Saga af sjónum

Fyrir 32 árum keyptu 4 ungir menn bát.  Þeir voru búsettir í sjávarþorpi á landsbyggðinni.  Útgerðin gekk vel og nokkrum árum síðar var gamla bátnum skipt út fyrir nýjan.  Sama sagan, þetta var hörkuteymi og útgerðin hafði aldrei gengið betur.  Eftir nokkrar svartar skýrslur um ástand fiskistofna ákváðu stjórnvöld að setja kvóta á fiskveiðar.  Já það átti sko að vera til að vernda fiskistofnana, stuðla að vexti þeirra og viðgangi og auka hagkvæmni í útgerð.

Já okkar menn fengu kvóta, meira að segja talsverðan kvóta því viðmiðunarárin höfðu þeir fiskað firna vel.  Þrátt fyrir mikinn kvóta var okkar mönnum ekki hlátur í hug og fannst virkilega að sér þrengt.  Og árin liðu og okkar menn sáu í þessu kerfi alls kyns leiðir til að auka hagkvæmnina.  Til dæmis fannst þeim upplagt að leigja frá sér allan þann kvóta sem lög leyfðu en leigja síðan kvóta af allt annari útgerð.  Þetta var mjög heppilegt til að lækka laun áhafnarinnar sem var gert skylt að taka þátt í kvótaleigunni.  Svo settu samtök útgerðarmanna upp kvótamiðlun þar sem auðvelt var að stýra verðlagningu.  Kvótinn var talinn til eignar í bókhaldi og með því að spenna upp kvótaverðið leit efnahagsreikningur útgerðarinnar þokkalega út og greiddi götuna um langa ganga banka og annarra fyrirgreiðslustofnanna.

Fyrir 10 árum bauðst þeim félögum að kaupa úreltan bát en honum fylgdi umtalsverður kvóti.  Kvótaeign bátanna var sameinuð í eitt og nýr bátur keyptur.  Við þessi tímamót hafði einn af okkar mönnum lent í fjárhagslegum hremmingum og átti því erfitt um vik að fá lánsfé fyrir sínum hluta.  Því varð úr að hinir þrír lögðu til viðbótarkvótann en þessi eini jók bókhaldslega hlut sinn í bátnum á móti.  Það gat hann auðveldlega gert þrátt fyrir erfiða stöðu í augnablikinu.

Hlaupum nú hratt fyrir sögu en fyrir ári síðan kom til slita á útgerðinni.  Þeir félagar höfðu elst og þar sem hægt var að selja fyrir gott verð var það ákveðið.  Verðmæti bátsins var talið 20 milljónir en söluverð kvótans var tæpar 800 milljónir.  Sem sagt 820 millur.  Myndu ekki allir sætta sig við það eða hvað.  Nú gerðist nokkuð sem menn höfðu ekki gert ráð fyrir.  Munum nú eftir okkar manni sem hafði aukið sinn hlut í bátnum þegar félagarnir lögðu kvótann til.  Alla tíð höfðu þeir skipt öllu jafn í miklu bróðerni.  Nú skipti sköpum.  Okkar maður átti við söluna einungis 75% hlut í bátnum og 25% í upphaflega kvótanum.  Honum hafði hann skipt út fyrir bátinn þegar fjárhagsörðugleikarnir stóðu yfir.  Hinir þrír áttu hins vegar bara 25% í bátnum en nánast allan kvótann.  Þar sem bátinn var lítils virði í heildardæminu fékk okkar maður einungis 36 milljónir fyrir sinn hlut.  Félagar hans afganginn.

Þarna hafði það gerst að skip urðu lítils virði á meðan kvótaskrifstofa LÍÚ spennti bogann, spennti bogann og það til hins ítrasta.  Því gekk okkar maður nánast slyppur og snauður frá borði eftir 32 ára útgerðarsögu eftir að alls kyns afætur höfðu hirt sinn hlut af kökunni.  Félagar hans eru í góðum málum.

Þetta er sönn saga af sjónum.

Ætlar einhver ykkar að styðja kvótaþjófakerfið með atkvæði sínu 12. maí?

Ég bara spyr. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Nei.

Níels A. Ársælsson., 11.4.2007 kl. 00:32

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Nei en það gera þeir margir sem misst hafa hús sín og sjálfsvirðingu.

Árni Gunnarsson, 11.4.2007 kl. 01:03

3 identicon

Er það LÍÚ að kenna að maðurinn skeit á sig í þessum viðskiptum?

Björn (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 08:57

4 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Nei Frjálslyndi flokkurinn virðist eini flokkurinn sem berst einarðlega gegn kerfinu.

Sigurjón Þórðarson, 11.4.2007 kl. 09:26

5 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Það er ótrúlegt að nokkur sem þekkir til sögunnar í þessu kvótakerfi andskotans og Framsóknar eins og hún hefur gengið fram geti hugsað sér að styðja flokkana sem horfa til óbreyttra hátta í þessu lögverndaða þjófakerfi.

Það er hinsvegar áhyggjuefni hvað það eru tiltölulega fáir nokkuð að velta sér uppúr ruglinu og eru ekkert að setja sig ínní hvernig þetta er að ganga af sjávarbyggðum dauðum, eins og t.a.m. Vestfjörðum, og það hugsunarleysi verður allt vatn á myllu kvótaflokkanna....NEI

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 11.4.2007 kl. 10:28

6 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

E.s. Ekki að undra þó hann láti ekki mikið bera á nafninu sínu þessi LÍjúgari sem er með ath.semdina hér að ofan og les það útúr sögunni að maðurinn hafi "skitið á sig" í viðskiptunum.......

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 11.4.2007 kl. 10:33

7 Smámynd: Leifur Þorsteinsson

Sendið Þessa menn vestur til Canada þar er eingin kvóti

og heldur eingin fiskur.

Leifur Þorsteinsson, 11.4.2007 kl. 11:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband