Færsluflokkur: Bloggar
Fimmtudagur, 11. janúar 2007
Snjórinn gleður
Loksins snjóaði lítilsháttar hér á höfuðborgarsvæðinu. Snjóaði og það gladdi mig. Mér finnst að á veturna eigi að ríkja frost og snjór. Ekki sífelldar umhleypingar og rigningarhraglandi. Við megum ekki við því hér í þessum norðurmyrkvaða hjara veraldar. Með snjónum kemur birtan fyrr á morgnana og það dimmir seinna á kvöldin og einhvern hátt finnst manni veturinn fljótari að líða.
Svo finnst mér líka gaman að keyra í snjó. Ekki endilega á jeppa. Skemmtilegast er að spreyta sig á smábíl einsdrifa. Ég reyni alltaf að nota tækifærið þegar kemur hálka eða snjór og dríf ökunemana mína út að keyra. Þeir fá ekki mörg tækifæri til þess og nauðsynlegt er að kenna þeim réttu viðbrögðin og hegðunina í vetrarakstri. Þetta finnst þeim skemmtilegt. Oft finnum við okkur autt bílastæði að kvöldi og leikum okkur þar við bremsuæfingar, handbremsubeygjur og "sliding". Þetta leiðir hugann enn og aftur að þeirri furðustaðreynd að enn (það er 21. öldin ef einhverjir vita það ekki) hefur ekki verið komið upp aksturskennslusvæði á Íslandi. Þó virðist einhvað vera að rætast þar úr. Vonandi. Ég hef séð þessu lofað aftur og aftur en engar hafa efndirnar verið.
Allt verður svo hreint í snjónum. Nema göturnar sem liggja þvers og kruss eins og skítugar skóreimar þar sem litarefnið verður til út salti, snjó, tjöru áfoki, sóti og annarri mengun frá bílunum. Og það er aldrei skemmtilegra að fara í gönguferð um Heiðmörkina með tíkina.
Hún kann líka að meta snjóinn....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 7. janúar 2007
Hvenær er verður foss að flúð?
Það verður ekki af sunnlendingum skafið að þeir séu frjóir í hugsun og uppátektasamir. Nýjasta fyrirbærið er útifundur sem sem ritstjóri nokkur á Suðurlandi hafði boðað til við bæinn Urriðafoss á Þjórsárbökkum. Um hvað snerist svo þessi útifundur? Var hann til stuðnings virkjun á svæðinu eða var hann boðaður mót henni?
Af fréttum verður trauðla í ráðið. Ritstjórinn hélt ræðu og kom m.a. fram í sjónvarpi. Bæði þar og í blaðafréttum talar hann í austur og vestur. Jú það má virkja en ekki til að fóðra enn einn álrisann eins og hann kemst svo skemmtilega að orði. Það á bara að finna aðrar leiðir til þess og bendir á Búðarhálsvirkun sem hann segir vera hálfkláraða . Ok. Samt segir hann mega virkja þarna, bara til annarra nota. Hver er munurinn, ég spyr? Þarna töluðu fleiri þ.a.m. bóndinn á Urriðafossi sem taldi sjálfsagt að virkja þarna. Hver var tilgangur fundarins? Má ég geta mér til að ritstjóranum hafi vantað athygli en nýverið lagðist hann á árarnar með öðrum framsóknarmönnum og bauð sig fram til þingmennsku á Suðurlandi. Og viti menn, hann fékk athyglina? Heldur betur. Jólasveinar vekja alltaf athygli jafnvel þótt pokinn þeirra sé tómur.
Víkjum að Urriðafossi. Nýverið hef ég heyrt tal og skrif manna um að alls ekki megi fórna fossinum í virkjun og að hann sé með mestu náttúruundrum á svæðinu. Misjafnt er mat manna á gæðum þessa lands og annarra. Í fyrsta lagi sé ég engan foss þarna. Í mesta lagi flúð þar sem kannski einu sinni var foss sem áin er löngu búin að brjóta niður. Vissulega er alltaf gaman að horfa á kraftmiklar flúðir í stórám en að kalla þetta foss.....
Meira um þetta síðar
![]() |
Fjölmenni á útifundi við Urriðafoss |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 5. janúar 2007
Hættulegustu 15 sentimetrarnir
Fjörutíu og sex óhöpp í umferðinni voru tilkynnt til lögreglu í dag. Væntanlega annað eins sem ökumenn hafa afgreitt á staðnum og sent síðan beint til tryggingafélaga sinna. Hálku er um að kenna. Já að fór ekkert á milli mála að víða var hálka á götum í dag en svo virðist á annað hvort séu ökumenn ónæmir fyrir henni, svo og öðrum aðstæðum, því aksturlag þeirra var eins og á björtum þurrum sumardegi. Í ökukennslunni eru lögð mikil áhersla á að ökuhraði fari í fyrsta lagi eftir ytri aðstæðum, í öðru lagi eftir gerð og búnaði bíls, í þriðja lagi eftir hæfni og getu ökumanns og í fjórða lagi að gildandi reglum um hámarkshraða hverju sinni.
Því miður virðist þetta ekki ná til ökumanna og í morgun varð ég vitni að hreint ótrúlega glæfralegum akstri olíuflutningabíls af stærstu gerð. Ég sá hann fyrst við Engidal í Hafnarfirði og svo ók hann norður Hafnarfjarðarveginn. Þessi bílstjóri lét sig ekki muna um að aka yfir á rauðu ljósi við Lyngás, fara í "stórsvigi" á milli akreina á miklum hraða. Í smástund prófaði ég að aka á sama hraða, þá samsíða honum og þá sýndi GPS leiðsögubúnaður í mínum bíl 105 km hraða. Ég hægði strax á en varð hugsað til hvort vinnuveitandi bílstjórans væri ánægður með hegðun hans. Tæplega trúi ég því þar eð bíllinn var rækilega merkur eiganda sínum. Þetta var snemma í morgun, lítil umferð, en víða voru mjög lúmskir hálkublettir. Það virtist engin áhrif hafa á aksturslag manna en á leiðinni af Álftanesinu niður í bæ ók ég framhjá tveim dæmigerðum "hálkuóhöppum". Þar er einhvern veginn greipt inn í okkar sinni að kenna allaf einhverju öðrum um lendi menn í óhöppum. Það er hálka, lausamöl, illa hannaður vegur o.s.fr.
Auðvitað mega bílarnir vera betri, vegir betri og breiðari en allar rannsóknir sem gerðar hafa verið á orsökum umferðarslysa (eins og annarra slysa) gefa skýrt og greinilega til kynna að flest slys verða vegna vankunnáttu, vanmats á aðstæðum, ofmati á bifreiðinni og eigin getu auk þess sem ökumaðurinn er oft ekki með hugann við aksturinn.
Akstursleiðin frá A til B er X-vegalengd. Það skiptir litlu máli hvað hún er löng og hvaða aðstæður verða á veginum. Hættulegasti vegarkafli leiðarinnar er ekki nema 15 sentimetra langur. Þ.e. 15 sentimetrarnir á milli eyrnanna á okkur sjálfum.
![]() |
46 umferðaróhöpp á höfuðborgarsvæðinu í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 1. janúar 2007
Þessir íslendingar!
sagði Jón Gnarr í hlutverki sínu í Áramótaskaupinu í gærkvöldi. Mér fannst þetta skaup frábært og passa vel við minn húmor - enda er ég með einsstaklega góðan, hárfínan og fágaðan húmor. Eða var ekki lagt upp með slikt í skaupinu. Marga veit ég um sem ekki stökk bros allan tímann. Ótrúlega margir sem hafi þennan þroskuðu skynjun á hvað sé góður húmor og hver sé slæmur.
Gnarrinn var frábær sem og Þorsteinn Guðmundsson auk margar annarra sem alltof langt væri að telja upp hér. Óvanalega langur leikaralisti. Ég horfði aftur á það í dag og líkaði bara betur.
**** - fjórar stjörnur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 1. janúar 2007
Að morgni fyrsta dags
Það alltaf svo sérstakt að koma út á nýjársdagsmorgun. Dauðakyrrð, nánast engir bílar á götunum nema einstaka örþreyttur leigbílstjóri að aka síðustu gestunum heim úr áramótapartíunum. Um stéttir og torg liggja raketturprik, útbrunnin stjörnuljós og skottertur. Enn er reykjareimur í loftinu.
Lögskipaður fánadagur í dag en það eru ekki margir sem hafa rifið sig upp úr koníaks og kampavínsþynnkunni til að draga þann bláa upp. Frostið í nótt hefur myndað hrím og öllu og allt virðist svo ósnortið, kannski líkt og að morgni fyrsta dags.
Fyrsta dags nýs árs. Árs sem felur í sér hið óþekkta, sigra og sorgir, vonir og væntingar. Síðasta ár er að baki og kemur ekki aftur hvort sem okkur líkar betur eða verr. Við höldum inn í árið full bjartsýni og vona að það verði enn betra en það síðasta.
Ég þakka ykkur öllum fyrir gamla árið og óska ykkur gleðilegs árs
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 31. desember 2006
Köld slóð
Settist með popp og kók í lúxussalinn í Smárabíó, hallaði mér aftur í sætinu og horfði á þessar illþolandi "trailera" sem allaf fylgja á undan myndunum. Myndin er auglýst sem spennu- og hasarmynd en hún stendur tæplega undir því nafni. Til þess er atburðarásin allt of hæg og framan af myndinn gerist allt of lítið.
Eftir hlé (sem er jafn illþolandi og treilerarnir) fara hlutirnir fyrst að gerast, söguefnið er gott en hér komum við að helsta veikleika íslenskra kvikmynda sem er lélegt handrit. Ýmsir hlutir í sögunni ganga mjög illa upp eða eru fyrirsjáanlegir. Það er margt í handritinu sem ekki virka. Því miður.
Það margt vel gert þarna, myndatakan afbragðsgóð og leikmyndin mögnuð. Þarna á Þröstur Leó afbragðsleik svo og þau Elva Ósk, Helgi Björns og Anita Briem. Aftur á móti fannst mér Hjalti Rögnvaldsson ekki ná sér á flug í myndinni og hafa oft gert betur.
Þrátt fyrir ágallana eru kostirnir yfirgnæfandi í mínum huga og ber að hvetja alla sem vettlingi geta valdið að sjá hana. Þó ekki nema til að sjá ofangreinda stórleikara fara á kostum.
Góða skemmtun
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 29. desember 2006
Að hengja feminista?
Af flestum fjölmiðlum má telja að Saddam Hussein kembi ekki hærurnar að morgni og svo sem hefur farið fé betra. Hins vegar mætti telja að miðað við ástandið eins og það virðist vera í Írak að afskaplega misráðið sé að hengja karlinn núna. Það hlýtur að vera nokkuð örugg aðferð að búa til píslarvott. Menn skulu ekki gleyma því að karlinn á sér fjölda stuðningsmanna í hópi Sunníta, þeirra sem öllu réðu í valdatíð hans. Þetta er tæplega það sem íraska þjóðin þarfnast núna.
Innrásin og framhaldið af henni hlýtur að teljast einhverra skelfilegustu mistaka síðustu áratuga. Nógu slæmt var ástandið fyrir þegar fjöldi bókstafstrúarmanna í hópi múslima hataðist úr í BNA og Breta. Sú ótrúlega heimska að halda að hægt sé að útrýma hryðjuverkum með stríði er orðin okkur dýr og á örugglega eftir að vera okkur enn dýrari þegar fram líða stundir.
Fyrir tveim árum hitti ég fullorðinn sænskan kaupsýslumann í Tyrklandi og átti við hann langt spjall. Sá sænski stundaði nokkur viðskipti í Miðausturlöndum og við Persaflóann og sagðist farinn að þekkja nokkuð vel til eftir 30 ár á svæðinu. Stjórnmálaástand sagði hann víða vera ótryggt og í arabaríkjunum ríktu soldánar sem væru hreinir og klárir einræðisherrar í ríkjum sínum. Réttarfar eins og við Vesturlandabúar þekktum væri ekki til í þessum ríkjum nema helst þá í Írak og Jórdaníu. Og þrátt fyrir mörg grimmdarverk Saddams hefði hann leitt landsmenn sína til mikilla framfara, fyrst og fremst með þvi að aðskilja ríki og trú, koma á skólaskyldu og auka heilsugæslu, banna konum að ganga með blæjur og körlum að taka sér margar konur. Eins lögskipaði hann algert jafnrétti karla og kvenna. Þessu framfylgdi karlinn og hirð hans af hörku sbr. fjöldmorð á Kúrdum og Shítum í Suður-Írak bera vitni um.
Þannig sagði sá sænski frá og færðist allur í aukanna þegar hann útnefndi Saddam feminista nr. 1 á svæðinu. Þarna var mér nóg boðið og hætti að trúa. Eftir heimkomuna fór ég að afla mér hlutlausra upplýsinga og komst að því að flest af því sem hann hafði sagt mér reyndist vera rétt. Kvenfrelsi væri mun meira í Írak en nokkru öðru landi á þessum hluta jarðarinnar. Svíinn sagði það grátlegt að horfa upp á eyðilegginguna og á örfáum mánuðum hefði BNA-mönnum og Bretum að skjóta og spengja landið nánast aftur í tíma um 50 - 60 ár. Núna væri gósentíð hjá bóksstafstrúarmönnum og þarna stefndi beint í illvíga borgarstyrjöld milli sunníta og shíta.
Ekki datt mér í hug að segja þessum sænska vini mínum frá því að Íslendingar hefðu verið í hópi hinna staðföstu og sagt Írökum stríð á hendur. Ég hreinlega skammaðist mín fyrir það. Og viti menn, flest það sem hann sagði mér þarna fyrir tveim árum á hótelbar í Antayla í Tyrklandi hefur gengið eftir.
Svo þeir ætla að hengja feminista á morgun......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 28. desember 2006
Þekkir þú einhvern sem hefur þurft að leita að?
Enn er vegið að björgunarsveitum landsins. Þessar ómetanlegu sjálfboðaliðasveitir sem fjármagna sig að stórum hluta með flugeldasölu nokkra daga á ári. Ég þekki það starf að eigin raun sem unnið er í sveitunum og þekki þann ódrepandi áhuga, elju og ósérhlífni sem þar ræður ríkjum. Fjárhagslegur grundvöllur þeirra hefur verið flugeldasalan og um það hefur verið sátt áratugum saman í samfélaginu og þannig skuli það vera. Björgunarsveitirnar hafa heldur ekki sótt í "sérmerktar" fjáraflanir annarra líknarsamtaka.
Nú er þessi sátt í uppnámi þar sem nokkrir einkaaðilar hafa séð sér hag í því að maka þarna krókinn. Vissulega má finna marga vöruna sem er ódýrari en hjá Landsbjörgu. Það er bara ekki málið. Málið er að með kaupum á flugeldum hjá Landsbjörgu erum við að leggja okkar af mörkum til að tryggja okkar eigið öryggi svo og öryggi okkar nánustu. Ég kaupi mína flugelda hjá Landsbjörgu með gleði, gleði yfir væntanlegri einkaflugeldasýningu í bakgarðinum heima og gleði yfir því að hafa lagt mitt af mörkum. Að hverjum þarf að leita næst? Þér?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 28. desember 2006
Skrípaleikur með skatta
Ég hlakka til þess dags þegar einhver stjórnmálasamtök eða menn afnema þann óréttláta skatt, tekjuskattinn. Hann er óverulegur hluti skatttekna en leggst af ofurþunga á millitekjufólk. Þessi skattur sem eru leifar af aldagamalli tíund er orðin hrein tímaskekkja í nútímaþjóðfélagi.
Sem sagt burtu með tekjuskattinn, setjum flatan undanþágulausan virðisaukaskatt og kreistum neðanjarðarhagkerfið upp yfirborðið.
![]() |
Skattur lækkar meðan gjöld hækka um áramót |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 27. desember 2006
Nágrannakærleikur Alcan
Mikið er nú gott að vera Hafnfirðingur og eiga Alcan að. Þeir hugsa sko um sína menn (Hafnfirðinga) og til að gleðja hann Jón og aðra Hafnfirðinga sendi fyrirtækið honum og hinum Hafnfirðinginum upptöku af tónleikum næstbesta sonar Hafnarfjarðar þar sem hann söng með sinfó og alles um daginn. Þar voru allir voða hrifnir og glaðir.
Getur nokkuð verið að Alcan sé að undirbúa ákvarðanatöku um stækkun álvers? Þessi glaðningur og svo kannski krúttlegt páskaegg nr. 5 í vor breytir kannski afstöðu einhverra óákveðinna kjósenda?
Spyr sá er ekki veit....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)