Íslenskt hugvit. TCT eldsneytiskerfi; bylting á sviði umhverfismála?

Í síðustu færslum mínum hef ég fjallað um það dæmalausa auglýsingaskrum sem haldið er að almenningi varðandi losun svokallaðra gróðurhúsalofttegunda.  Að sjálfsögðu hafa ósvífnir fjárplógsmenn fundið greiða leið að pyngju samborgara sinna með því að selja þeim alls kyns skyndilausnir eins og Hybrid bíla, láta fólk "kolefnisjafna" bíla sína og annað gáfulegt í þessum dúr.  Þarna er höfðað til samvisku fólks sem telur sig geta lagt sitt lóð á vogarskál umhverfisverndar með því að láta einhverja aðra um verndina, bara ef það getur keyrt áfram þriggja tonna ameríska trukkinn sem eyðir jafnvel á þriðja tug lítra á hverja hundrað kílómetra.

Samt er hægt að finna ljós í þessari "kolefnamóðu". 

Síðast liðin 17 ár hefur íslenskur hugvitsmaður, Kristján B. Ómarsson, þróað ofur einfalda hugmynd að eldsneytiskerfi fyrir brunahreyfla.  Hann hefur lagt í þessa hugmynd sína lífið og sálina þrátt fyrir að fáir hafi haft trú á henni fyrst í stað og fjármunir væru af skornum skammti.

Nú er þessi hugmynd hans að verða að veruleika með fjöldaframleiðslu á svokölluðum TCT (Total Combustion Technology) blöndungi.  Þessi blöndungur byggir á alveg gjörbreyttri tækni við blöndun eldsneytis og loft þannig að nýting eldsneytisins verður mun betri.  

Það sem skiptir okkur kannski mestu máli er að þessi tækni minnkar losun CO2 allt að 80% og HC+NOx allt að 35%.  Þetta er eitthvað sem engum hefur tekist áður og nú þegar framleiðsla er að hefjast á fyrstu gerð TCT fyrir smávélar eru mjög miklar vonir bundnar við að þessi tækni geti breytt miklu um losun gróðurhúsalofttegunda frá öllum tegundum brunahreyfla.  Þessi tækni ræður við allt fljótandi eldsneyti allt frá bensíni til jurtaolíu auk gass.

Slæmu fréttirnar eru þær að fyrirtæki Kristjáns, Fjölblendir ehf, er að flytja starfsemi sína úr landi til N-Írlands þar sem allur aðbúnaður nýsköpunarfyrirtækja er margfalt betri en hér á landi.  Þar hefur reyndar prófunarferli þessarar tækni farið að mestu fram á undanförnum árum.  Miklir fjármunir hafa verið lagðir í kaup á einkaleyfum sem víðast um heiminn þannig að í dag er þessi hugmynd vel vernduð.

Hér er á ferðinni eitthvað sem kalla má raunhæfa leið til lausnar á hluta þess vanda sem heimurinn stendur frammi fyrir.  Væri ekki nær fyrir stjórnvöld að taka fyrir alvöru á vanda nýsköpunarfyrirtækja þannig það þau flýi ekki land eitt af öðru.

Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér nánar TCT tæknina skal bent á heimasíðu Fjölblendis ehf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér hefur eitthvað skolast til, því samkvæmt vefsíðu Fjölblendis á að myndast um 80% minni af CO (kol-einsýring) en ekki CO2 (kol-tvísýringur) við notkun blöndungsins.  Enda segir að brennslan eigi að vera betri, þ.e. meira af kolefninu sem brennur verður að CO2 en ekki CO. 

CO er eitur fyrir mannslíkan sem margir deyja af árlega.  CO breytist að lokum í CO2 og hefur þannig einnig áhrif á gróðurhúsaáhrifin en samt í minna mæli, þar sem losun CO er margfallt minni en losun CO2.  Hlutfall CO í útblæstri miðað við CO2 er alla jafna  mjög lítið og því betri sem brennslan er, því lægra hlutfall CO/CO2, og við betri brennslu fæst meiri orka pr. kg eldsneytis.   Hlutverk blöndungs er jú að blanda sem mestu súrefni í eldsneytið til að fá sem mest af CO2, en ekki skila út CO sem er hálfbrunnið eldsneyti.

Það er ekki hægt að minnka CO2 um 80% og fá sömu orku út.  Það þyrfti þá einfallega að minnka eldsneytið sem brennt er um fimmtung og fá þannig fimm sinnum minni orku/afl út.

Ef þessi blöndungur Kristjáns er svona frábær og öll hugverk tryggð með einkaleyfum, hvers vegna fjárfestið þið þá ekki í fyrirtækinu?  Ef 1.000 manns tækju sig til og settu 50 þús kr. hver, þá ættu að fást 50 milljónir kr. sem myndu örugglega hjálpa honum áleiðis. 

Vandamál nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi er ekki lítill opinber stuðningur, heldur lítill áhugi fjárfesta sem kjósa frekar að fjárfesta í innlendum og erlendum starfandi fyrirtækjum og bönkum, þar sem hlutabréf hækka um tugi prósenta á ári.  Það skilar mun meira í vasa fjárfesta en að taka mikla áhættu og fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum sem eftir 17 ára starf eru ekki komin með neina vöru á markað og eiga enn eftir að sanna að varan virki og sé hagkvæm.

Ég skil íslenska fjárfesta vel, og skil einnig vilja íslenskra uppfinningamanna að fara til annarra landa þar sem græðgi og ávöxtunarkrafa fjárfesta er ekki eins mikil, og fjármagn þolinmóðara. 

Geir Guðmundsson (IP-tala skráð) 10.7.2007 kl. 19:12

2 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Takk fyrir athugasemdina Geir.  Auðvitað er þetta CO en ekki CO2.  Hvað annað!  Þetta er einfaldlega klaufaskapur minn.  

Það er ekkert auðveldara að laða fjárfesta til langtímaverkefna eins og þessa.  Skiptir þar engu máli í hvaða landi þú ert staddur.  Hins vegar hafa m.a. Írar og fleiri þjóðir komið á mjög öflugum sjóðum sem bæði veita beina styrki til nysköpunar svo og veita þolinmóðu fjármagni til slíkrar starfsemi.

Gífurlega fjármuni þarf til svona verkefna og fjárfestar hafa lagt miklar upphæðir í verkefnið, a.m.k. talsvert á annan milljarð króna.  Hins vegar þarf svona verkefni miklu meiri fjármuni til að koma hugmynd til fullskapaðrar vöru.  Það er hins vegar að takast hjá Kristjáni og félögum.  50 milljónir sem þú nefnir duga þar annsi skammt.

Mjög áhættusamt er að fjárfesta í fyrirtækjum sem þessum.  Þess vegna þurfa öflugir sjóðir að koma til.  Talið er að af hverjum tíu hugmyndum sem komast á þróunastig endi ekki nema ein sem fullunninn vara sem skilar þá fjárfestum sínum  arði. 

Sveinn Ingi Lýðsson, 10.7.2007 kl. 21:08

3 Smámynd: Morten Lange

Mjög áhugavert, og ég vona að þetta gangi eftir.  En bylting er þetta varla.

Bylting væri ef Íslendingar mundu byrja að hjóla til samgangna til jafns við aðra Norðurlandaþjóðir.  12% hjólreiðar sem hluti af öllum ferðum ( eins og í Þrandheimi, sem er með fleiri brekkur og álíka langt norður )  á höfuðborgarsvæðinu mundi sennilega spara minna í CO, en miklu meira í CO2.  Ogþetta mundi daraga eitthvað úr  háváðamengun, rykmengun, mengun til vatns og jarðvegs og v. innflutning á bílum, bensíni og olíu. 

Þar við bætist að hver hjólari spari samfélaginu amk um 300.000 ISK á ári, mestmegnis í heilbrigðistengd útgjöld fyrir helbrigðiskerfi og atvinnuveitendur.  (Skýrsla frá Transportøkonimisak institutt í Noregi, sem hefur verið staðfest af öðrum rannsóknum ) 

Bærinn mundi verða mun huggulegri og lífandi, og aðlaðandi fyrir íbúa og gesti. 

Morten Lange, 11.7.2007 kl. 11:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband