Færsluflokkur: Bloggar
Sunnudagur, 18. janúar 2009
Ríkislandbúnaður lætur í sér heyra
Ég neita að trúa því að ekki séu til aðrar lausnir á vandanum, reyndar vanda sem ég á svolítið erfitt með að skilja að sé vandi yfirleitt. Það mæla göturnar núna 11 þúsund atvinnulausir. Í sumar verða þeir efalaust komnir í 25 - 30 þúsund. Væri ekki ráð að setjast niður og hugsa í lausnum áður en svona uppsláttur er settur fram.
Jafnvel þótt ég sé í fullri vinnu skal ég vera tilbúinn að taka minn skerf af þessum plöntum og koma þeim í jörðina með eigin höndum.
Eitthvað hlýtur það líka að kosta að keyra þetta á haugana.
Milljón trjáplöntur á haugana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Þriðjudagur, 13. janúar 2009
Eitthvað til að hafa áhyggjur af?
Er ekki bara þjóðin að endurheimta eignir sínar úr höndum braskara? Mun það ekki skapa ný sóknarfæri?
Mér er spurn?
Sjávarútvegsfyrirtæki berjast fyrir lífi sínu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 12. janúar 2009
Lokað fyrir opna umræðu íbúa Álftaness
Af gefnu tilefni hef ég sent forseta bæjarstjórnar Álftaness bréf með ósk um að opnað verði á þá lifandi lýðræðislegu umræðu sem hefur átt sér stað á spjallsvæði heimasíðu sveitarfélagsins. Í síðustu bloggfærslu minni tilgreini ég ástæður lokunar vefsins.
Nú þegar málið er upplýst gerum við íbúar á Álftanesi kröfu um að spjallsvæðið verði opnað aftur. Í því ljósi skrifaði ég eftirfarandi bréf:
Sveitarfélagið Álftanes
b/t forseta bæjarstjórnar
Bjarnastöðum
225 Álftanes
Efni: Spjallvefur heimasíðu Sveitarfélagsins Álftaness.
Undanfarin ár hefur verið rekinn spjallvefur á heimasíðu Sveitarfélagsins Álftaness. Þessi vefur hefur verið notaður til alls kyns umræðu um málefni sveitarfélagsins, tilkynningar og nánast um hvað eina sem fólki hefur legið á hjarta.
Opin gagnsæ umræða er af hinu góða og er í fullu samræmi við stefnuskrár Á og D lista sem nú skipa bæjarstjórn. Miklar deilur hafa verið um stjórnsýslu og gjörðir meirihluta og minnihluta bæjarstjórnar á undanförnum árum. Því er brýnna en ella að halda opinni gagnrýninni umræðu á almennum vettvangi. Til þess eru m.a. spjallvefir nytsamlegir og til þess fallnir að styrkja lýðræði í verki.
Fyrir nokkrum vikum var spjallvefnum lokað. Ástæða þess er flestum kunn. Þar hafði einstaklingur stigið út fyrir mörk hins boðlega og birt ósvífið níð um nafngreint fólk sem hafði það eitt til saka unnið að eignast eftirsótta lóð og viljað byggja á henni. Ekki er ástæða til að rekja þá sorgarsögu frekar í þessu bréfi.
Af einhverjum ástæðum brugðust ábyrgðarmenn heimasíðunnar við með því að loka spjallvefnum í stað þess að fjarlægja fyrrgreint níð. Lögreglurannsókn mun síðan hafa leitt í ljós hver var höfundur níðskrifanna.
Með tilliti til þess að málið er nú upplýst skora ég undirritaður íbúi í Sveitarfélaginu Álftanesi á ábyrgðarmenn heimasíðunnar að opna nú aftur umræddan spjallvef. Hann er nánast eini vettvangur íbúanna til beinna skoðanaskipta þar sem ekki er nein blaðaútgáfa fyrir hendi í sveitarfélaginu.
Oft var þörf en nú er nauðsyn.
Álftanesi 12. jan. 2009
Sveinn Ingi Lýðsson kt. 100355-2219
Kirkjubrekku 22.
Afrit sent:
Bæjarfulltrúum
Fjölmiðlum
Þeim sem hafa áhuga er velkomið að nýta sér texta bréfsins og senda viðkomandi bréflega, í faxi eða tölvupósti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 8. janúar 2009
Nýtt lýðræðisafl. Athyglisverð hugmynd um "sjálfseyðandi" lýðræðishreyfingu!
Í ljósi undanfarinna atburða og viðbragða íslenskra stjórnmálamanna hugsar hver sitt. Mér finnst með ólíkindum að engir hafi axlað ábyrgð á fjármálahruninu þrátt fyrir að hafa verið trúað fyrir varðstöðunni. Stjórnmálamenn ættu að bera ábyrgð gagnvart kjósendum og embættismenn gagnvart framkvæmdavaldinu. Ég minnist ekki á hlut fjárplógsmannanna sem settu hér allt á hausinn og veltu skuldum sínum á almenning. Alla vega ekki ógrátandi.
Aldrei í íslandssögunni hafa stjórnmálamenn afhjúpað jafnrækilega vanhæfni sína og ábyrgðarleysi. Steininn tók úr í gær í Kastljósviðtali Ingibjargar S. Gísladóttur. Þar gaf að líta hrokafullan, veruleikafirrtan pólitíkus sem virtist miða allt sitt við að halda völdum. Skítt með allt annað.
Svona fólk á þjóðin ekki skilið. Það er óviðunandi og sýnir ágalla þess kerfis sem við höfum búið við. Reyndar köllum við það lýðræði en er það ekki í raun. Mun frekar er hægt að tala um flokksræði sem við þegnarnir lútum. Fáum að kjósa um tilbúna lista flokkanna á fjögurra ára fresti og sitjum svo uppi með eitthvað sem jafnvel enginn vildi. Fólk sem situr sem fastast og ber fyrir sig að hafa verið kosið fyrir 18 mánuðum eins og Ingbjörg sagði í gærkvöldi.
Þessu verður að breyta og það er hægt. Til þess þarf skýra sýn, frumkvæði og vilja. Hana hefur Egill Jóhannsson o.fl. sýnt. Hann hefur lagt fram mjög athyglisverða hugmynd að hreyfingu sem hefði það eitt að markmiði að breyta stjórnskipan Ísland í átt til virks lýðræðis.
Ég hvet alla til að lesa hugmyndir Egils en þær má finna hér: http://egill.blog.is/blog/egill/entry/765418/
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 7. janúar 2009
Braskarar í útgerðarstétt missa fiskveiðiheimildir í hendur útlendinga.
Hvernig stendur á þessari skelfilegu skuldsetningu í íslenskum sjávarútvegi. Ein helstu rök andstæðinga ESB hafa verið að eignarhaldið fiskveiðiréttarins megi ekki færast til útlendinga. Þá spyr ég: Hefur það ekki færst sjálfkrafa með kvótabraski, tilheyrandi skuldsetningu sem nú kemur illa í hausinn á bröskurnum? Hverjir eiga veðkröfurnar í þrotabú bankanna? Skyldu þeir vera einhverjir ótætis útlendingar?
Er þá ekki ljóst að raunverulegt eignarhald á fiskveiðiréttinum á Íslandsmiðum er komið í hendur erlendra? Ef svo er eru þá ekki rökin gegn ESB aðild fokin fjalla til? Ég get ekki betur séð en ef eignarhaldið eigi að haldast innanlands að ríkið verði að leysa til sína aflaheimildir og sjá til þess að veð útlendinga í veiðiréttinum verði greiddar.
Annað tveggja gerum við það núna strax eða aldrei.
Erlendir bankar með veð í kvóta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 6. janúar 2009
Stuttur metorðastigi eða siðbót?
Allt í einu hefur áhugi ungs framagjarns fólks beinst að Framsóknarflokknum, þeim flokki sem er vart nema skugginn af sjálfum sér í dag, miðað við þá fornu frægð þegar hann var löngum næst stærsti flokkur þjóðarinnar.
Framsókn hefur haft sérlega slæmt orð á sér fyrir spillingu og innan hans má segja að nokkrir af helstu fjárglæframönnum undanfarinna missera átt skjól. Nærtækast er það að benda á svokallaðan S-hóp hvað gat sér orð fyrir að hafa eignast Búnaðarbankann með svikum og prettum. Að hluta til sömu aðilar og S-hópinn skipuðu fóru einnig ránshendi um sjóði Samvinnutrygginga og skildu eigendur eftir skulduga upp fyrir haus. Forustu flokksins stóð einnig af hinu illræmda kvótakerfi í sjávarútvegi og hefur flokkurinn varið kerfið eins og hundur bein. Þar fór fremstur í flokki þáverandi formaður, Halldór Ásgrímsson, enda einkahagsmunir hans af kerfinu miklir.
Liðsmenn S-hópsins hafa einnig verið mikilsráðandi í svokölluðu flokkseigandafélagi, sbr. frásagnir fyrrv. þingmanna flokksins, Bjarna Harðarsonar og Kristins Gunnarssonar bera vitni um. Svo virðist sem þar hafi menn setið og staðið að geðþótta þessara manna.
Miklar hræringar hafa verið í forustusveit flokksins að undanförnu og vart farið framhjá neinum hversu óvægin og grimmileg baráttan um völdin hefur verið þar. Ekki þarf að rekja það hér. Eftir hafa hætt formennsku og þingmennsku í reiðikasti skildi Guðni Ágústsson eftir stórt skarð. Það skarð virðast margir tilbúnir að fylla. Einn þeirra sem nú hafa gengið til liðs við flokkinn, vonandi með siðbót efsta í huga, er Guðmundur Steingrímsson Hermannsonar Jónassonar. Talsvert hefur borið á Guðmundi í starfi Samfylkingarinnar og hiklaust má telja þar skarð fyrir skildi með brotthvarfi hans. Guðmundur var af mörgum talinn einn af efnilegustu framtíðarmönnum þar. Því má búast við innganga hans í flokkinn sé ekki bara upp á punt heldur ætli hann sér frama þar. Raddir hafa einnig heyrst í þá veru að auðvelt sé að ná frama í Framsóknarflokknum því metorðastiginn þar hafi færri þrep en annarsstaðar.
Það verður fróðlegt að sjá hver ber sigurorð í toppslag flokksins. Næsta vika er ögurstund og þar kemur í ljós hvort liðsmenn hans eru tilbúnir til siðbótar og hvert þeir ná að hrista af sér óværu "flokkseigandanna".
Guðmundur í Framsóknarflokk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sunnudagur, 4. janúar 2009
Nei takk, ég ætla ekki að borga skuldir íslensks sjávarútvegs, enn einu sinni!
Við hrun efnahagslífs þjóðarinnar koma þau nú í ljós meinvörpin í þjóðarlíkamanum eitt af öðru. Eitt það stærsta liggur í sjávarútvegi. Ein mesta blekking síðustu áratuga hefur verið sú fjarstæða að íslenskur sjávarútvegur sé sjálfbær og standi rekstrarlega á eigin fótum. Allt annað en útgerðin í ESB sem ekki gengur nema á beinum og óbeinum ríkisstyrkjum.
Á árum áður var gripið aftur og aftur inn í efnahagslífið, oftast með beinum gengisfellingum eða öðrum sértækum aðgerðum, nánast alltaf til að halda veikburða sjávarútveginum á floti. Á hvern féll kostnaðurinn? Jú, á íslenskan almenning í formi minnkaðs kaupmáttar, verðbólgu, okurvaxta og verðtryggingar.
Steininn tók svo úr við setningu kvótalaganna 1983 og framsalsheimildina 1990. Þar var grunnurinn lagður að hinni fullkomnu blekkingu. Látið var í veðri vaka að þetta væri til að vernda fiskistofna við Ísland. Akkúrat. Hvernig skyldi það nú hafa gengið? Svari hver fyrir sig.
Stærstu mistökin lágu þó í úthlutun aflaheimildanna. Alþingi ákvað að þær skyldu renna til eigenda fiskiskipa. Ekkert var hugað að hagsmunum sjómanna, verkafólks, fiskvinnslu eða sveitarfélaganna. Allt rann án endurgjalds í vasa einnar stéttar manna. Þarna var kominn grunnur að þeim ójafnaði og græðisvæðingu sem við súpum nú seyðið af. Þarna varð til óefnislegur gróði við sölu á óveiddum aflaheimildum. Fjármálastofnanir tók veð í aflaheimildunum þrátt fyrir skýr lagaákvæði um eign þjóðarinnar (væntanlega ríkisins) á þeim. Nýtt umhverfi skapaðist, veröld hrifsaranna.
Veðsetningin var hrifsuruum fundið fé. Öllu var stjórnað úr herbúðum LÍÚ þar sem kvótanum var miðlað milli útgerða. Og alltaf hækkaði verðið. Að sjálfsögðu gerði það það. Enda auðvelt þegar öll trompin voru komin á eina hendi. A seldi B, B seldi C og svona koll af kolli og alltaf hækkaði verðið á heimildunum. Það var líka heppilegt til aukinna veðheimilda. Viðskiptalíkanið var þar sama og Baugsarar, Fonsarar, Bjöggar og aðrir seinni tíma skúrkar nýttu sér. Útgerðarmennirnir botnskuldsettu fyrirtækin, mjólkuðu miskunarlaust allt lausfé og nýttu allar lánalínur og skelltu sér á hlutabréfamarkaðinn. Þjóðinni var talin trú um stórgróða sjávarútvegsins en því miður byggðist hann meira á væntingum en veruleika. Algjör sjónhverfing og eftirleikinn þekkjum við.
Ég er sammála Þorvaldi Gylfasyni og fleiri fræðimönnum sem hafa bent á að þarna liggi rætur vandans. Þarna giltu ekki lögmál markaðarins, heldur sérhyggjunnar. Almenningur borgaði brúsann. Það þekkir fólkið í sjávarbyggðunum sem missti lífsafkomuna, eignirnar og sjálfsvirðinguna þegar kvótagreifanum þóknaðist í nafni hagræðingar að selja lífsbjörgina frá fólkinu. Ég fullyrði að framkvæmd þessa einokunarkerfis mun sagan dæma og setja á bekk með annarri illræmdri einokun; dönsku einokunarverslunarinnar.Nú er allt farið fjandans til og þrátt fyrir góðar meiningar (eða voru það meiningar) um verndun og uppbyggingu fiskistofna í hafinu við Ísland hafa helstu nytjastofnar hrunið. Hver er þá tilgangurinn?
Enn og aftur á að seilast í vasa almennings. Sjávarútvegsráðherrann vill fella niður skuldir sjávarútvegsins sem orðnar eru til af framvirkum gjaldmiðla og afleiðusamningum auk glórulausrar skuldsetningar. Blöðruhagkerfi kallaði ágætur maður þetta til sannmælis. Svo sprakk blaðran. Var einhver sem bað þessi fyrirtæki að taka þessa áhættu. Ég bað þá ekki og neita því að borga oftar skuldir þeirra sama hvaða fj..... barbabrellur á að framkvæma til þess. Til þessa nýtur þessi veruleikafirrti ráðherra fullþingis ráðvandra ofurmenna á borð við Árna Johnsen og Friðriks Arngrímssonar framkvæmdastjóra LÍÚ svo einhverjir séu nefndir.
Ef niðurstaðan verður eins og þessir herramenn fara fram hljóta aðrir skuldarar að fá sömu afgreiðslu. Ef ekki er ég hræddur um að hér verði allt vitlaust.
Svo einfalt er það.
Skuldastaðan mun batna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Laugardagur, 3. janúar 2009
Að stela mótmælum!
Ekkert fáum við þessi venjulega Gunna og venjulegi Jón að hafa í friði. Við fáum ekki einu sinni að mótmæla í friði. Mótmælum okkar er ekki spillt af veðri og vindum, stjórnvöldum sem eru jafn sinnulaus um mótmæli sem hvað annað eða lögreglu sem helst virðist vilja stunda einhverja samræður við lögbrjóta.
Nei friðnum til mótmæla okkar er hreinlega stolið. Stolið af alls kyns rugludöllum sem nú skríða úr skúmaskotum sínum hvaða nafni sem þau nefnast, stundum hreyfingum sem kenna sig við frið, tröll, nornir og nú síðast einhverjir bræður hver annar þeirra sagður ráðgjafi þess innvígða og innmúraða í Svörtuloftum.
Þetta ruglulið á það sameiginlegt að vera uppfullt af fordómum gagnvart þeim sem ekki eru á sömu skoðun og lögreglu sem verður þeim eilífu heppilegur blóraböggull. Ruglulið sem snappar framan við myndavélar, ryðst með ofbeldi á saklaust fólk og grýtir lögreglu.
Rugludallarnir fá nú áður óþekkta athygli og virðast njóta þeirra í botn. Það er áhyggjuefni því það beinir athyglinni frá því sem mótmælt er.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Fimmtudagur, 1. janúar 2009
Óboðnir gestir ruddust inn í húsið mitt. Lögreglan vill ekki fjarlægja þá.
Óboðnir gestir ruddust inn á heimili mitt og stunda nú eitthvað sem þeir kalla friðsamleg mótmæli. Ég var að vísu búinn að setja mottu við útidyrnar þar sem stóð stórum stöfum Velkomin en reiknaði ekki með að þessar boðflennur eða mótmælendur tækju þessa áletrun jafn alvarlega og raun ber vitni.
Mótmæli þeirra snúa að þeirri venju minni að drekka rauðvín með áramótasteikinni en ekki jólaöl eins og nú þykir boðlegt með þjóðinni. Ýmislegt annað í fari mínu og fjölskyldu minnar fer í taugarnar á þessum mótmælendum s.s. sú ósvinna að ég hyggist nota heimilissímann til að hringja í fjölskyldu og vini í tilefni áramótanna. Vegna þessa hafa þessir mótmælendur kveikt á neyðarblysum til að brenna símasnúrurnar auk þess að berja potta og pönnur og skapa með því sem allra mestan hávaða.Vegna þess hafa nágrannarnir kallað á lögreglu. Auk þessa hávaða hafa mótmælendurnir byrjað að syngja ættjarðarsöngva hástöfum. Löggurnar eru mættar á svæðið og búnar að koma sér þægilega fyrir með rauða spraybrúsa. Þær standa nú í samningaviðræðum við þessa mótmælendur um að þeir yfirgefi húsið mitt. Í það allra minnsta að hafa lægra til að trufla ekki nágrannanna. Ég er ítrekað búinn að krefjast þess að lögreglan komi fólkinu út með öllum tiltækum ráðum. Yfirmaður lögreglunnar hér segist alls ekki vilja beita ofbeldi og einhver tíma muni fólkið fara, alla vega þegar þeir eru búnir með kalkúninn og anansfrómasins. Mér líst ekkert á þetta, klósettið er alveg upptekið, laukþefurinn í húsinu er óbærilegur en svo virðist sem allir vasar fólksins séu fullir af lauk og G-mjólk.
Ég er alls ekki tilbúinn til að hætta við að drekka rauðvínið mitt eins og mótmælendurnir krefjast, búinn að umhella dýrindis Bordaux víni, árgangur 2004 yfir á karöflu. Ég er meira að segja búinn að bjóða þeim með mér en þá syngja þeir bara einhvern fingrasöng. Ég reyndi líka og stoppa einn sem ætlaði að pissa á stofuteppið en var þá hrint á sjónvarpsskápinn. Skápurinn og sjónvarpið reyndar brotnuðu en það var að sjálfsögðu mér að kenna. Það var jú ég sem datt á það. Hrindingin var að sjálfsögðu friðsamleg eins og forsprakki mótmælandana segir í sífellu milli þess sem hann skyrpir kalkúnabeinum undan svarta klútnum sem hann hefur sett fyrir andlitið. Flestir eru líka þannig og engin leið að þekkja fólkið. Og ég sem hélt að þetta væri bannað!
Lögregluforinginn bað mig um að halda rónni, það mætti alltaf skipta um teppi og kaupa nýtt sjónvarp. Svona er nú staðan, fjölskyldan sem ég var búinn að bjóða í mat fær ekki að koma inn. Ég er orðinn ráðalaus og lögreglan gerir ekkert nema það sé friðsamlegt. Ég spurði hvort þeir gætu ekki notað gas en fékk þau svör að notkun á því félli í slæman jarðveg svo ákveðið hefði verið að nota það ekki nema í samráði við mótmælendurnar.
Nú bið ég ykkur um ráð. Hvað í ósköpunum á ég að gera? Sérstaklega bið ég sérfræðinga í mótmæla- og lögregluaðgerðum að leggja mér lið. Þar mætti t.d. nefna Jennýu Önnu, Helga Jóhann Hauksson, Þór Jóhannsson, Evu Hauksdóttur og Birgittu Jónsdóttur.
Auðvitað er þetta allt saman tilbúningur, svona lítil dæmisaga. Ég hef mætt á fjölda mótmælafunda og tekið þar fullan þátt þar sem ég er ósáttur við stjórnvöld, bæði það sem gert var og ekki síður það sem látið var ógert. Hins vegar er það skoðun mín að með þáttöku í mótmælaaðgerðum tekur maður því sem verða vill. Lögreglan hefur mjög skýru hlutverki að gegna. Fyrirmælum hennar ber að hlýða. Geri maður það ekki er engan veginn hægt að kvarta undan þeim valdbeitingaraðferðum sem henni er heimilar.
Þeir sem ekki eru tilbúnir til þess skulu þess vegna sitja heima.
Bloggar | Breytt 2.1.2009 kl. 07:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Miðvikudagur, 31. desember 2008
Í upphafi skyldi endinn skoða
Almenningur þarf að borga skuldir þessara vitleysinga. Sé eitthvað að marka fréttir af fjármagnsflutingum síðustu daga fyrir hrunið eru þeir örugglega ekki á flæðiskeri staddir.
Mistökin liggja fyrir og fremst í óvissum, fálmkenndum viðbrögðum stjórnvalda. Því má líkja við að vakna upp við að innbrotsþjófur hafi sótt heimili manns heim um nótt og haft öll verðmætin á brott. Fyrstu viðbrögðin voru því lík að best væri að skríða aftur upp í rúm og vona þetta vera vondan draum. Kannski þjófurinn sæi að sér og skilaði þýfinu.
Það var ekki svoleiðis. Viðbrögðin voru ekki í neinu samræmi við ástandið. Ekki kom til greina að draga sökudólgana til ábyrgðar. Í ljósi sögunnar er það skiljanlegt þar sem fjárglæframennirnir voru svo samanspyrtir við íslensk stjórnmálalíf að stór hluti ráðherra, þingmanna og jafnvel forsetinn hefði fokið þar með.
Mín tilfinning er sú að allur almenningur sé sár og reiður og margir vart búnir að skilja í hvað slæmum málum við erum. Nú um áramót missa margir vinnu og munu fara á atvinnuleysisbætur. Fjöldi fólks er í þeim sporum að geta ekki staðið við skuldbindingar sínar. Þetta sama fólk horfir upp á gæðinga bankanna fá sínar skuldir niðurfelldar, bankana hafa kennitöluskipti og sjá glæframennina enn vera að skara eldi að eigin kökum.
Þetta er ekki ásættanlegt og á meðan stjórn Seðlabankans, Fjármálaeftirlits og ráðherrar sem klárlega bera ábyrgð sitja sem fastast er ekki nema eðlilegt að uppúr sjóði. Ég er hræddur um að þetta sé rétt byrjunin. Ástandið á götunum á eftir að versna ef stjórnvöld grípa ekki nú þegar inn í ástandið með róttækri uppstokkun. Fólkið sér að friðsamleg mótmæli bera lítin sem engan árangur. Það þýðir einfaldlega að mótmælin færast yfir á næsta stig, og næsta, og næsta.....
Geir, Ingibjörg og aðrir landsfeður. Eruð þið svo fjarlæg almenningi að þig séuð ekki að skynja það ástand sem er að skapast í þjóðfélaginu? Ef þið teljið ykkur skynja það er aðgerðaleysi ykkar óskiljanlegt.
Fólk slasað eftir mótmæli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)