Það er lífsnauðsyn að vera bjartsýnn - er það ekki?

Nágranni minn hefur dregið íslenska fánann að húni í morgun, sumardaginn fyrsta.  Hann gerir þetta með mikilli samviskusemi alla fánadaga.  Það er mikil prýði að þessu og stundum hef ég hugsað til þess að fá mér sjálfur fánastöng og flagga á tyllidögum.  Einhvern veginn hefur ekkert orðið úr þessu.  

Svo sannarlega frusu saman sumar og vetur.  Hitamælirinn sýndi -5°C kl. hálf átta þegar ég staulaðist niður í hafragraut, kaffi og lestur morgunblaðanna.  Sólin skein og þrátt fyrir frostið var mikið fjör hjá störunum sem hömust eins og óðir í vorverkum sínum.  Reyndar eru menn misjafnlega hrifnir af vorverkum þeirra sem leitt geta til flóaplágu ef óvarlega er farið.

Samkvæmt þjóðtrúnni veit á gott þegar vetur og sumar frjósa saman.  Það er fátt eins lýsandi fyrir bjartsýni þessarar eyþjóðar á mörkum hins byggilega að halda upp á sumardaginn fyrsta þegar víðast hvar er enn vetur, berja sér á brjóst þegar gaddurinn og hríðarbylurinn hafa skekið landið og draga fram eitthvað jákvætt;  já það hlýtur að vita á gott þegar frjósa saman sumar og vetur!  Yndislegt!

ÉG reyni að vera þessari bjartsýni trúr eftir bestu getu.  Auðvitað vona ég að vorið og sumarið verði gott, sólríkt en samt með hæfilegri vætu svona inn á milli.  Það er svo gott fyrir gróðurinn segja menn þegar rignir dögum og jafnvel vikum saman.  Alltaf sami bjartsýnistónninn.  Kom ekki fram í einhverri könnun að við væru bjartsýnasta þjóð í heimi?  Jú gott ef ekki var.  Enda okkur nauðsynlegt.  Við einfaldlega búum á þannig stað á móður Jörð.

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn. 


Endurreisn á Vestfjörðum - Vonandi

Ég verð að játa það hreinskilnislega að mér fannst ekki mikið til koma hugmynda um olíuhreinsun á Íslandi.  Allra síst á mínum ástkæru Vestfjörðum.  Nei, aldeilis ekki.  Nú er ég búinn að liggja yfir alls kyns upplýsingum sem góðvinur minn, Mr. Google, hefur veitt mér af rausnarskap sínum.

Eftir notadrjúgar samræður okkar félagana, Mr. Google, og mín hafa runnið á mig tvær grímur.  Er þetta kannski ekki svo vitlaust eftir allt.  Eftir því sem ég kemst næst mun þessi starfsemi ekki vera jafn illa mengandi, né hættuleg eins og ég taldi í fáfræði minni.  Allstaðar í nágrannalöndunum eru svona hreinsunarstöðvar, hafa starfað þar án vandræða eða mengunar annarar en sjónmengunar.  Þessar stöðvar eru svo sem ekkert augnayndi.

Ísland er allt í einu að komast í miðpunkt skipasiglinga norðurhafa og þar er staðreynd sem við breytum ekki.  Hins vegar eigum við að nýta þau sóknarfæri sem slíkar breytingar gefa okkur.  Þ.á.m. hugsanlega olíuhreinsistöð á Vestfjörðum, t.d. í Haukadalnum. 

Slíkt fyrirtæki gæti breytt miklu um búsetu og afkomumöguleika Vestfirðinga.

Vonandi.


Að bukka sig og beygja

Í eina tíð var almenningi gert að líta með undirgefni og virðingu til höfðingjastéttarinnar og menn bukkuðu sig og beygðu fyrir prestinum, sýslumanninum og jafnvel fyrir hreppstjóranum.  Þarna voru á ferð yfirstétt landsins sem öðrum var gert að þjóna og þéna.

Mér var hugsað til undirleitra ölmusumanna þegar ég horfði á sjónvarpsútsendingu af kosningafundi á Ísafirði nú í kvöld.  Sérkennilegt hátterni stjórnenda er viðhaft þegar spurningar koma utan úr sal.  Þetta hátterni felst í því að stjórnandi heldur hljóðnema það lágt að fyrirspyrjandinn þarf að vera í einum keng þegar spurningin er upp borin.  Sumir eru líka óvanir sviðsljósinu er eru bullstressaðir og þetta er ekki til að bæta á.  

Jafnframt er fólk lítillækkað þegar stjórnandinn nánast æpir:  "Hver er spurningin? Ætlarðu að koma með spurningu?" og annað í þeim dúr.  Sumar fyrirspurnir eru einfaldlega þess eðlis að hafa þarf nokkurn formála að.  Mér þótti þetta sérlega miður að fólk sé lítillækkað með þessum óskammfeilna hætti.  Getur verið að þessir stjórnendur séu farnir að líta á sig sem einhver aðal eða er þetta kannski merki um óöryggi og minnimáttarkennd.

Fróðlegt væri að heyra skoðanir fólks á þessu.

P.S.  Einna verst þótti mér að Sigmar Guðmundsson ofurbloggari og minn uppáhaldssjónvarpsmaður er einna verstur í þessu.  Alla vega í kvöld.  Kannski var hann minnugur þess þegar hann missti alla stjórn á töfradís Samfylkingarinnar, Kristrúnu Heimisdóttur, í kappræðu Kastljóss í síðustu viku.

Hver veit? 


Fætur sela og hunda. Fréttablaðið í dag.

Skondin frétt á forsíðu Fbl í dag um skrítinn sel með hundsfætur.  Þessi selur sem kallast Kampselur er búinn að vera í Straumsvíkinni s.l. þrjár vikur, fjöldi fólks hefur skoðað hann, fréttir birtst í blöðum og ljósvakamiðlum auk þess að fá sérstaka umfjöllum á vorri bloggsíðu

Þó grannt sé skoðað sjást engir hundsfætur.

 


N1 skandallinn eða hvað?

Frekar er nú hugmyndaauðgi þeirra markaðs- auglýsingamanna af skornum skammti þegar merki fyrirtækisins N4 er tekið og afbakað og klesst síðan á bensínstöðvar og bílapartasölur.  Logoin eru svo sláandi lík að ekki verður framhjá vikist hjá að þeir geri rækilega grein fyrir tilurðinni.

Ef þarna á að vera með einhvern orðaleik þá er þetta algerlega misheppnað; enneinvitleysan, og dettur mönnum í hug að almenningur gleymi misgjörðum fyrirtækisins í garð hans.  

Olíufélag í Danaveldi heitir Q8, hljóðlíkingin er þá kúeit, kuweit.  Hér er að bara N1, enneinn skandallinn.

 

Sorrý! 


mbl.is N4 kannar réttarstöðu sína vegna nafns og firmamerkis N1
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiktjöld fáránleikans

Sviðið er Verðlagsstofa skiptaverðs.  Þar er leikritið samið, æft og flutt og allir klappa fyrir leiksýningu í boði LÍÚ.  Gaman væri nú að fá reiknispekinga háskólans, t.d. "dramatúrgin" Ragnar Árnason kvótaprófessor til að reikna út arðsemi fjármuna sem varið er til kvótakaupa.  Hvernig ætla hann og LÍÚ að sýna okkur fram á aðrsemi eigin fjár í svona viðskiptum?

Meðalverð þorsks á fiskmörkuðum mun vera nú á bilinu 160 - 200 krónur kílóið.  Hvað þarf að veiða sama tittinn oft til að hafa upp í stofnkostnaðinn?

Getur verið að leikritið sé týnda stykkið hans Dario Fo?

Ég bara spyr.


mbl.is Verð á þorski fimmtánfaldast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flest verður Samfylkingunni að fótakefli

Samfylkingunni verður flest að fótakefli þessa dagana.  Dagarnir telja sig niður til kosninga og stóri dagurinn nálgast óðfluga.  Einhvern veginn hefur flokknum ekki tekist að marka sér þá sérstöðu og trúverðugleika sem kjósendum er nauðsynlegur.  En eitt er víst.  Samfylkingin á mikið mannval og þar eru margir reyndir og leiknir stjórnmálamenn.  Stjórnmálamenn sem kunna þá göfugu list, rökræðuna. 

Því fannst mér nánast því absúrd að horfa á í Kastljósinu fulltrúa Samfylkingarinnar fara gjörsamlega á límingunum í kappræðu við fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.  Ungar konur á framabraut en kannski ekki ýkja reyndar.  Þessi umræða var hvorki vitræn né málefnaleg því fulltrúi Samfylkingarinnar, gjammaði stanslaust frammí með ómálefnalegar athugasemdir um hvað henni sjálfri fyndist um viðmælandann.  Manneskjan var greinilega vanstillt og taugaveikluð og hélt engan veginn andlitinu.  

Þetta er því undarlegra sem Samfylkingin á að skipa frábæru fólki í svona hanaat.  Fólki sem kann rökræðuna og lætur ekki taka sig svona auðveldlega í bólinu.

Tæpast hefur kjósendum Samfó fjölgað í kvöld.  Varla þeim sem horfðu á Kastljós. 


Kaupþing - Ekki fyrir gangandi

Afar ánægulegt er að sjá hvað bankanum mínum gengur vel.  795. sæti yfir stærstu fyrirtæki heims.  Hvorki meira né minna.  Forbes hlýtur að hafa rétt fyrir sér.  Bankanum mínum segi ég þó ég eigi ekkert í honum.  Samt er ég búinn að vera viðskiptavinur hans í meira en 30 ár og við búnir að þola saman súrt og sætt.

Það er sennilega svo að í svona stórfyrirtæki koma engir gangandi enda var bílaflotinn fyrir utan samsettur úr Porsche, Mercedes, BMW, Range Rover og öðrum álíka.  Byggingin sem er upprisin í Borgartúninu er líka stórglæsileg en ef þú er gangandi lesandi góður er betra að halda sig á gangstéttinni hinu megin, ég meina sparisjóðsmegin.  Og ástæðan er þessi.

DSC001552

Sjötíu sentimetra djúp gryfja.  Engin brú og engar viðvaranir.  Sennilega eru fáir fatlaðir á ferð þarna enda matarúthlutun Hjálparstofnunar kirkjunnar í næstu götu.  Sennilega eru engir heldur á ferð eftir að skyggja tekur á kvöldin.

Er ekki bara öllum sama.  Það hlýtur að var því svona er þetta búið að vera í lengri tíma.

Kaaaaauupppthhhing hefur góðan BYR.

Hinu megin við götuna.


mbl.is Kaupþing 795. stærsta fyrirtæki heims að mati Forbes
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vistvænum mönnum best að lifa eða hvað?

Jæja, þá er eins og borgaryfirvöld sé aðeins að rumska af þeim Þyrnirósarsvefni sem þau hafa verið haldin síðustu ár.  Þá á ég bæði við núverandi og fyrrverandi meirihluta.  Að sjá tillögur í þessa átt er fagnaðarefni en við lestur þessarar fréttar vöknuðu nokkrar spurningar:

1.  Í fréttinni er talað um vistvæna bíla.  Hverjir eru þeir?  Ég minnist þess að hafa séð frétt nú nýverið í Bílablaði Morgunblaðsins að Kaliforníuríki hafi viðurkennt 8 bílgerðir sem vistvænar í því ágæta ríki.  Allt voru þetta dísilbílar að einum undanskildum sem er svokallaður tvinn-bíll.  Ég sé fyrir mér sem vistvæna bíla sparneytna dísilbíla, metangasbíla, tvinn-bíla og rafbíla.  Þó heyrast efasemdarraddir um hversu vistvænir rafbílar og tvinnbílar eru þar sem mikil mengun fylgir bæði framleiðslu rafgeyma svo og förgun þeirra.   Gaman væri að fá skýrar og greinargóðar upplýsingar um þetta. 

2.  Af hverju stíga menn ekki skrefið til fulls og gera Austurvöll að meðtöldu Pósthússtræti auk Austurstrætis að göngugötum.  Hugsanlega gæti það komið einhverju lífi í þessar götur á ný.  Svo er spurning hvað teljast góðviðrisdagar.  Hvaða mælikvarði verður notaður á það?

3.   Á Akureyri hafa bæjaryfirvöld boðið upp á gjaldfríar strætisvagnaferðir.  Því ekki að gera það á höfuðborgarvæðinu og miða ekki bara við námsfólk.  Einnig þarf að auka ferðatíðni þannig að strætó verði raunhæfur kostur í samgöngumálum.   Með því að mætti spara stórar fjárhæðir í nýframkvæmdum í gatnagerð.  Mun meiri fjárhæðir en kostar að reka strætó.

4.  Gott mál að bæta göngu- og hjólreiðastíga.  Þeir hafa hingað til ekki verið samgöngumiðaðir.  Hvernig væri að setja það sem markmið að hjólreiðastígar séu meðfram öllum stofn og tengibrautum í gatnakerfinu.  Líka að stígarnir verði samræmdir milli sveitarfélaga svo ekki verði rekist á torfærur eins og Kópavogurinn er í dag.

Hvað aðrar tillögur borgarstjórnar varðar sýnast mér þær allar vera hið besta mál.  Vonandi verða nú hendur látnar standa fram úr ermum.

Gísli Marteinn og félagar.  Sýnið að þið séuð traustsins verð og komið þessum hugmyndum á koppinn.  

Gísli Marteinn og félagar.  Til að hið nýja vistvæna yfirbragð fá nú á sig sanna og trúverðuga mynd þá legg ég til að hætt verði við hina arfageggjuðu eiturherferð á hendur sílamáfum.  

Svo var nú það. 

 


mbl.is Ókeypis í bílastæði fyrir vistvæna bíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saga af sjónum

Fyrir 32 árum keyptu 4 ungir menn bát.  Þeir voru búsettir í sjávarþorpi á landsbyggðinni.  Útgerðin gekk vel og nokkrum árum síðar var gamla bátnum skipt út fyrir nýjan.  Sama sagan, þetta var hörkuteymi og útgerðin hafði aldrei gengið betur.  Eftir nokkrar svartar skýrslur um ástand fiskistofna ákváðu stjórnvöld að setja kvóta á fiskveiðar.  Já það átti sko að vera til að vernda fiskistofnana, stuðla að vexti þeirra og viðgangi og auka hagkvæmni í útgerð.

Já okkar menn fengu kvóta, meira að segja talsverðan kvóta því viðmiðunarárin höfðu þeir fiskað firna vel.  Þrátt fyrir mikinn kvóta var okkar mönnum ekki hlátur í hug og fannst virkilega að sér þrengt.  Og árin liðu og okkar menn sáu í þessu kerfi alls kyns leiðir til að auka hagkvæmnina.  Til dæmis fannst þeim upplagt að leigja frá sér allan þann kvóta sem lög leyfðu en leigja síðan kvóta af allt annari útgerð.  Þetta var mjög heppilegt til að lækka laun áhafnarinnar sem var gert skylt að taka þátt í kvótaleigunni.  Svo settu samtök útgerðarmanna upp kvótamiðlun þar sem auðvelt var að stýra verðlagningu.  Kvótinn var talinn til eignar í bókhaldi og með því að spenna upp kvótaverðið leit efnahagsreikningur útgerðarinnar þokkalega út og greiddi götuna um langa ganga banka og annarra fyrirgreiðslustofnanna.

Fyrir 10 árum bauðst þeim félögum að kaupa úreltan bát en honum fylgdi umtalsverður kvóti.  Kvótaeign bátanna var sameinuð í eitt og nýr bátur keyptur.  Við þessi tímamót hafði einn af okkar mönnum lent í fjárhagslegum hremmingum og átti því erfitt um vik að fá lánsfé fyrir sínum hluta.  Því varð úr að hinir þrír lögðu til viðbótarkvótann en þessi eini jók bókhaldslega hlut sinn í bátnum á móti.  Það gat hann auðveldlega gert þrátt fyrir erfiða stöðu í augnablikinu.

Hlaupum nú hratt fyrir sögu en fyrir ári síðan kom til slita á útgerðinni.  Þeir félagar höfðu elst og þar sem hægt var að selja fyrir gott verð var það ákveðið.  Verðmæti bátsins var talið 20 milljónir en söluverð kvótans var tæpar 800 milljónir.  Sem sagt 820 millur.  Myndu ekki allir sætta sig við það eða hvað.  Nú gerðist nokkuð sem menn höfðu ekki gert ráð fyrir.  Munum nú eftir okkar manni sem hafði aukið sinn hlut í bátnum þegar félagarnir lögðu kvótann til.  Alla tíð höfðu þeir skipt öllu jafn í miklu bróðerni.  Nú skipti sköpum.  Okkar maður átti við söluna einungis 75% hlut í bátnum og 25% í upphaflega kvótanum.  Honum hafði hann skipt út fyrir bátinn þegar fjárhagsörðugleikarnir stóðu yfir.  Hinir þrír áttu hins vegar bara 25% í bátnum en nánast allan kvótann.  Þar sem bátinn var lítils virði í heildardæminu fékk okkar maður einungis 36 milljónir fyrir sinn hlut.  Félagar hans afganginn.

Þarna hafði það gerst að skip urðu lítils virði á meðan kvótaskrifstofa LÍÚ spennti bogann, spennti bogann og það til hins ítrasta.  Því gekk okkar maður nánast slyppur og snauður frá borði eftir 32 ára útgerðarsögu eftir að alls kyns afætur höfðu hirt sinn hlut af kökunni.  Félagar hans eru í góðum málum.

Þetta er sönn saga af sjónum.

Ætlar einhver ykkar að styðja kvótaþjófakerfið með atkvæði sínu 12. maí?

Ég bara spyr. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband