Færsluflokkur: Bloggar

i kina spiser de hunde

Kínverjar éta hunda og hafa vegna þess fordæmingu alþjóðasamfélagsins, bæði vegna hundaátsins og ekki síður vegna grimmúðlegrar meðferðar á hundunum. Ég hygg að því sé þannig farið að mörgum dettur hundaátið fljótlega í hug þegar Kína eða Kínverjar koma upp í hugann. Oftast þá í neikvæðri merkingu. Hundaátið snýst þess vegna nokkuð um ímynd þjóðarinnar. Líklega gæti hún verið betri létu blessaðir Kínverjarnir af þessum "ósið".

Við íslendingar  höfum nokkuð óvænt dottið inn í miðja umræðu alþjóðasamfélagsins í mjög neikvæðri merkingu.  Við höfðum (eða töldum okkur trú um) nokkuð jákvæða ímynd sem fyrirmyndarsamfélag.  Sú ímynd er brostin og við þurfum nú mjög á því að halda að bæta þessa ímynd og nota til þess allar færar leiðir.

Einhvern veginn hefur svo æxlast til að almenningsálit Vesturlandabúa hefur snúist gegn hvalveiðum og hvalkjötsáti.  Þetta finnst okkur skrítið eins og súrsaða rengið smakkast nú vel á þorrablótunum. Stórskrítið  enda eru þetta bara veruleikafirrt kaffihúsalið, alið upp á latte og malbiksryki.  Sennilega er það líka á móti hundaáti.  Samt hef ég sannfrétt að hundakjötið bragðist með eindæmum vel.

Mér finnst hvalkjöt gott og auðvitað eigum við að nýta okkur gjafir náttúrunnar, hvort heldur sem það eru hvalir eða hundar.  Í ljósi þessa er mér vafi í huga hvort hvalveiðar nú bæti ímyndina sem nú þegar er ansi beygluð og skæld.

Svo er mér spurn:  Er hægt að selja þetta hvalkjöt?  Samkvæmt fréttum hefur myndast hvalkjötsfjall í Japan.  Neysla þar hefur dregist verulega saman og hvalveiðar í suðurhöfum er nánast á framfæri stjórnvalda fjárhagslega.  Mér þætti fróðlegt að sjá hver geymslu- og flutningskostnaður var á langreyðarkjötstonnum sem nú munu loks vera komnar til Japan.  

Er það rétt að verðið hafi ekki dugað fyrir kostnaði?  Hver er þá ávinningurinn?


mbl.is 36 þingmenn vilja hvalveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjáið myndbandið þegar Davíð hringdi "viðvörunarbjöllum" 3. mars 2008.

Margt góðra gripa er að finna í safni Seðlabanka Íslands.  Þar mun meðal annars að finna hinar merku viðvörunarbjöllur sem Davíð Oddsson bankastjóri hafi hringt reglulega vegna hættulegrar stöðu íslensku bankana og vegna bliku sem dregið hafi á himinn hins íslenska efnahagslífs.

Í ljósi þess er áhugavert að skoða þetta viðtal þar sem Davíð "hringir" bjöllunum.  Er ekki rétt að þessar "bjöllur" verði geymdar á Þjóðminjasafninu með öðrum gersemum þjóðarinnar?


Er þetta hlutverk forsetans?

Mér finnst forsetinn kominn út á heldur hálan ís með þessum ummælum sínum.  Nógu slæmt er ástandið þó hann reyni að halda sér í sviðsljósinu með þessum svigurmælum.  Til sanns vegar má færa að yfirlýsing hans eigi við rök að styðjast.  Þetta er bara ekki hlutverk hans að gefa yfirlýsingar sem þessar.  Til þess höfum við ríkisstjórn. 

Svona bull er alveg sambærilegt við það sem kemur frá seðlabankastjóranum og er búið að valda okkur ómældum skaða.  Enda eru þeir líkir um margt, athyglissjúkir hrokagikkir, tilbúnir hvenær sem er að vekja athygli með alls kyns yfirlýsingum og fjölmiðlabrellum.

Betur þeir geri sér grein fyrir muninum á neikvæðri athygli og jákvæðri. 


mbl.is Þjóðverjar fái engar bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarnakona í framboð

Það er því ánægjulegt að sjá þessa efnilegu konu taka slaginn í komandi prófkjörsbaráttu. Erlu þekki ég að góðu og veit að hún er svo sannarlega traustsins verð.
Ekki kæmi mér á óvart að hér færi fram einn af framtíðarleiðtogum okkar.
mbl.is Erla Ósk ætlar í 5. sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaktir af værum blundi

Hversu langt nær hroki og afneitun þessara manna.  Látum liggja milli hluta öll afglöp formannsins en það liggur ljóst fyrir að þeir og bankinn eru rúnir öllu trausti heima sem heiman.

Okkur en nauðsyn á að afla okkur trausts.  Hluti af því er að skipta út þeim mönnum sem brugist hafa traustinu.  

Það er óskiljanlegt að virða ekki frestinn sem forsætisráðherra gaf.  Kannski hefur þetta komið þeim á óvart?

Ég bara spyr.


mbl.is Seðlabankastjórar svara Jóhönnu líklega í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

...þegar rykið sest

Athyglisverð skoðanakönnun Frjálsrar verslunar.  Um leið og rykið sest sést hversu fljótt fylgið hrynur af VG sem á tímabili mældist sem stærsti flokkurinn.  Það er slíka fróðlegt á sjá hvert straumarnir liggja í væntanlegu formannskjöri í Sjálfstæðisflokknum.  Mín skoðun er reyndar sú að flokkurinn eigi sér efnilegan forustumann, Guðfinnu Bjarnadóttur, en hún hefur ekki sýnt neinn áhuga á formennskunni.  Þá eru eftir Bjarni Benediktsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.  Bjarni virðist njóta talsverðrar hylli en fyrir hvað veit ég ekki.  Þorgerður Katrín hefur í sæti varaformanns sýnt skörulega takta en það spillir fyrir henni nú að hafa ekki tæklað sín mál í haust þegar fjármálaspilling æðstu stjórnenda Kaupþings komst í hámæli.

Að taka ekki af skarið þá og segja af sér öllum vegtyllum voru mistök.  Það hefði sýnt bæði kjark, dómgreind og ábyrgð að hafa gert það.  Hafandi gert það ætti hún greiða leið beint í formannsætið.  Því miður gerði hún það ekki og er henni fótakefli nú.  

Bjarni tengist einnig vafasömum málum sem stjórnarformaður N1 en hafði dug til þess að koma sér þar frá borði áður en í óefni var komið.  Það verður að telja honum til tekna.  Á hinn bóginn hefur hann fátt sýnt af leiðtogahæfileikum og staða hans á þingi og í flokkum legið á hillu meðalmennskunnar.  

Það er ekki nóg að hafa nafnið, útlitið og ættina.  Slíkt fleytir mönnum kannski af stað en dugar sjaldnast að ná bakkanum handan fljótsins.


mbl.is Bjarni og Þorgerður Katrín oftast nefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn tími til að endurvekja traust

Frá sögulegu viðtali við Davíð Oddsson í Kastljósi hefur verið ljóst að Seðlabankinn hefði glatað trúverðugleika sínum. Nánast allt sem á eftir kom gerði það eitt að rýja hann enn meiri trúverðugleika og eftir ræðu Davíðs hjá Viðskiptaráði eina morgunstund var lýðum ljóst að traustið var horfið líka.
Eitt brýnast verkefni frá hruninu hefur legið í verkefninu að efla og endurvekja traust og trúverðugleika. Liður í því var að skipta um yfirstjórn í bankanum þegar í stað og endurskipuleggja bankann. Það er ekki á hverjum degi sem seðlabankar verða (tæknilega) gjaldþrota og slíkt vekur athygli um allan heim. Ísland og klúðursleg vinnubrögð eftirlitsstofnana vöktu sérstaka athygli og í alþjóðasamfélaginu urðum við athlægi.
Ég er nánast handviss á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sæti enn hefðu menn haft kjark og þor til að fylgja málum eftir af festu og ábyrgð.
Hluti þess og ekki hvað minnstur var að losa sig við þá sem ekki nutu trausts, innanlands sem erlendis.
Ekki síst seðlabankastjórnina.
mbl.is Seðlabankastjórar víki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er leiðtogi í sjónmáli?

Það ríkir undarlegt ástand á Íslandi.  Eins og hendi væri veifað bliknaði glansmyndin sem við höfðum búið okkur til og  vorum svo óspör að sýna umheiminum.  Við erum svo klár, við erum betri, við erum best.  Svo gerðist það.  Hrunið.  Við blasti nístingskaldur raunveruleikinn.  Raunveruleiki sem margir hafa ekki enn áttað sig á.

 

Fjárglæpamenn sem komist höfðu í áhrifastöður höfðu hreinlega stolið stórum hluta þjóðarauðsins, veðsett annara eigur upp fyrir haus, flutt þýfið í skattaparadísir Karabíska hafsins, Ermasundsins, Kýpur og efalaust á fleiri felustaði.

Við, almenningur í þessu guðs volaða landi eigum svo að borga skuldir þessara þjóðníðinga.  Af hverju?  Hvað hef ég gert til að verðskulda að vera nú skuldum vafinn, þurfa síðan að velta þeim yfir á börnin mín og barnabörnin.  Ekki eyddi, ég sóðaði eða sukkaði þjóðarauðæfunum á braut.

 

Á fjögurra ára fresti kjósum við okkur fulltrúa á löggjafarsamkomuna sem á að mynda löggjafarvaldið.  Löggjafarvaldið myndar síðan framkvæmdavaldið sem smátt og smátt í áranna ráðs hefur orðið einskonar YFIRVALD í landinu.  Löggjafarvaldið líkist mest eins konar afgreiðslustofnun YFIRVALDSINS sem einnig hefur dómsvaldið undir hælnum.  Framkvæmdavaldið deilir og drottnar og velur menn í alls kyns stofnanir, þ.á.m. stofnanir sem eiga að gæta fjármála og efnahags.  Tvær veigamestu stofnanir þessa málaflokks eru Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið.

Það blasir við hverjum viti bornum manni að þeir sem stjórnuðu (eða áttu að stjórna) þessum stofnunum brugðust algjörlega hlutverki sínu og stóðu eftir eins og hreinir afglapar.  Í hefðbundnu lýðveldisformi vestrænna ríkja hefðu stjórnendur þessara stofnana sagt störfum sínum lausum án tafar. Sömuleiðis þær stjórnir sem yfir þær eru settar.

Jafnframt hefðu þeir ráðherrar sem ábyrgð bera á þessum málaflokkum tafarlaust átt að segja af sér, viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra hvers afglapasaga er að verða efni í heila bók.

Nei, öll berum við ábyrgð, var okkur sagt, við megum bara alls ekki persónugera vandann.  Kannski vilja þeir sem þetta sögðu skýra út fyrir mér hvað þeir sem ábyrgð bera eiga að gera þegar þeir hafa brugðist því trausti sem við sýndum þeim?  Axla ábyrgð? Hvað er nú það?  Ef við komum að vörðunum sofandi á meðan innbrotsþjófarnir fóru ránshendi um eigur okkar, eigum við að treysta þeim til áframhaldandi varðstöðu?

 

Nei, alls ekki.

 

Í þessu tilfelli hefði leiðtogi framkvæmdavaldsins átt að sýna hæfileika og myndugleik.  Hans var verkið.  Setja afglapana af.  Strax.  Því miður var það ekki gert og það afhjúpaði alvarlegan veikleika ríkisstjórnarflokkanna.   Þessi alvarlegi veikleiki var skortur á leiðtoga.  Leiðtoga sem tæki af skarið og gerði það sem gera þurfti strax.  Formaður annars flokksins lá veikur á sjúkrahús en það var engin tiltækur að halda merkinu á lofti og taka forustuna. 

 

Nú eftir meira en 100 daga aðgerðaleysi bættist enn á slæmu fréttirnar, nú af alvarlegum veikindum forsætisráðherra.  Lengi getur vont versnað.  Báðir leiðtogar stjórnarflokkanna frá vegna veikinda.  Nú þurfum við á samstöðu að halda.  Sjálfstæðismenn vantar leiðtoga, sterkan leiðtoga, sem hefur skýra stefnu og framtíðarsýn.  Leiðtoga sem nær til fólksins og getur dregið til sín fylgismenn.  Leiðtoga sem þjóðin getur treyst.

 

Nú hefur verið ákveðið að fresta landsfundi.  Það er skiljanlegt.  Annars vegar er mikil þörf á að forustan geti skynjað á slíkum fundi hver veruleiki almennings er og ættu því skapað sér skýra heildarmynd og gert áætlanir og stefnu í samræmi við hana.  Hins vegar er nauðsyn á endurnýjun forustunnar. 
Sú nauðsyn er æpandi.  Hver getur tekið við? 

 

Þorgerður Katrín?  Þorgerði urðu á afdrifarík mistök þegar ljóst var eftir fall Kaupþings sjóðabrall þeirra hjóna.  Sterkasti leikur hennar í þeirri stöðu hefði verið að segja af sér.  Sýna í verki að hér væri foringi sem tilbúinn væri að axla ábyrgð sína og gera það.  Með slíkt að baki hefði leið hennar verið greið í formannsstólinn.

 

Bjarni Benediktsson?  Hann hefur verið lítt áberandi frá þvi hann steig inn í pólitíkina, kurteis, sjarmerandi og efalaust hæfileikaríkur maður en því miður hefur hann ekki sýnt neina þá takta sem vísað gætu í leiðtoga.  Jafnframt er hann í hugum margra fyrst og síðast fulltrúi þeirra afla sem kennd eru við Engeyjarættina.

 

Illugi Gunnarsson?  Sá ágæti maður hefur verið nefndur til sögunnar.  Hans lönd eru nokkuð ókönnuð en varla það leiðtogaefni sem leitað er eftir.

 

Þá er ég kominn að þeim kostinum sem mér líst hvað best á.  Ljóst er að flokknum er mikil þörf á endurnýjun og bætingu ímyndar sinnar í augum almennings.  Eins og að ofan greinir er sagan undanfarnar vikurnar vörðuð mistökum.  Sporin sem tekin voru stutt og ómarkviss líkt að göngu um myrkra mýri.  Mýri hinnar mörgu forarpytta.  Og það sem verra var. Við duttum ofan í þá alla.  Því miður.  Vegna þessa hefur traust flokksmanna á forustunni beðið alvarlegan hnekki.  Við þurfum nýtt blóð.  Það er mitt mat að það skuli sækja til kvenna.  Á undanförnum árum hefur Guðfinna Bjarnadóttir rækilega stimplað sig inn í íslenskt athafnalíf, fyrst sem rektor HR og síðar sem alþingismaður.  Hún er gáfuð, kjarkmikil og fylgin sér.  Í starfi hennar í HR fóru leiðtogahæfileikar hennar vart framhjá þeim sem þar þekktu til.  Guðfinna er tvímælalaust besti kandidatinn sem flokkurinn á í dag og ég hvet hana til að gefa kost á sér.

 

Þá vantar varaformanninn.  Hann þurfum við ungan ferskan, vel menntaðan og hann finn ég í Erlu Ósk Ásgeirsdóttur.  Erla hefur verið mjög virk í pólítík, í Vöku, félagi lýðræðisinnaðra stúdenta, Heimdalli og SUS.  Hún hefur getið sér gott og á öllum vígstöðvum og er mjög frambærileg við hlið Guðfinnu.

Þarna held ég við fyrstu hugsun að tækifæri Sjálfstæðisflokksins liggi.  Hefjum til öndvegis hin kvenlegu gildi.  Karlarnir eru búnir að prófa að renna sér á hálu svelli frjálshyggunnar og runnu þar flestir á rassinn.

 

Ingibjörgu og Geir óska ég alls hins besta með von skjótan, góðan bata.


Siðferðiskennd misboðið - jarðvegur óeirða

Nú er komið að því sem ég og margir aðrir höfum varað við.  Mótmælin hafa færst á stig 2, þ.e. átök við lögreglu, eldar kveiktir, lauslegum hlutum kastað, fólk sýnir óhamda gremju framan í sjónvarpsmyndavélar.  Þetta er ekkert annað ein bein afleiðing af því ráð- og dugleysi sem einkennir stjórnvöld.

 

Það er ekkert að gerast.  Alþingi sett í gær eftir hið torskiljanlega “jólaleyfi”.  Og hvað var á dagskránni.  Var það ávarp forsætis til þings og þjóðar? Nei.  Var það umræða um hið hroðalega ástand sem við erum stödd í?  Nei  Var það framlagnings frumvarps um efnahagsráðstafanir? Nei.  Var það tilkynning ríkisstjórnar um kosningar? Nei.

 

Nei, nei, nei.  Svona leit dagskrá þingsins út:

1. Óundirbúinn fyrirspurnatími.

2. Vátryggingastarfsemi (heildarlög, EES-reglur) 225. mál, lagafrumvarp viðskiptaráðherra. 1. umræða.

3. Greiðslur til líffæragjafa (heildarlög) 259. mál, lagafrumvarp félags- og tryggingamálaráðherra. 1. umræða.

4. Sala áfengis og tóbaks (sala léttvíns og bjórs) 37. mál, lagafrumvarp SKK. 1. umræða.

5. Olíugjald og kílómetragjald (endurgreiðsla gjalds) 40. mál, lagafrumvarp HöskÞ. 1. umræða.

6. Andstaða við eldflaugavarnakerfi í Austur-Evrópu 49. mál, þingsályktunartillaga

7. Tóbaksvarnir (reykherbergi á veitingastöðum) 57. mál, lagafrumvarp JM. 1. umræða.

8. Stjórnarskipunarlög (bráðabirgðalög, þingseta ráðherra) 58. mál, lagafrumvarp KHG. 1. umræða.

9. Prófessorsembætti á sviði byggðasafna og byggðafræða 59. mál, þingsályktunartillaga ÁJ. Fyrri umræða.

10. Skipafriðunarsjóður 60. mál, þingsályktunartillaga MS. Fyrri umræða.

11. Áhrif markaðsvæðingar á samfélagsþjónustu 66. mál, þingsályktunartillaga ÖJ. Fyrri umræða.

12. Umferðarlög (forgangsakreinar) 93. mál, lagafrumvarp

 

Ég vissi um dug- og ráðleysið en að halda úti dagskrá sem þessari þegar landið brennur ber vott um ótrúlegt dómgreindarleysi.  Vægast sagt.

 

Misbjóðum ekki réttlætiskennd almennings.  Þá er friðurinn úti.  Enn er tækifæri til að sýna vilja til verka.  Brýnasta úrlausnarefnið er að endurheimta traust.  Það verður erfiðara með hverjum aðgerðalausum deginum sem líður. 

 

Það þarf að hreinsa til og reka afglapamennina úr Seðlabanka, Fjármálaeftirliti, bönkunum auk þess sem fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra ættu að vera búnir að taka pokann sinn fyrir löngu væru þeir gæddir minnstu sómatilfinningu.


....augnablik meðan ég........................

Mál Al-Thani þess katverska bróður emírsins af Katar fær stöðugt á sig einkennilegri mynd. Ef minnsti flugufótur er fyrir þessari frétt Stöðvar 2 um málið þá staðfestir það þá glórulausu siðspillingu sem virðist hafa grasserað með kaupahéðna og fjárglæframanna landsins.

Á mannamáli er þetta ekkert flókið.  Hér hafa ótíndir svikahrappar verið á ferð ef satt er.  Í ljósi þessa vaknar spurningin hvers vegna svikin hafa ekki verið kærð?  Getur það verið að sá er hlunnfarinn var (Kaupþing) hafði einnig óhreint mjöl í sínu pokahorni og þoli því illa skoðun?

Nú reynir  á ríkissaksóknara sem lögum samkvæmt ber að hefja að eigin frumkvæði rannsókn á þessum ótrúlegu grunsemdum.  Ég bíð eftir því að sjá lögreglumenn með handjárn á lofti.  Svo erum við beðin um að persónugera ekki vandann.......

.....augnablik meðan ég.......


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband