Til eiganda Smárabíós: Ég vil fá miðann minn endurgreiddan!

Ákvað að vera innipúki á verslunamannahelginni.  Rétt kíkti austur fyrir fjall í dag og svo beint í bæinn aftur.  Svo ákváðum við hjónakornin að skella okkur í bíó.  Þar sem var verið að sýna Simpsonsmyndina í Smárabíó fórum við á 10 sýningu. 

Mættum í salinn með popp og kók á slaginu 10.  Fyrir í salnum voru 5 áhorfendur.  Þeim fjölgaði ekki.  Næstu 15 mínútur máttum við sitja undir skjáauglýsingum sem endurteknar voru aftur og aftur til að þær færu nú örugglega ekki framhjá okkur.  Í þann mund sem þessi örfáu áhorfendur fóru að ræða sín á milli að ganga út var allt í einu skipt yfir á trailera að bíómyndum sem bíóið ætlar að taka til sýninga á næstunni.   Þessi trailerasýning stóð yfir næstu 15 mínútur þannig að klukkan var orðin hálf ellefu þegar myndin sem við höfðum keypt okkur aðgang að dýrum dómum hófst.

Ok, í leiðindum okkar höfðum við klárað poppið og kókið þannig að ekki var skrjáfið í popppokunum til að trufla einbeitingu bíógestanna.  Enda sáu stjórnendur Smárabíós fyrir því.  Hálftíma síðar var gert korters hlé á myndinni. 

Þessi fjandast ósiður, þ.e. auglýsingasýningar langt fram í auglýstan sýningartíma myndanna er algerlega óþolandi og virkar á fólk eins og hreinn og klár dónaskapur.  Erlendis eru til kvikmyndahús þar sem myndirnar eru niðurklipptar milli auglýsinga.  Inn á slíkar sýningar borgar áhorfandinn ekki.  Nema á Íslandi.  Hér skal auglýsingunum troðið ofan í kok með góðu eða illu.

Svo eru það hléin.  Til hvers í andskotanum?  Eru þau ekki bara til að selja meira sælgæti?  Það getur verið skiljanlegt að hafa hlé í margra klukkutíma kvikmyndum en hlé á stuttmynd eins og Simpsons er einum of mikið af því góða.

Hefur bíógestum ekki farið hlutfallslega fækkandi undanfarin ár?  Ekki man ég betur en hafa séð um það einhverja lærða statistik.  Skyldi skýringanna að leita í ofansögðu.

Næst þegar ég fer í bíó mæti ég í salinn tuttugu og fimmmínútum eftir auglýstan tíma.

Smárabíóseigendur:  Ég vil að þið endurgreiði okkur miðana.  Þið rænduð okkur ánægjunni af góðri teiknimynd. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Haha

ég var reindar í öðru bíói en myndin byrjaði þó 22.18

og við hjónin áttum smá popp eftir:))

p.s15 bíógesir

kristín (IP-tala skráð) 6.8.2007 kl. 00:47

2 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Sæll nafni. Mikið er ég sammála þér. Ég hef tekið eftir því að þeir sem fara mikið í kvikmyndahús, ég er EKKI þar á meðal, þeir mæta seint. Eru líklega farnir að kunna á þennan  dónaskap!

Auðvitað er þetta ruddamennska! Að tróða á mann stanslausum auglýsingum er óþólandi. Svo eru það blessuð hléin. Reykingafólk segist ekki geta lifað án þeirra... Ég vil sjá þessi hlé í burtu. Ekki smóka ég!

Ég held að þetta breytist EKKI nafni. Sjáðu eins og með útsölurnar. Þær eru "eftir" jólin og í lok sumars! Þá er okkur selt sumarfatnaður fyrir veturinn. Hvaða bull er þetta. Ég nefni það í pistli hjá mér að í USA eru útsölur fyrir jólin. Ekki eins og hér, Eftir jólin!

Það er spurning hversu lengi á þetta að ganga? Hvað eigum við að láta bjóða okkur þetta lengi? Er ekki hægt að fá Saving Iceland í þetta mál.... Hvernig væri það?

Gangi þér vel,

Sveinn Hjörtur , 6.8.2007 kl. 00:58

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Auglýsingar, þjónusta, hlé og verð í íslensk kvikmyndahús er til skammar. Það er búið að venja landann af því að stunda bíó. Þegar ég bjó erlendis fór ég venjulega tvisvar eða oftar í bíó í hverri viku. Þrátt fyrir gífurlegan áhuga á kvikmyndum fer ég þó aðeins einu sinni eða tvisvar á mánuði í bíó á Íslandi. 

Þegar ég horfi á bíómynd vil ég geta horft á hana án hlés, sleppt auglýsingum og þurfa ekki að hugsa mig tvisvar um vegna verðs á sýningar. Ég skil ekki hvernig kvikmyndahúsin geta gengið í rekstri þegar viðskiptavininum er ekki sýnd nægileg virðing. 

Hrannar Baldursson, 6.8.2007 kl. 01:11

4 Smámynd: Gunnar Reyr Sigurðsson

Ég fór á Simpsons um daginn með syni mínum, nánar tiltekið á 8 sýningu á föstudaginn fyrir Verslunarmannahelgi. Kl. 20:02 hófust auglýsingar, þær stóðu í 8 mínútur (tók tímann). Ég held að allar auglýsingarnar nema ein hafi verið umferðarauglýsingar, þ.e. slysaauglýsingar frá Umferðastofu og tryggingafélögunum. S.s dautt fólk og/eða ónýtir bílar og salurinn fullur af krökkum, hvort sem það er gott eða slæmt. Svo tóku við 5 mínútur af bíóauglýsingum, þ.e. kynningar á nýjum myndum. Myndin hófst 20:15. 

Ég er sammál ykkur sem skrifuðu hérna á undan. Verð í bíó er alltof hátt, veitingar verðlagðar með ofurálagninu o.s.frv. Vandinn er að við látum bjóða okkur þetta. Framboðið er ágætt og eftirspurnin er nægjanleg frá okkur neytendum. Vandinn er okkar, ekki þeirra. 

Gunnar Reyr Sigurðsson, 6.8.2007 kl. 01:31

5 identicon

Hér í Danmörku kostar 90 kr.- í bíó og það getur verið allt að 45 mín frá því myndin á að byrja þangað til hún raunverulega byrjar en þá eru sýndar auglýsingar. Svo er ekki hlé heldur rúllar bara til enda í einum rikk.

Magnús Orri Einarsson (IP-tala skráð) 6.8.2007 kl. 07:23

6 Smámynd: Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Ég fór í bíó á Spáni fyrir stuttu og þar rúlluðu auglýsingarnar ÁÐUR en myndin byrjaði, þ.e. á meðan fólk var að koma sér fyrir. Síðan byrjaði myndin bara á slaginu. Geta bíóin hér ekki gert þetta? Hins vegar verð ég að segja að mér finnst hléin ágæt, ég kaupi mér nefnilega alltaf popp og kók í hléinu en ekki áður en myndin byrjar. Þá fær maður líka tækifæri til að fara á klósettið og hrista aðeins fæturna.

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 6.8.2007 kl. 10:31

7 Smámynd: Mummi Guð

Mikið er ég sammála ykkur. Það er spurning hvort að það eigi ekki að vera ókeypis í bíó þar sem auglýsendur kosta myndirnar.

Mummi Guð, 6.8.2007 kl. 11:04

8 identicon

Þessar auglýsingar sem sýndar eru á undan kvikmyndinni hafa gert það að verkum að ég nenni ekki í bíó. Neyðist til þess við og við til að sinna foreldraskyldum. Annars kýs ég að horfa á myndina nokkrum mánuðum síðar heima hjá mér í mun betra umhverfi laus við auglýsingar og hlé. Hef einnig lent í því að ekki er hleypt inn í salinn fyrr en 5 - 10 mínútum of seint o.s.frv. Finnst sem sagt að staðallinn hjá kvikmyndahúsunum sé ekki til að hlaupa eftir.

Heiða Björk Sturludóttir (IP-tala skráð) 6.8.2007 kl. 11:13

9 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Mér er eiginlega nokk sama um auglýsingarnar, það eru líka auglýsingar á sjónvarpsstöðvunum sem við borgum líka fyrir afnot af. Það er frekar verðið á bíómiðanum sem truflar mína nísku sál. Ætli 4 manna fjölskylda að skella sér í bíó á fullu verði grunar mig að kostnaðurinn sé ekki undir 6000 krónum ef allir fá sér popp og kók líka. Þessi kostnaður hlýtur að verða til þess að fólk leigir sér frekar myndirnar þegar þær koma á dvd. Í sumum tilfellum er jafnvel ódýrara að kaupa bara myndina þegar hún kemur út. Ætli það sé virkilega nauðsynlegt að láta bíómiðann kosta heilar 900 krónur á mann???

Markús frá Djúpalæk, 6.8.2007 kl. 11:31

10 Smámynd: Magnús Jónsson

ég fer ekki í bíó lengur, vegna verðs á aðgöngumiða og auglýsinga, 2-3 góðar myndir á disk, örbylgjupopp og kasa af bjór má alltsaman fá fyrir 6000 kallin, og áhorfendafjöldinn er takmarkaður af sófanum og stólunum í stofunni, að því ógleymdu að sýning hefst með því að ýtt er  á takka .

kveðja Magnús

Magnús Jónsson, 6.8.2007 kl. 11:54

11 Smámynd: Viktor Einarsson

Fyrir kvikmyndaáhugamenn þá var ég að opna nýja bloggsíðu um kvikmyndir og aþreyingar tengdar þeim! En vá ég er sammála yður með verðið á kvikmyndir í dag, ég fer ekki oft í bíó en ég fór með litlu frændum mínum á Ratatouille um daginn og mér brá vegna of hás verðs á bíómiðanum... heilar 950 kr.!!!! Þegar ég var yngri kostaði 600 kr. í bíó, Takk kærlega!  Því miður hafa auglýsingarnar og hléin ekkert truflað mig neitt rosalega fyrr en ég las þennan póst þá fór ég að hugsa hversu faranlegt þetta er!

Viktor Einarsson, 6.8.2007 kl. 12:21

12 identicon

Traviz er ekki hrifin af auglýsingum á auglýstum sýningatíma og lýsi frati á Arne Smúlsson og co.

Traviz (IP-tala skráð) 6.8.2007 kl. 12:34

13 identicon

Styð þig fullkomlega, ef þú ferð í mótmælastöðu mæti ég með þér. Síðast þegar ég fór í bíó voru nánast allar skjáskiltaauglýsingarnar frá sömu aðilum og eiga bíóið, tónlistin sem var spiluð áður en myndin byrjaði var tónlistin af geisladiskinum sem sami aðili var að gefa út. Það lá við að ég yrði nojuð þarna, fannst eigandi samsteypunnar nánast anda ofan í hálsmálið á mér. Svo þegar trailerarnir tóku við sem tóku óratíma þá voru desíbelin skrúfuð í botn og eina sem ég hugsaði: Ef ég fer aftur í bíó á næstunni enda ég með heyrnartæki  

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 6.8.2007 kl. 13:10

14 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég er að mestu hættur að fara í bíó einmitt út af þessu. En forráðamenn bíósins fá líklega borgað fyrir auglýsingarnar. Fyrir gróðasjónarmiðum verður allt undan að láta, ekki síst almenn tillitssemi.

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.8.2007 kl. 16:10

15 Smámynd: Linda

ég fer voðalega lítið í bíó, aðallega vegna þess að  ég hef gaman af því að geta horft á myndir í rólegheitum á DVD.  Sumar myndir verð ég að sjá í bíó, þetta hefur aldrei pirrað mig með augl. Enn núna mun það sko gera það..  Eftir að ég hætti að reykja fara hlé í mína síðustu, veit algjör hræsni

Linda, 6.8.2007 kl. 17:12

16 Smámynd: AK-72

Þrátt fyrir að vera ástríðufullur þegar kemur að bíomyndum, þá fer ég lítið í bío núorðið. M.a. er það þessi íslenska bíomenning með augly´singunum, hringjandi gemsum, hléum og slíku, Verðið er kannski ekki aðalmálið finnst mér heldur hvað maður fær fyrir það í þægindum og hléin eru strax factor sem dregur úr þjónustu bíóana ásamt þessum gegndarlausu auglýsingum. Auglýsingarnar sem slíkar er einfaldlega dónaskapur við viðskiptavininn og það grófur. Við erum að búinn að borga okkur inn til að horfa á ákveðið efni og varla myndu eigendur bíóanna sætta sig við það að sitja t.d. á tónleikum í 25 mínútur undir auglýsingum áður en showið myndi byrja.

Ég hefði viljað einfaldlega að bíóin tækju upp almennt það sem Græna ljósið gerir, þ.e. borgar aðeins meira en sleppur við auglýsignar og hle´. Þar til úrvalið og þjónusta bíóanna batnar þá er það einfaldlega betri kostur að kaupa bara DVD-inn og njóta þess heima.

AK-72, 6.8.2007 kl. 19:05

17 identicon

Skil ekki þetta væl, sástu ekki myndina?  Hefur væntanlega ekki farið illa um þig enda salurinn langt frá því að vera fullur.

Jón Björnsson (IP-tala skráð) 6.8.2007 kl. 19:51

18 Smámynd: Gunnar Kr.

AK-72... bíddu aðeins hægur... græna ljósið hvað?

Ég fór fyrir nokkru í bíó og sá mynd undir formerkjum þessarar grænu ljósaperu. Það kostaði 1.000 kall inn, í stað almenns verðs á milli 800 og 900 kr. Það var auglýst að maður losnaði við hlé og auglýsingar, auk þess sem ekki yrði hleypt inn í salinn eftir að myndin væri byrjuð.

Gott og vel. Ég og mínir félagar vorum komnir inn í salinn í Regnboganum nokkrum mínútum fyrir auglýstan sýningartíma. Þegar við gengum inn voru skjáauglýsingar á tjaldinu. Við höfðum meðferðis okkar popp og gos, þar sem auglýst hafði verið að ekki yrði hleypt inn í salinn eftir að myndin byrjaði. Svo sló klukkan og enn voru skjáauglýsingar á tjaldinu. Nokkrum mínútum seinna voru ljósin deyfð og við héldum að myndin myndi byrja. Onei, þá byrjuðu auglýsingar. Ég man ekkert hvort verið var að auglýsa bílbeltanotkun, banka, kók eða aðrar kvikmyndir, en auglýsingarnar voru þangað til 12 mínútur yfir auglýstan sýningartíma. Þá hófst myndin. Við máttum svo sem vera fegnir að fá bara 12 mínútna skammt, en ekki 25 mínútna. En svo gerðist það skondna. Þegar myndin hafði rúllaí í um hálftíma, stóð maðurinn fyrir framan mig upp og tróðst með tilheyrandi truflunum framhjá fólkinu í sætaröðinni hans og fór svo fram. Nokkrum mínútum síðar kom hann aftur inn með popp og gos og tróð sér aftur í sætið sitt. Hann komst sem sé bæði út og inn aftur, eftir að myndin var byrjuð. Hann var ekki sá eini sem fór út og inn til að kaupa sér eitthvað í sjoppunni.

Svo ég spyr aftur... græna ljóstýran... hvað? Bara dýrari miði, ekkert annað!

Gunnar Kr., 6.8.2007 kl. 23:28

19 Smámynd: Sóley Valdimarsdóttir

Ég fór í bíó um daginn og vorum við frekar fá. Einn bíó gestana spyr hvort það verði hlé. Þá voru taldir hausarnir og svarið var "Nei" greinilega ekki hægt að græða nóg á þessum fáu gestum svo það var bara ekkert hlé sem var bara mjög fínt en ástæðan að sama skapi ömurleg.

Sóley Valdimarsdóttir, 7.8.2007 kl. 11:54

20 Smámynd: Guðný Linda Óladóttir

Ég er alveg hjartanlega sammála þér með þetta auglýsingaflóð þegar maður fer í bíó.  Hlé í bíó er líka gjörsamelga óþolandi

Guðný Linda Óladóttir, 7.8.2007 kl. 13:35

21 identicon

Elsku kallinn minn, ég heyri að minn er bara öskureiður  .......skil þig vel

Ef ég fer í bíó klukkan 8 þá vil ég fá að sjá myndina sem ég var að kaupa mér inn á fljótlega eftir það, ekki hálf tíma seinna, trailerar eru í lagi upp að vissu marki, þeir kveikja oft áhuga minn á myndum sem eru væntanlegar. Auglýsingar, nei takk og hlé, nei takk. Það á ekki að taka mann 3 klst að fara í bíó og ekkert skrýtið að fólk sem þarf að kaupa sér barnapössun þar auki láti ekki eftir sér að fara í bíó.

kveðja, Linda sem fer sjaldan í bíó......

Linda Ósk Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 7.8.2007 kl. 14:39

22 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Ég er sammála nánast öllum sem hafa tjáð sig hérna, þetta er óþolandi hvernig kvikmyndahúsin akta í þessu. skil ekki alveg afhverju þeir reyna ekki að sleppa hléum og þjappa þessu saman yfir daginn og ná bara einni sýningu meira???

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 7.8.2007 kl. 16:27

23 Smámynd: AK-72

Sæll Gunnar Kr.

Mín reynsla af þessum 2(eða 3) sýningum sem ég hef farið á, með græna ljósinu var það að myndin var byrjuð eftir 2-3 trailera. Síðan getur vel veirð að standardinn hafi hrunið eitthvað með að bæta við auglýýsingum því ég var allavega sáttur við að borga meir fyrir ekkert hlé.

Síðan er aftur á móti hitt með fólkið í salnum, fólk er ffl og þessi fyrir framan þig hefur ekki kunnað mannasiði. Þetta er reyndar ein af ástæðunum hvers vegna maður fer minna í bíó núorðið, fólkið sem hagar sér svona eins og þessa popp og kók-ruddi og liðið með gemsana sem kann ekki að slökkva, heldur spjallar í bíó.

Annars hef ég komist að því að skást er að fara á 6 sýningar, minna um fólk og meiri líkur á hléum.

AK-72, 7.8.2007 kl. 22:57

24 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Sammála þessum dónaskap í bíóeigendum (samráð) um að byrja kvikmyndir ekki fyrr en eftir 15-25 mínútum eftir auglýstann sýningartíma. Þessi dónaskapur með auglýsingar og treilera í auglýstum sýningartíma er óafsakanlegt framferði.

Satt að segja er mjög gaman að fara í bíó. Bara ekki í bíó sem eru með auglýsingar. Í alvöru bíó byrjar myndin á tilsettum tíma og maður getur horft á bíómynd í góðum gæðum á risastjóru tjaldi sem slær út öllum þessum 42 tommu plasmatækjum.

Ef ég fer á bíómynd kl. 8:00 þá vill ég að hún byrji klukkan 8:00. Það er aulaskapur að byrja hana korteri seinna. Sem betur fer eru enn bíó í New York sem sýna myndir á almennilegann máta. Þangað fer ég frekar en í þessi drasl-auglýsingabíó.

Með hléið er annað uppi á teningnum. Í hléum hittir maður oft fólk og getur rabbað um mynd, eða eitthvað annað. Sem er ágætt stundum. Hlé geta verið í lagi og gera annað líka: Minnka troðning í miðri mynd eftir sælgætisfíklum.

Ólafur Þórðarson, 18.8.2007 kl. 02:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband