Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Fimmtudagur, 20. september 2007
Eigum við að láta miðborgina drabbast niður til að þóknast einhverjum friðunartalibönum?
Fyrir mörgum árum eyddi ég sumrum mínum í það að aka og lóðsa erlenda ferðamenn um landið, þar með talið okkar ástkæru höfuborg. Ég gleymi seint öldruðum breskum hjónum sem stigu út úr bílnum að kvöldi dags eftir skoðunarferð um Reykjavík. Þau sögðust hafa lesið talsvert um Ísland og sögu þess en ekki vitað fyrr en nú að svona miklar loftárásir hefur verið gerðar á Reykjavík í seinni heimstyrjöldinni. Ég leiðrétti þau að sagði að þýski herinn hefði gert 2 - 3 vesældarlegar tilraunir á austfjörðum til loftárása en aldrei hefðu verið gerðar loftárásir á Reykjavík. Í framhaldi spurði ég hvers vegna þau héldu þetta. "Jú byggðin er svo gisin og það er eftir að byggja upp á svo mörgum stöðum" var svarið.
Þarna upplukust augu mín fyrir ósamstæðri byggingarmynd miðborgarinnar, tætingslegu samansafni alls myns bygginga, allt frá kofum sem byggðir eru úr kassafjölum og öðru tilfallandi efni og allt til víðáttuljótra sálarlausra steinsteypukumbalda sem virðist hafa verið dritað niður af handahófi hér og þar.
Mörg þeirra húsa sem eru við Laugaveg og í nærliggjandi götum í Skuggahverfinu er reist af miklum vanefnum til íbúðar. Byggt hefur verið við mörg þeirra en allt en flest eiga það sameiginlegt að henta engan veginn í miðborgarkjarna. Enda hefur það verið þannig að mannlíf miðborgarinnar hefur verið deyjandi hægt og bítandi. Ekki hefur mátt hrófla við neinu og allt á að friða. En til hvers? Þegar þess er spurt verður oftast fátt um svör. Helst er nefnt til að húsið sé svo gamalt. Það getur hreinlega ekki verið ástæða til friðunar ein og sér. Öll hús eiga sér sögu, hvernig sem það er annars byggt. Mjög ríkar sögulegar ástæður hljóta að vera til þess að hús séu friðuð þess vegna.
Allt hefur þetta orðið til þess að miðbærinn hefur drabbast niður og verslun hefur flúið inn í Kringlur og Smáralindir. Sem er slæm þróun. Þær hugmyndir sem Samson Properties hefur nú sett fram um uppbyggingu á Barónsreitnum hljóta allir þeir að fagna sem vilja hag miðborgarinnar sem mestan. Við getum ekki bara fryst söguna og eðlilega þróun byggðar og mannlífs. Við högum okkur eins og phskopatar sem vilja það helst að litla barnið þeirra verið barn að eilífu, klæða það í ungbarnafötin, þó komið sé á fermingaraldurinn og babla enn við það smábarnamál. Annað tveggja höldum við ástandinu eins og það er og verslun og þjónusta mun finna sér annan samastað eða við sameinumst um eðlilega uppbyggingu sem tekur mið af nútímanum. Ekki fyrir hundrað árum.
Hugmyndir að nýjum miðborgarkjarna í Reykjavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 17. september 2007
Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson
Kæru dómarar. Þessi dómur misbýður almenningi. Gjörsamlega. Mér líka. Þess vegna munu nöfn ykkar standa með stórum svörtum stöfum á mínu bloggi í dag.
Látum nöfnin þeirra standa í svörtu í allan dag á bloggsíðum okkar. Þau tala fyrir sig sjálf verkin þeirra. Og við erum með þögla yfirlýsingu um hvað okkur finnst um þau.
Það voru hæstaréttardómararnir;
Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson
sem sáu ástæðu til að milda dóm nauðgarans úr 4 ár sem var dómur héraðsdóms í 3 1/2 ár.
Hvar stendur þjóð sem skynjar ekki réttlæti sitt og traust á þeim sem eiga að fylgja því eftir???
Ég ætla að láta þessi nöfn og spurningu mína standa hér í dag með stórum svörtum stöfum. Vona að fleiri geri slíkt hið sama á sinni bloggsíðu undir yfirskriftinni
Hinn svarti dagur Dómaranna.
Laugardagur, 15. september 2007
Vestfjörðum blæðir. Viljum við stoppa blæðinguna?
Var í síðustu viku á ferð um suðurfirði Vestfjarða. Þetta er landsvæði þar sem ég þekki fólk og land og gert um árabil. Þangað kem ég reglulega, a.m.k. tvisvar á ári og stundum oftar og það sem við mér blasir er sú sársaukafulla staðreynd að þessi landshluti á mjög undir högg að sækja og mun fara að mestu í eyði innan fárra ára eða í mesta lagi áratuga nema eitthvað róttækt komi til. Margt veldur en mér að ljóst að til að innviðirnir hafa verið að fúna smátt og smátt, langmest af mannanna verkum, fyrst og fremst stjórnmálamanna.
Atvinnulífið er staðnað og nýsköpun engin. Bankar lána ekki tileins né neins nema til kvótakaupa því engin eru veðin. Bara hús sem eru einskis virði. Engin ný atvinnutækifæri verða til. Bara fiskvinnslan sem mönnuð er af austur evrópubúum. Smátt og smátt hefur svo farið að unga fólkið kemur ekki til baka að afloknu námi og meðalaldur íbúanna hækkar og hækkar. Það eru ekki atvinnutækifæri fyrir velmenntað fólk, fólk sem jafnvel hefur lagt fjölda ára í háskólanám og vill ekki fara svo fjarri hinu akademíska samfélagi í Reykjavík, kaffihúsunum, afþreyingunni og tækifærunum sem það getur boðið börnum sínum. Aðgengilegri og auðsóttari en tækifæri þeirra voru.
Fyrst og síðast: Kvótinn. Með honum hófst hrunið fyrir alvöru. Það er alltaf erfitt að spila á spil ef allir spilarnir hlíta ekki sömu reglum. Í spilastokk kvótakerfisins eru mannspilin merkt einum spilaranum við borðið, útgerðarmanninum. Og hann vinnur alltaf. Skrítið finnst ykkur ekki. Það eru engin tækifæri fyrir unga fólkið í þessu kerfi sem er eins og snýtt úr nös á gömlu Kremlarherrunum sem voru frægir fyrir svona sérhagsmunakerfi og allskonar fimm og tíu ára áætlunarbúskap. Þetta er risavaxið nátttröll í ríki annars frjálrar verslunar og atvinnulífs. Leifar forsögulegs tíma verslunar- og gjaldeyrishafta Framsóknarflokksins. Skelfilegt.
Einn af höfuðskilyrðum fyrir búsetu í nútímasamfélagi, hvar sem er í heiminum, eru samgöngur. Það er eins og við í allnægtum okkar höfum gjörsamlega gleymt þessum grunnþætti og engir búa við eins slæmar samgöngur og Vestfirðingar. Stjórnmálamenn hafa áralangt komist upp með að útdeila smábótum í vegakerfið eins og sleikipinnum til hungraðra barna Afríkulanda. Engin heildræn hugsun virðist komast þar að. Jarðgöng og brúaðir firðir eru feitustu bitarnir sem kastað er í kjósendur svona rétt fyrir kosningarnar, sama þótt ófærar forargötur sér til sitt hvorrar handarinnar.
Helstu úrræðin sem stjórnmálamenn benda á er ferðaþjónusta (á ónýtu vegunum) sem stendur í mesta lagi tvo, þrjá mánuði á ári. Á hverju á fólk að lifa hina mánuðina? Reynt hefur verið að flytja störf út á land af veikum mætti. Oftast hafa þetta verið lálaunastörf eins og símsvörun og allskyns tölvuinnsláttur. Þau eru tæpast arðvænleg og alls ekki til þess fallin að laða fólk til búsetu. En það örlar á ljósi í myrkinu. Athafnamenn sem ekki virðast ríbundnir af kvótahugsun og veðsetningu bankamanna hafa kynnt hugmyndir um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Viti menn. Upp rísa upp alls kyns fræðingar og verndarar sem hrópa: Svei, svei! Stóriðja er vond og óhrein. Hana viljum við ekki á hina hreinu Vestfirði. Kallaðir eru til hinir og þessir sem finna þessu allt til foráttu, af þessu sé mengun, þetta sé ekki boðlegt stoltum kynhreinum Vestfirðingum o.þ.h. Bíðum nú við. Notum við ekki olíu? Það skyldi þó aldrei vera. Eigum við ekki bara að láta hreinsa hana í Nigeríu eða öðru álíka þriðjaheimsríki? Það er allt svo sóðalegt þar hvort eð er. Jú, það er miklu betra. Erum við ekki með stór áform um um olíuleit undan Norðausturlandi? Eitthvað hefur heyrst um það og svo er að skilja að menn séu bara nokkuð vongóðir að finna hana í vinnanlegu formi. Æi, nei. Hvar ætlum við að hreinsa hana? Eigum við ekki að flytja hana bara til Nígeríu eða einhvers annars þriðja heims ríks og látum þá um skítinn? Þeir hafa hvort eð engar reglur um umhverfismál. Væri það ekki æðislegt.
Hvers konar tvískinnungur er þetta. Við högum okkur eins og ódæll krakki í afmælisveislu þjóðanna, krakki sem hrifsar bara það besta af borðinu, hitt er nógu gott í aðra. Skoðum málið án fordóma frá öllum hliðum. Eitthvað þarf til bjargar. Lífinu í þorpunum blæðir út. Okkar vegna. Plásturinn fyrir þetta gat þarf að vera eitthvað annað en travelwest.com, fjarvinnsla.is, tínaber.is.
Svo mikið er víst.
Þriðjudagur, 10. júlí 2007
Í vasa kaupmanna fannst áður glötuð skattalækkun.
Athyglisverð vöruverðskönnun hjá ASÍ. Þarna kemur það í ljós sem margir óttuðust. Lækkun virðisaukaskattsins sem átti að koma neytendum til góða lendir öll í vasa kaupmanna eða svo virðist vera. Enda var við öðru að búast? Virðisaukaskattkerfið er orðið gapandi götótt, þriggja þrepa, með óteljandi undanþágum. Það ætti að vera augljós hagur almennings og atvinnulífsins að skattkerfið sé einfalt og skilvirkt.
Einfaldast væri að vera með eitt skattþrep í virðisaukaskatti og engar undanþágur til að svindla á. Lækka mætti skattinn með slíkri einföldun, kannski niður í 12 - 14%. Það myndi minnka verulega hættuna á undanskotum og einfalda skatteftirlit.
Slíkt mætti einnig hugsa sér með tekjuskattinn. Einn flatan skatt 15 - 20% með persónuafslætti sem beintengdur yrði með lánskjaravísitölu. Engar undanþágur. Byggja yrði á sértækum aðgerðum varðandi þá sem sem minna mega sín, þ.e. koma á endurgreiðslukerfi. Hætt yrði að lítillækka fólk með því að kalla slíkar greiðslur bætur heldur nefna þær einfaldlega tekjur.
Við erum komin í ógöngur með skattkerfið, flestir þeir tekjuhæstu greiða sáralítið til samfélagsins og þeir sem eingöngu greiða fjármagnstekjuskatt lifa eins og ómagar á sveitarfélögunum, þiggja alla þeirra þjónustu en greiða ekkert til þeirra.
Þetta verður að taka til gagngerrar endurskoðunar.
Ekki seinna en strax.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 9. júlí 2007
Hvenær er nauðgun nauðgun?
Margir hafa sagt sína skoðun á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í meintu nauðgunarmáli sem kveðinn var upp í síðustu viku. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að fjalla frekar um þennan dóm. Hann er hins vegar ofarlega í huga mér og nú í kvöld sá ég þau Sif Konráðsdóttur og Svein Andra Sveinsson hæstaréttarlögmenn takast á um þetta mál í Kastljósi Sjónvarpsins.
Í mínum huga eru þær forsendur sem dómurinn leggur einhver furðulegasta röksemdafærsla sem ég hef séð í nýlegum dómum. Það er því rökrétt að niðurstaðan sé í samræmi við forsendurnar.
Ég ætla ekki að rekja söguna hér en að halda því fram að ekki hafi verið beitt ofbeldi þegar málsaðilar eru sammála um að stúlkunni hafi verið ýtt inn á klósettið, ýtt síðan niður á gólf og klefanum læst að innan. Stúlkan kemur síðan út af klóettinum með áverka sem dómnum er ljóst að hún hafi hlotið vegna kynferðisofbeldis. Nei, að ofbeldi var að mati dómsins var það ekki ofbeldi samkvæmt dómvenju á 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.
Í skilningi alls þorra fólks hefur fólk verið beitt ofbeldi þegar það gengur skrámað, marið og blóðugt af vettvangi. Að túlka það á annan hátt hlýtur að mínum skilningi að vera hreinn og klár orðhengilsháttur.
Hvenær er nauðgun nauðgun?
Það er spurningin.
Sunnudagur, 8. júlí 2007
Íslenskt hugvit. TCT eldsneytiskerfi; bylting á sviði umhverfismála?
Í síðustu færslum mínum hef ég fjallað um það dæmalausa auglýsingaskrum sem haldið er að almenningi varðandi losun svokallaðra gróðurhúsalofttegunda. Að sjálfsögðu hafa ósvífnir fjárplógsmenn fundið greiða leið að pyngju samborgara sinna með því að selja þeim alls kyns skyndilausnir eins og Hybrid bíla, láta fólk "kolefnisjafna" bíla sína og annað gáfulegt í þessum dúr. Þarna er höfðað til samvisku fólks sem telur sig geta lagt sitt lóð á vogarskál umhverfisverndar með því að láta einhverja aðra um verndina, bara ef það getur keyrt áfram þriggja tonna ameríska trukkinn sem eyðir jafnvel á þriðja tug lítra á hverja hundrað kílómetra.
Samt er hægt að finna ljós í þessari "kolefnamóðu".
Síðast liðin 17 ár hefur íslenskur hugvitsmaður, Kristján B. Ómarsson, þróað ofur einfalda hugmynd að eldsneytiskerfi fyrir brunahreyfla. Hann hefur lagt í þessa hugmynd sína lífið og sálina þrátt fyrir að fáir hafi haft trú á henni fyrst í stað og fjármunir væru af skornum skammti.
Nú er þessi hugmynd hans að verða að veruleika með fjöldaframleiðslu á svokölluðum TCT (Total Combustion Technology) blöndungi. Þessi blöndungur byggir á alveg gjörbreyttri tækni við blöndun eldsneytis og loft þannig að nýting eldsneytisins verður mun betri.
Það sem skiptir okkur kannski mestu máli er að þessi tækni minnkar losun CO2 allt að 80% og HC+NOx allt að 35%. Þetta er eitthvað sem engum hefur tekist áður og nú þegar framleiðsla er að hefjast á fyrstu gerð TCT fyrir smávélar eru mjög miklar vonir bundnar við að þessi tækni geti breytt miklu um losun gróðurhúsalofttegunda frá öllum tegundum brunahreyfla. Þessi tækni ræður við allt fljótandi eldsneyti allt frá bensíni til jurtaolíu auk gass.
Slæmu fréttirnar eru þær að fyrirtæki Kristjáns, Fjölblendir ehf, er að flytja starfsemi sína úr landi til N-Írlands þar sem allur aðbúnaður nýsköpunarfyrirtækja er margfalt betri en hér á landi. Þar hefur reyndar prófunarferli þessarar tækni farið að mestu fram á undanförnum árum. Miklir fjármunir hafa verið lagðir í kaup á einkaleyfum sem víðast um heiminn þannig að í dag er þessi hugmynd vel vernduð.
Hér er á ferðinni eitthvað sem kalla má raunhæfa leið til lausnar á hluta þess vanda sem heimurinn stendur frammi fyrir. Væri ekki nær fyrir stjórnvöld að taka fyrir alvöru á vanda nýsköpunarfyrirtækja þannig það þau flýi ekki land eitt af öðru.
Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér nánar TCT tæknina skal bent á heimasíðu Fjölblendis ehf.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 3. júlí 2007
Kolefnisjöfnunardellan
Eitthvert snjallasta auglýsingatrikk seinni tíma eru allar þær bábiljur og bull sem haldið er að almenningi og varða svokölluð gróðurhúsaáhrif (global warming). Nýjasta dellan er svokölluð kolefnisjöfnun. Þar er fólki talin trú um að nægilegt sé að gróðursetja svo og svo mörg tré á einhverjum óskilgreinum stað og það dugi til að gleypa allt CO2 sem heimilisbíllinn framleiðir. Það er ekki á fólk logið. Það kaupir allt. Já ég meina allt, bara ef því er pakkað í nógu fallegar umbúðir og gæti hugsanlega höfðað til samvisku þess.
Væri ekki nær að sleppa kolefnisjöfnun af stóra ameríska trukknum og velja eitthvað umhverfisvænna sem gerir nákvæmlega sama gagn. Af hverju er fólki ekki gert auðveldara að nota reiðhjól sem samgöngutæki? Af hverju er fólki ekki gert auðveldara að kaupa litla dísilbíla? Af hverju eru almenningssamgöngur ekki gerðar að raunhæfum valkosti svo einhver dæmi séu nefnd.
Það eru svo ótalmargir hlutir sem við getum gert til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Kolefnisjöfnunin er öllu líkara sölu aflátsbréfa páfagarðs hér á öldum áður.
Meira síðar.
Þriðjudagur, 8. maí 2007
Vafasamir hitaveitumenn og harmonikuleikarar
Í kvöld var dyrabjöllunni hringt og fyrir dyrum stóð kona með skrifspjald í hendi og sagðist vera frá Hitaveitu Suðurnesja. Hana langaði til að lesa af orkumæli. Allt hið besta mál og ég í grandaleysi mínu hleypti henni inn í bílskúr þar sem mælirinn er. Á leið út úr skúrnum fékk ég smá bakþanka og spurði hana um skilríki. Hún sagðist engin slík hafa og ekkert sem sannaði hver hún væri annað en peysu sem merkt var logoi fyrirtækisins.
Það er eitthvað mikið að öryggismálum hjá þessu fyrirtæki að sjá ekki starfsmönnum sínum fyrir skilríkjum þannig að þeir geti sagt á sér deili aðspurðir. Það er vel þekkt aðferð misindismanna að þykjast vera frá síma eða veitufyrirtækjum og komast þannig inn á gafl hjá auðtrúa bjánum eins og mér.
Svo eru sumir að spila á harmoniku skilríkjalausir. Sendi löggan þá ekki úr landi. Eins gott að passa sitt.
Ég ætla að setja hundinn á vakt í nótt....eða þannig.
Fimmtudagur, 3. maí 2007
Að vaða út í pytt - hvað er til bjargar?
Mér líður hálf undarlega. Svona svolítið eins og ég hafi verið hafður að fífli sem ég sennilega er. Látum aðra dæma það. Ég hef alla tíð haft áhuga á stjórnmálum og reynt að fylgjast með eftir föngum og stundum lagt litlar pillur í umræðu dagsins. Mér er engin launung á að lengstum hef ég fylgt mínum flokki, Sjálfstæðisflokknum í flestum málum og hugsjónir hans fallið vel að mínum.
Síðustu daga hefur tröllriðið fjölmiðlum mál vegna ríkisfangs stúlku sem mun vera tengd Jónínu Bjartmars umhverfisráðherra. Ég ætla ekki að tíunda það mál hér því flestir ættu að þekkja það. Það er alveg kristaltært í mínum huga að þarna hefur ekki verið farið eftir þeim venjulegu leikreglum sem gilt hafa um veitingu ríkisborgararéttar. Af þeim framsóknarmönnum sem eftir eru hef ég haft nokkuð dálæti á Jónínu og fundist skoðanir hennar, framkoma og málflutningur allur bera vott um einurð og málafylgju. Það urðu mér því nokkur vonbrigði að sjá hvernig hún brást við þessari umfjöllun. Nóg um það.
Enn verra fannst mér til um Bjarna Benediktsson. Þetta er maðurinn sem átti atkvæði mitt í komandi kosningum. Þar var ég viss um að færi vandaður, heill og heiðarlegur stjórnmálamaður. Nei, því miður óð Bjarni tafarlaust út í foraðið þrátt fyrir aðvarnanir. Hann og aðrir nefndarmenn hafa komið fram á þann hátt að ekki telst trúverðugt. Alls ekki. Og enn er Bjarni á leið út í pyttinn og er nú komin upp að hálsi. Með honum hafa fleiri vaðið, Guðrún Ögmunds, þið vitið þessi með pappírstætarann, Guðjón Ólafur sem ég ætla ekki að segja neitt meira um og að síðustu lagði dómsmálaráðherrann af stað og rak tærnar í drullupyttinn.
Bjarni, Guðrún og Björn. Það er enn hægt að snúa við og í guðanna bænum gerið hreint fyrir ykkar dyrum. Guðjón Ólafi hafa hins vegar verið lagðar línurnar; Árangur árfram og ekkert stopp". Sem sagt beint í pyttinn. Þó svo að ég sé fífl og seinn að fatta þá blasa ósannindin við alþjóð. Ég man eftir manni sem rataði beint í sama pytt. Manni sem heitir Árni Johnsen. Árni hafði ekki vit á að snúa við upp úr sínum pytti og því fór sem fór.
Það er enn tækifæri. Notið ykkur það.
Sunnudagur, 22. apríl 2007
Verndun Atlantshafslaxins - Til hamingu Orri
Þetta er með gleðilegustu fréttum vikunnar. Hugsjónamaðurinn Orri Vigfússon hlýtur einhver virtustu umhverfisverðlaun heimsins, Goldberg verðlaunin, fyrir áratugabaráttu fyrir verndun Atlantshafsins. Margir umhverfisverndarsinna mættu taka Orra til fyrirmyndar. Hann lætur ekki duga að tala, hann framkvæmir og markmiðið er ljóst. Ég er ekki viss um að íslendingar viti almennt mikið um þessa baráttu Orra en hann er því betur þekktari meðal áhugafólks um náttúruvernd og áhugamanna um laxveiði. Reyndar fer áhugi á náttúrvernd og veiði yfirleitt saman. Ríkustu hagsmunir sportveiðimanna eru að viðhalda stofnum veiðidýra sterkum og heilbrigðum.
Orri hefur alla tíð verið trúr þessari hugsjón og fórnað miklu til. Höfðingjadjarfur og óbanginn að kynna frumlegar hugmyndir þó sumum sé fyrirmunað að skilja þær, sbr. ummæli hans um þáverandi umhverfisráðherra. Hófsemi en ákveðni er einkennandi fyrir þessa baráttu auk einkar frumlegra fjármögnunarhugmynda. Ég vona að vel önnur náttúruverndarsamtök taki nú undir með Orra og félögum og sýni áhuga á umhverfisvernd á borði ekki bara í orði.
Orri, til hamingu.
Ég segi ekki annað!
Orri Vigfússon hlýtur helstu verðlaun baráttufólks fyrir verndun umhverfissins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |