Vandmeðfarið vald

Um fátt er meira rætt manna á milli þessa síðustu daga fyrir jól en skipun í dómaraembætti norður í landi. 

Í það fyrsta þótti fréttnæmt að dómsmálaráðherra viki sæti við skipun í embættið en fyrrverandi aðstoðarmaður hans var einn umsækjendanna.  Það gerði hann þó ekki þegar sami umsækjandi sótti annars staðar um dómarastöðu.

Í öðru lagi að umsækjandinn og aðstoðarmaðurinn væri einkasonur Davíðs Oddssonar sem dómsmálaráðherrann hefur þjónustað á fágætu trúlyndi.  

Í þriðja lagi samkvæmt ofantöldu var held ég flestum ljóst að fyrir lá að skipa soninn í embættið hvað sem tautaði og raulaði. Og það gekk eftir.  Því miður!  Þýlyndi setts dómsmálaráðherra var því ekki minna en þess skipaða.   Þetta vekur upp spurningar um sjálfstæði dómstóla gagnvart framkvæmdavaldinu sem virðist telja sig yfir sett.  Dómnefnd mat þrjá umsækjendur vel hæfa en sonurinn var einungis talinn hæfur.  Þar var tvo hæfisflokka á milli.

Settur dómsmálaráðherra hefur af veikum mætti reynt að réttlæta þessa skipun en aumari rökstuðning hef ég ekki heyrt lengi.  Það er alveg á tæru að hann skuldar öðrum umsækjendum svo og þjóðinni haldbetri rök en pólitísk aðstoðarmennska ráðherra vegi aðra umsækjendur upp.  Uss. uss....svona gera menn ekki.

Talað hefur verið, m.a. á bloggsíðum hér að verið sé að ráðast að persónu þess sem skipaður var í embættið.  Það má vera en málið snýst ekki um það.  Það snýst ekki um þann ágæta mann sem örugglega vildi fá embættið á eigin forsendum en þessum.  Það snýst einfaldlega um lykt af pólitískri spillingu og greiðasemi.  Sá fnykur er nú skötulyktinni þorláksmessunnar yfirsterkari.

Svo gleymist þetta....er það ekki? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Það er einmitt það svo gleymist þetta,tímasetningin á þessu er frábær nú fer í hönd mesta helgi ársins og fólk hefur öðrum hnöppum að hneppa en spekulera í þessu,á ekki von á að menn spilli almennt jólaboðum með umræðu um þetta mál.

Þannig að eftir áramót verður þetta gleymt,pólitískt minni okkar Íslendinga er því miður vart mælanlegt.Óska þér og þínum gleðlegra jóla og farsældar á nýju ári, kveðja

Ari Guðmar Hallgrímsson, 22.12.2007 kl. 21:35

2 Smámynd: Óðinn Þórisson

Þorsteinn Davíðsson var metinn hæfur til að gegna þessu starfi.
Samkvæmt því sem ég best veit er ráðherra ekki skilt að neinu leiti að fara eftir nefndinni.
Ég er mjög ósáttur við þá meðferð sem Þorsteinn hefur fengið, sem hann á ekki skilið.
Það er erfitt að vera sonur Davíðs Oddssonar og því hefur hann fengið að kynnast.

"Hvernig væri að áhugamenn um Davíð Oddsson gerðu upp sakir við hann sjálfan?
En opinberðu ekki hugleysi sitt með því að veitast að syni hans"
Staksteinar 21.12.2007.

Búið er að ráða í stöðuna og málinu því lokið með ráðningu þess aðila sem ráðherra taldi réttan í stöðuna.

Gleðileg Jól.

Óðinn Þórisson, 23.12.2007 kl. 09:52

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Óðinn þú ert góður þegn.. en samt fífl.

Sammála greinarhöfundi.

Óskar Þorkelsson, 23.12.2007 kl. 11:04

4 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Óðinn, á Þorsteinn að fá stöðuna vegna þess að það er erfitt að vera sonur föður sins eða vegna eigin hæfni?...þessi góðlegi myndarlegi maður!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 23.12.2007 kl. 13:52

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Um hverra hugleysi er höfundur Staksteina að ræða?

Þessi athugasemd er svo væmin og marklaus að umræddur Staksteinahöfundur ætti að biðja a.m.k. sjálfan sig afsökunar.

Það er enginn hræddur við Davíð nema sjálfstæðismenn. Enda er hann ekki þeirrar stærðar að ástæða sé til mikils ótta þegar hann er hættur í stjórnmálum.

Árni Gunnarsson, 23.12.2007 kl. 15:03

6 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Skemmtilegar athugasemdir hér sérstaklega frá Óskari. Ekki það að ég viti hvort Óðinn sé fífl eða ekki . Fór bara að hlæja.

Gleðileg jól.

Þórdís Bára Hannesdóttir, 23.12.2007 kl. 15:22

7 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Ég nenni nú ekki að fara að fjalla um spillingarmál að svo stöddu. Heldur vil ég óska þér og þínum gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári.

Ólafur Björn Ólafsson, 24.12.2007 kl. 02:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband