Vestfjörðum blæðir. Viljum við stoppa blæðinguna?

Var í síðustu viku á ferð um suðurfirði Vestfjarða.  Þetta er landsvæði þar sem ég þekki fólk og land og gert um árabil.  Þangað kem ég reglulega, a.m.k. tvisvar á ári og stundum oftar og það sem við mér blasir er sú sársaukafulla staðreynd að þessi landshluti á mjög undir högg að sækja og mun fara að mestu í eyði innan fárra ára eða í mesta lagi áratuga nema eitthvað róttækt komi til.  Margt veldur en mér að ljóst að til að innviðirnir hafa verið að fúna smátt og smátt, langmest af mannanna verkum, fyrst og fremst stjórnmálamanna. 

 

Atvinnulífið er staðnað og nýsköpun engin.  Bankar lána ekki tileins né neins nema til kvótakaupa því engin eru veðin. Bara hús sem eru einskis virði.  Engin ný atvinnutækifæri verða til.  Bara fiskvinnslan sem mönnuð er af austur evrópubúum.  Smátt og smátt hefur svo farið að unga fólkið kemur ekki til baka að afloknu námi og meðalaldur íbúanna hækkar og hækkar.  Það eru ekki atvinnutækifæri fyrir velmenntað fólk, fólk sem jafnvel hefur lagt fjölda ára í háskólanám og vill ekki fara svo fjarri hinu akademíska samfélagi í Reykjavík, kaffihúsunum, afþreyingunni og tækifærunum sem það getur boðið börnum sínum.  Aðgengilegri og auðsóttari en tækifæri þeirra voru.

 

Fyrst og síðast:  Kvótinn.  Með honum hófst hrunið fyrir alvöru. Það er alltaf erfitt að spila á spil ef allir spilarnir hlíta ekki sömu reglum.  Í spilastokk kvótakerfisins eru mannspilin merkt einum spilaranum við borðið, útgerðarmanninum.  Og hann vinnur alltaf.  Skrítið finnst ykkur ekki.  Það eru engin tækifæri fyrir unga fólkið í þessu kerfi sem er eins og snýtt úr nös á gömlu Kremlarherrunum sem voru frægir fyrir svona sérhagsmunakerfi og allskonar fimm og tíu ára áætlunarbúskap.  Þetta er risavaxið nátttröll í ríki annars frjálrar verslunar og atvinnulífs.  Leifar forsögulegs tíma verslunar- og gjaldeyrishafta Framsóknarflokksins.  Skelfilegt.

 

Einn af höfuðskilyrðum fyrir búsetu í nútímasamfélagi, hvar sem er í heiminum, eru samgöngur.  Það er eins og við í allnægtum okkar höfum gjörsamlega gleymt þessum grunnþætti og engir búa við eins slæmar samgöngur og Vestfirðingar.  Stjórnmálamenn hafa áralangt komist upp með að útdeila smábótum í vegakerfið eins og sleikipinnum til hungraðra barna Afríkulanda.  Engin heildræn hugsun virðist komast þar að.  Jarðgöng og brúaðir firðir eru feitustu bitarnir sem kastað er í kjósendur svona rétt fyrir kosningarnar, sama þótt ófærar forargötur sér til sitt hvorrar handarinnar.

 

Helstu úrræðin sem stjórnmálamenn benda á er ferðaþjónusta (á ónýtu vegunum) sem stendur í mesta lagi tvo, þrjá mánuði á ári.  Á hverju á fólk að lifa hina mánuðina?  Reynt hefur verið að flytja störf út á land af veikum mætti.  Oftast hafa þetta verið lálaunastörf eins og símsvörun og allskyns tölvuinnsláttur.  Þau eru tæpast arðvænleg og alls ekki til þess fallin að laða fólk til búsetu.  En það örlar á ljósi í myrkinu.  Athafnamenn sem ekki virðast ríbundnir af kvótahugsun og veðsetningu bankamanna hafa kynnt hugmyndir um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum.  Viti menn.  Upp rísa upp alls kyns fræðingar og verndarar sem hrópa: Svei, svei!  Stóriðja er vond og óhrein. Hana viljum við ekki á hina hreinu Vestfirði.  Kallaðir eru til hinir og þessir sem finna þessu allt til foráttu, af þessu sé mengun, þetta sé ekki boðlegt stoltum kynhreinum Vestfirðingum o.þ.h.  Bíðum nú við.  Notum við ekki olíu?  Það skyldi þó aldrei vera.  Eigum við ekki bara að láta hreinsa hana í Nigeríu eða öðru álíka þriðjaheimsríki?  Það er allt svo sóðalegt þar hvort eð er.  Jú, það er miklu betra.  Erum við ekki með stór áform um um olíuleit undan Norðausturlandi?  Eitthvað hefur heyrst um það og svo er að skilja að menn séu bara nokkuð vongóðir að finna hana í vinnanlegu formi.  Æi, nei.  Hvar ætlum við að hreinsa hana?  Eigum við ekki að flytja  hana bara til Nígeríu eða einhvers annars þriðja heims ríks og látum þá um skítinn?  Þeir hafa hvort eð engar reglur um umhverfismál.  Væri það ekki æðislegt.

 

Hvers konar tvískinnungur er þetta.  Við högum okkur eins og ódæll krakki í afmælisveislu þjóðanna, krakki sem hrifsar bara það besta af borðinu, hitt er nógu gott í aðra.  Skoðum málið án fordóma frá öllum hliðum.  Eitthvað þarf til bjargar.  Lífinu í þorpunum blæðir út.  Okkar vegna.  Plásturinn fyrir þetta gat þarf að vera eitthvað annað en travelwest.com, fjarvinnsla.is, tínaber.is. 

 

Svo mikið er víst.


Aumingja kínverjarnir. Skyldi Sólveig Pétursdóttir hafa annast ráðgjöfina?

Skondin frétt sem leiðir hugann að sýndarlögreglumönnum sem notast var við á Íslandi í tíð Sólveigar Pétursdóttur þáverandi dómsmálaráðherra.  Reyndar vorum við ekki búinn að tileinka okkur "sýndar..e-h" þannig að við kölluðum þetta pappalöggur.

Allir vita hvað þær virkuðu vel.

Varð það ekki annars???? 


mbl.is Sýndarlögreglumenn halda uppi eftirliti á kínverskum vefsíðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjaldbökufangarinn Einar Hansen, veiðimaður af guðs náð

Hólmvíkingurinn Einar Hansen vakti þjóðarathygli haustið 1963 þegar hann náði að fanga risasæskjaldböku á Steingrímsfirði.  Fréttin um þetta vakti mikla athygli og þótti ótrúleg í meira lagi.  En skjöldu slefaði hann í land á trillunni sinni, Hrefnu II.  Ljóst þótti að dýrið var nýdautt og með ólíkindum að þetta heitsjávardýr væri að flækjast langt norður í Ballarhafi.  

Dýrið var flutt til Reykjavíkur þar sem það var sýnt í Fiskifélagshúsinu og komu þar þúsundir manna til að berja furðudýrið augum.  Menntamálaráðherra lagði fram 10.000 krónur til kaupa á dýrinu sem síðan var gerð afsteypa af.  Afsteypan er geymd í Náttúrugripasafninu í Reykjavík.  Ekki veit ég hvort nokkrum manni datt í hug að geyma gripinn á Hólmavík sem  hefði að sjálfsögðu verið hið eina rétta.  Það er einkennileg tilhneiging að fjarlægja alls kyns verðmæti og safna þeim saman í einhvers lags höfuðstöðum, sbr. þegar handritin voru flutt til Kaupmannahafnar forðum daga.

Nóg um það.  Einar  Hansen var öllum ógleymanlegur sem honum fengu að kynnast.  Því miður urðu mín kynni ekki mikil né löng en samt er hann mér einstaklega minnistæður.  Hann var veiðimaður af guðs náð og starfaði sem slíkur alla tíð eftir því sem ég best veit.  Hann Einar kunni að skjóta svartfugl og seli öðrum mönnum betur og kapp hans við veiðina átti til að leiða hann í annarra manna veiðilendur, svona alveg óvart.  Slíkt varð þó mér vitandi aldrei að miklu né löngu ágreiningsefni við landeigendur.  Hann stundaði einnig veiðar á hrefnu á fyrrnefndri trillu, Hrefnu II, sem var í raun minni en veiðibráðin.  Ég varð þess happ aðnjótandi að fara með Einari í þrjár veiðiferðir til svartfugla og mér er enn minnisstætt hvernig karlinn vissi alltaf upp á hár hvar fuglarnir kæmu úr kafi.

Einar las náttúruna og lífshætti veiðidýranna betur en flestir aðrir.  Feikivel.  Enda hluti af þessari sömu náttúru.


mbl.is Fann tæplega 400 kílóa risaskjaldböku í Steingrímsfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til eiganda Smárabíós: Ég vil fá miðann minn endurgreiddan!

Ákvað að vera innipúki á verslunamannahelginni.  Rétt kíkti austur fyrir fjall í dag og svo beint í bæinn aftur.  Svo ákváðum við hjónakornin að skella okkur í bíó.  Þar sem var verið að sýna Simpsonsmyndina í Smárabíó fórum við á 10 sýningu. 

Mættum í salinn með popp og kók á slaginu 10.  Fyrir í salnum voru 5 áhorfendur.  Þeim fjölgaði ekki.  Næstu 15 mínútur máttum við sitja undir skjáauglýsingum sem endurteknar voru aftur og aftur til að þær færu nú örugglega ekki framhjá okkur.  Í þann mund sem þessi örfáu áhorfendur fóru að ræða sín á milli að ganga út var allt í einu skipt yfir á trailera að bíómyndum sem bíóið ætlar að taka til sýninga á næstunni.   Þessi trailerasýning stóð yfir næstu 15 mínútur þannig að klukkan var orðin hálf ellefu þegar myndin sem við höfðum keypt okkur aðgang að dýrum dómum hófst.

Ok, í leiðindum okkar höfðum við klárað poppið og kókið þannig að ekki var skrjáfið í popppokunum til að trufla einbeitingu bíógestanna.  Enda sáu stjórnendur Smárabíós fyrir því.  Hálftíma síðar var gert korters hlé á myndinni. 

Þessi fjandast ósiður, þ.e. auglýsingasýningar langt fram í auglýstan sýningartíma myndanna er algerlega óþolandi og virkar á fólk eins og hreinn og klár dónaskapur.  Erlendis eru til kvikmyndahús þar sem myndirnar eru niðurklipptar milli auglýsinga.  Inn á slíkar sýningar borgar áhorfandinn ekki.  Nema á Íslandi.  Hér skal auglýsingunum troðið ofan í kok með góðu eða illu.

Svo eru það hléin.  Til hvers í andskotanum?  Eru þau ekki bara til að selja meira sælgæti?  Það getur verið skiljanlegt að hafa hlé í margra klukkutíma kvikmyndum en hlé á stuttmynd eins og Simpsons er einum of mikið af því góða.

Hefur bíógestum ekki farið hlutfallslega fækkandi undanfarin ár?  Ekki man ég betur en hafa séð um það einhverja lærða statistik.  Skyldi skýringanna að leita í ofansögðu.

Næst þegar ég fer í bíó mæti ég í salinn tuttugu og fimmmínútum eftir auglýstan tíma.

Smárabíóseigendur:  Ég vil að þið endurgreiði okkur miðana.  Þið rænduð okkur ánægjunni af góðri teiknimynd. 


Íslenskur aðall

Undanfarin ár hafa verið ár velmegunar á Íslandi.  Gífurlegar breytingar hafa orðið umhverfi viðskipta og atvinnulífs þar sem höft hafa verið losuð og frelsi til athafna hafa aukist.  Að auki leiddi ríkið sínar bestu kýr úr fjósi og gaf útvöldum flokksgæðingum.   Allt þetta varð til þess að ný stétt manna er upprisin; stétt nýríkra.

Sem betur fer kunna margir þeirra nýríku þokka að fóta sig á fjármunasvellinu en því miður virðast allt of margir eiga þar mjög erfitt.  Ég öfundast vegna þeirra en hitt er verra þegar við í lotningu fyrir valdi peninganna ætlum okkur að semja einhverjar sérreglur fyrir þá sem meira mega sína.

Versta dæmið um þetta hafa verið fáránlegar skattareglur þar sem fjármagnstekjueigendur þurfa ekki að greiða sömu skattprósentu og almenningur.  Þetta er sagt að því gefnu að stór hluti ríkra hafi tekjur sínar af fjármagni og greiði þar af leiðandi skatta af fjármagni en ekki beinum atvinnutekjum.   Þetta skattaóréttlæti þarf strax að laga með lækkun tekjuskatts eins og ég hef áður bent á í fyrri bloggfærslum.

Nýjasta dæmið eru sér tollhlið í flughöfnum fyrir þessa einstaklinga.  Þeir hafa að vísu haft sér afgreiðslu í flughöfnum áður með forgangi í innritun, sér biðsölum o.sv.frv.  Björn Bjarnason gagnrýnir þetta og bendir réttilega á bloggsíðu sinni en segir svo: 

„Í þessu efni á að gilda sama regla og í skattamálum, það er að fjárhagslegt svigrúm nýtist til að lækka skatta á öllum en ekki til að ívilna sumum. Þá er sú kenning góð, að sérreglur fyrir útvalda leiði frekar til mistaka en alúð við almennar reglur, sem gilda fyrir alla."

Það var sem sagt málið!  Þarna held ég að Björn hafi sótt heldur óheppilega samlíkingu svo ekki sé nú meira sagt.  Hvergi blasir við meira misrétti en í skattlagningu landsmanna.

Eða hvað finnst ykkur?


mbl.is Sérreglur fyrir útvalda leiða frekar til mistaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðladrama í Hnífsdal

Fyrir rúmum mánuði gengu deilur milli hjóna í Hnífsdal á það stig að eiginmaðurinn greip til þess óyndisúrræðis að ógna konu sinni með haglabyssu.  Það sem ljóst virðist vera í málinu að skot var í hlaupi, skotinu var skotið þannig að sást á konunni.  Sérsveit lögreglu var kölluð til sem náði að yfirbuga manninn sem mun hafa setið í gæsluvarðhaldi síðan. 

Þetta er allt ósköp sorglegt og ég haf alltaf samúð með fólki sem komist hefur eða komið hefur verið í aðstæður sem þessar.  Það sem hins vegar vekur athygli mína er það fjölmiðladrama sem verið hefur í kringum málið. 

Það er nú einfaldlega þannig að á hverjum einasta degi eru konur (oftast) beittar líkamlegu ofbeldi af hálfu maka sinna.  Fjölmiðlar virðast ekki hafa sama áhuga á manninum sem höfuðkúpubraut eiginkonuna með borðfæti auk handleggsbrots og fleiri áverka.  Sá eina smá klausu um þetta á innsíðu Fréttablaðsins. 

Getur verið að fréttamat fjölmiðla sé eitthvað brenglað án þess að ég sé að bera í bætifláka fyrir ölóðan byssumanninn í Hnífsdal.

Er byssan áhugaverðari en borðfóturinn?

 


mbl.is „Ég sá blossa nálægt vanganum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klukkun tekin

Það fór þá svo að maður yrði gripinn og klukkaður.  Benedikt sem ybbir gogg bera alla ábyrgð á því.

1.  Ég er veiðimaður og hef alltaf horft á flesta hluti með augum veiðimannsins.

2.  Skelfilega vanafastur.  Allir hlutir verða að vera á sínum stað (í óreiðunni)

3.  Mér þykir gaman að segja sögur

4.  Fæ stundum skelfileg letiköst og samviskubit í kjölfarið

5.  Les allt sem að kjafti kemur, skáldskap, þjóðlegan fróðleik, og síðast en ekki síst fuglabækur.

6.  Einhverjar bestu stundir mínar eru í faðmi fjölskyldunnar á sólríkum sumardegi við glóandi grill.

7.  Á það til að nöldra út af einhverju sem skiptir mig svo sem engu máli.

8.  Ferðalög eru mér að skapi, nánast ástríða.  Hlakka ætíð til ferðalaga, nýt þeirra og finnst alltaf gott að koma heim.

9.  Bloggið er frábært.  Get komið skoðunum mínum á framfæri þar.

10.  Finnst flestur matur góður og þá helst mikið af honum.  Samt er ég lítið fyrir P-mat (pizzur, pylsur, pasta og pítur).

11.  Þykir vænna um hunda en ketti.

 

Svo klukka ég:  Lindu Ósk, Ómar Ragnarsson, Óttar Guðlaugsson og Pálma Gunnarsson. 

 

Góða skemmtun! 


Í vasa kaupmanna fannst áður glötuð skattalækkun.

Athyglisverð vöruverðskönnun hjá ASÍ.  Þarna kemur það í ljós sem margir óttuðust.  Lækkun virðisaukaskattsins sem átti að koma neytendum til góða lendir öll í vasa kaupmanna eða svo virðist vera.   Enda var við öðru að búast?  Virðisaukaskattkerfið er orðið gapandi götótt, þriggja þrepa, með óteljandi undanþágum.   Það ætti að vera augljós hagur almennings og atvinnulífsins að skattkerfið sé einfalt og skilvirkt. 

Einfaldast væri að vera með eitt skattþrep í virðisaukaskatti og engar undanþágur til að svindla á.  Lækka mætti skattinn með slíkri einföldun, kannski niður í 12 - 14%.  Það myndi minnka verulega hættuna á undanskotum og einfalda skatteftirlit.

Slíkt mætti einnig hugsa sér með tekjuskattinn.  Einn flatan skatt 15 - 20% með persónuafslætti sem beintengdur yrði með lánskjaravísitölu.  Engar undanþágur.  Byggja yrði á sértækum aðgerðum varðandi þá sem sem minna mega sín, þ.e. koma á endurgreiðslukerfi.  Hætt yrði að lítillækka fólk með því að kalla slíkar greiðslur bætur heldur nefna þær einfaldlega tekjur.

Við erum komin í ógöngur með skattkerfið, flestir þeir tekjuhæstu greiða sáralítið til samfélagsins og þeir sem eingöngu greiða fjármagnstekjuskatt lifa eins og ómagar á sveitarfélögunum, þiggja alla þeirra þjónustu en greiða ekkert til þeirra.

Þetta verður að taka til gagngerrar endurskoðunar.

Ekki seinna en strax.


Hvenær er nauðgun nauðgun?

Margir hafa sagt sína skoðun á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í meintu nauðgunarmáli sem kveðinn var upp í síðustu viku.  Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að fjalla frekar um þennan dóm.  Hann er hins vegar ofarlega í huga mér og nú í kvöld sá ég þau Sif Konráðsdóttur og Svein Andra Sveinsson hæstaréttarlögmenn takast á um þetta mál í Kastljósi Sjónvarpsins.

Í mínum huga eru þær forsendur sem dómurinn leggur einhver furðulegasta röksemdafærsla sem ég hef séð í nýlegum dómum.  Það er því rökrétt að niðurstaðan sé í samræmi við forsendurnar.  

Ég ætla ekki að rekja söguna hér en að halda því fram að ekki hafi verið beitt ofbeldi þegar málsaðilar eru sammála um að stúlkunni hafi verið ýtt inn á klósettið, ýtt síðan niður á gólf og klefanum læst að innan.  Stúlkan kemur síðan út af klóettinum með áverka sem dómnum er ljóst að hún hafi hlotið vegna kynferðisofbeldis.  Nei, að ofbeldi var að mati dómsins var það ekki ofbeldi samkvæmt dómvenju á 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.

Í skilningi alls þorra fólks hefur fólk verið beitt ofbeldi þegar það gengur skrámað, marið og blóðugt af vettvangi.  Að túlka það á annan hátt hlýtur að mínum skilningi að vera hreinn og klár orðhengilsháttur.

Hvenær er nauðgun nauðgun?

Það er spurningin. 

 


Drykkjutengd ferðaþjónusta?

Eins og flestum ætti að vera kunnugt er mikill vöxtur í ferðaþjónustu um land allt.  Hér á árum áður ferðast fólk um og skoðaði fossa, hveri og sögufræg fjöll og aðrar sagnaslóðir.  Menn slógu upp tjaldi í túnjaðri einhvers bóndans og fengu sér kannski smá "brennsa" út í kaffið svona rétt áður en skriðið var í svefnpokann að kvöldi.  

Unglingarnir áttu Verslunarmannahelgina og gátu óáreittir drukkið þar frá sér ráð og rænu á tilteknum skemmtisvæðum eins og Húsafelli, Eyjum, Húnaveri og einhverjir þekktir sukkstaðir séu nú nefndir.

Hins vegar voru þorpin flest hver nokkuð afskipt af ferðamannastraumi.  Þar búa að sjálfsögðu áhugamenn um þjóðaríþróttina peningaflokk.  Þessir áhugamenn eygðu skemmtilega leið til að laða til sína íslendinginn á nýja felli- eða hjólhýsinu.  Efnt var til þorpshátíða undir hinum ýmsustu nöfnum eins og Bíladagar Akureyringa, Humarhátíð Hornfirðinga, Færeyskir dagar Ólsara og og nú síðast Írskir dagar Skagamenna.  Þessar hátíð hafa aðallega getið sér orð fyrir drykkju, óspektir og eril hjá lögregluþjónum.  

Með tilliti til þess að yfirvöld ferðamála hafa eindregið hvatt til nýbreytni í ferðaþjónustu landsbyggðarinnar verður að telja þetta nokkurt nýmeti á diskinn þann.  Diskinn sem skartað hefur sögutengdri, menningartengdri, náttúrutengdri, hestatengdri þjónustu svo eitthvað sé nefnt.  Nýjasti rétturinn á diskinum eru þessar bæjarhátíðar.

Skyldu þær þá ekki vera drykkjutengd ferðaþjónusta? 


mbl.is Mikið um ólæti og ryskingar á Akranesi í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband