Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Föstudagur, 20. apríl 2007
Sóknarfæri við Lækjartorg
Ömurlegt að horfa á hús brenna. Samt dregur húseldurinn að sér áhorfendur. Marga. Svo var einnig á miðvikudaginn þegar húsin á horni Austurstrætis og Lækjargötu brunnu. Ég horfði líka með trega, trega vegna minninga sem tengjast þessum húsum, trega vegna þeirrar sögu sem í þeim hefur falist í meir en 200 ár. Þegar frá leið áttaði ég mig á að ég hafði verið að horfa á söguna, söguna sem nú er að gerast og mun lifa áfram. Söguna um húsin sem hýstu Jörund hundadagakonung, Trampe greifa og Gulla heitinn í Karnabæ. Sú saga lifir. Húsin ekki.
Gamli góði Villi var mættur á svæðið. Í rauðum samfesting, með hjálm og öryggisgleraugu. Framan við myndavélarnar var honum augljóslega brugðið. Undir svona kringumstæðum eiga menn ekki að gefa neinar stórar yfirlýsingar. Það er ekki skynsamlegt. Láta daginn líða, nóttina, og hugsa málið betur á morgun. Á morgun er kominn nýr dagur og það sem gerðist í gær er sagan. Sagan sem ekker er öll og verður stöðugt til frá degi til dags.
Mig óaði við yfirlýsingu borgarstjórans. Eldurinn speglaðist í augum hans þegar hann lýsti hátíðlega yfir að hér yrði strax byggt aftur. Byggð aftur hús í sama stíl og helst með sama útliti. Það er ekki sagan. Sagan kennir okkur að allt er breytingum undirorpið. Að ætla sér að frysta augnablikið í einhverri fortíðarfantasíu er hreint óráð. Þarna á auðvitað að byggja aftur. Sem allra fyrst en ekki að óathuguðu máli.
Mín tillaga er að halda samkeppni um uppbyggingu á þessu "besta" horni Reykjavíkur. Það er líka hægt að byggja falleg hús 2007. Ekki bara 1801.
Að byggja hús í dag verður saga morgundagsins.
Það er málið!
Miðvikudagur, 18. apríl 2007
Endurreisn á Vestfjörðum - Vonandi
Ég verð að játa það hreinskilnislega að mér fannst ekki mikið til koma hugmynda um olíuhreinsun á Íslandi. Allra síst á mínum ástkæru Vestfjörðum. Nei, aldeilis ekki. Nú er ég búinn að liggja yfir alls kyns upplýsingum sem góðvinur minn, Mr. Google, hefur veitt mér af rausnarskap sínum.
Eftir notadrjúgar samræður okkar félagana, Mr. Google, og mín hafa runnið á mig tvær grímur. Er þetta kannski ekki svo vitlaust eftir allt. Eftir því sem ég kemst næst mun þessi starfsemi ekki vera jafn illa mengandi, né hættuleg eins og ég taldi í fáfræði minni. Allstaðar í nágrannalöndunum eru svona hreinsunarstöðvar, hafa starfað þar án vandræða eða mengunar annarar en sjónmengunar. Þessar stöðvar eru svo sem ekkert augnayndi.
Ísland er allt í einu að komast í miðpunkt skipasiglinga norðurhafa og þar er staðreynd sem við breytum ekki. Hins vegar eigum við að nýta þau sóknarfæri sem slíkar breytingar gefa okkur. Þ.á.m. hugsanlega olíuhreinsistöð á Vestfjörðum, t.d. í Haukadalnum.
Slíkt fyrirtæki gæti breytt miklu um búsetu og afkomumöguleika Vestfirðinga.
Vonandi.
Mánudagur, 16. apríl 2007
N1 skandallinn eða hvað?
Frekar er nú hugmyndaauðgi þeirra markaðs- auglýsingamanna af skornum skammti þegar merki fyrirtækisins N4 er tekið og afbakað og klesst síðan á bensínstöðvar og bílapartasölur. Logoin eru svo sláandi lík að ekki verður framhjá vikist hjá að þeir geri rækilega grein fyrir tilurðinni.
Ef þarna á að vera með einhvern orðaleik þá er þetta algerlega misheppnað; enneinvitleysan, og dettur mönnum í hug að almenningur gleymi misgjörðum fyrirtækisins í garð hans.
Olíufélag í Danaveldi heitir Q8, hljóðlíkingin er þá kúeit, kuweit. Hér er að bara N1, enneinn skandallinn.
Sorrý!
N4 kannar réttarstöðu sína vegna nafns og firmamerkis N1 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 13. apríl 2007
Flest verður Samfylkingunni að fótakefli
Samfylkingunni verður flest að fótakefli þessa dagana. Dagarnir telja sig niður til kosninga og stóri dagurinn nálgast óðfluga. Einhvern veginn hefur flokknum ekki tekist að marka sér þá sérstöðu og trúverðugleika sem kjósendum er nauðsynlegur. En eitt er víst. Samfylkingin á mikið mannval og þar eru margir reyndir og leiknir stjórnmálamenn. Stjórnmálamenn sem kunna þá göfugu list, rökræðuna.
Því fannst mér nánast því absúrd að horfa á í Kastljósinu fulltrúa Samfylkingarinnar fara gjörsamlega á límingunum í kappræðu við fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Ungar konur á framabraut en kannski ekki ýkja reyndar. Þessi umræða var hvorki vitræn né málefnaleg því fulltrúi Samfylkingarinnar, gjammaði stanslaust frammí með ómálefnalegar athugasemdir um hvað henni sjálfri fyndist um viðmælandann. Manneskjan var greinilega vanstillt og taugaveikluð og hélt engan veginn andlitinu.
Þetta er því undarlegra sem Samfylkingin á að skipa frábæru fólki í svona hanaat. Fólki sem kann rökræðuna og lætur ekki taka sig svona auðveldlega í bólinu.
Tæpast hefur kjósendum Samfó fjölgað í kvöld. Varla þeim sem horfðu á Kastljós.
Föstudagur, 13. apríl 2007
Kaupþing - Ekki fyrir gangandi
Afar ánægulegt er að sjá hvað bankanum mínum gengur vel. 795. sæti yfir stærstu fyrirtæki heims. Hvorki meira né minna. Forbes hlýtur að hafa rétt fyrir sér. Bankanum mínum segi ég þó ég eigi ekkert í honum. Samt er ég búinn að vera viðskiptavinur hans í meira en 30 ár og við búnir að þola saman súrt og sætt.
Það er sennilega svo að í svona stórfyrirtæki koma engir gangandi enda var bílaflotinn fyrir utan samsettur úr Porsche, Mercedes, BMW, Range Rover og öðrum álíka. Byggingin sem er upprisin í Borgartúninu er líka stórglæsileg en ef þú er gangandi lesandi góður er betra að halda sig á gangstéttinni hinu megin, ég meina sparisjóðsmegin. Og ástæðan er þessi.
Sjötíu sentimetra djúp gryfja. Engin brú og engar viðvaranir. Sennilega eru fáir fatlaðir á ferð þarna enda matarúthlutun Hjálparstofnunar kirkjunnar í næstu götu. Sennilega eru engir heldur á ferð eftir að skyggja tekur á kvöldin.
Er ekki bara öllum sama. Það hlýtur að var því svona er þetta búið að vera í lengri tíma.
Kaaaaauupppthhhing hefur góðan BYR.
Hinu megin við götuna.
Kaupþing 795. stærsta fyrirtæki heims að mati Forbes | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 10. apríl 2007
Saga af sjónum
Fyrir 32 árum keyptu 4 ungir menn bát. Þeir voru búsettir í sjávarþorpi á landsbyggðinni. Útgerðin gekk vel og nokkrum árum síðar var gamla bátnum skipt út fyrir nýjan. Sama sagan, þetta var hörkuteymi og útgerðin hafði aldrei gengið betur. Eftir nokkrar svartar skýrslur um ástand fiskistofna ákváðu stjórnvöld að setja kvóta á fiskveiðar. Já það átti sko að vera til að vernda fiskistofnana, stuðla að vexti þeirra og viðgangi og auka hagkvæmni í útgerð.
Já okkar menn fengu kvóta, meira að segja talsverðan kvóta því viðmiðunarárin höfðu þeir fiskað firna vel. Þrátt fyrir mikinn kvóta var okkar mönnum ekki hlátur í hug og fannst virkilega að sér þrengt. Og árin liðu og okkar menn sáu í þessu kerfi alls kyns leiðir til að auka hagkvæmnina. Til dæmis fannst þeim upplagt að leigja frá sér allan þann kvóta sem lög leyfðu en leigja síðan kvóta af allt annari útgerð. Þetta var mjög heppilegt til að lækka laun áhafnarinnar sem var gert skylt að taka þátt í kvótaleigunni. Svo settu samtök útgerðarmanna upp kvótamiðlun þar sem auðvelt var að stýra verðlagningu. Kvótinn var talinn til eignar í bókhaldi og með því að spenna upp kvótaverðið leit efnahagsreikningur útgerðarinnar þokkalega út og greiddi götuna um langa ganga banka og annarra fyrirgreiðslustofnanna.
Fyrir 10 árum bauðst þeim félögum að kaupa úreltan bát en honum fylgdi umtalsverður kvóti. Kvótaeign bátanna var sameinuð í eitt og nýr bátur keyptur. Við þessi tímamót hafði einn af okkar mönnum lent í fjárhagslegum hremmingum og átti því erfitt um vik að fá lánsfé fyrir sínum hluta. Því varð úr að hinir þrír lögðu til viðbótarkvótann en þessi eini jók bókhaldslega hlut sinn í bátnum á móti. Það gat hann auðveldlega gert þrátt fyrir erfiða stöðu í augnablikinu.
Hlaupum nú hratt fyrir sögu en fyrir ári síðan kom til slita á útgerðinni. Þeir félagar höfðu elst og þar sem hægt var að selja fyrir gott verð var það ákveðið. Verðmæti bátsins var talið 20 milljónir en söluverð kvótans var tæpar 800 milljónir. Sem sagt 820 millur. Myndu ekki allir sætta sig við það eða hvað. Nú gerðist nokkuð sem menn höfðu ekki gert ráð fyrir. Munum nú eftir okkar manni sem hafði aukið sinn hlut í bátnum þegar félagarnir lögðu kvótann til. Alla tíð höfðu þeir skipt öllu jafn í miklu bróðerni. Nú skipti sköpum. Okkar maður átti við söluna einungis 75% hlut í bátnum og 25% í upphaflega kvótanum. Honum hafði hann skipt út fyrir bátinn þegar fjárhagsörðugleikarnir stóðu yfir. Hinir þrír áttu hins vegar bara 25% í bátnum en nánast allan kvótann. Þar sem bátinn var lítils virði í heildardæminu fékk okkar maður einungis 36 milljónir fyrir sinn hlut. Félagar hans afganginn.
Þarna hafði það gerst að skip urðu lítils virði á meðan kvótaskrifstofa LÍÚ spennti bogann, spennti bogann og það til hins ítrasta. Því gekk okkar maður nánast slyppur og snauður frá borði eftir 32 ára útgerðarsögu eftir að alls kyns afætur höfðu hirt sinn hlut af kökunni. Félagar hans eru í góðum málum.
Þetta er sönn saga af sjónum.
Ætlar einhver ykkar að styðja kvótaþjófakerfið með atkvæði sínu 12. maí?
Ég bara spyr.
Mánudagur, 2. apríl 2007
Varalið lögreglu er gott mál
Það var skynsamleg og vel ígrunduð hugmynd sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra varpaði fram í síðustu viku um varalið lögreglu. Sumir hafa túlkað þetta eins og andskotinn faðirvorið og kennt Birni að þarna séu enn og aftur uppvaknaðar hugmyndir hans um íslenskan her.
Ég hef ekki heyrt Björn tala um neinn her þó varaliði lögreglu verði komið formlega á fót. Nú er það þannig að við alla meiriháttar viðburði sem upp hafa komið í samfélaginu hefur nokkurs konar varalið verið kallað út. Hér á ég við björgunarsveitir landsins.
Það hlýtur öllum hugsandi mönnum að vera það ljóst að okkar fámenna lögreglulið ræður einfaldlega ekki við s.s. stórar uppákomur og þar er skemmst að minnast Nato-fundarins 2002 og einnig þegar Falun Gong liðar skutu skáeygðum Kínaforseta skelk í bringu. Björgunarsveitir hafa einnig hlaupið undir bagga á útisamkomum en þar hefur réttarstaða þeirra verið óljós gagnvart afskipti af borgurunum.
Mér virðist sem meining Björns sé að þetta varalið verði samsett úr björgunarsveitamönnum, slökkviliðsmönnum, landhelgisgæslu, starfsmönnum í öryggisþjónustu, tollvörðum en bæði innan og utan þessa hóps eru menntaðir lögreglumenn , sumir með mikla reynslu sem gætu tekið að sér leiðtogahlutverk í þessu liði.
Stefán Eiríksson lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins hefur tekið þessum hugmyndum fagnandi og eftir að hafa kynnt mér þær tel ég þarna vera mjög gott mál á ferðinni.
Hugmyndina eins og Björn varpaði henni fram skil ég fyrst og fremst á þann veg að koma þessu sjálfboðaliðastarfi í ákveðinn farveg með markvissri þjálfun og kennslu auk þess að koma réttarstöðu þessara sjálfboðaliða í viðunandi horf.
Laugardagur, 31. mars 2007
Niðurstaðan er fengin - nú þarf að ná sátt um hana
Naumt var það eins og búist hafði verið við. Þetta hafa verið mjög sérstakar kosningar því beint og milliliðalaust lýðræði hvefur vart þekkst hér á landi. Tekist var á um mikið hagsmunamál, ekki bara fyrir íbúa Hafnarfjarðar, heldur fyrir nágranna þeirra, íbúa við Þjórsá og raunar landsmenn alla. Hart var tekist á og hætt er við að sumir gangi sárir úr þessari orrustu. Hinir sigurreifir.
Þá ríður á að ná samstöðu um fengna niðurstöðu og sætta íbúana. Svona er nú einu sinni lýðræðið í verki og ekki vildi ég skipta á því við nokkurt annað stjórnarform. Þegar ákvörðun hefur verið tekin með þessum hætti verða menn að standa saman að baki henni jafnvel þó sumir séu sáttari en aðrir.
Til hamingu Hafnfirðingar. Niðurstaðan er fengin og ykkar að vinna úr henni.
Laugardagur, 31. mars 2007
Afdrifaríkar kosningar?
Í dag ganga Hafnfirðingar til kosninga um breytt deiliskipulag iðnaðarsvæðis í Kapelluhrauni. Breyting skipulagsins ræður úrslitum um hvort mögulegt sé að stækka álver Alcan um 150%. Eins og ég hef kynnt mér málið skiptir mengun þar litlu máli til eða frá. Mjög lítil mengun er frá fyrirtækinu önnur en sjónmengun og efna- og kolefnismengun mun ekki aukast um 150% vegna möguleika á breyttum vörnum með tilkomu stækkunarinnar.
Jákvæðu punktarnir við stækkun eru fleiri störf, meiri hagvöxtur, meiri útflutningstekjur, meiri tekjur bæjarfélagsins, auk afleiddra þátta sem aukinnar verslunar og þjónustu á ýmsan máta. Einnig gefur stækkun okkur möguleika á að ná hagstæðari samningum um raforkusölu. Það er ekkert leyndarmál að þetta fjörutíu ára, sumpart úrelta álver, er fyrst og fremst rekið enn vegna mög lágs orkusamnings.
Neikvæðu þættirnir eru fyrst og fremst aukin þensla með hærri verðbólgu, hærri vöxtum og þeirrar spennu á vinnumarkaði sem við megum síst við. Hver vill aukna verðbólgu, hærri vexti. Hærri vexti en þá sem hæstir gerast í Evrópu. Einnig hlýtur að teljast mjög neikvætt að stór hluti þeirrar takmörkuðu fallvatnsorku sem við eigum enn fari til stóriðju sem gefur tiltölulega litlar tekjur miðað við annan iðnað.
Sumir virtir fræðimenn hafa látið hafa það eftir sér að hagkvæmasti orkuöflunarkostur íslendinga í dag sé að loka í Straumsvík. Nægur markaður sé fyrir þessa orku og hana megi selja á miklu hærra verði. Þetta hljóta að vera sterk rök þar sem öllum má vera ljóst að orku eigum við ekki ótakmarkaða þó öðru hafi verið haldið að þjóðinni áratugum saman.
En hvað um það. Hafnfirðingar ganga í kjörklefann rigningardaginn 31. mars. Ljóst er að þessar kosningar verða mjög tvísýnar. Miklar deilur og rammar hafa verið um málið sem ekki hefur að öllu lotið flokkslínum. Hverjar sem niðurstöður þessara kosninga verða munu Hafnfirðingar búa enn á sama staða og verða að lifa saman í sátt og samlyndi. Vonandi verða vopnin slíðruð og hugað að betri og bjartari framtíð til handa öllu "Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu" að þeim loknum.
Miðvikudagur, 28. mars 2007
Réttlætiskennd misboðið, ótrúleg niðurstaða dómara.
Marga skrítna dóma hefur maður sé en þessi toppar það alveg. Dóminn í heild sinni er hægt að lesa hér á dómstólar.is. Einnig er hér að neðan rökstuðningur dómsins, ef rökstuðning skuli kalla.
"Brot ákærða er talið varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að mati dómsins er óumdeilt að háttsemi ákærða var til þess fallin að særa blygðunarsemi Y. Til þess að unnt sé að sakfella ákærða fyrir brot á nefndri 209. gr. þarf háttsemin að vera lostug af hans hálfu. Í greinargerð með frumvarpi til breytingar á almennum hegningarlögum sem varð að lögum nr. 40/1992 segir svo m.a. svo: ,,Af nýjum sérákvæðum í 200.--202. gr., sbr. 8.--10. gr. frumvarpsins um kynferðislega áreitni, leiðir hins vegar að undir 209. gr. fellur nú fyrst og fremst ýmiss konar háttsemi önnur en káf og þukl á líkama, t.d. gægjur á glugga, berháttun og önnur strípihneigð, klúrt orðbragð í síma. Þetta bendir ótvírætt til þess að með lostugu athæfi sé átt við háttsemi af kynferðislegum toga sem er til þess fallin að veita þeim sem slíka háttsemi hefur í frammi einhverja kynferðislega fullnægju. Ekkert bendir til þess að svo hafi verið í tilfelli ákærða. Eru því ekki efni til að sakfella hann fyrir brot gegn nefndri 209. gr. almennra hegningarlaga".
Þetta er ekki boðlegt.
Alls ekki!
Sýknaður af ákæru fyrir að taka mynd af naktri konu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)