Af sædýri með yfirskegg

Föstudagurinn langi.  Þessi lengsti dagur æsku minnar hefur sem betur fer breyst smátt og smátt í áranna rás.  Mikið ósköp leiddist manni alltaf á þessum degi.  Ekkert nema sorgarlög og prestavæl á gömlu gufunni (eina útvarpsstöðin í þá daga).  Mað mátti ekki gera neitt skemmtilegt því allir áttu að vera svo samverkandi í "Kristí krossins pínu" eða þannig.

Ég gat aldrei orðið samferða þessari pínu og notaði því oft þennan dag til langra gönguferða.  Þessar göngur hafa nú gengið í endurnýjun lífdaga og í gær gengum við ásamt vinum okkar um Straumsvík og Hraunin sunnan hennar.  Gengum gamlar götur og dáðumst að fallegum hleðslum sem enn standa lítt skaddaðar jafnvel árhundruða gamlar.

En það sem toppaði þessa ferð var þessi einkar skeggprúði selur sem lá í Straumsvíkinni, rétt neðan Reykjanesbrautarinnar og lét sig lítt varða fjölda forvitinna mannsaugna sem störðu á hann í forundran.  Enda langt að kominn norðan úr Íshafinu.  Þessi tegund mun heita Kampselur og dregur nafn sitt af einkar miklu prússnesku yfirskeggi sem myndað er úr veiðihárum hans.

 Kampselur

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þarna lá hann makindalega, rumdi og brást illur við þegar einn áhorfandanna reyndi að klappa honum.  Það skein í stórar beittar tennur og minnti mann á þetta krúttlega dýr er eitt af rándýrum hafsins.

Við fórum að dæmi kobbans og nutum veðurblíðunnar til hins ítrasta.  Góður dagur, föstudagurinn langi.

 

 


Varalið lögreglu er gott mál

 

Það var skynsamleg og vel ígrunduð hugmynd sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra varpaði fram í síðustu viku um varalið lögreglu.  Sumir hafa túlkað þetta eins og andskotinn faðirvorið og kennt Birni að þarna séu enn og aftur uppvaknaðar hugmyndir hans um íslenskan her.

Ég hef ekki heyrt Björn tala um neinn her þó varaliði lögreglu verði komið formlega á fót.  Nú er það þannig að við alla meiriháttar viðburði sem upp hafa komið í samfélaginu hefur nokkurs konar varalið verið kallað út.  Hér á ég við björgunarsveitir landsins. 

Það hlýtur öllum hugsandi mönnum að vera það ljóst að okkar fámenna lögreglulið ræður einfaldlega ekki við s.s. stórar uppákomur og þar er skemmst að minnast Nato-fundarins 2002 og einnig þegar Falun Gong liðar skutu skáeygðum Kínaforseta skelk í bringu.  Björgunarsveitir hafa einnig hlaupið undir bagga á útisamkomum en þar hefur réttarstaða þeirra verið óljós gagnvart afskipti af borgurunum.

Mér virðist sem meining Björns sé að þetta varalið verði samsett úr björgunarsveitamönnum, slökkviliðsmönnum, landhelgisgæslu, starfsmönnum í öryggisþjónustu, tollvörðum en bæði innan og utan þessa hóps eru menntaðir lögreglumenn , sumir með mikla reynslu sem gætu tekið að sér leiðtogahlutverk í þessu liði.

Stefán Eiríksson lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins hefur tekið þessum hugmyndum fagnandi og eftir að hafa kynnt mér þær tel ég þarna vera mjög gott mál á ferðinni.

Hugmyndina eins og Björn varpaði henni fram skil ég fyrst og fremst á þann veg að koma þessu sjálfboðaliðastarfi í ákveðinn farveg með markvissri þjálfun og kennslu auk þess að koma réttarstöðu þessara sjálfboðaliða í viðunandi horf.


Bílnúmerahappdrætti er liðin tíð eða hvað?

Hér í eina tíð var einhvert góðgerðafélagið með skemmtilega fjáröflun sem fólst í sölu happdrættismiða.  Það gera reyndar mörg félög en þetta happdrætti var svolítið sérstakt.  Í stað venjulegs númers notuðust menn við skráningarnúmer bíla.  Þetta var í tíð gömlu stóru, svörtu og ljótu númeraplatanna sem huldu stóran hluta af fram- og afturhluta bíla, sérstaklega ef þeir voru í minni kantinum.

Þessi númer fylgdu eigendum sínum, en ekki bílunum eins og nú tíðkast.  Margir tóku ástfóstri við númerin og þau gengu gjarnan til afkomendana þegar eigendurnir héldu á vit forfeðra sinna.  Sem sagt þarna höfðaði happadrættið til hégóma bíleiganda sem að sjálfsögðu keyptu "sitt númer".  Hvað annað.  Áttu einhverjir ótíndir plebbar út í bæ að vinna þann stóra á bílnúmer mitt?  Nei takk.  Betra að kaupa miðann.

Vegna þessa uppátækis skagfirðinganna að slíta númer af löggubílunum rifjaðist upp 20 ára gömul saga úr þorpi á Vesturlandi.  Árla sunnudagsmorguns á fallegum vordegi bankaði  ungur maður upp á í húsum þessa friðsæla þorps.  Þeim sem til dyra gengu varð strax ljós að ungi maðurinn hafði gengið á vit gleði vornætur með Bakkus að fylgdarsveini. 

Glaðhlakkalegur bauð hann góðan og blessaðan daginn.  Þegar undir kveðjuna var tekið bauð hann þeim er í dyrum stóð hvort ekki mætti bjóða svo sem eins og eitt númer í bílnúmerahappdrættinu.  Að svo mæltu rétti hann fram pokaskjatta og viti menn.  Pokinn var fullur af númeraplötum, þessum gömlu svörtu.  Þegar kappinn var inntur eftir tilurð þeirra í pokanum sagðist hann bara hafa tekið þær sem voru frekar lausari en aðrar.

Við nánari eftirgrennslan staðarlögreglunnar kom í ljós að hann hafði tekið númer af yfir tuttugu bílum.  Málið var leyst á staðnum.  Pjakkurinn fékk að sofa úr sér vímuna en það því loknu tók hann til við að festa númerin aftur á bílana að viðstöddum löreglumönnum og eigendum þeirra. 

Sú refsing gleymist honum seint.


mbl.is Stálu númeraplötum af lögreglubílum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurstaðan er fengin - nú þarf að ná sátt um hana

Naumt var það eins og búist hafði verið við.  Þetta hafa verið mjög sérstakar kosningar því beint og milliliðalaust lýðræði hvefur vart þekkst hér á landi.  Tekist var á um mikið hagsmunamál, ekki bara fyrir íbúa Hafnarfjarðar, heldur fyrir nágranna þeirra, íbúa við Þjórsá og raunar landsmenn alla.  Hart var tekist á og hætt er við að sumir gangi sárir úr þessari orrustu.  Hinir sigurreifir.  

Þá ríður á að ná samstöðu um fengna niðurstöðu og sætta íbúana.  Svona er nú einu sinni lýðræðið í verki og ekki vildi ég skipta á því við nokkurt annað stjórnarform.  Þegar ákvörðun hefur verið tekin með þessum hætti verða menn að standa saman að baki henni jafnvel þó sumir séu sáttari en aðrir.

Til hamingu Hafnfirðingar.  Niðurstaðan er fengin og ykkar að vinna úr henni. 


Afdrifaríkar kosningar?

Í dag ganga Hafnfirðingar til kosninga um breytt deiliskipulag iðnaðarsvæðis í Kapelluhrauni.  Breyting skipulagsins ræður úrslitum um hvort mögulegt sé að stækka álver Alcan um 150%.  Eins og ég hef kynnt mér málið skiptir mengun þar litlu máli til eða frá.  Mjög lítil mengun er frá fyrirtækinu önnur en sjónmengun og efna- og kolefnismengun mun ekki aukast um 150% vegna möguleika á breyttum vörnum með tilkomu stækkunarinnar.

Jákvæðu punktarnir við stækkun eru fleiri störf, meiri hagvöxtur, meiri útflutningstekjur, meiri tekjur bæjarfélagsins, auk afleiddra þátta sem aukinnar verslunar og þjónustu á ýmsan máta.  Einnig gefur stækkun okkur möguleika á að ná hagstæðari samningum um raforkusölu.  Það er ekkert leyndarmál að þetta fjörutíu ára, sumpart úrelta álver, er fyrst og fremst rekið enn vegna mög lágs orkusamnings.

Neikvæðu þættirnir eru fyrst og fremst aukin þensla með hærri verðbólgu, hærri vöxtum og þeirrar spennu á vinnumarkaði sem við megum síst við.  Hver vill aukna verðbólgu, hærri vexti.  Hærri vexti en þá sem hæstir gerast í Evrópu.  Einnig hlýtur að teljast mjög neikvætt að stór hluti þeirrar takmörkuðu fallvatnsorku sem við eigum enn fari til stóriðju sem gefur tiltölulega litlar tekjur miðað við annan iðnað.

Sumir virtir fræðimenn hafa látið hafa það eftir sér að hagkvæmasti orkuöflunarkostur íslendinga í dag sé að loka í Straumsvík.  Nægur markaður sé fyrir þessa orku og hana megi selja á miklu hærra verði.  Þetta hljóta að vera sterk rök þar sem öllum má vera ljóst að orku eigum við ekki ótakmarkaða þó öðru hafi verið haldið að þjóðinni áratugum saman.

En hvað um það.  Hafnfirðingar ganga í kjörklefann rigningardaginn 31. mars.  Ljóst er að þessar kosningar verða mjög tvísýnar.  Miklar deilur og rammar hafa verið um málið sem ekki hefur að öllu lotið flokkslínum.  Hverjar sem niðurstöður þessara kosninga verða munu Hafnfirðingar búa enn á sama staða og verða að lifa saman í sátt og samlyndi.  Vonandi verða vopnin slíðruð og hugað að betri og bjartari framtíð til handa öllu "Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu" að þeim loknum.


Náttúruleikskólinn Krakkakot - góð heimsókn

  Á Álftanesi eru reknir tveir leikskólar af myndarbrag.  Annar þeirra er Náttúruleikskólinn Krakkakot en þar eru nemendur tvö barnabörn mín.  Í dag var haldinn afa- og ömmudagur þar sem þau gamla settið var boðið í skólann.  Við sem tilheyrum þessu setti mættum að sjálfsögðu og þarna var tekið á móti okkur með kostum og kynjum.

Að sjálfsögðu var ósköp notalegt að hitta afastelpu og strák og fá duglegt knús og koss á báðar kinnar.  Þarna var mikill fjöldi, svo mikill fjöldi að vandasamt var að finna bílastæði.  Leikskólafólk bauð upp á kaffi og með því um leið og við nutum samverunnar.  Öll umgjörð og viðmót starfsfólks skólans bíður af sér góðan þokka og þarna eru börnin mjög ánægð.  Í leikskólanum eru sterkar tilvísanir til umhverfis og þar eru haldin húsdýr til gagns og gleði fyrir börnin en löngu ljóst að umgengni við dýr er mjög þroskandi fyrir börn sem fullorðna. 

Þetta var góð stund sem ber að þakka.


Réttlætiskennd misboðið, ótrúleg niðurstaða dómara.

Marga skrítna dóma hefur maður sé en þessi toppar það alveg.  Dóminn í heild sinni er hægt að lesa hér á dómstólar.is.  Einnig er hér að neðan rökstuðningur dómsins, ef rökstuðning skuli kalla.

        "Brot ákærða er talið varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að mati dómsins er óumdeilt að háttsemi ákærða var til þess fallin að særa blygðunarsemi Y. Til þess að unnt sé að sakfella ákærða fyrir brot á nefndri 209. gr. þarf háttsemin að vera lostug af hans hálfu. Í greinargerð með frumvarpi til breytingar á almennum hegningarlögum sem varð að lögum nr. 40/1992 segir svo m.a. svo: ,,Af nýjum sérákvæðum í 200.--202. gr., sbr. 8.--10. gr. frumvarpsins um kynferðislega áreitni, leiðir hins vegar að undir 209. gr. fellur nú fyrst og fremst ýmiss konar háttsemi önnur en káf og þukl á líkama, t.d. gægjur á glugga, berháttun og önnur strípihneigð, klúrt orðbragð í síma.“ Þetta bendir ótvírætt til þess að með lostugu athæfi sé átt við háttsemi af kynferðislegum toga sem er til þess fallin að veita þeim sem slíka háttsemi hefur í frammi einhverja kynferðislega fullnægju. Ekkert bendir til þess að svo hafi verið í tilfelli ákærða. Eru því ekki efni til að sakfella hann fyrir brot gegn nefndri 209. gr. almennra hegningarlaga".

Þetta er ekki boðlegt.

Alls ekki!


mbl.is Sýknaður af ákæru fyrir að taka mynd af naktri konu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf ekki að huga betur að örygginu?

Þetta Heiðmerkurmál virðist líta út eins og algert klúður frá upphafi.  Ekki verður forsagan rakin hér því annars staðar hefur verið gerð rækileg grein fyrir henni.  Svæðið er mjög viðkvæmt og vegir ekki gerðir fyrir stóra þunga bíla.  Tvö óhöpp með stuttu millibili segja allt sem þarf. 

Öryggismálin þarf að taka til rækilegrar endurskoðunar.


mbl.is Vörubíll með fullfermi valt í Heiðmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dramatík í Stykkishólmi

Það var æsispennandi leikur í Hólminum í kvöld þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en á síðustu sekúndunum.  Mikil spenna, hraður leikur og mörg mistök.  Um tíma hélt ég að Hólmarnir væru að glutra þessu niður.  Klárlega þeirra lakasta vörn í langan tíma.

Næst er að vinna KR heima og taka þar með forustuna í einvíginu.  Draumastaðan er að Snæfell og Njarðvík eigist við í úrslitunum, tvö bestu lið landsins í dag. 

Mitt gamla hólmarahjarta slær alltaf með Snæfelli.  Gangi þeim allt í haginn. 


mbl.is Snæfell vann í æsispennandi leik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

....að kveða burt snjóinn - það getur hún

Þá er hann kominn, fuglinn, sem flestir íslendingar tengja við vokomuna.  Þessi fugl sem þjóðin elskar umfram aðra fugla og á sér þennan sérstaka sess í þjóðarsálinni.  Íslendingar flokkar fugla líka niður í góða fugla og slæma.  Þeir slæmu eru oftast þannig gerðir að röddin er rám, ekki hægt að éta, og þeir ógna á einhvern´, oftast óskilgreindan, hagsmunum okkar mannanna.

Suma fugla borðum við með bestu lyst, aðra ekki.  M.a. borðum við ekki lóuna því hún er svo "ljúf og góð" og er vorboðinn okkar ljúfi.  Þannig er ekki farið með frændur okkar Íra.  Þegar lóan flýgur að hausti frá "ísa köldu landi", tyllir sér til hvíldar á eyjunni grænu, þá fara veiðimenn á stjá og skjóta ógrynni af lóum sem þykja þar herramannsmatur og sama gildir um flest þau lönd sem lóan á vetrardvöl í.

Einhver tíma minnti einhver á hvort við mættum ekki nýta þessa náttúruauðlind eins og aðrar.  Vera svona sjálfbær eða þannig!

Ef ég man rétt varð allt vitlaust.

Af hverju?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband