Sunnudagur, 8. júlí 2007
Íslenskt hugvit. TCT eldsneytiskerfi; bylting á sviði umhverfismála?
Í síðustu færslum mínum hef ég fjallað um það dæmalausa auglýsingaskrum sem haldið er að almenningi varðandi losun svokallaðra gróðurhúsalofttegunda. Að sjálfsögðu hafa ósvífnir fjárplógsmenn fundið greiða leið að pyngju samborgara sinna með því að selja þeim alls kyns skyndilausnir eins og Hybrid bíla, láta fólk "kolefnisjafna" bíla sína og annað gáfulegt í þessum dúr. Þarna er höfðað til samvisku fólks sem telur sig geta lagt sitt lóð á vogarskál umhverfisverndar með því að láta einhverja aðra um verndina, bara ef það getur keyrt áfram þriggja tonna ameríska trukkinn sem eyðir jafnvel á þriðja tug lítra á hverja hundrað kílómetra.
Samt er hægt að finna ljós í þessari "kolefnamóðu".
Síðast liðin 17 ár hefur íslenskur hugvitsmaður, Kristján B. Ómarsson, þróað ofur einfalda hugmynd að eldsneytiskerfi fyrir brunahreyfla. Hann hefur lagt í þessa hugmynd sína lífið og sálina þrátt fyrir að fáir hafi haft trú á henni fyrst í stað og fjármunir væru af skornum skammti.
Nú er þessi hugmynd hans að verða að veruleika með fjöldaframleiðslu á svokölluðum TCT (Total Combustion Technology) blöndungi. Þessi blöndungur byggir á alveg gjörbreyttri tækni við blöndun eldsneytis og loft þannig að nýting eldsneytisins verður mun betri.
Það sem skiptir okkur kannski mestu máli er að þessi tækni minnkar losun CO2 allt að 80% og HC+NOx allt að 35%. Þetta er eitthvað sem engum hefur tekist áður og nú þegar framleiðsla er að hefjast á fyrstu gerð TCT fyrir smávélar eru mjög miklar vonir bundnar við að þessi tækni geti breytt miklu um losun gróðurhúsalofttegunda frá öllum tegundum brunahreyfla. Þessi tækni ræður við allt fljótandi eldsneyti allt frá bensíni til jurtaolíu auk gass.
Slæmu fréttirnar eru þær að fyrirtæki Kristjáns, Fjölblendir ehf, er að flytja starfsemi sína úr landi til N-Írlands þar sem allur aðbúnaður nýsköpunarfyrirtækja er margfalt betri en hér á landi. Þar hefur reyndar prófunarferli þessarar tækni farið að mestu fram á undanförnum árum. Miklir fjármunir hafa verið lagðir í kaup á einkaleyfum sem víðast um heiminn þannig að í dag er þessi hugmynd vel vernduð.
Hér er á ferðinni eitthvað sem kalla má raunhæfa leið til lausnar á hluta þess vanda sem heimurinn stendur frammi fyrir. Væri ekki nær fyrir stjórnvöld að taka fyrir alvöru á vanda nýsköpunarfyrirtækja þannig það þau flýi ekki land eitt af öðru.
Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér nánar TCT tæknina skal bent á heimasíðu Fjölblendis ehf.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 6. júlí 2007
Eru hybrid bílar umhverfisvænir?
Það er alveg magnað hvernig hver étur vitleysuna upp eftir öðrum. Vissulega eyða hybrid bílar heldur minna eldsneyti en aðrir og kolefnislosun þeirra því nokkuð minni en bensínbíla. Á móti kemur að rafgeymar þeirra eru mjög stórir og innihalda mikið af alvarlega mengandi efnum. Niðurstaða sérfærðinganefndar á vegum Bandaríkjaþings komst að þeirri niðurstöðu í vetur að hybrid bílar væru ekki eins umhverfisvænn kostur og talið hefur verið. Nefndin lagði til að reynt yrði að auka hlutfall dísilbíla sem kostur væri en þar sem mikil spilliefni eru í rafgeymum hybrid væru þeir ekki góður kostur að sinni. Á nýlegum lista yfir umhverfisvæna bíla til almenningsnota í neytendablaðinu Consumer Report komst aðeins einn hybrid bíll á topp tíu listann, allir hinir voru dísilbílar. Hins vegar viðgengist ótrúlegt auglýsingaskrum varðandi þessa hybrid bíla þar sem lofið sem á þá væri borið stæðist ekki nákvæma skoðun.
Áhugasömum má benda á þessa síðu.
Forsetaembættið fær umhverfisvænan bíl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 3. júlí 2007
Kolefnisjöfnunardellan
Eitthvert snjallasta auglýsingatrikk seinni tíma eru allar þær bábiljur og bull sem haldið er að almenningi og varða svokölluð gróðurhúsaáhrif (global warming). Nýjasta dellan er svokölluð kolefnisjöfnun. Þar er fólki talin trú um að nægilegt sé að gróðursetja svo og svo mörg tré á einhverjum óskilgreinum stað og það dugi til að gleypa allt CO2 sem heimilisbíllinn framleiðir. Það er ekki á fólk logið. Það kaupir allt. Já ég meina allt, bara ef því er pakkað í nógu fallegar umbúðir og gæti hugsanlega höfðað til samvisku þess.
Væri ekki nær að sleppa kolefnisjöfnun af stóra ameríska trukknum og velja eitthvað umhverfisvænna sem gerir nákvæmlega sama gagn. Af hverju er fólki ekki gert auðveldara að nota reiðhjól sem samgöngutæki? Af hverju er fólki ekki gert auðveldara að kaupa litla dísilbíla? Af hverju eru almenningssamgöngur ekki gerðar að raunhæfum valkosti svo einhver dæmi séu nefnd.
Það eru svo ótalmargir hlutir sem við getum gert til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Kolefnisjöfnunin er öllu líkara sölu aflátsbréfa páfagarðs hér á öldum áður.
Meira síðar.
Fimmtudagur, 28. júní 2007
Hamingusamasta þorp í heimi
Jæja, þá er ég mættur við tölvuna aftur eftir langt hlé frá öllu bloggi. Búinn að vera á flakki vestur í henni Ammríku, úða þar í mig hormónastreittum hamborgurum, versta kaffi í veröldinni með þjóðarrétti þeirra vesturheimsku, fylltum donouts. Því líkt gúmmúlaði!
En það var ekki það sem ég ætlaði að tala um í dag. Ég ætlaði að tala um veðrið. Þetta dásamlega veður sem hefur leikið við okkur upp á síðkastið. Hér á þessu útskeri Atlantshafsins skiptir veðrið svo miklu máli. Skiptir kannski í sumu öllu máli. Yfirbragð alls tekur á sig nýja og glaðari mynd. Fólk verður afslappað og stöku brosvipra tekur sig upp. Með sólinni vinnum við hormóna sem gefa okkur vellíðan sem yljar sál og líkama. Fólk fær aukinn kraft, rífur sig upp fyrir allar aldir, gengur glatt til vinnu og leiks og borgarbúarnir þyrpast síðan út í sveitir landsins um helgar með tilheyrandi umferðarteppum hér og þar.
Ég og mín elskulega ætlum að gera það líka. Um helgina stefnum við á að heimsækja hamingusamasta þorp í heimi. Þar eru íbúarnir svo hamingusamir að þeir halda hamingunni sérstaka hátíð á hverju sumri. Sem sagt haminguþorpið Hólmavík verður heiðrað með nærveru okkar þess helgi.
Enda er veðurspáin með eindæmum góð!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 10. maí 2007
Að skríða úr híði fyrir kosningar
Á vorin gerast undrin, örsmáir grænir angar stinga upp kolli undir suðurveggnum, farfuglar gleðja augu og eyru og smátt og smátt slaknar á kaldri krumlu Veturs konungs. Sum dýr hafa legið í dvala allan veturinn en skríða eitt og eitt úr híði sínu. Mér finnst gaman á vorin. Þá sannfærist maður um blessunarlega árssveiflu móður náttúru. Hún klikkar ekki.
Í pólitíkinni vorar á fjögurra ára fresti. Þá er kosið. Valdið til fólksins segja pólítíkusar á hátíðastundum. Það er ýmislegt sem kviknar í kring um kosningar. Upp gægjast frjóir angar sem kannski verða að fögru blómskrúði. Kannski. Sumir angarnir eru bara arfi og annað illgresi. Þeir verða aldrei neitt annað. Alls kyns furðufuglar fara á kreik en ein dýrategundin virðist bara koma upp úr híðinu síðustu daga fyrir kosningar. Framsóknarmenn. Allir halda að þeir séu deyjandi dinosaurar og fáir þeirra kannast við upprunann nema rétt fyrir kosningarnar. Þá fer þeim allt í einu fjölgandi en enginn veit hvaðan þeir koma eða hvert þeir fara að kosningum loknum.
Þeir eru eins og nútíma huldufólk eða álfar, við bara vitum af þeim á kosningum á fjögurra ára fresti en álfar og huldufólk dansar á þrettándanum.
Þá fá líka kýrnar mál.
Er þetta ekki skrítið? Spyr sá er ekki veit.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 9. maí 2007
Kvótasvindlið opinberað
Nokkur hreyfing hefur komist á umræðuna um afleiðingar kvótakerfisins. Í kerfinu þrífst margur ósóminn en þar sem nánast allir sem að kerfinu koma eru samofnir svindlinu geta trauðla sagt frá nema skaða sjálfa sig, sína nánustu, vinnuveitendur o.sv.frv. Þó hefur nú einn fyrrverandi útgerðarmaður stigið opinberlega fram og sagt sína sögu. Söguna segir hann í beinu framhaldi af Kompásþætti sem sýndur var á Stöð 2 s.l. sunnudag.
Ég hvet ykkur til að lesa grein Jakobs Kristinssonar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 8. maí 2007
Vafasamir hitaveitumenn og harmonikuleikarar
Í kvöld var dyrabjöllunni hringt og fyrir dyrum stóð kona með skrifspjald í hendi og sagðist vera frá Hitaveitu Suðurnesja. Hana langaði til að lesa af orkumæli. Allt hið besta mál og ég í grandaleysi mínu hleypti henni inn í bílskúr þar sem mælirinn er. Á leið út úr skúrnum fékk ég smá bakþanka og spurði hana um skilríki. Hún sagðist engin slík hafa og ekkert sem sannaði hver hún væri annað en peysu sem merkt var logoi fyrirtækisins.
Það er eitthvað mikið að öryggismálum hjá þessu fyrirtæki að sjá ekki starfsmönnum sínum fyrir skilríkjum þannig að þeir geti sagt á sér deili aðspurðir. Það er vel þekkt aðferð misindismanna að þykjast vera frá síma eða veitufyrirtækjum og komast þannig inn á gafl hjá auðtrúa bjánum eins og mér.
Svo eru sumir að spila á harmoniku skilríkjalausir. Sendi löggan þá ekki úr landi. Eins gott að passa sitt.
Ég ætla að setja hundinn á vakt í nótt....eða þannig.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 3. maí 2007
Að vaða út í pytt - hvað er til bjargar?
Mér líður hálf undarlega. Svona svolítið eins og ég hafi verið hafður að fífli sem ég sennilega er. Látum aðra dæma það. Ég hef alla tíð haft áhuga á stjórnmálum og reynt að fylgjast með eftir föngum og stundum lagt litlar pillur í umræðu dagsins. Mér er engin launung á að lengstum hef ég fylgt mínum flokki, Sjálfstæðisflokknum í flestum málum og hugsjónir hans fallið vel að mínum.
Síðustu daga hefur tröllriðið fjölmiðlum mál vegna ríkisfangs stúlku sem mun vera tengd Jónínu Bjartmars umhverfisráðherra. Ég ætla ekki að tíunda það mál hér því flestir ættu að þekkja það. Það er alveg kristaltært í mínum huga að þarna hefur ekki verið farið eftir þeim venjulegu leikreglum sem gilt hafa um veitingu ríkisborgararéttar. Af þeim framsóknarmönnum sem eftir eru hef ég haft nokkuð dálæti á Jónínu og fundist skoðanir hennar, framkoma og málflutningur allur bera vott um einurð og málafylgju. Það urðu mér því nokkur vonbrigði að sjá hvernig hún brást við þessari umfjöllun. Nóg um það.
Enn verra fannst mér til um Bjarna Benediktsson. Þetta er maðurinn sem átti atkvæði mitt í komandi kosningum. Þar var ég viss um að færi vandaður, heill og heiðarlegur stjórnmálamaður. Nei, því miður óð Bjarni tafarlaust út í foraðið þrátt fyrir aðvarnanir. Hann og aðrir nefndarmenn hafa komið fram á þann hátt að ekki telst trúverðugt. Alls ekki. Og enn er Bjarni á leið út í pyttinn og er nú komin upp að hálsi. Með honum hafa fleiri vaðið, Guðrún Ögmunds, þið vitið þessi með pappírstætarann, Guðjón Ólafur sem ég ætla ekki að segja neitt meira um og að síðustu lagði dómsmálaráðherrann af stað og rak tærnar í drullupyttinn.
Bjarni, Guðrún og Björn. Það er enn hægt að snúa við og í guðanna bænum gerið hreint fyrir ykkar dyrum. Guðjón Ólafi hafa hins vegar verið lagðar línurnar; Árangur árfram og ekkert stopp". Sem sagt beint í pyttinn. Þó svo að ég sé fífl og seinn að fatta þá blasa ósannindin við alþjóð. Ég man eftir manni sem rataði beint í sama pytt. Manni sem heitir Árni Johnsen. Árni hafði ekki vit á að snúa við upp úr sínum pytti og því fór sem fór.
Það er enn tækifæri. Notið ykkur það.
Sunnudagur, 22. apríl 2007
Verndun Atlantshafslaxins - Til hamingu Orri
Þetta er með gleðilegustu fréttum vikunnar. Hugsjónamaðurinn Orri Vigfússon hlýtur einhver virtustu umhverfisverðlaun heimsins, Goldberg verðlaunin, fyrir áratugabaráttu fyrir verndun Atlantshafsins. Margir umhverfisverndarsinna mættu taka Orra til fyrirmyndar. Hann lætur ekki duga að tala, hann framkvæmir og markmiðið er ljóst. Ég er ekki viss um að íslendingar viti almennt mikið um þessa baráttu Orra en hann er því betur þekktari meðal áhugafólks um náttúruvernd og áhugamanna um laxveiði. Reyndar fer áhugi á náttúrvernd og veiði yfirleitt saman. Ríkustu hagsmunir sportveiðimanna eru að viðhalda stofnum veiðidýra sterkum og heilbrigðum.
Orri hefur alla tíð verið trúr þessari hugsjón og fórnað miklu til. Höfðingjadjarfur og óbanginn að kynna frumlegar hugmyndir þó sumum sé fyrirmunað að skilja þær, sbr. ummæli hans um þáverandi umhverfisráðherra. Hófsemi en ákveðni er einkennandi fyrir þessa baráttu auk einkar frumlegra fjármögnunarhugmynda. Ég vona að vel önnur náttúruverndarsamtök taki nú undir með Orra og félögum og sýni áhuga á umhverfisvernd á borði ekki bara í orði.
Orri, til hamingu.
Ég segi ekki annað!
Orri Vigfússon hlýtur helstu verðlaun baráttufólks fyrir verndun umhverfissins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 20. apríl 2007
Sóknarfæri við Lækjartorg
Ömurlegt að horfa á hús brenna. Samt dregur húseldurinn að sér áhorfendur. Marga. Svo var einnig á miðvikudaginn þegar húsin á horni Austurstrætis og Lækjargötu brunnu. Ég horfði líka með trega, trega vegna minninga sem tengjast þessum húsum, trega vegna þeirrar sögu sem í þeim hefur falist í meir en 200 ár. Þegar frá leið áttaði ég mig á að ég hafði verið að horfa á söguna, söguna sem nú er að gerast og mun lifa áfram. Söguna um húsin sem hýstu Jörund hundadagakonung, Trampe greifa og Gulla heitinn í Karnabæ. Sú saga lifir. Húsin ekki.
Gamli góði Villi var mættur á svæðið. Í rauðum samfesting, með hjálm og öryggisgleraugu. Framan við myndavélarnar var honum augljóslega brugðið. Undir svona kringumstæðum eiga menn ekki að gefa neinar stórar yfirlýsingar. Það er ekki skynsamlegt. Láta daginn líða, nóttina, og hugsa málið betur á morgun. Á morgun er kominn nýr dagur og það sem gerðist í gær er sagan. Sagan sem ekker er öll og verður stöðugt til frá degi til dags.
Mig óaði við yfirlýsingu borgarstjórans. Eldurinn speglaðist í augum hans þegar hann lýsti hátíðlega yfir að hér yrði strax byggt aftur. Byggð aftur hús í sama stíl og helst með sama útliti. Það er ekki sagan. Sagan kennir okkur að allt er breytingum undirorpið. Að ætla sér að frysta augnablikið í einhverri fortíðarfantasíu er hreint óráð. Þarna á auðvitað að byggja aftur. Sem allra fyrst en ekki að óathuguðu máli.
Mín tillaga er að halda samkeppni um uppbyggingu á þessu "besta" horni Reykjavíkur. Það er líka hægt að byggja falleg hús 2007. Ekki bara 1801.
Að byggja hús í dag verður saga morgundagsins.
Það er málið!