Færsluflokkur: Bloggar
Miðvikudagur, 27. desember 2006
Bílastæðasjóður. Þjónusta eða hvað...?
Brá mér ásamt konu og dóttur í bæinn á Þorláksmessukvöld, aðallega til að hitta frændfólk konunnar minnar og lykta aðeins af stemmingunni í bænum. Þar sem Bílastæðasjóður Reykjavíkur er alltaf að auglýsa sig og sína góðu þjónustu ákvað ég að láta til leiðast og lagði bílnum í Ráðhúskjallaranum við Tjarnagötu. Auk þess hafði sjóðurinn auglýst að frítt væri í öll bílastæðahús þennan mesta verslunardag ársins.
Þar stóð skýrt og skilmerkilega að húsið yrði opið til miðnættis. Þegar við ætluðum að sækja bílinn og komum að dyrunum var komið fram yfir miðnætti, meira að segja heilar tvær mínútur. Og viti menn auðvitað var hurðin að lokast þannig að við komust ekki inn. Svo var reyndar um fleiri sem þarna voru að sækja bíla sína.
Þegar átti að ræsa húsvörðinn í Ráðhúsinu svaraði hann ekki hringingu á dyrabjöllu. Kannski hefur hann talið okkur vera einhverja fyllirafta því hann lét ógert að svara okkur þrátt fyrir að við sæjum hann innan dyra. Þá var næst að hringja í neyðarnúmer Reykjavíkurborgar, 411 1111, en það var sama hversu mikið var reynt, aldrei fékkst samband nema við símsvarann, hvaðan elskuleg kvemannsrödd sagði: Ýttu á einn ef þú vilt... ýttu á 2 ef þú vilt... o.sv.fr. Málið var bara að ekkert af þessum fínheitum virkaði.
Nú þar sem ætluðum ekki að gista undir vegg í Ráðhúsinu tókum við leigubíl heim á Álftanesið (sem auðvitað kostaði skildinginn). Morgunin eftir fletti ég bílastæðasjóði upp á netinu þar sem kom fram að opið væri frá kl. 08:30 - 13:00. OK, þá væri bara að láta skutla sér og ná í kvikindið. Ónei, ekki var sopið kálið þótt í ausuna væri komið. Ráðhúskjallarinn var harðlokaður og alveg eins og um kvöldið; það var ekki hægt að ná í neinn til svara.
Sem sagt urðu lyktir þær að bíllinn var í gíslingu Bílastæðasjóðs öll jólin og þegar ég kom til að ná í hann í morgun (og búið var að opna, vááá) beið mín 3790 króna skuld. Ég var að sjálfsögðu ekki sáttur en fékk nú öllu þægilegri móttökur því núna gat ég talað við stæðavörðinn í eigin persónu, ekki símsvara. Eftir að hafa hlustað á þessar hrakfarir mínar féllst hann með semingi að hleypa mér út með því að búa til 80 króna kort þannig að ég kæmist nú út úr húsinu. En loforð tók hann af mér að ég yrði að ræða þetta mál við varðstjóra í höfuðstöðvum sjóðsins sem og ég að sjálfsögðu gerði.
Eftir svona trakteringar veltir maður fyrir sér hugtakinu þjónusta, hvað er þjónusta og fyrir hverja er hún?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 27. desember 2006
....og hversdagurinn er upp runninn
Þá eru hátíð munns og maga að baki og við tekur grámylgulegur hversdagsleikinn. Annars voru þetta yndisleg jól´með fjölskyldunni, jólatré, hamborgarhrygg, jólagjöfum og alles. Barnabörnin voru nærri drukknuð í jólagjafaflóðinu sem skall á eftir hrygginn. Sem betur fer komu við þessi fullorðnu þeim til bjargar og drógu að landi. Sem sagt sumar gjafanna flutu fram hjá í bili en eiga eftir að finnast á fjörum síðar.
Á jóladag var hefðbundið fjölskylduboð og svo skreið minn maður undir sæng með Konungsbók Arnaldar. Varð að leggja hana frá mér hálflesna þegar svefninn sótti að.
Helgi Björnsson hagyrðingur á Snartarstöðum í Lundarreykjardal orðaði jólin ansi skemmtilega á jólakorti fyrir margt löngu síðan þegar við sátum í dönskutíma hjá Sveini Víkingi í Reykholtsskóla:
Hátíð þessi haldin er
til heiðurs munni og maga
megi græðgin gefa þér
góða jóladaga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 22. desember 2006
Rokrass
Veðrið er í aðalhlutverki þessa síðustu daga fyrir jól. Núna er verið að spá enn einni skruggulægðinni upp að vesturströndinni. Allur er varinn góður og við feðgarnir fórum og fjarlægðum grillið +/- 100 kg af sólpallinum. Það er ekkert grín ef það fer af stað.
Þetta er barasta ekkert jólaveður, hlýindi, rigningar og auð jörð í svartasta skammdeginu. Mér finnst þetta langleiðinlegasti árstíminn, þetta eilífa myrkur. Ég er maður ljóss og birtu og nýt mín í botn bjarta langa sumardaga. Þetta gæti þó verið betra, bara ef það væri nú snjór. Snjórinn lýsir upp og léttir skammdegið til muna en það ágæta hvíta stöff hefur varla sést hér síðustu 10 árin eða svo nema í sýnishornaformi.
Það er af sem áður var (að mig minnir) þegar oftast var snjór og frost á jólum. Minn vetur á að vera frost og snjór, já mikill snjór, frá miðjum október fram í miðjan mars. Þá má vorið koma með dírrindí og alles. Þá kætist minn maður.
Tveir ljósir punktar: Fyrst að dagurinn í dag var 1 sekúndu lengri en gærdagurinn og morgundagurinn verður 4 sekúndum lengri en dagurinn í dag. Seinni punkturinn er að það eru að koma jól. Jól með ljósum, smá andagt, samveru með fjölskyldu, borða á sig gat, taka við gjöfum og gefa gjafir. Skríða upp í rúm með nýju bókina sem ég reif pappírinn utan af rétt áður og lesa mig í svefn....ZZZZZ
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 21. desember 2006
Út úr Byrginu
Það var ekki gæfulegt að horfa á Ísland í dag á Stöð 2 í kvöld. Ég held að hverjum manni sé ljóst eftir þennan vitnisburð auk annars sem fram hefur komið að forstöðumaðurinn hefur meira en lítið af óhreinu mjöli í sínu pokahorni. Það er grafalvarlegt mál og klárt brot á hegningarlögum að misnota sér traust skjólstæðinga sinna. Hann var nú einu sinni forstöðumaður meðferðarheimilis eða hvað sem mál kalla það annars og svona haga menn í þeirri stöðu sér ekki.
Hitt er svo annað mál hver fjármálastjórnin hefur verið og hver sé ábyrgð stjórnmálamanna og embættismanna kerfisins á þeirri botnlausu óreiðu sem þar hefur viðgengist með fjármuni almennings.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)