Miðvikudagur, 14. nóvember 2007
Álftanes. Er ekki nóg komið, kæri bæjarstjóri?
Þegar ég kom heim áðan hafði borist inn um bréfalúguna bæklingurinn alftanes.is, Sérstök útgáfa til kynningar á nýju miðbæjarskipulagi. Litprentaður, fullur skrautlegra mynda, þar sem léttklætt fólk gengur um tjarnarbakka, ráðhúsklukkan í baksýn og svanurinn heilsar að hætti útlenskra. Ja hérna. Flott skal það vera.
Útgefandinn er Sveitarfélagið Álftanes og ábyrðarmaðurinn er bæjarstjórinn okkar. Maður skyldi þá ætla að hægt sé að fræðast og kynnast ólíkum sjónarmiðum um skipulagið. Á forsíðunni er viðtal við GASSA arkitektana, þau Guðna Tyrfingsson og Auði Alfreðsdóttur. Þau brosa til okkar lesandanna og segjast hafa hannað grænan miðbæ. Satt er það, rækilega hefur verið krotað með græna litnum ofan í annars hnjóskulega teikninguna sem okkur hefur veirð sýnd fram að þessu. Með því að hafa bílastæðin neðanjarðar skapast meira rými fyrir grænu svæðin sem eiga að vera milli lítilla einkalóða húsanna í kring. Þá spyr ég: Hver á að halda grænu svæðunum við? Hefur það gengið svo vel hér fram að þessu? Réttur til umferðar vélknúinna ökutækja skal takmarkaður og hraðanum haldið niðri til að skapa rólega stemmingu. Já það er trúlegt eða hitt þó að stemmingin verði róleg á Skólaveginum þegar nánast öll umferð úr miðbænum, Breiðumýri og að og frá skóla ferð þar um. Hún verður væntanlega einstaklega friðsæl umferðin á Skólaveginum þegar allir 60 - 100 þúsund gestirnir koma eins til að berja forsetasetrið og náttúrufegurðina augum.
Á innsíðu hvetur bæjarstjórinn til sáttar um miðbæinn og segir orðrétt: Þetta er fagnaðarefni og má ætla að í stað ágreinings um grundvallaratriði sem áður var sé nú fyrst og fremst álitamál uppi, en álitamál verða alltaf til staðar þegar fjallað er um skipulagsmál". Við lestur þessara orða bæjarstjóra verður manni hreinlega orðfall. Er maðurinn að meina það sem hann segir og segja það sem hann meinar? Annað tveggja er hann algjörlega veruleikafirrtur eða svona ótrúlega ósvífinn. Ég held að ekki fari framhjá nokkrum manni hér á Álftanesi að hér logar allt í deilum! Deilum sem snúast um grundvallaratriði í skipulaginu. Grundvallaratriði! Reyndar eru álitamálin líka fjölmörg. Með þeirri grundvallarbreytingu sem gerð hefur verið á verðlaunatillögu GASSA sem felst í lokun Breiðumýrar og stóraukinni byggð á miðsvæðinu hefur öllu verið hleypt í loft upp á nýjan leik og ekki sýnt var málið endar.
Bæjarstjórinn upplýsir líka í grein sinni að bæklingurinn eigi að auðvelda íbúunum að svara spurningum í væntanlegri könnun Capacent Gallup um skipulagið. Um hvað skyldi eiga að spyrja? Hvernig verða spurningar orðaðar? Fá íbúar að sjá allar niðurstöður könnunarinnar að henni lokinni? Ég meina ALLAR því hér má ekkert undan draga.
Já, gott fólk. Þessi bæklingur á víst að auðvelda fólki svörin þegar Gallup hringir. Sennilega þá réttu svörin að mati bæjarstjórans því uppsetning og efni hans er einhliða fegrunaraðgerð á dæmalausu klúðri bæjarstjórnar. Allan ferilinn hefur eitthvað verið að bætast við, hús hér og hús þar. Bensínstöð og það nýjasta, gámastöð við hlið hennar. Þetta er æðislegt, skyldu nágrannar hennar ekki verða hrifnir. Og nýjasta bullið er ráðstefnuhótel í tengslum við aðra álíka útópíu, svokallað menningar og ráðstefnuhús. Ég hitti fyrir tilviljun í dag aðila sem hefur mikla reynslu af ráðstefnuhaldi. Hann sagði nánast algjört skilyrði fyrir ráðstefnuhaldi í þéttbýli að þær væru í þægilegu göngufæri við miðbæjar, verslunar og skemmtanakjarna. Nema í þeim tilfellum þar sem farið væri með fólk á afskekkt sveitahótel. Hann sagði að sennilega yrði erfitt að selja ráðstefnur á svona stað, jafnvel þó á móti Bessastöðum væri.
Hér er ekki efni til hlutlægrar opinnar gefandi umræðu um miðbæjarskipulagið. Þarna er einhliða áróðurspési og ekki laust við að maður brosi út í annað þegar manni verður hugsað til margmiðlunardisksins fræga forðum daga.
Finnst fólki þetta ekki góður grundvöllur til sáttar um miðbæjarskipulagið. Ég held ekki.
Miðvikudagur, 24. október 2007
Skólabíll sem þekkist á (skíta)lyktinni!
Þessi gamla rúta er kyrfilega merkt TREX - Hópferðamiðstöðin ...eitthvað og að auki er á henni merki sem auðkenni skólabifreiðar. Út úr vinstri hlið þessarar rútu stendur útblásturrörið þar sem þykkur dökkleitur reykjamökkur stendur út úr. Ekki nóg með það að mökkurinn sé þykkur heldur er lyktin svo skelfilega vond að ég man varla eftir öðru eins frá því ég vann á æfagamalli JCB gröfu fyrir einhverjum áratugum síðan. Sú reykti eins og gamall kolatogari.
Stórar bifreiðar eru flokkaðar eftir stöðlum um útblásturmengun. Staðlarnir eru nefndir Euro-1 - Euro-5 þar sem efsta talan stendur fyrir mestu kröfurnar. Í einfeldni minni hélt ég að gerðar væru lágmarkskröfur til bíla sem flytja að dýrmætasta sem við eigum, börnin. Það er greinilega ekki í þessu tilfelli.
Alla vega er þessi bíll til mikilla óþæginda fyrir aðra vegfarendur, hvað þá börnin sem eru flutt í honum. Væntanlega er þessi aðili í verktöku fyrir einhvert sveitarfélag. Sá verkkaupi hefur greinilega ekki háan "standard" varðandi skólabörnin svo ekki sé um aðra þolendur talað.
Mánudagur, 22. október 2007
Lýðræðisástin á Álftanesi. Hún klikkar varla!
Umfjöllun fjölmiðla að undanförnu um málefni stjórnsýslunnar á Álftanesi og nú síðast grein sem ég fékk birta í Morgunblaðinu virðist hafa hreyft við mörgum íbúum Álftaness. Alla vega er ég búinn að fá ófá samtölin, ábendingar og tölvupósta vegna geinarinnar, fjölmiðlar hafa haft samband og Stöð 2 var með fyrstu umfjöllun um málið í gærkvöldi.
Það verður mér æ betur ljósar að mikil ónægja kraumar undir niðri með stjórnsýslu bæjarstjórans á Álftanesi og gassa-ganginn á að kýla miðbæjarskipulagið í gegn á ógnarhraða og helst nýju íslandsmeti, hver veit. Fram að þessu hefur hann ekki kannast við neina óánægjuraddir og sagt gleiðbrosandi allt vera í himmnalagi. Hvað hann hefur haft fyrir sér í því veit ég ekki. Kannski hann geti bent á einhverjar kannanir eða kannski kosningar máli sínu til stuðnings. Það var fyrst í gær að örlaði á skilningi eitt augnablik í fréttaviðtali Stöðvar 2 en hann afgreiddi það síðan sem einhverja fýlu tapara siðustu sveitarstjórnarkosninga.
Ég vil og get ekki tekið svo stórt upp í mig að segja að almenn óánægja eða almenn ánægja sé með miðbæjarskipulagið eða stjórnarhætti bæjarstjórans. Hitt er alveg á hreinu að margir eru óánægðir og aðrir mjög óánægðir og það eru ekki bara einhverjir sárir sjálfstæðismenn. Aldeilis ekki því sumir af þeim sem glöptust á að skrifa undir kröfu Álftaneshreyfingarinnar og Betri byggðar um íbúakosningar og kusu síðan Álftaneshreyfinguna eru jafn hissa, svekktir og sárir með hvernig loforð bæjarstjórans og fylgifiska hafa þróast í andhverfu sína. Telja því sig hafa verið plataða upp úr skónum svo ekki sé nú fastar að orðið kveðið.
Ég hvatti í grein minni fulltrúa Álftaneshreyfingarinnar til að sýna nú lýðræðisást sína í verki og efna til íbúakosninga um þær tillögur sem fyrir liggja. Ekki var hún lítil þessi ást þeirra á lýðræðinu fyrir kosningarnar. Þá stóð efst á blaði að setja skyldi reglur um íbúakosningar. "Látum íbúana kjósa um ásýnd miðsvæðisins" klifuðu þeir fyrir kosningar. Hvað hefur breyst. Er lýðræði eitthvað sem tekið er ofan af hillu á tyllidögum eða á það að vera lifandi og virkt.
Hlutirnir gerast hratt þessa dagana og því geri ég þessi orð eins frambjóðanda Álftaneshreyfingarinnar fyrir síðustu kosningar að mínum:
"...Við skulum átta okkur á því, Álftnesingar góðir, að eftir nokkrar vikur er hætt við að þetta skipulag verði orðið að veruleika. Byrjað verði að grafa og steypa og við sitjum uppi með umhverfisslys hér á fallega nesinu okkar. Tökum höndum saman, látum í okkur heyra ..."Miðbæjarmúrinn" má ekki verða að veruleika!"
Kannski þetta eigi við í dag líka. Dæmi hver fyrir sig.
Sunnudagur, 21. október 2007
Álftaneshreyfingin: Hvar eru fögru fyrirheitin?
Mér líður seint úr minni þegar ég sá franska bóndakonu sitja með stóra aligæs sem klemmd var í klafa hafandi sett trekt upp í kok fuglsins. Trektin sú arna var fyllt kornstöppu. Stöppunni tróð síðan kerlingin ofan í fuglinn með rekaldi einu sem smellpassaði í kok fuglsins. Allt var þetta gert til að fá ofurstóra lifur þegar gæsinni yrði slátrað.
Mér og fleiri Álftnesingum líður eins og umræddri gæs. Bæjarstjórinn, Sigurður Magnússon, komst með fulltingi fulltrúa Álftaneshreyfingarinnar fyrir rúmu ári í þá draumastöðu og taka kjósendur klafataki og treður núna gegnum trektina ofan í kokið á okkur arfavitlausu rugli sem hann kallar metnaðarfulla uppbyggingu miðsvæðis.
Forsöguna ættu flestir að þekkja. Gerð var uppsteit og safnað undirskriftum vegna skipulags sem samþykkt var í fyrri bæjarstjórn á síðasta ári. Því var fundið allt til foráttu og gert tortryggilegt á allan hátt. Ótrúlegustu sögum var komið á kreik upp um meinta spillingu og alls kyns annarlegar hvatir þáverandi bæjarstjóra og bæjarfulltrúa Sjálfstæðisfélagsins. Þessum sögum (rógburði) var dreift frá manni til manns og síðan vísuðu frambjóðendur Álftaneshreyfingarinnar óspart í þessar sögur með hálfkveðnum hætti m.a. í greinaskrifum og áróðursbæklingum Þar vantaði ekki fögru fyrirheitin eins og neðangreind dæmi sýna í skrifum Sigurðar Magnússonar þá frambjóðanda Álftaneshreyfingarinnar en núverandi bæjarstjóra í málgagni hreyfingarinnar fyrir kosningar:
1. ,,Álftaneshreyfingin hafnar gamaldags stjórnsýslu og verktakapólitík um að byggja mikið og hratt, eins og rekin hefur verið á Álftanesi."
2. ,, Álftaneshreyfingin vill hinsvegar fá fleiri tillögur og gefa íbúunum kost á að velja úr ólíkum lausnum og koma með sínar hugmyndir."
3. Við skorum á hinn almenna íbúa að taka undir kröfuna um íbúakosningu vegna miðsvæðisins, ekki síst fylgjendur D-listans sem margir hafa sömu sýn á skipulagsmálin og við sem styðjum Álftaneshreyfinguna. Látum íbúana kjósa um ásýnd miðsvæðisins."
4. ,,Við viljum lágreista, vandaða húsagerð, þjónustu sem er sniðin að þörfum lítils samfélags og í samræmi við óskir íbúanna. Mikilvægt er að skapa samstöðu um þessa uppbyggingu."
Þessi fögru fyrirheit Sigurðar virðast gleymd í dag. Hvað er annað að gerast í skipulagsvinnunni en gamaldags hér ræð ég" pólitík í bland við hagsmuni verktaka sem virðast beita bæjarstjórn mikilli pressu. Hvað varð um íbúalýðræðið? Einn kynningarfundur og öll umræða í skötulíki. Meira að segja fær skipulags- og byggingarnefnd ekki að taka þessar tillögur til efnislegrar umræðu fyrr en 4. okt. s.l. Halló, halló, hvað er að gerast hér?
Förum yfir málið. 1. Við höfum í dag samþykkt deiliskipulag af miðsvæði. 2. Efnt var til verðlaunasamkeppni. Ein tillaga hlaut samdóma álit dómnefndar til fyrstu verðlauna. Almenn samstaða virtist vera um hana. 3. Á grundvelli hennar var verðlaunahöfunum gert kleyft að útfæra hugmyndina til alvöru deiliskipulags. Það hafa þeir gert en gallinn á núverandi tillögu þeirra er að búið er að gjörbylta hugmyndinni frá upphaflegri verðlaunatillögu fyrst og fremst með því að auka byggingamagn og kúvenda umferðarskipulagi.
Þá erum við í raun með þrjár tillögur sem almenningur á Álftanesi mætti taka afstöðu til. Ég legg til að Álftnesingar fái að kjósa í almennum kosningum um þessar þrjár tillögur. Látum íbúana kjósa um ásýnd miðsvæðisins" klifaði núverandi bæjarstjóri á fyrir rúmu ári síðan. Látum hann standa við stóru orðin. KJÓSUM!
Að síðustu: Skipulag miðsvæðisins er mikið hitamál og var lagt undir af hálfu Sjálfstæðisfélagsins í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Þar féll þáverandi meirihluti á þrem atkvæðum. Þrem atkvæðum! Fulltrúar Álftaneshreyfingarinnar kusu að túlka kosningarnar sem svo að hverfa ætti frá samþykktri skipulagstillögu og efndu til arkitektasamkeppni. Lái þeim hver sem vill. Með sömu rökum mætti þá líka ætla að hinn helmingurinn hafi verið sáttur við skipulagið. Ég skynja mikla og nokkuð almenna óánægju með framgöngu bæjarstjórans og fylgifiska hans í þessu máli. Ég vísa því beint til orða hans í dreifibréfi sem borið var í hús fyrir síðustu kosningar: Mikilvægt er að skapa samstöðu um þessa uppbyggingu." Það voru orð að sönnu. Er það ekki verðugt verkefni hans eimmitt nú?
Þessi grein birtist einnig í Mbl. í dag.
Mánudagur, 15. október 2007
Gamli góði Villi: Er ekki kominn tími til að hætta að syngja?
Í ljósi þeirra vandræða sem Gamli góði Villi hefur nú ratað í rifjaðist upp fyrir mér góð dæmisaga um lítinn fugl sem lagði af stað á köldum haustmorgni til heitari landa. Allir hinir fuglarnir voru löngu flognir en fuglinn okkar drollað í reyniberjatrjánum lengur en góðu hófi gegndi. Og honum var kalt á fluginu, ósköp kalt. Honum var svo kalt að hann missti flugið og nauðlenti á sölnuðu túni. Þar var nautahjörð á beit. Stórt naut gekk til litla fuglsins og spurði hvað hann væri að gera þarna. "Ó, mér er svo kalt og ég held að ég geti ekki flogið áfram og deyji hérna". "Ég skal hlýja þér sagði nautið" sneri sér við og skeit stórri, risastórri kúadellu yfir litla fuglinn. Hann greip andann á lofti og barðist um þar til hann gat stungið höfðinu upp úr dellunni. Og þá fann hann hlýjuna úr kúadellunni umlykja sig allan og eftir smástund þá leið honum svo vel að hann fór að syngja hástöfum, svona rétt eins og það væri komið vor. En svo var ekki. Köttur bóndans heyrði sönginn og gekk út á túnið. Þegar hann sá litla fuglinn fastann í kúadellunni spurði hann smjaðurslega hvað amaði að. Litli fuglinn sagði honum alla söguna og sagðist vera pikkfastur í dellunni. "Ég skal hjálpa þér" sagði kötturinn og veiddi litla fuglinn upp úr dellunni. Þreif síðan af honum skítinn og það því búnu át hann fuglinn, mjálmaði af ánægju og hélt heim í hlýju bóndabæjarins.
Hvaða lærdóm getum við dregið af þessari sögu: Jú, við skulum ekki vera að drolla. Þeir sem gefa skít í mann þurfa ekki endilega að vera óvinir manns og þeir sem þykjast hjálpa og hreinsa af manni skítinn þurfa ekki endilega að vera vinir manns. EN UMFRAM ALLT: Ef maður er í djúpum skít er ekki skynsamlegt að hafa hátt!
Gamli góði Villi: Hættu að syngja. Það fer þér best nú.
Miðvikudagur, 10. október 2007
Álftnesingar vaknið! Hvað er búið að gera við verðlaunatillöguna um skipulag miðsvæðisins?
Í sveitartjórnarkosningum 2006 var hart tekist á um skipulagsmál svokallaðs miðsvæðis á Álftanesi. Þar var samþykkt skipulagstillaga rökkuð niður af andstæðingum D-listans og sögð mótast fyrst og fremst af hagsmunum lóðabraskara og verktaka, talað var um "massíva háhýsabyggð" og annað í þeim dúr. Skipulagið átti að vera nánast mannfjandsamlegt. Þetta fólk talaði fjálglega um íbúalýðræði, vistvæna lágreista byggð sem ætti að hæfa hinu náttúruvæna Álftanesi. Lofað var arkitektasamkeppni þar sem "raddir íbúa" fengju að njóta sín og lýðræðisástin yrði í hávegum höfð við meðferð málsins. Grimmúðleg ófrægingarherferð var sett í gang og bæjarstjóri og bæjarstjórn rökkuð niður þar sem nánast öll þeirra hegðun og gerðir voru gerð tortryggileg eins og frekast var kostur.
D-listinn lagði málið undir í kosningum og tapaði. Svo einfalt var það nú. Nýjir valdhafar settust í stólana og ný skyldi efna loforðin. Vissulega var samkeppni sett af stað um miðsvæðið. Margar áhugaverðar tillögur bárust en það var samdóma niðurstaða dómnefndar að tillaga Gassa arkitekta væri best. Í framhaldi af því voru þeir fengnir til að útfæra tillögur sínar nánar.
Nú beið ég spenntur eftir íbúalýðræðinu. Alltaf verið spenntur fyrir svoleiðis. Sérstaklega þegar gamlir kommar tala þannig. Einhver bið hefur nú orðið á þessu lýðræði. Kynningin hefur verið afskaplega einhliða og í algjöru skötulíki. Bæklingar bornir til fólks þar sem kort og myndir voru svo ógreinilega að vart var hægt greina þar hismi frá kjarna. Einn kynningarfundur var haldinn í september sem var þess eðlis að hann vakti upp fleiri spurningar en hann svaraði. Ekki hefur verið hægt að sjá nein merki um svokallaða lýðræðisást valdhafanna og ekki var einu sinni haft fyrir því að leggja málið í vinnuferli hjá byggingar og skipulagsnefnd fyrr en 4. okt. s.l.
Á morgun er boðaður fundur nefndarinnar þar sem á að afgreiða málið úr nefndinni og síðar um daginn kl. 17:30 er boðað til fundar bæjarstjórnar þar sem á að afgreiða tillöguna. Þegar tillagan er skoðuð kemur í ljós og stórfelldar breytingar hafa verið gerðar á verðlaunatillögunni. Nú á að loka Breiðumýri að sunnanverðu þannig að stærstur hluti umferðar inn og út af svæðinu fer um Skólaveginn. Þar er hann lagður um baklóðir íbúa við Suðurtún sem að auki þurfa að taka bensínstöð upp að húsveggnum. Austur og suðurlóðir við Suðurtún hafa þótt einstaklega eftirsóknarverðar vegna einstaks óskerts útsýnis til Bessastaða,nágrannasveitarfélaganna og fjallahringurinn í austri blasir við. Nú á að eyðileggja þetta með "massífum" blokkabyggingum meðfram Norðurnesveginu og til að bæta gráu ofan á svart eru þær skásettar þannig að útsýnið verður alveg tekið. Í þessari tillögu er aldeilis ekki minni "háhýsa"byggð en í þeirri fyrri. Þvert á móti auk þessa hryllilega náttúruhúss sem áætlað er að byggja gengt Bessastöðum.
Ef þessu fólki var einhver alvara með fjasi sínu um samráð og íbúalýðræði af hverju er þá ekki íbúunum treystandi til að taka ákvörðum um skipulagstillögurnar. Þá sem er í gildi og þá sem ætlunin er að samþykkja á morgun.
Ég skora á ykkur, ráðandi meirihluta að standa ykkar plikt í því efni. Þið getið ekki hagað ykkur eins og nashyrningur í glervörubúð. Kannski þið séuð farin að átta ykkur á að þið munuð ekki eiga neitt framhaldslíf sem valdhafar eftir næstu kosningar. Ef svo er þá skýrir það margt.
Ég hvet fólk til að láta í sér heyra og láta ekki hvað sem er yfir sig ganga. T.d. mætti mæta á bæjarstjórnarfundinn á morgun, 11. okt. Hann byrjar kl. 17:30 í hátíðasal íþróttamiðstöðvarinnar.
P.S. Rétt að vekja athygli á ansi beittum athugasemdum og upprifjunum á loforðum fyrir kosningarnar 2006.
Fimmtudagur, 4. október 2007
Að þekkja góðan smið....
Sá er tvisvar mælir en sagar einu sinni.
Þriðjudagur, 2. október 2007
Blogg um blogg og bloggleiki - Tillaga til ritstjórnar
Núna ætla ég að brjóta loforð sem ég gaf sjálfum mér og öðrum en það var að ég skyldi aldrei blogga um bloggið. Er þá hægt að komast lengra í vitleysunni en blogga um blogg? Til að gera langa sögu stutta þá hefur ritstjórn bloggsins auðvelda' lesendum aðgengi að því sem efst er á baugi í bloggheimum með því að skipta færslum niður í flokka, ný blogg, heit blogg, vinsæl blogg o.sv.frv.
Nú ber svo við að þegar heitabloggs dálkurinn er opnaður þá blasa þar við 24 færslur. Helmingur þessara færslna eða 12 snúast um leik sem ágætur bloggverji, Kalli Tomm, ýtti úr vör fyrir nokkru. Ekki það að þessi leikur eigi ekki rétt á sér. Síður en svo. Hins vegar er hann orðinn svo útbreiddur og kvíslast um allt moggabloggið að hann lítur orðið út eins og einhvert æxli.
Ég legg því til við ritstjórn bloggsins og búinn verði til sér dálkur fyrir bloggleiki. Þar hafa þá þeir sitt sem þar hafa áhugann en truflar aðra minna sem eru kannski á svolítið öðrum nótum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Mánudagur, 1. október 2007
Myndu múslimskir alþingismenn tilbúnir að ganga til kirkju við þingsetningu?
Alþingismenn mættu í vinnuna í dag. Ég vona að sumarleyfið þeirra hafi verið vel heppnað. Ræður forsetana, Íslands og Alþingis voru athygliverðar, Ólafur skaut pólitískum skotum að vanda en í þessa sinn hitti hann markið. Meira um það síðar.
Umhugsunarvert er hvernig þingsetningin fer fram. Þá á ég fyrst og fremst við þann trúarlega svip sem þingsetningin hefur. Þessi ríkistrú sem við erum skikkuð að greiða fyrir er þarna í kompaníi með stjórnmálum sem ekki hefur þótt góð latína t.d. í löndum múslima. Þar finnst okkur forkastanlegt hvernig trú og stjórnmál blandast saman illu heilli oftast nær.
Á meðan forseti þjóðarinnar lætur sig hafa það að ganga til kirkju við hlið biskupsins með ríkisstjórn og þingheim að baki sér finnst mér tæpast hægt fordæma aðra fyrir það sama. Eru allir þingmenn kristnir? Allt í einu gætum við haft þingmenn sem væru annarar trúar. Væru þeir tilbúnir að ganga til kirkju og meðtaka þar erkibiskups boðskap?
Þrátt fyrir að vera sjálfur kristinn legg ég til að þessari kirkjugöngu þingheims verði hætt. Hún er einfaldlega ekki við hæfi. Stjórnmálum og trú á ekki að blanda saman.
Alls ekki.
Föstudagur, 28. september 2007
Sýnum samstöðum og köllum landið réttu nafni - Burma
Þegar það loks gerist. Þegar það loks gerist. Almenningur í Burma með krúnrakaða Búddamunkana í broddi fylkingar rís upp gegn þeirri grimmdar harðstjórn sem ríkt hefur um alltof mörg ár. Harðstjórar hersins sem haldið hafa völdum með tilstyrk annarar harðstjórnar, þeirrar er ræður öllu í Kína.
Þessir harðstjórar hafa breytt nafni landsins í Mjanmar auk þess að breyta nafni höfuðborgarinnar Rangoon. Þessi nýju nöfn eru táknmyndir stjórnarherranna og fólkinu í landinu alls ekki töm. Ég skora á bloggverja, fjölmiðlamenn og ekki síst stjórnmálamenn að sýna íbúum þessa hrjáða lands þá virðingu að kalla það réttu nafni - Burma.
Það væri örlítill samstöðuvottur í baráttunni fyrir betra lífi.