Eru við sjálfbjarga til að bjarga stórskipum

Alltaf er ástæða til að gleðjast þegar svona vandræði enda vel og báturinn kominn í öruggt tog hjá björgunarskipinu Gunnari Friðrikssyni.  Þarna hafði getað farið ver og enn og aftur eru björgunarskip Landsbjargar að sanna gildi sitt.

Hitt veldur mér ónotum að vita af stórum skipum sem nú eru farin að sigla vestur fyrir landið og við eigum engin björgunartæki til að bregðast við ef illa fer.  Varðskipin lítil og úrelt og þó svo að nýtt varðskip kæmi til ræður það engan veginn við stóru olíuskipin sem koma úr Barentshafinu.  Erum við tilbúin að horfa upp á slíka skaða án þess að fá rönd við reist?

Með auknum siglingum um sundið milli Íslands og Grænlands er okkur algjör nauðsyn að huga að því að eignast björgunarskip sem gæti tekið svona stórskip í tog. 


mbl.is Gunnar Friðriksson kominn að báti sem bilaði í Jökulfjörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er gott að geta kennt kettinum um...

...er stundum sagt um klénar, ódýrar afsakanir á einhverju klúðri.  Gæti hugsast að þarna valdi skuldastaða fyrirtækisins meira um en niðurskurður þorskkvóta?  Talsvert hefur verið fjallað um brotthvarf stjórnenda félagsins og sölu á eignarhlut þeirra og í framhaldi hafi núverandi eigendur skuldsett fyrirtækið svo mikið að það megni ekki að sporna við áföllum sem þessum.  Verðmæti fyrirtækisins hafi fyrst og fremst verið mælt upp af kvótaeign og því sé þetta meira en reksturinn þoli.

Staða Eskju er því miður ekkert einsdæmi.  Verðlagning kvóta er öllum óskiljanleg og ávöxtun fjármuna sem lagðir eru til slíkra kaupa neikvæð, þ.e. ef kaupandinn ætlar að nýta sér kvótann.  Talsvert hefur hins vegar verið með hreint og klárt brask með kvótann og því sitja þeir sem raunverulega ætla sér að nýta hann uppi með sárt ennið.  Ég spái því að á næstunni muni hvert útgerðarfyrirtækið af öðru draga saman seglin og jafnvel hætta rekstri.

Ætla má að við slíkar aðstæður muni verð á kvóta falla mjög.  Ekki öfunda ég þá sem fjárfest hafa í þessar dellu og sitja í súpunni núna.  Þetta staða er klár afleiðing af sérhagsmunastefnu stjórnmálamanna sem skömmtuðu kvótann á sínum tíma til einnar stéttar manna, útgerðarmanna.  Spurningunni um hvers vegna það var gert og hverjir högnuðust á því hefur ekki verið svarað.

Var svo einhver að tala um spillingarlaust Ísland? 


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lifandi herðatré - tízkuljóminn hver?

Lengi hef ég horft í forundran og með óhug á tízkusýningar í sjónvarpi þar sem grindhoraðar, vannærðar stúlkur ganga fram bryggjuna með einkar ankannalegu göngulagi þar sem öðrum fæti er sveiflað fram fyrir hinn.  Svona gengur eðlilegt heilbrigt fólk alls ekki og því verður þetta, hjákátlegt svo ekki sé meira sagt.  Fleira er hjákátlegt eða réttara sagt sorglegt við þessar sýningar.

Vöxtur þessar stúlkna er líkastur því sem maður sér fyrir jólin ár hvert af hungruðum börnum Afríku þegar hjálparstofnanir biðla til ríkra feitra Vesturlandabúa um nokkar krónur til hjálpar hungruðum heimi.  Þessi vöxtur virðist hafa hentað tízkuhúsunum einkar vel þar sem þær (stúlkurnar) virðast allar af staðlaðri stærð og bera fötin álíka vel eins og herðavír (herðatré).  Þar með eru þessi grey orðin að fyrirmyndum stúlkubarna um allan heim sem reyna eftir mætti að tileinka sér útlit og lífstíl fyrirsætanna.  Ekki gramm af fitu ofan í kroppinn sem síðan er píndur í tækjasölum vorldklass og annara slíkra stöðva sem gera beinlínis út á ímyndina.

Afleiðingin blasir við á þessari áhrifaríku ljósmynd Oliviero Toscani sem hann tók fyrir tízkuhúsið Flash & Partner´s í Mílanó.  Myndin sýnir á átakanlegan hátt mannlega eymd stúlku sem óprúttnir tízkudólgar hafa skapað henni og fjölda annara ungra stúlkna.  Átröskunarsjúkdómar leggja þær að velli auk geðrænna vandamála sem fylgja þessum lífsmáta.  Hiklaust má bera afleiðingar þessa lífsstíls við afleiðingar fíkniefnaneyslu.

Sem betur fer virðast sum tízkuhúsanna vera að snúa við blaðinu og velja fyrirsætur sem hafa eðlilegan líkamsvöxt.  Þó verður við ramman reip að draga vegna mótstöðu lífsstílsiðnaðarins sem sem vill reka alla inn í tækjasali, borða alls kyns "fæðubótar"glundur og þar með móta alla í sama horf.  Þessi iðnaður veltir gífurlegum fjármunum í hinum vestræna heimi í dag og þessir menn munu ógjarnan vilja sjá af spæni úr þeim aski til annara hluta.


mbl.is Auglýsing vekur óhug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Etanól sem eldsneyti á bíla - Mikil losun köfnunarefnisoxíðs. Hvern er verið að blekkja?

Það er morgunljóst að ekki er allt sem sýnist.  Fátt er hægt að segja manni til að koma á óvart.  Þó sperrti ég bæði eyru við að hlusta á frétt RÚV um brennslu svonefnds lífræns eldsneytis.  Þar kemur eftirfarandi fram:

Lífrænt eldsneyti sem unnið er úr repju og maís gefur frá sér meira af gróðurhúsa- lofttegundum en eldsneyti úr jarðefnum. Þetta kom fram við rannsókn vísindamanna í Bretlandi, Bandaríkjunum og Þýskalandi.

Munurinn var 70%með repjueldsneyti og 50% með maíseldsneyti. Aðrar tegundir gáfu frá sér minna en jarðefnaeldsneyti. Etanól úr maís er helsta lífræna eldsneytið í Bandaríkjunum en í Evrópu er 80% af öllu lífrænu eldsneyti unnið úr repju.

Þá spyr ég:  Er verið að hafa okkur aftur að fífli, samanber vetnisvitleysuna sem reynt var að troða ofan í kokið á okkur?


Var þá Lína.Net ekki alslæmt eftir allt? Athyglisvert mál.

 

Athyglisverð frétt á RÚV í gærkvöldi sem fjallaði um verðmat  Gagnaveitu Reykjavíkur sem áður hét Lína.net.  Mat Landsbankans hljóðaði upp á 10 milljarða króna og miklar líkur til að verðið myndi a.m.k. þrefaldast á næstu árum.  Annar banki komst að svipaðri niðurstöðu.  Þetta eru mjög athyglisverðar upplýsingar í ljósi þess umróts og deilna sem skekið hafa fyrirtækið og stofnendur þess á liðnum árum. 

Eins og flestir ættu að muna var Lína.net verkefni á vegum Orkuveitu Reykjavíkur.  Stjórnarformaður OR á þessum tíma var Alfreð Þorsteinsson og var hann mjög áfram um vöxt og viðgang þessa verkefnis.  Af hálfu þáverandi minnihluta var allt sem viðkoma Línu.net gagnrýnt harðlega og talin alger sóun á fjármunum.  Þar gekk borgarfulltrúinn Guðlaugur Þór Þórðarson harðast fram og var á tíðum mjög óvæginn og persónugerði gagnrýni sína og andstöðu í garð Alfreðs.

Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar var málið mjög í brennidepli og notað til linnulausra árása á þáverandi meirihluta og fyrst og síðast Alfreð sem var úthrópaður sem einn af spilltustu stjórnmálamönnum landsins og jafnvel lagður í stokk með Finni Ingólfssyni og Árna Johnsen hvað það varðar.

Í ljósi þessa er ótrúlegt að heyra hver vöxtur og viðgangur þessa fyrirtækis er orðinn og „fimm milljarða sóunin" virðist vera orðin ansi mikils virði.

Ég vil taka fram að ég hef ekki neitt dálæti á framsóknarmönnum og tel margt af því þeir hafa staðið fyrir nánast vera eins og hryðjuverk gegn þjóðinni.  Má þar tiltaka alls kyns hafta og sérhagsmunapólítík, t.d. er  kvótasetning fiskveiða gott dæmi.  Varðandi Alfreð hef ég á tilfinningunni að hann sé langt frá því eins slæmur og pólitískir andstæðingar hans hafa útmálað hann.  Sumir hafa bent á Orkuveituhúsið (það ljóta hús)  og framúrkeyrslu fjármuna við byggingu þess.  En er það ekki nánast aðgild regla við opinberar byggingar að framúrkeyrslan fari svo og svo mikið framúr.  Ég minnist þjóðarbóhlöðu, perlu og ráðhúss svo eitthvað sé nefnt.  Ég held að sagan sé að sýna okkur framsýni og elju karlsins sem alltaf hélt sinni stefnu hvað sem aðrir sögðu.  Kannski ekki það lýðræðislegasta en skilar árangri.

Eftir að hafa látið af starfi stjórnarformanns OR var karlinn gerður að formanni byggingarnefndar nýs hátæknisjúkrahúss.  Það mál er reyndar efni í nokkrar boggfærslur.  Hans gamli andstæðingur, Guðlaugur Þór Þórðarson er nú sestur í stól heilbrigðisráðherra.  Og hann lætur Alfreð gossa.  Jamm og já.

Eru einhverjir fleiri en ég sem finna pólítíska skítalykt?


Eigum við að láta miðborgina drabbast niður til að þóknast einhverjum friðunartalibönum?

Fyrir mörgum árum eyddi ég sumrum mínum í það að aka og lóðsa erlenda ferðamenn um landið, þar með talið okkar ástkæru höfuborg.  Ég gleymi seint öldruðum breskum hjónum sem stigu út úr bílnum að kvöldi dags eftir skoðunarferð um Reykjavík.  Þau sögðust hafa lesið talsvert um Ísland og sögu þess en ekki vitað fyrr en nú að svona miklar loftárásir hefur verið gerðar á Reykjavík í seinni heimstyrjöldinni.  Ég leiðrétti þau að sagði að þýski herinn hefði gert 2 - 3 vesældarlegar tilraunir á austfjörðum til loftárása en aldrei hefðu verið gerðar loftárásir á Reykjavík.  Í framhaldi spurði ég hvers vegna þau héldu þetta.  "Jú byggðin er svo gisin og það er eftir að byggja upp á svo mörgum stöðum" var svarið.

Þarna upplukust augu mín fyrir ósamstæðri byggingarmynd miðborgarinnar, tætingslegu samansafni alls myns bygginga, allt frá kofum sem byggðir eru úr kassafjölum og öðru tilfallandi efni og allt til víðáttuljótra sálarlausra steinsteypukumbalda sem virðist hafa verið dritað niður af handahófi hér og þar.

Mörg þeirra húsa sem eru við Laugaveg og í nærliggjandi götum í Skuggahverfinu er reist af miklum vanefnum til íbúðar.  Byggt hefur verið við mörg þeirra en allt en flest eiga það sameiginlegt að henta engan veginn í miðborgarkjarna.  Enda hefur það verið þannig að mannlíf miðborgarinnar hefur verið deyjandi hægt og bítandi.  Ekki hefur mátt hrófla við neinu og allt á að friða.  En til hvers?  Þegar þess er spurt verður oftast fátt um svör.  Helst er nefnt til að húsið sé svo gamalt.  Það getur hreinlega ekki verið ástæða til friðunar ein og sér.  Öll hús eiga sér sögu, hvernig sem það er annars byggt.  Mjög ríkar sögulegar ástæður hljóta að vera til þess að hús séu friðuð þess vegna.

Allt hefur þetta orðið til þess að miðbærinn hefur drabbast niður og verslun hefur flúið inn í Kringlur og Smáralindir.  Sem er slæm þróun.  Þær hugmyndir sem Samson Properties hefur nú sett fram um uppbyggingu á Barónsreitnum hljóta allir þeir að fagna sem vilja hag miðborgarinnar sem mestan.  Við getum ekki bara fryst söguna og eðlilega þróun byggðar og mannlífs.  Við högum okkur eins og phskopatar sem vilja það helst að litla barnið þeirra verið barn að eilífu, klæða það í ungbarnafötin, þó komið sé á fermingaraldurinn og babla enn við það smábarnamál.  Annað tveggja höldum við ástandinu eins og það er og verslun og þjónusta mun finna sér annan samastað eða við sameinumst um eðlilega uppbyggingu sem tekur mið af nútímanum.  Ekki fyrir hundrað árum. 


mbl.is Hugmyndir að nýjum miðborgarkjarna í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sprautufíklar hertaka almenningsklósettin

Ljótt ef satt er.  Það er löngu þekkt staðreynd að fíklar nota sömu áhöld við neysluna þar með talin áhöld eins og sprautur og nálar.  Fyrir nokkru síðan kom ég á fjölsótta bensínstöð að kvöldlagi, tankaði eldsneyti á bílinn.  Við það sóðaði ég mig út þannig að ég gekk inn á karlasalernið til að þvo mér.

Þá blasti við mér blóðför á vaski, klósettskál og veggjum auk þess sem blóðugar servíettur voru í ruslafötunni.  Undir vaskinum, á gólfinu lá einnota sprauta með nál.  Allt blóðugt.  Þetta var ekki geðslegt og vakti ég athygli starfsmanns á þessu.  Hann kvaðst vita af þessu og vera að fara þrífa viðbjóðinn upp.  Þarna hafði ungt par farið inn og verið mjög lengi inni.  Hann sagði þetta sífellt vera algengara að sprautufíklar fengju afdrep á almenningsalernum til að sprauta sig. 

Á mörgum stöðum er farið að nota blá flúorljós sem virka þannig að fíklarnir eiga erfitt um vik að finna æðar til að dæla eitrinu í.  Þessi ágæti "bíldælingur" sagði starfsfólkið vera löngu búið að biðja um slík ljós á salernin.  Ótrúlega algengt væri að sprautur og nálar finndust í ruslinu á klósettum og útiruslafötum.  Starfsfólkið reyndi því að sýna sérstaka varúð við hreinsun ruslaíláta.

Ekki þarf að hafa mörg orð um þá hættu sem saklausu fólki getur stafað af slíkum hlutum.  Alls kyns sjúkdómar berast með blóðsmiti, t.d. HIV og lifrarbólga svo eitthvað sé nefnt. 

Svona eru nú veruleiki Íslands í dag! 


mbl.is Óttast að HIV-hópsýking sé í uppsiglingu meðal fíkniefnaneytenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru ekki gerðar neinar kröfur til flytjandans áður en flutningsleyfi er veitt?

Hvernig ætli það sé.  Eru ekki gerðar neinar kröfur um verkþekkingu og tækjabúnað í svona flutningi?  Mér finnst þetta mál með ólíkindum.  Að flytja hús er vandaverk og ekki á færi nema kunnáttumanna.  Af fréttum má ætla svo ekki vera.   Einnig virðist vera sem tækjabúnaðurinn hafi ekki hæft verkefninu.  Vagnar til svona stórflutninga um ósléttar hallandi götur þarf að vera með stillanlegum hliðarhalla.  Slíkir vagnar eru til hér á landi auk þekkingar og reynslu framkvæmd flutninga sem þessara.  Af hverju var slíkur búnaður ekki notaður?

Getur hver sem er fengið leyfi til að transporta með stórflutninga á götum borgarinnar? 


mbl.is Ferðalagi húss lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjólreiðaáætlun. Verðum við ekki að samræma skipulag til að gera hjólreiðar að raunhæfum samgöngumáta?

Það er virðingarvert ef borgarstjórn Reykjavíkur ætlar að fara vinna áætlun um hjólreiðar sem raunhæfan valkost í samgöngum borgarinnar. Kannski á nú að fara gera eitthvað meira en tala fallega á umhverfisdögum og ráðstefnum.  Hingað til hefur verið litið á hjólreiðar sem eitthvað sport og þá helst fyrir börn og sérvitringa.  

En þá komum við alltaf að því sama.  Það eru SJÖ sveitarfélög sem mynda höfuðborgina.  SJÖ sveitarfélög, hvert með sitt skipulag og áherslur, oft algjörlega á skjön við skipulag nágrannasveitarfélagsins.  Fáum er þetta betur ljóst en hjólreiðamönnum sem ætla að hjóla milli bæjarfélaga.  Viti menn allt í einu endar stígurinn, þú þarf kannski að fara yfir fjölfarna umferðaræð og leita að einhverju framhaldi hinu megin.  Sem allsendis er óvíst að þú finnir nema vera því kunnugri á svæðinu.

Það er hreint óþolandi fyrir íbúa svæðisins að skipulag skuli ekki vera samræmt milli sveitarfélaganna hvort heldur er litið til samgangna eða ýmissa félagslegra þátta.  Einu sinni var til skipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins, kannski er hún til ennþá.  

Ég auglýsi eftir henni. 


mbl.is Samþykkt að vinna hjólreiðaáætlun fyrir Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson

Kæru dómarar.  Þessi dómur misbýður almenningi.  Gjörsamlega.  Mér líka.  Þess vegna munu nöfn ykkar standa með stórum svörtum stöfum á mínu bloggi í dag.

Látum nöfnin þeirra standa í svörtu  í allan dag á bloggsíðum okkar. Þau tala fyrir sig sjálf verkin þeirra. Og við erum með þögla yfirlýsingu um hvað okkur finnst um þau.

Það voru hæstaréttardómararnir; 

Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson

sem sáu ástæðu til að milda dóm nauðgarans úr 4 ár sem var dómur héraðsdóms í 3 1/2 ár.

Hvar stendur þjóð sem skynjar ekki réttlæti sitt og traust á þeim sem eiga að fylgja því eftir???

Ég ætla að láta þessi nöfn og spurningu mína standa hér í dag með stórum svörtum stöfum. Vona að fleiri geri slíkt hið sama á sinni bloggsíðu undir yfirskriftinni

Hinn svarti dagur Dómaranna.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband