Miðvikudagur, 6. febrúar 2008
Er siðrænt að eyða milljörðum af annarra fé?
Undanfarin misseri hafa dunið á landslýð fréttir af ofsagróða banka og alls kyns grúppa þetta og grúppa hitt hvort heldur á heimamarkaði ellegar í útrásinni góðu. Ekki tekur að tala um milljónir, tugi milljóna eða milljarða, heldur er oftast talið í tugum og jafnvel hundruðum milljarða. Tölur sem þessar draga svo mörg núll með sér að venjulegu fólki sundlar við og ber lítt skynbragð á upphæðirnar. Upphæðir sem eru órafjarri raunveruleika hinna venjulegu manna, launaþrælanna sem í reynd halda uppi ofsagróðanum með okurvaxtagreiðslum af handónýtri krónu. Þeirri krónu sem lögð hefur verið undir jöklabréfaþeytivindu erlendra braskara. Allar tölur í þessum stærðum eru nánast óskiljanlegar og erfitt að setja í samhengi við þau raunverulegu verðmæti sem í lífi íslendingsins skipa hvað hæsta sess, þ.e. íbúðin og kannski bíldruslan.
Þessi sýndarhyggja gegnsýrir orðið alla umræðu og fólki finnast milljarðar til eða frá ekki skipta neinu máli. Svo einhver dæmi séu tekin þótti ekki tiltökumál að borga borgarstjórastólinn undir Ólaf F. með kaupum á ónýtu spýtnabraki við Laugaveginn. Þeim sem sömdu við Ólaf F. verður ekki gert að borga dellunna heldur er reikningurinn sendur til skattgreiðenda. Fimmhundruð milljónir þar. Þessum sömu borgarfulltrúm finnst ekkert tiltökumál að setja Sundabraut í jarðgöng þó svo að það kosti skattgreiðendur a.m.k. 9 - 10 milljarða aukalega þrátt fyrir að að færustu sérfræðingar í umferðarmálum telji lausn Vegagerðarinnar bæði mun betri frá umferðarsjónarmiði auk þess að vera milljörðunum ódýrari. Fyrir þessa umframpeninga mætti leysa stóran hluta af öllum umferðarvandamálum höfuðborgarsvæðisins og leggja 2+1 veg frá Selfossi að Borgarnesi.
Mjög er pressað á stjórnvöld að falla frá hugmyndum um slíkan veg (2+1) til Selfoss og Borgarness og velja í stað þess margfalt dýrari lausn sem er 2+2 vegur. Engin umferðarleg rök liggja til lagningu 2+2 vegar auk þess sem kostnaður er margfaldur, verktíminn er mun lengri og á meðan við eyðum tugum milljarða í þetta æpa óunnin verk á okkur um allt landið. Verk sem spara ófá slysin og mikla fjármuni. Benda má á stórgóða grein eins fremsta umferðarsérfræðings landsins, Rögnvaldar Jónssonar verkfræðings, í Morgunblaðinu í dag um þetta mál. Það er eins og margir hafi görsamlega tapað allri vitrænni hugsun varðandi þessar framkvæmdir og vilji fyrst og fremst skara sem mest að eigin köku og þá á kostnað annarra sem skulu á bíða lengur brýnna úrbóta.
Mér finnst kominn tími til að staldra aðeins við og horfa heildrænt af ískaldri rökhyggju á þessi mál og taka ákvarðanir af skynsemi og í samræmi við nauðsyn hverju sinni. Stjórnmálamönnum er þar síst treystandi. Þeirra ákvarðanir miðast því miður oftast við stundarhyggju og atkvæði næstu kosninga.
Því er miður.
Fimmtudagur, 24. janúar 2008
Skrílslæti í ráðhúsi Reykvíkinga
Þar er fátt annað hægt að segja um framkomu áheyranda á pöllum ráðhússins en hún hafi verið þeim til skammar. Rétta orðið yfir þetta mun vera orðið SKRÍLSLÆTI.
Engu máli skiptir hvar í flokki menn standa eða hverjar skoðanir þeirra eru. Svona gera menn ekki!
Mótmælendur yfirgefa Ráðhúsið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 25.1.2008 kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Miðvikudagur, 23. janúar 2008
Álftnesingar sýna samtakamátt sinn gegn óbilgjörnum bæjaryfirvöldum
Í samræðum manna á milli kom fram mjög eindregin andstaða við þessa hugmynd og í framhaldi af því leiddu þær Gerður Björk Sveinsdóttir og Brynja Guðmundsdóttir saman hóp fólks sem tilbúið var að leggja málinu lið.
Þessi hópur sem samanstendur af fólki úr fólki af öllum stigum, stéttum, flokkum og ekki flokkum. Hópurinn gekk hús úr húsi síðustu þrjú kvöld og tók við athugasemdum íbúa. Mér sem þátttakanda í hópnum kom þægilega á óvart hvað gífurleg andstaða var við þessum gjörningi og svo var áhuginn mikill að Álftnesingar sem staddir voru í fjarlægum heimsálfum höfðu samband og óskuðu eftir að fá að vera með. Þetta var stórkostleg upplifun fyrir mig sem er búinn að vera að hamra á þessu, í bloggi, blaðagreinum og viðtölum við íbúa. Kynning bæjarstjórnar á málinu hefur öll verið í skötulíki og ekkert tillit hefur verið tekið til sjónarmiða íbúa sem hafa verið að tjá sig í ræðu og riti sem og á íbúafundum.
Sem sagt veruleikafirringin virðist algjör hjá meirihluta bæjarstjórnar. Kannski verður þeim veruleiki hins almenna bæjarbúa ljós kl. 14:15 í dag þegar bæjarstjóra verða afhentar formlega mótmæli tæplega 600 kosningabærra Álftnesinga.
Einnig er mér kunnugt um að fjöldi fólks hefur sjálft skilað inn athugasemdum við skipulagið og skipta þær athugasemdir mörgum tugum. Líklega má reikna með allt að 700 athugasemdum við skipulagstillöguna og flestar þeirra snúa að lokun Breiðumýrar og Skólavegi.
Sjö hundruð athugasemdir:
Skyldi það fá þessa bæjarstjórn til að átta sig á að þeir eru kosnir til að þjóna íbúum en ekki öfugt?
Föstudagur, 18. janúar 2008
Óánægjualda á Álftanesi
Það er kostulegt að fylgjast með brölti bæjarstjórans á Álftanesi þessa daganna. Núna lætur hann sig hafa það og segir allt vera í himnalagi og lukkunnar velstandi í því ágæta sveitarfélagi Álftanesi og ræðst að Magnúsi Stephensen og sakar hann um rangfærslur. Magnús hafði skýrt í blaðaviðtali frá megnri óánægju íbúa við Suðurtún vegna auglýstra breytinga á aðal- og deiliskipulagi miðsvæðis Álftaness. Því miður hefur bæjarstjórinn hefur tekið þann pól í hæðina að afgreiða alla óánægju sem rangfærslur, miskilning eða bara að fólk sé í fýlu (sérstaklega sjálfstæðismenn). Síðasta afrek hans var að láta framkvæma skoðanakönnun um hina aðskiljanlegustu hluti þó svo flestar spurningarnar sneru að auglýstu aðal- og deiliskipulagi miðsvæðis Álftaness.
Ekki veit ég hvaða snillingur var fenginn til að semja þessar spurningar. Ég segir og skrifa snillingur því engir nema slíkir geta samið spurningar sem bara er hægt að svara með jái. Hér með er auglýst eftir honum því ekki vill Capacent Gallup, framkvæmdaaðili könnunarinnar, kannast við afkvæmið, segja það trúnaðarmál.
Annað tveggja er bæjarstjórinn algjörlega burtvaxinn þeim veruleika sem við okkur íbúum Álftaness blasa eða um hreina og klára ósvífni hans er að ræða. Því fer víðs fjarri að sátt sé um nýja miðbæjarskipulagið. Ég og bæjarstjórinn umgöngumst líklega ekki sama fólkið en fáa hef ég hitt sem ekki eru meira og minna ósáttir við skipulagið og framgöngu hans í málum sveitarfélagsins. Mesta óánægjan ríkir um lokun Breiðumýrar við Suðurnesveg og þar með flutning umferðarinnar á nýjan veg sem liggur um og í jaðri skólalóðar. Veg sem einnig liggur í bakgörðum gróinnar byggðar við Skólatún og Suðurtún.
Líka á að leggja talsvert land undir byggð auk tilfærslu Norðurnesvegar. Það er land sem hingað til hefur verið talið af íbúum Álftaness vera griðland margæsa. Ég tek því undir með Magnúsi Stephensen að kostulegt sé að fylgjast með formanni skipulags- og bygginganefndar tala fyrir þessari skerðingu á búsvæði gæsanna þar sem hann sjálfur er formaður Fugla- og náttúruverndarfélags Álftaness. Kostuleg framganga atarna!
Dreift hefur verið í hús á Álftanesi bréfi frá áhugahópi sem vill knýja fram breytingar á þessu skipulagi. Þessar breytingar felist fyrst og fremst í því Breiðumýri verði ekki lokað og því forðað að fá mörg þúsund bíla umferð á dag um skólalóð og bakgarða. Til að það verði að veruleika þarf nægan fjölda íbúa til að gera athugasemdir við skipulagið áður en frestur til þess rennur út 23. jan. Því skora ég á fólk að nýta sér rétt sinn til að hafa áhrif á umhverfi sitt. Það er hægt sé samstaðan ljós.
Að lokum: Það voru engar rangfærslur í máli Magnúsar Stephensen. Síður en svo. En málið er að bæjarstjórinn heldur að með því að tönglast nógu oft á sömu ósannindunum muni menn trúa honum fyrir rest.
Kannski er það svo.....hver veit?
Þeim sem áhuga hafa og vantar upplýsingar, aðstoð við bréfaskriftir eða annað varðandi málið geta hringt í síma 843 9406 eða sent tölvupóst á netfangið breidamyri08@gmail.com
Samkomulag um uppbyggingu á Álftanesi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 24. desember 2007
Ljóssins hátíð læðist gegn.....
Það verður vart jólalegra en nú, með stilltu veðri, nýfallinni mjöllinni og öllum ljósunum sem prýða umhverfið. En þrátt fyrir alla yrti umgjörð, ljós, jólasnjó og jólagjafirnar sem bíða eiganda sinna undir jólatrénu þá kemur hin sanna jólastemminga alltaf innan frá. Því ef hugur fylgir ekki máli þá verða jólin okkur innantóm.
Í dag fögnum við hátíð ljóssins, þess ljóss sem ber okkur síðan á næstu vikum og mánuðum til vors og sumars. Kristnir og fagna fæðingu Jesú sem lagður var í jötu "þar suðurfrá" fyrir 2008 árum. Hvort sem frásögnin sú er sönn eða ekki er hún falleg og boðskapur hennar eitthvað sem öllum er hollt að tileinka sér.
Hjá mér byrja jólin á Þorláksmessu þegar við Lionsfélagar eldum skötu og annað fiskmeti og seljum til fjáröflunar. Það er hluti jólastemmingarinnar að leggja sitt af mörkum öðrum til líknar. Því kemur lyktin af skötunni mér í jólagírinn. Flestum finnst lyktin vond og ég get tekið undir það. En bragðið er gott og hefðirnar sem hafa skapast í kring um skötuát Þorláksmessunnar eru skemmileg viðbót við jólahaldið. Ég var að lýsa þessari upplifun fyrir kunningja mínum sem greinilega fannst fátt um. Að morgni Þorláksmessu var þessi vísa hans í póstinum mínum:
Bedúinar báru fregn
um barn í lágri jötu.
Ljóssins hátíð læðist gegn-
um lykt af kæstri skötu.
Kæru bloggvinir og aðrir lesendur. Ég óska ykkur öllum gleðilegrar jóla.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 22. desember 2007
Vandmeðfarið vald
Um fátt er meira rætt manna á milli þessa síðustu daga fyrir jól en skipun í dómaraembætti norður í landi.
Í það fyrsta þótti fréttnæmt að dómsmálaráðherra viki sæti við skipun í embættið en fyrrverandi aðstoðarmaður hans var einn umsækjendanna. Það gerði hann þó ekki þegar sami umsækjandi sótti annars staðar um dómarastöðu.
Í öðru lagi að umsækjandinn og aðstoðarmaðurinn væri einkasonur Davíðs Oddssonar sem dómsmálaráðherrann hefur þjónustað á fágætu trúlyndi.
Í þriðja lagi samkvæmt ofantöldu var held ég flestum ljóst að fyrir lá að skipa soninn í embættið hvað sem tautaði og raulaði. Og það gekk eftir. Því miður! Þýlyndi setts dómsmálaráðherra var því ekki minna en þess skipaða. Þetta vekur upp spurningar um sjálfstæði dómstóla gagnvart framkvæmdavaldinu sem virðist telja sig yfir sett. Dómnefnd mat þrjá umsækjendur vel hæfa en sonurinn var einungis talinn hæfur. Þar var tvo hæfisflokka á milli.
Settur dómsmálaráðherra hefur af veikum mætti reynt að réttlæta þessa skipun en aumari rökstuðning hef ég ekki heyrt lengi. Það er alveg á tæru að hann skuldar öðrum umsækjendum svo og þjóðinni haldbetri rök en pólitísk aðstoðarmennska ráðherra vegi aðra umsækjendur upp. Uss. uss....svona gera menn ekki.
Talað hefur verið, m.a. á bloggsíðum hér að verið sé að ráðast að persónu þess sem skipaður var í embættið. Það má vera en málið snýst ekki um það. Það snýst ekki um þann ágæta mann sem örugglega vildi fá embættið á eigin forsendum en þessum. Það snýst einfaldlega um lykt af pólitískri spillingu og greiðasemi. Sá fnykur er nú skötulyktinni þorláksmessunnar yfirsterkari.
Svo gleymist þetta....er það ekki?
Miðvikudagur, 5. desember 2007
Eru jólin í boði Euro og Visa?
Stundum kvíði ég jólunum. Það stafar fyrst og fremst af því gengdarlausa kapphlaupi sem hefst yfirleitt um miðjan nóvember og lýkur þegar við gúffum í okkur hamborgarhryggnum á aðfangadagskvöld. Þetta er langt og strangt þetta kapphlaup og við keppendurnir eru misjafnlega undir það búnir. Svo er þetta eins í maraþoni, margir viðkomustaðir þar sem brosandi kaupmenn bíða okkar með freistingarnar. "Svona nú, vertu með og fáðu þér eins og allir aðrir" og rétta varninginn fram. Og við glepjumst, kaupum og stingum í pokaskjattann okkar sem reyndar gerir ekkert annað en þyngja okkur á hlaupinu. Svona komum við á einum viðkomustað eftir annan og allt í einu verða flestir hlutir þess umkomnir þess að bráðnauðsynlegt sé að eignumst þá fyrir jólin.
Svo höldum við áfram fram yfir mánaðamótin og nálgumst hægt og bítandi upp á hæsta hjallann sem er að sjálfsögðu nýtt kretitkortatímabil. Vá, æði, ég meikaði það. Og núna liggur leiðin í bili léttar við fæti og enn erum við að bæta freistingunum í pokann okkar á meðan kapphlaupið heldur áfram. Miskunnarlaust í boði VISA og MasterCard og allra kaupahéðnanna sem eiga þessa guði með okkur. Skyldu þeir nokkurn tíma hafa lagt nýfætt barn í jötu?
Þegar við nálgumst endamarkið kemur dofinn og þreytan, ljósin, bjöllurnar, og jólasöngvarnir sem klingt hafa í eyrunum allt kapphlaupið, verða eitthvað svo einsleit og tilbreytingalaus. Eins og við tökum ekki eftir þeim. Og í markinu á aðfangadagskvöld þegar örmagna keppendurnir eiga þessa öruggu árlegu samverustund fjölskyldunnar og búið er að saga allar neðstu greinarnarnar af jólatrénu til að koma þar undir öllum freistingunum, marglitum og lokkandi. Hverjar eru þá hingar raunverulegu gjafir og erum við þá tilbúin að gefa þær eða þiggja þegar okkur eru réttar þær. Kannski tökum við ekki eftir þeim, svo upptekin sem við vorum í kapphlaupinu og nú litskrúðugum gjöfunum.
Jólin sem nálgast eru hátíð ljóssins. Þess ljóss sem mun lýsa okkur inn í komandi vor. Jólin eru hátíð hins nýfædda barns sem lagt var í jötu forðum daga í Austurlöndum. Á jólum gefum við hvort öðru gjafir. Eru þær gjafir bara freistingar í skrautpappír eða eru þær eitthvað annað og meira. Eru það gjafir sem við viljum gefa og þiggja.
Okkar er valið.....eða setja VISAð á örlítið meiri yfirdrátt eftir áramótin.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 29. nóvember 2007
Eigum við þetta skilið?
Það hefur verið trú mín og jafnvel bjargföst sannfæring að kjósendur fái ætíð þá stjórnmálamenn sem þeir eigi skilið.
Í ljósi ljósi umræðu á Alþingi um starfsheiti ráherra, liti á ungbarnafötum og nú "málfrelsisumræðu" Vinstri grænna hef ég efast um þessa sannfæringu mína.
Er ég kannski einn um þessar efasemdir mínar?
VG gagnrýnir frumvarp um þingsköp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 17. nóvember 2007
Af drukknum einkennisklæddum bílstjóra, lögguhúfu sem skipti litum o.fl. smálegu
Sú saga sem hér verður sögð er sönn, lítillega færð í stílinn og öllum nöfnum hefur verið breytt.
Á fyrri hluta 8unda áratugarins var vinnuflokkur úr Reykjavík við vinnu úti á landi. Hlutverk flokksins var að leggja síðustu rafmagnslínurnar í sveitir landins. Þetta var gott sumar, sólríkt og það var gleði og kraftur sem einkenndi líf þessara ungu kraftmiklu stráka sem skipuðu flokkinn að undanskildum verkstjóranum og ráðskonunni sem voru mikið eldri.
Vinnuflokkurinn hélt til á eyðibýli sem reynt hafði verið að gera eins vistlegt til sumarvistarinnar og kostur var. Eins og gerist og gengur var skemmtanalífið stundað af krafti enda sveitaböll um hverja helgi og oft úr mörgum að velja. Stundum var því ekki bara eitt ball á helgi, þau voru stundum tvö og jafnvel þrjú. Já það var gaman að lifa og þessa helgi sem sagan okkar varð til var ball í næsta þorpi. Vinnuflokkurinn bjó 40 kílómetra þaðan en á næsta bæ bjó héraðslögreglumaðurinn Kalli. Hann var bóndi en stundaði löggæslu á böllum til að drýgja tekjurnar.
Liðsmenn flokksins skiptust yfirleytt að vera ökumenn á þessi böll og þetta kvöld hafði það dæmst á Binna sem var hið besta mál því yfirleitt þótti hann viðskotaillur með víni. Það þótti hittast vel á hann yrði edru þetta kvöldið.
Leiðin lá sem sagt á ballið og allir skemmtu sér hið besta. Þegar átti að halda heim um nóttina kom í ljós að bílstjórinn, hann Binni, hafði dottið í´að og sagði hinum drafandi að hann gæti sko alveg keyrt heim. Félögunum fannst það ekki við hæfi og eftir að hafa skotið á ráðstefnu datt einhverjum það í hug að fá lögguna Kalla til að keyra bílinn heim. Hann átti jú heima á næsta bæ. Einhver talaði við Kalla sem sagðist vera til í þetta.
Biðin eftir að Kalli lyki skylduverkum sínum í löggunni var orðið ansi löng þegar kappinn birtist í svarta búningnum með hvítan kollinn, glaðbeittur, og spurði hvar bíllinn væri. Jú, hann var þarna. Dökkgrænn frambyggður Rússjeppi með sætum fyrir átta manns og verkfærageymslu aftast. "Inn með ykkur" galaði hann og skellti sér undir stýri.
Í bílnum lumaði einhver á vodkablöndu í flösku og lét hana ganga á milli. "Hvur andskotinn er þetta" sagði Kalli lögga, "á ekki að bjóða manni líka". "Þú ferð nú líklegast ekki að drekka, sjálf löggan og keyrandi bíl!" sagði einhver úr hópnum. Jú viti menn; Kalli tók hvítu lögguhúfuna af sér og sveiflaði hanni í glæsilegum boga aftast í bílinn þar sem hún lenti á hvolfi ofan á smurolíufötu.
"Húfan er farinn" sagði Kalli og hrifsaði flöskuna til sín: "Nú er í lagi að detta í það" og svolgraði stórum. Skemmst er frá að segja að á undraskömmum tíma breyttist þessi héraðslögregluþjónn úr virðulegum embættismanni hins íslenska ríkis í blindfullan röflara. Það fór að fara um suma í bílnum og ekki laust við að víman rynni af hinum þegar borðalagður ökumaðurinn sveiflaði bílnum kanta á milli og tók einbreiðu brýrnar á ferðinni en ekki fyrirhyggjunni.
Það var komið framundir morgun og stutt eftir heim þegar á veginum stóð gömul Cortina þar sem sprungið hafði á tveim dekkjum. Eldri hjón voru á bílnum og vantaði sárleg aðstoð. Sá borðalagði vippaði sér undan stýrinu og gleðibros færðist yfir varir hjónanna þegar þau sáu hjálpina birtast í líki lögreglumanns. Sú brosvipra var ansi skammvinn þegar meintur bjargvættur hellti sér yfir þau með óbótakömmum og spurði hvurn andskotann þau væri að gera þarna á miðjum veginum. Hann var orðinn áberandi drukkinn, hávær og dónalegur. Svona maður enginn vill þekkja.
Þarna voru góð ráð dýr. Menn litu hver á annan og allir hugsuðu það sama: Burt héðan..einn, tveir og nú! Siggi flokkstjóri stökk undir stýri, setti í gang á meðan hinir ruddust inn, allir sem einn. Siggi gaf nú bensínið í botn og í fyrsta og eina sinnið spólaði gamli Rússinn af stað á rykugum malarveginum. Til að komast framhjá fólksbílnum þurfti hann að sveigja út í tæpustu vegarbrún og eitt augnablik héldu menn að bíllinn færi fram af brúninni og ylti. Það gerðist ekki sem betur fer en það var ótrúlega fyndið að sjá blindfulla lögguna á harða spretti á eftir bílnum þar til hann gafst upp.
Siggi ók eins og leið lá heim á leið og síðar sagði hann þetta vera í fyrsta og eina sinnið sem hann hefði ekið bíl undir áhrifum. Það er trúlegt því Siggi er einn þeirra manna sem ekki mega vamm sitt vita.
Skemmst er frá að segja allir komust heilir heim og í heila viku var hvíta lögguhúfan aftur í Rússajeppanum. Undir það síðasta var ekki laust við að farið væri að sjá nokkuð á hvíta litnum en á næsta föstudegi fréttum við af Kalla. Hann hafði þá heimsótt ráðskonuna og beðið hana að finna húfuna góðu og taka hana til varðveislu.
Eitt var ljóst: Ekki yrði hann aftur beðinn að vera bílstjóri. Þessi maður varð reyndar ekki lengi í embætti eftir þetta þegar yfirmenn hans komust að því einhverra hluta vegna að hann væri ekki eins vandur að virðingu sinni og æskilegt þætti fyrir mann í hans stöðu.
Ölvaður farþegi henti bílstjóranum út og ók sjálfur í bæinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 15. nóvember 2007
Álftanes. Nei, það var greinilega ekki nóg komið kæri bæjarstjóri.
Það er gengið rösklega til verkanna nú hér á Álftanesinu. Ég var varla búinn að fletta Á-málgagni bæjarstjórans þar sem hann lét okkur af lítillæti sínu vita af væntanlegri skoðanakönnun um ágæti miðsvæðisins sem við myndum eiga von á einhvertíma á næstunni. Ágætt að láta lýðinn vita hvað þetta sé nú allt flott og fínt og allir svo ofboðslega mikið sammála. Bara smá álitamál um eitthvað smávægileg, alls ekki neinn ágreiningur um grundvallaratriði segir bæjarstjórinn.
Sólarhring eftir útburð Á-málgagnsins skall skoðanakönnunin á: Já, og því líkar snilldarpurningar. Þar er spurt um "álitamálin" en alls ekki neitt af grundvallaratriðunum. Spurningar mjög leiðandi og skipulag úthringinga í molum, alla vega veit ég að á tveim heimilum var hringt oftar en einu sinni í sömu manneskjuna. Capacent Gallup framkvæmir þessa skoðanakönnun. Ég hélt reyndar í einfeldni minni að þeir væru vandari að virðingu sinni en þetta.
Það verður að gera þá kröfu að íbúar fái að vita eftirfarandi:
- Hver samdi spurningarnar?
- Af hverju var ekki spurt um heita málið? þ.e. breytt skipulag umferðar með lokun Breiðumýrar og stóra umferðargötu gegn um svæðið.
- Hvað var úrtakið stórt?
- Af hverju var hringt oftar en einu sinni í suma íbúa?
- Hver var svörunin og hverjar urðu niðurstöður könnunarinnar?