Snjórinn gleður

Loksins snjóaði lítilsháttar hér á höfuðborgarsvæðinu.  Snjóaði og það gladdi mig.  Mér finnst að á veturna eigi að ríkja frost og snjór.  Ekki sífelldar umhleypingar og rigningarhraglandi.  Við megum ekki við því hér í þessum norðurmyrkvaða hjara veraldar.  Með snjónum kemur birtan fyrr á morgnana og það dimmir seinna á kvöldin og einhvern hátt finnst manni veturinn fljótari að líða.

Svo finnst mér líka gaman að keyra í snjó.  Ekki endilega á jeppa.  Skemmtilegast er að spreyta sig á smábíl einsdrifa.  Ég reyni alltaf að nota tækifærið þegar kemur hálka eða snjór og dríf ökunemana mína út að keyra.  Þeir fá ekki mörg tækifæri til þess og nauðsynlegt er að kenna þeim réttu viðbrögðin og hegðunina í vetrarakstri.  Þetta finnst þeim skemmtilegt.  Oft finnum við okkur autt bílastæði að kvöldi og leikum okkur þar við bremsuæfingar, handbremsubeygjur og "sliding".  Þetta leiðir hugann enn og aftur að þeirri furðustaðreynd að enn (það er 21. öldin ef einhverjir vita það ekki) hefur ekki verið komið upp aksturskennslusvæði á Íslandi.  Þó virðist einhvað vera að rætast þar úr.  Vonandi.  Ég hef séð þessu lofað aftur og aftur en engar hafa efndirnar verið.

Allt verður svo hreint í snjónum.  Nema göturnar sem liggja þvers og kruss eins og skítugar skóreimar þar sem litarefnið verður til út salti, snjó, tjöru áfoki, sóti og annarri mengun frá bílunum.  Og það er aldrei skemmtilegra að fara í gönguferð um Heiðmörkina með tíkina.  

Hún kann líka að meta snjóinn.... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband