Má kannski afnema fleiri mannréttindabrot í leiðinni?

Það er hið besta mál að afnema þessi arfavitlausu eftirlaunalög sem troðið var í gegn um þingið á mettíma rétt fyrir jólaleyfi þingmanna 2003.  Með samþykkt þessara laga sýndu stjórnmálamenn mikið dómgreindarleysi og samþykkt þessa mannréttindabrots var eins og rétta almenningi fingurinn.

Þrátt fyrir að endurskoðun laganna hafi verið sett í stjórnarsáttmála núverandi stjórnar hef ég haft tölvuverðar efasemdir um efndirnar.  En viti menn, allt í einu hóstar Samfylkingarfrúin og setur þar með pressuna á Geir og sjálfstæðismenn.  Þrátt fyrir eftirlaunin er það skoðun mín að þingmenn séu afskaplega illa launaðir.  Nærtækt er að benda á ráðningu afdankaðs poppara í tyllistöðu hjá Reykjavíkurborg þar sem hann er með umtalsvert hærri laun en alþingismaður.  Kjör þingmanna eiga að miðast við það sem best gerist á markaðnum, líka eftirlaunin.

Sá atvinnurekandi sem illa borgar fær yfirleitt starfsfólk í samræmi við launagreiðslur.  Sama á við um okkur, kjósendur sem veljum fulltrúa á fjögurra ára fresti til að fara með hagsmunamál okkar.  Við fáum þá þingmenn sem við eigum skilið.  Gott og hæft fólk úr atvinnulífinu sem fullt erindi ætti til þings kærir sig ekki um það hvorki vegna launanna né þess félagsskapar sem dundar sér hálft árið við Austurvöll en sést varla þess á milli nema síðustu 2-3 vikur fyrir kosningar.

En úr því á að afnema ólög:  Hvenær á að afnema þau mestu ólög sem yfir okkur hafa dundið síðan einokunarlög danska kóngsins liðu undir lok.  Ólög sem fyllilega má líkja við náttúruhamfarir af manna völdum.  Hér á ég við lög um fiskveiðistjórn á Íslandsmiðum.  Það er sárgrætilegt að horfa upp á það gífurlega tjón sem almenningur á landsbyggðinni hefur orðið fyrir með þessum óskapnaði.  Gerðar eru skoðanakannanir eftir skoðanakannanir sem allar sýna það sama.  Fólk vill þessi lög á braut enda flokkaðist setning þeirra ekki undir neitt annað en mannréttindabrot.  Það er líka dapurlegt að þurfa skuli mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna til að slá á puttana á stjórnvöldum hér.

Fresturinn til að skila svari og úrbótum til nefndarinnar er að renna út.  Hvert verður svarið? 


mbl.is Eftirlaunalög Alþingis verða felld úr gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vinna keppni og sigra andstæðing

Er hér ekki smá hugtakaruglingur á ferð.  Minn málskilningur segir að maður taki þátt í keppni, vinni hana eða tapi eftir atvikum.  Að heyja keppni við einhvern getur annað tveggja endað með sigri eða tapi og þá fyrir andstæðingnum en maður tapar ekki fyrir keppninni.

Hún amma mín hefði sagt:  "Láttu ekki svona rassbögu heyrast drengur minn". 

Ég myndi því segja: Kópavogur vann Útsvar!


mbl.is Kópavogur vann Útsvar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hann ætti ekki að fara lengra með þetta pilturinn, það verður bara erfiðara hjá honum að lifa með þessari skömm alla ævina ef þetta fréttist

Hér segi ég sögu af dreng sem varð fyrir því að að fullorðinn maður dveljandi á heimilinu misnotaði hann kynferðislega.  Þess misnotkun stóð yfir frá því 11 - 14 ára aldurs hans.  Fermingarárið hans tók móðirin eftir að blóði í rúmfötum og nærbuxum drengsins og þegar hún spurði ástæðunnar fór hann fyrst undan í flæmingi og sagðist bara vera eitthvað illt í rassinum.

Ekki leyfði hann móður sinni að sjá hver orsökin væri en hún kom því þannig fyrir að hann væri sendur til læknis.  Þar kom í ljós að endaþarmur drengsins var skaddaður en drengurinn færðist undan að segja hver orsökin væri í fyrstu en sagði síðan foreldrum sínum frá.  Læknirinn hafði tafarlaust samband við barnaverndarnefnd og tilkynnti um málið. 

Það varð til þess að misnotkunin hætti en níðingurinn hótaði drengnum öllu illu sagði hann frá.  Sama dag og hann sagði frá létu foreldrar hans manninn fara af heimilinu.   Formaður barnaverndarnefndarinnar í nærliggjandi þorpi þar sem drengurinn bjó var sóknarpresturinn.  Auk hans voru tvær eldri konur í nefndinni.  Drengurinn var kallaður fyrir nefndina ásamt foreldrum sínum og þar sagði hann frá með erfiðsmunum því sem gerst hafði.  Honum fannst spurningarnar skrítnar eins og þegar hann var spurður um hvor hann hefði verið að æsa manninn upp eða freista hans til þessara óeðlilegu athafna. 

Eftir viðtalið var honum sagt að fara fram á gang loka hurðinni og bíða frammi.  Frammi á ganginum lagði hann við hlustir og heyrði æsta rödd móður sinnar sem heimtaði að sýslumaðurinn yrði látinn vita og kærður.   Önnur barnaverndarkonan sagði þá hvort þetta myndi ekki bara jafna sig, mannfýlan væri farin í annað landshorn.  Presturinn afgreiddi síðan málið á einfaldan hátt; Best væri fyrir piltinn að fara ekki lengra með þetta, það yrði bara erfiðara hjá honum að lifa með þessari skömm ef málið myndi fréttast.

Drengurinn, þá fullorðinn maður, sagði mér þessa sögu eftir aðstæður sem urðu honum harmdrægar.  Orð prestsins liðu sér aldrei úr minni, enn þann dag sviði sig undan þeim, meir en nokkru öðru en hent hefði hann á lífsleiðinni.  Lífsgangan varð æði skrykkjótt og ekki fann hann veginn og aftur og aftur lenti hann í öngstrætum og blindgötum oftast í slæmum félagskap við kónginn Bakkus.  Við þekktumst ekki í langan tíma en hann leitaði trúnaðar og hafði þörf fyrir að segja frá.  Hann sagði líka að hann hefði aldrei hitt níðinginn eftir þetta en frétt af honum öðru hverju og oft hefði sig langað að vara við honum en kjarkinn hefði skort.  Sér hefði líka stundum dottið í hug að drepa hann en til þess verks hefði kjarkinn einn skort.

Þessi saga hefur oft skotið upp kollinum í huga mínum þegar ég heyri og frétti af níðingsverkum brenglaðra manna.  Þeir skilja eftir sig brotnar sálir, skemmda sjálfsmynd og stundum líkamlegan skaða. Ég hef líka stundum hugleitt hvort þessi hugsun prestsins eigi sér hliðstæður í dag.

Vonandi ekki.  Ég segi þessa sögu vegna þess að hún verði til að opna huga fólks og þó ég viti það ekki og aldrei spurt er ég viss um að drengurinn væri því samþykkur.   

 

P.S.  Drengurinn lést liðlega fertugur að aldri af völdum fíkniefnaneyslu, foreldar hans báðir látnir fyrir nokkru, níðingurinn féll fyrir eigin hendi eftir upp um hann komst í öðru máli en sá eini sem er lifandi í hárri elli er presturinn.  Hann lét af prestskap fyrir nokkrum árum.


Útsýni forseta bæjarstjórnar Álftaness verði ei spillt, ónei, ónei.

Eins og þeir vita sem hafa fylgst með bloggfærslum mínum undanfarna mánuði hafa mér verið málefni stjórnsýslunnar á Álftanesi hugleikin.  Mér eins og fjölda annarra hefur ofboðið sá yfirgangur og valdníðsla sem ráðandi meirihluti bæjarstjórnar hefur valið að sýna kjósendum sínum.

Þar ber hæst skipulag miðsvæðið sem mikill meirihluti bæjarbúa hefur tekið einarða afstöðu gegn og séð ástæðu til að nota sér lýðræðislegan rétt sinn og sent inn til skipulagsyfirvalda skrifleg mótmæli við því.  Annað er mál lóðarhafans að Miðskógum 8 sem var svo einstaklega óheppinn að forseti bæjarstjórna býr í næsta húsi og getur ekki sætt sig við að útsýni hans til sjávar verði spillt.  Marta B. Helgadóttir hefur í greinargóðri færslu sinni rakið það dæmalausa mál og ég hvet alla þá sem hafa áhuga að lesa hana. 

Meira síðar. 


Árni Johnsen er sjálfum sér líkur, enn og aftur!

Enn einu sinni er Árni Johnsen búinn að koma sjálfum sér í vandræði.  Nú síðast fyrir að ráðast með einstaklega óverðugum ærumeiðingum um Gunnar Gunnarsson aðstoðarvegamálastjóra.  Manninum virðist ekki vera sjálfrátt og margt líkt með hegðan hans og sumra þeirra ofbeldissinnuðu vörubílstjóra sem hafa verið í sviðsljósinu síðustu daga. 

Ekki er rétt að rekja allan feril Árna hér en hann hefur svo sem margt reynt um dagana blessaður; blaðamennsku, stjórn brekkusöngs (þrátt fyrir lagleysi og tvö gítargrip), merkingar á vörusendingum hjá BYKO, grjótnám af Snæfellsnesi (þar sem hann dvaldi um tíma fyrir "tæknileg mistök") og nú upp á síðkastið hefur manngarmurinn fengið jarðgöng til Vestmannaeyja á heilann.   Ekki vil ég dæma um hvort unnt sé að gera jarðgöng til Eyja, en jafnvel þó teknar séu hans lægstu kostnaðartölur dugar það hvergi til að réttlæta slíka framkvæmd (ekki frekar en Héðinsfjarðargöngin).  Í þessu gangnaæði hefur kappið borðið hann ofurliði og vart getur lakari talsmann nokkurs málefnis nema kannski Sturlu Jónsson vörubílstjóra.

Þrátt fyrir mjög alvarlegt trúnaðarbrot þegar hann sem alþingismaður gerðist sekur um þjófnað á almannaeigum og fénýtingu ýmissa þeirra verðmæta sem honum var falin umsýsla á var ekki að finna á honum minnstu iðrun.  Eftir að hafa setið af sér hluta dómsins vestur á Snæfellsnesi bauð hann sig fram til þings í síðustu kosningum og náði þar kjöri, illu heilli.  Þar sannaðist hið fornkveðna:  Kjósendur fá allaf það sem þeir eiga skilið.

Árni er fyrst og fremst utangarðsmaður, lagast illa að siðaðra manna samfélagi og vill á stundum leysa málin með frekar ofbeldisfullum athöfnum svo sem að beita hnefum og fótum á þá sem honum er illa við svo sem homma, kjaftfora krata og aðra slíka.  Ekki skal ég dæma hvort honum frýjar til vitsmuna en eitt er ljóst; Ætla má að Árni hafi varla notað það litla sem honum var gefið.  Slík er hegðun hans og framkoma öll. 

Þessi síðasta árás hans á Gunnar Gunnarsson er algjörlega í stíl hans, órökstudd, ruddaleg og full af biturð þess sem hefur þurft að bíta í það súra.  Kannski hefði hann gefið Gunnari á kjaftinn hefði hann átt þess kost.  Slíkum ávirðingum sitja embættismenn ekki undir og því ber að fagna ákvörðun Gunnars að kæra þingmanninn fyrir ærumeiðingar.   Það er ekki hægt annað en að taka undir með Gunnari þegar hann segir setu hans á þingi Sjálfstæðisflokknum og íslensku þjóðinni til skammar.  Það eru orð að sönnu.


mbl.is Ætlar að kæra Árna Johnsen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Bíðið krakkar, við erum live eftir smástund......"

Það dýrmætasta sem nokkur fréttastofa á er tvennt; góðir fréttamenn og trúverðugleiki.  Mikið er lagt upp úr þessum tveim atriðum og þegar blettur fellur á trúverðugleikann eða persónu fréttamannanna er stofunni vandi á höndum.  Bregðast þarf skjótt við og annað tveggja að yfirmenn stofunnar skjóti skildi fyrir fréttamanninn með skýrri afdráttarlausri yfirlýsingu eða víkja viðkomandi frá störfum án nokkurs undandráttar eða tafar. 

Sé þetta ekki gert svo er trúverðugleiki fréttastofunnar í uppnámi.  Það sem nú er á allra vitorði og gerðist á bensínstöðvarplaninu í gær var fréttamanni Stöðvar 2, Láru Ómarsdóttur, ekki til sóma.  Unglingar sem þarna voru hafa staðfest í samtölum við mig að Lára bað þau um að bíða með að eggja og flöskukast í smástund, þau yrðu "live" eftir örstutta stund og þá mættu þau kasta að vild sinni.  Tökuvélinni var síðan stillt upp þannig að "athafnir" unglinganna sæjust sem allra best.  

Starfsmaður Stöðvar 2 gaf þeim síðan merki þegar eggjakastið byrjaði.  Sorrý ég trúi þessum krökkum en ekki "fréttamanninum/leikstjóranum" Láru.  Ég hef nefnilega aldrei reynt þau að neinum ósannindum.  Það voru mér vonbrigði að í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 var ekki tekið á þessu máli sem er henni til mikils vansa.  Því lengur sem dregið er að opna málið verður það fréttastofunni æ dýrkeyptara.

Lára á varla annan kost en segja starfi sínu lausu, jafnvel þó þetta hafi átt að vera í "gríni".

 


mbl.is Yfirlýsing frá Láru Ómarsdóttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkar staðreyndir um aksturs- og hvíldartíma atvinnubílstjóra

Eitt af því sem hluti vörubílstjóra hefur verið að kvarta undan og vilja fá breytt í mótmælum síðustu daga eru svokölluð vökulög, þ.e. reglur um aksturs- hvíldartíma ökumanna.  Ennfremur hefur samgönguráðherra ítrekað gefið í skyn að hann telji þessar reglur hinn mesta óþarfa og rétt sé að fá undanþágu frá þeim.

Því tel ég mér skylt að koma á framfæri nokkrum staðreyndum um þær reglur sem gilda um aksturs- og hvíldartíma ökumanna:

1.  Bílstjóri má aka í allt að 9 klst á hverjum degi (þar er bara átt við þann tíma þegar bifreiðin er á ferð, annar tími dregst frá)  Þetta getur þýtt í raun 12 - 14 tíma vinnudag.  Þar að auki má hann tvisvar í viku lengja virkan aksturstíma upp í 10 tíma.

2. Eftir akstur í 4,5 klst þarf bílstjórinn að taka sér a.m.k 45 mínúta hvíld.  Hann má skipta þessari hvíld upp að vild sinni á tímabilinu, eina skilyrði er að hver hvíld sé a.m.k. 15 mínútur hver.  Þarna snýst málið fyrst og fremst um skipulagshugsun bílstjórans.  Að halda því fram að aka EIGI í 4,5 tíma og VERÐI bílstjórinn að taka sér hvíld óháð stað eða stund er bara einfaldlega rangt.

3.  Bílstjórinn þarf að ná 11 klst. hvíld á hverjum sólarhring.  Hann má stytta hvíldina niður í 9 klst. tvisvar í viku og einnig má hann breyta hvíldartímanum þannig að lengsti samfelli tími sé 8 klst og í allt 12 klst þann daginn. 

4.  Bílstjórinn þarf að fá einn hvíldardag í viku hið minnsta, þ.e. eftir hverja sex daga aksturslotu.

Af þessu má sjá að þetta er enginn smá vinnutími sem þeim er ætlaður hvern dag.  Nákvæmlega ekkert öðruvísi er hjá öðrum launþegum.  Eini munurinn er sá að það er refsivert og hættulegt athæfi bílstjóra að virða ekki lögboðinn hvíldartíma.

Vörubílstjórar krefjast hvíldarstaða og vísa til ESB regla um það.  Það hefur hins vegar enginn þeirra getað vísað til þessara regla.  Fyrir því er ofur einföld ástæða.  Þessar reglur eru ekki til. 

Og talandi um hvíldarstaði.  Vissulega mættu vera fleiri sjoppur og bensínstöðvar vera við íslenska þjóðvegi.  Það er akkúrat það sem okkur vantar.  Þær eru hins vegar ekki opnar á nóttunni þegar flutningabílstjórum hentar að flytja vörur.  Sjoppueigendunum hentar ekki að vera með opið nema á daginn - ekki á nóttunni.  

Á þá að þjóðnýta sjoppurnar og láta ríkið reka þær allan sólarhringinn fyrir flutningabílstjóra?

Þessar reglur sem hér hafa verið taldar upp gilda á öllu EES svæðinu og svipaðar reglur gilda víðast hvar í löndum sem vilja kalla sig þróuð.  Markmið þeirra er í fyrsta lagi aukið umferðaröryggi, í öðru lagi vinnuvernd þ.e. að atvinnurekendur geti ekki þrælað starfsmönnum sínum út og í þriðja lagi er þetta hluti af þvi samkeppnisumhverfi sem við lifum við í dag, líka atvinnubílstjórar.

Að halda því fram að þessar reglur henti ekki hér að landi flokkast ekki undir annað en rökleysu.  Í því sambandi má spyrja: Er kílómetrinn styttri hér en annars staðar?  Er hver klukkustund lengri hér en annars staðar?  Hafa íslenskir bílstjórar meira þrek og þol til vinnu en erlendir kollegar þeirra.  Og til að bæta gráu ofan á svart hefur Kristján Möller samgönguráðherra gefið atvinnurekendum undir fótinn að það sé nú hægt að fá bara undanþágu frá Brussel frá þessum vondu reglum.  Í því sambandi er rétt að minna á að þessi sami ráðherra er líka ráðherra umferðaröryggismála.

Er hann tilbúinn að veita flutningafyrirtækjum afslátt af umferðaröryggi okkar hinna?


Skattlagning skuldara

Hef aldrei skilið þessi stimpilgjöld.  Þekki ekki forsöguna og hvernig þau eru tilkomin.  Ennþá síður skil ég hvaða rök liggja að baki þess að skattleggja skuldara sérstaklega umfram aðra.  Ósköp venjulegt launafólk sem berst í bökkum að halda endum saman og greiða af íbúðarhúsnæði þarf stundum að grípa til þess ráðs að taka ný lán og endurfjármagn húsnæðiskaup.  Í hvert sinn og nýtt veðskuldabréf er gert er þessu fólki gert að greiða himinháan skatt skuldarans.

Nú hefur viðskiptaráðherra lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um  stimpilgjöld.  Þar er gert ráð fyrir niðurfellingu stimpilgjaldsins við kaup á fyrstu íbúð.  Ef maki á íbúð fyrir fæst helmingur niðurfelldur.  Að mínu mati er þetta skref í rétta átt en af hverju í ósköpunum stekkur hann ekki yfir skurðinn og fellir niður stimpilgjöld af íbúðarhúsnæði alfarið.

Til að mæta tekjutapinu mætti hækka fjármagnstekjuskattinn.  Þar eru tekjur skattlagðar - ekki skuldir.  Ég hef margoft haldið því fram að skattur af fjármagnstekjum eigi að vera sá sami og af launatekjum.  Til þess þarf að lækka launatekjuskattinn og hækka fjármagnstekjuskatt á móti. 

Hvað þurfum við að bíða lengi eftir stjórnmálamönnum sem hafa kjark og þor til að skera meinsemdirnar úr skattkerfinu? 


mbl.is Stimpilgjöld af fyrstu íbúð burt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigum við ekki að hlusta á Ísleif Jónson varðandi Sundabraut?

Sleginn var nýr en ekki óvæntur tónn í Sundabrautarumræðunni með grein Ísleifs Jónssonar í Mogganum í dag.  Það gerir tóninn athyglisverðan er hver slær hann.  Ísleifur er ekki var einhver besserwisser út í bæ heldur reynslubolti í skoðun jarðlaga og borunum sem fyrrum stjórnandi Jarðborana ríkisins um árabil. 

Þegar  hann tjáir sig um jarðgagnagerð er rétt að hlusta og ég veit um marga jarðvísindamenn sem eru honum sammála.  Í umræðunni um Sundabraut er tiltölulega stutt síðan slegið fram hugmynd um jarðgöng.  Áður hafði verið rætt fyrst og fremst um Eyjaleiðina og hábrú yfir í Gufunes.  Vegagerðin hefur alltaf haldið fram eyjaleið sem besta kosti, fyrst og fremst út frá því að sú lausn þjóni mun betur umferðarhagsmunum borgarbúa og gesta þeirra, hafi minni umhverfisáhrif og sé það að auki mun ódýrari.  Ég held t.d. að fólk almennt geri sér ekki grein fyrir því mikla raski sem fylgir jarðgangagerð og þá hugsa ég sérstaklega til Laugarnessins.

 Hins vegar er ég ekki sammála honum varðandi breikkun Hringvegarins í gegn um Mosfellsbæ.  Það er löngu komin brýn þörf á Sundabrautina alla leið upp á Kjalarnes.  Að kljúfa Mosfellsbæinn í tvennt með hraðbraut er vond hugmynd.


mbl.is Varar við Sundagöngum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanhugsað

Ótrúlega vanhugsað.  Það eru ekki íslensk stjórnvöld sem hafa staðið að hækkunum á eldsneyti.   Gæti skilið mótmælin ef þau beindust að Sádunum eða Hugo Chavez Venusúelaforseta sem standa að hækkununum.  Hlutur ríkisins í olíunni er föst krónutala, 41 króna, á lítra + vsk sem er 24,5%.  Þannig að með hækkandi heimsmarkaðsverði fer raunhlutur ríkisins lækkandi.  Þessir fjármunir, þ.e. olíugjald fer óskert til vegaframkvæmda.  Vilja þessir bílstjórar minnka framlagið til þeirra?  Hvar ætli þeir mótmæli þá?

Hvernig væri að skoða þessi mál í heild þessir menn hættu að velja sér bíla eftir hestaflafjölda heldur orkueyðslu per flutt tonn/km.  Það er svolítið annað hvort bíllinn eyðir 70 lítrum á hundraði eða 40 með sama flutningsmagn.

Það sem jákvætt við hátt orkuverð er að það knýr menn til sparnaðar og leita nýrra orkugjafa og leiða til minnkandi orkueyðslu.  Það er það sem við ættum að sameinast um í stað þess að setja öryggi samborgarana í hættu.


mbl.is Bílstjórar mótmæla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband