:34

4 Smámynd: Eggert Aðalsteinn Antonsson

Fjallar ekki málið um hvernig stjórnmálamenn leyfa sér að nota almannafé í áhættufjárfestingar. Það vill oft gleymast að OR er eign borgarbúa sem hafa með gjaldi fyrir heita vatnið byggt upp fyrirtækið sem síðan hefur fært út kvíarnar á þeim grunni og farið út í umfangsmeiri virkjanir. Það hefur einnig komið fyrir að stjórnmálamenn hafa farið eins að og fjárfest fyrir almannafé og tapað því. Þá eru þeir fordæmdir fyrir sama verknað.

Eggert Aðalsteinn Antonsson, 21.9.2007 kl. 21:42

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ekki hef ég nein gögn handbær Emilía. Hitt tel ég mig mega fullyrða að umræddur Guðlaugur Þór hafi gengið AFAR hart fram í ádeilum á Alfreð vegna þessa máls. Og nokkuð er víst að Alfreð þótti ekki trúverðugur í röðum andstæðinganna þegar hann færði rök fyrir því að Þetta fyrirtæki væri gullegg OR. Sjálfur var ég einn í hópi þeirra fjölmörgu sem trúði á fjármálaspeki sjallanna í þessu máli. Ekki eina skiptið sem ég hef látið fólk úr þeim flokki blekkja mig. 

Nú er það liðin tíð. 

Árni Gunnarsson, 21.9.2007 kl. 22:37

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þörf ábending Anna K. Ég hef litlar mætur á Framsóknarflokknum svo mitt álit er ekki litað af pólitík. Menn eiga að fá að njóta sannmælis án pólitískrar "réttsýni."

Árni Gunnarsson, 22.9.2007 kl. 00:14

7 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Eggert:  Lína.Net var aldrei áhættufjárfesting.  Tilkoma fyrirtækisins kom af brýnni þörf fyrir háhraðanetstengingar sem ríkisrisinn, þá Landssíminn, hafði ekki dug né döngun að ráðast í.  Þrátt fyrir mikil fjárútlát OR til Línu.Nets var þjónustan góð og bætti úr brýnni þörf. 

Ég var á þeirri skoðun á tímabili að þetta væri fjáraustur hinn mesti og allt yrðu þetta tapaðir peningar.  Þetta hélt ég þrátt fyrir að menn mér fróðari segðu mér annað.  Ergo:  Guðlaugur Þór sem ég hef haft tröllatrú á hefur hrapað niður minn topp tíu lista.  Hann skuldar okkur kjósendum skýringar.

Varðandi Alfreð Þorsteinsson.  Af þeim sem þekkja manninn og verk hans liggur flestum gott orð til hans.  Hann þykir ábyggilegur, ósérhlífinn og heiðarlegur í þeim verkum sem hann hefur tekið sér fyrir hendur.  Manninn þekki ég ekki persónulega  og hefði seint trúað því að ég hætti eftir að hæla honum opinberlega. 

Sem sagt ég hafði rangt fyrir mér í þessu máli.  Og verð að éta það ofan í mig.  Og ég held að Guðlaugur Þór ætti að gera það líka.  Ekki seinna en strax.  Hann yrði maður að meiri.

Sveinn Ingi Lýðsson, 22.9.2007 kl. 13:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband