Færsluflokkur: Menning og listir
Fimmtudagur, 19. febrúar 2009
Áfram svona Katrín Jakobsdóttir!
Í öllum fuminu og flumbruganginum við sölu Landsbankans á sínum tíma gleymdust þau miklu verðmæti í formi listaverka sem geymd voru í bankanum. Það var eins og enginn hefði hugað að þessu og "Bjöggarnir" hefðu eignast þessar þjóðargersemar "svona óvart".
Það er því sérstakt fagnaðarefni er menntamálaráðherrann tekur þarna af skarið varðandi eignarhald íslensku þjóðarinnar á þessum listaverkum. Fyrir það á hún hrós skilið.
Vill listaverk bankanna í ríkiseigu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 27. ágúst 2008
Takk Óli, takk Logi, takk Alexander, takk, takk......
Í dag kemur íslenska landsliðið í handbolta heim eftir frábæran árangur á Ólympíuleikunum í Kína. Það er búið að vera stórkostlegt að fylgjast með þessum drengjum í hverjum leiknum eftir annan. Baráttuandi, skipulag og fyrst og fremst leikgleði hafa drifið liðið áfram og hver stjórþjóðin eftir aðra var að velli lögð.
Ég vil þakka liðinu fyrir þær einstöku ánægjustundir sem það hefur veitt mér sem og öðrum áhorfendum. Það var auðvelt að hrífast með eins og raunar öll þjóðin gerði í gleði sinni. Gömul þjóðernisvitund tók sig upp og hressti upp á þjóðarsálina. Samt er það alltaf svo að einn og einn rekur hornin í eins og við höfum orðið vitni að hér á blogginu undanfarna daga. Meira að segja forsetafrúin varð fyrir þessu vegna þess að hún mátti ekki sýna sömu gleði og hrifningu og hver annar.
Tökum okkur Ólaf Stefánsson til fyrirmyndar og segjum "bíbb" á slíkar nöldurskjóður og mætum í miðbæinn til að taka á móti liðinu. Sýnum þar með þakklæti okkar í verki og gleðjumst með þeim í dag.
Enn og aftur. Þúsund sinnum TAKK, TAKK, TAKK....
Laugardagur, 24. maí 2008
Frábær árangur Íslendinga!
Ég hafði það af að sitja með fjölskyldunni heilt kvöld og horfa á júróvísíónina. Mikið af góðum lögum sem vegnaði misjafnlega. Persónulega var ég hrifnastur af Armenska laginu auk þess sem Finnar og Danir voru þrusugóðir.
Þau Regína og Friðrik performeruðu fullkomlega, góður söngur, notuðu sviðið vel og hreinlega geisluðu. Verstur andskoti að þau skyldu ekki hafa almennilegt lag til að syngja. Stigin 64 fengu þau út á frábæran söng, ekki lagið sem mér fannst ansi dapurt, engin laglína, enda engan hitt enn sem getur raulað laglínuna. Næst versta lag sem við höfum sent, bara "Það sem enginn sér" með Daníel Ágústi var lakara. Gulu hanskarnir hefðu verið betri, gullfalleg laglína sem hefði mátt gera virkilega góða með frekari vinnslu. En hvað um, við val á lagi úr forkeppninni kemur alltaf betur og betur í ljós slæmur tónlistarsmekkur - eða er kannski smekkur hinna allra svona slæmur?
En svo er það sigurlagið Believing með rússanum Dima Bilan. Það er ekki annað hægt að heyra en þetta sé að stórum hluta til sama lagið og Cat Stevens söng fyrir 40 árum, Wild World. Þetta getur hver og einn dæmt fyrir sig með að bera saman myndböndin hér að neðan:
Dima Bilan; Believing
Cat Stevens; Wild World
Ísland endaði í 14. sæti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 9. maí 2008
Að vinna keppni og sigra andstæðing
Er hér ekki smá hugtakaruglingur á ferð. Minn málskilningur segir að maður taki þátt í keppni, vinni hana eða tapi eftir atvikum. Að heyja keppni við einhvern getur annað tveggja endað með sigri eða tapi og þá fyrir andstæðingnum en maður tapar ekki fyrir keppninni.
Hún amma mín hefði sagt: "Láttu ekki svona rassbögu heyrast drengur minn".
Ég myndi því segja: Kópavogur vann Útsvar!
Kópavogur vann Útsvar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 14. nóvember 2007
Álftanes. Er ekki nóg komið, kæri bæjarstjóri?
Þegar ég kom heim áðan hafði borist inn um bréfalúguna bæklingurinn alftanes.is, Sérstök útgáfa til kynningar á nýju miðbæjarskipulagi. Litprentaður, fullur skrautlegra mynda, þar sem léttklætt fólk gengur um tjarnarbakka, ráðhúsklukkan í baksýn og svanurinn heilsar að hætti útlenskra. Ja hérna. Flott skal það vera.
Útgefandinn er Sveitarfélagið Álftanes og ábyrðarmaðurinn er bæjarstjórinn okkar. Maður skyldi þá ætla að hægt sé að fræðast og kynnast ólíkum sjónarmiðum um skipulagið. Á forsíðunni er viðtal við GASSA arkitektana, þau Guðna Tyrfingsson og Auði Alfreðsdóttur. Þau brosa til okkar lesandanna og segjast hafa hannað grænan miðbæ. Satt er það, rækilega hefur verið krotað með græna litnum ofan í annars hnjóskulega teikninguna sem okkur hefur veirð sýnd fram að þessu. Með því að hafa bílastæðin neðanjarðar skapast meira rými fyrir grænu svæðin sem eiga að vera milli lítilla einkalóða húsanna í kring. Þá spyr ég: Hver á að halda grænu svæðunum við? Hefur það gengið svo vel hér fram að þessu? Réttur til umferðar vélknúinna ökutækja skal takmarkaður og hraðanum haldið niðri til að skapa rólega stemmingu. Já það er trúlegt eða hitt þó að stemmingin verði róleg á Skólaveginum þegar nánast öll umferð úr miðbænum, Breiðumýri og að og frá skóla ferð þar um. Hún verður væntanlega einstaklega friðsæl umferðin á Skólaveginum þegar allir 60 - 100 þúsund gestirnir koma eins til að berja forsetasetrið og náttúrufegurðina augum.
Á innsíðu hvetur bæjarstjórinn til sáttar um miðbæinn og segir orðrétt: Þetta er fagnaðarefni og má ætla að í stað ágreinings um grundvallaratriði sem áður var sé nú fyrst og fremst álitamál uppi, en álitamál verða alltaf til staðar þegar fjallað er um skipulagsmál". Við lestur þessara orða bæjarstjóra verður manni hreinlega orðfall. Er maðurinn að meina það sem hann segir og segja það sem hann meinar? Annað tveggja er hann algjörlega veruleikafirrtur eða svona ótrúlega ósvífinn. Ég held að ekki fari framhjá nokkrum manni hér á Álftanesi að hér logar allt í deilum! Deilum sem snúast um grundvallaratriði í skipulaginu. Grundvallaratriði! Reyndar eru álitamálin líka fjölmörg. Með þeirri grundvallarbreytingu sem gerð hefur verið á verðlaunatillögu GASSA sem felst í lokun Breiðumýrar og stóraukinni byggð á miðsvæðinu hefur öllu verið hleypt í loft upp á nýjan leik og ekki sýnt var málið endar.
Bæjarstjórinn upplýsir líka í grein sinni að bæklingurinn eigi að auðvelda íbúunum að svara spurningum í væntanlegri könnun Capacent Gallup um skipulagið. Um hvað skyldi eiga að spyrja? Hvernig verða spurningar orðaðar? Fá íbúar að sjá allar niðurstöður könnunarinnar að henni lokinni? Ég meina ALLAR því hér má ekkert undan draga.
Já, gott fólk. Þessi bæklingur á víst að auðvelda fólki svörin þegar Gallup hringir. Sennilega þá réttu svörin að mati bæjarstjórans því uppsetning og efni hans er einhliða fegrunaraðgerð á dæmalausu klúðri bæjarstjórnar. Allan ferilinn hefur eitthvað verið að bætast við, hús hér og hús þar. Bensínstöð og það nýjasta, gámastöð við hlið hennar. Þetta er æðislegt, skyldu nágrannar hennar ekki verða hrifnir. Og nýjasta bullið er ráðstefnuhótel í tengslum við aðra álíka útópíu, svokallað menningar og ráðstefnuhús. Ég hitti fyrir tilviljun í dag aðila sem hefur mikla reynslu af ráðstefnuhaldi. Hann sagði nánast algjört skilyrði fyrir ráðstefnuhaldi í þéttbýli að þær væru í þægilegu göngufæri við miðbæjar, verslunar og skemmtanakjarna. Nema í þeim tilfellum þar sem farið væri með fólk á afskekkt sveitahótel. Hann sagði að sennilega yrði erfitt að selja ráðstefnur á svona stað, jafnvel þó á móti Bessastöðum væri.
Hér er ekki efni til hlutlægrar opinnar gefandi umræðu um miðbæjarskipulagið. Þarna er einhliða áróðurspési og ekki laust við að maður brosi út í annað þegar manni verður hugsað til margmiðlunardisksins fræga forðum daga.
Finnst fólki þetta ekki góður grundvöllur til sáttar um miðbæjarskipulagið. Ég held ekki.
Fimmtudagur, 4. október 2007
Að þekkja góðan smið....
Sá er tvisvar mælir en sagar einu sinni.
Mánudagur, 1. október 2007
Myndu múslimskir alþingismenn tilbúnir að ganga til kirkju við þingsetningu?
Alþingismenn mættu í vinnuna í dag. Ég vona að sumarleyfið þeirra hafi verið vel heppnað. Ræður forsetana, Íslands og Alþingis voru athygliverðar, Ólafur skaut pólitískum skotum að vanda en í þessa sinn hitti hann markið. Meira um það síðar.
Umhugsunarvert er hvernig þingsetningin fer fram. Þá á ég fyrst og fremst við þann trúarlega svip sem þingsetningin hefur. Þessi ríkistrú sem við erum skikkuð að greiða fyrir er þarna í kompaníi með stjórnmálum sem ekki hefur þótt góð latína t.d. í löndum múslima. Þar finnst okkur forkastanlegt hvernig trú og stjórnmál blandast saman illu heilli oftast nær.
Á meðan forseti þjóðarinnar lætur sig hafa það að ganga til kirkju við hlið biskupsins með ríkisstjórn og þingheim að baki sér finnst mér tæpast hægt fordæma aðra fyrir það sama. Eru allir þingmenn kristnir? Allt í einu gætum við haft þingmenn sem væru annarar trúar. Væru þeir tilbúnir að ganga til kirkju og meðtaka þar erkibiskups boðskap?
Þrátt fyrir að vera sjálfur kristinn legg ég til að þessari kirkjugöngu þingheims verði hætt. Hún er einfaldlega ekki við hæfi. Stjórnmálum og trú á ekki að blanda saman.
Alls ekki.
Fimmtudagur, 20. september 2007
Eigum við að láta miðborgina drabbast niður til að þóknast einhverjum friðunartalibönum?
Fyrir mörgum árum eyddi ég sumrum mínum í það að aka og lóðsa erlenda ferðamenn um landið, þar með talið okkar ástkæru höfuborg. Ég gleymi seint öldruðum breskum hjónum sem stigu út úr bílnum að kvöldi dags eftir skoðunarferð um Reykjavík. Þau sögðust hafa lesið talsvert um Ísland og sögu þess en ekki vitað fyrr en nú að svona miklar loftárásir hefur verið gerðar á Reykjavík í seinni heimstyrjöldinni. Ég leiðrétti þau að sagði að þýski herinn hefði gert 2 - 3 vesældarlegar tilraunir á austfjörðum til loftárása en aldrei hefðu verið gerðar loftárásir á Reykjavík. Í framhaldi spurði ég hvers vegna þau héldu þetta. "Jú byggðin er svo gisin og það er eftir að byggja upp á svo mörgum stöðum" var svarið.
Þarna upplukust augu mín fyrir ósamstæðri byggingarmynd miðborgarinnar, tætingslegu samansafni alls myns bygginga, allt frá kofum sem byggðir eru úr kassafjölum og öðru tilfallandi efni og allt til víðáttuljótra sálarlausra steinsteypukumbalda sem virðist hafa verið dritað niður af handahófi hér og þar.
Mörg þeirra húsa sem eru við Laugaveg og í nærliggjandi götum í Skuggahverfinu er reist af miklum vanefnum til íbúðar. Byggt hefur verið við mörg þeirra en allt en flest eiga það sameiginlegt að henta engan veginn í miðborgarkjarna. Enda hefur það verið þannig að mannlíf miðborgarinnar hefur verið deyjandi hægt og bítandi. Ekki hefur mátt hrófla við neinu og allt á að friða. En til hvers? Þegar þess er spurt verður oftast fátt um svör. Helst er nefnt til að húsið sé svo gamalt. Það getur hreinlega ekki verið ástæða til friðunar ein og sér. Öll hús eiga sér sögu, hvernig sem það er annars byggt. Mjög ríkar sögulegar ástæður hljóta að vera til þess að hús séu friðuð þess vegna.
Allt hefur þetta orðið til þess að miðbærinn hefur drabbast niður og verslun hefur flúið inn í Kringlur og Smáralindir. Sem er slæm þróun. Þær hugmyndir sem Samson Properties hefur nú sett fram um uppbyggingu á Barónsreitnum hljóta allir þeir að fagna sem vilja hag miðborgarinnar sem mestan. Við getum ekki bara fryst söguna og eðlilega þróun byggðar og mannlífs. Við högum okkur eins og phskopatar sem vilja það helst að litla barnið þeirra verið barn að eilífu, klæða það í ungbarnafötin, þó komið sé á fermingaraldurinn og babla enn við það smábarnamál. Annað tveggja höldum við ástandinu eins og það er og verslun og þjónusta mun finna sér annan samastað eða við sameinumst um eðlilega uppbyggingu sem tekur mið af nútímanum. Ekki fyrir hundrað árum.
Hugmyndir að nýjum miðborgarkjarna í Reykjavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 6. ágúst 2007
Til eiganda Smárabíós: Ég vil fá miðann minn endurgreiddan!
Ákvað að vera innipúki á verslunamannahelginni. Rétt kíkti austur fyrir fjall í dag og svo beint í bæinn aftur. Svo ákváðum við hjónakornin að skella okkur í bíó. Þar sem var verið að sýna Simpsonsmyndina í Smárabíó fórum við á 10 sýningu.
Mættum í salinn með popp og kók á slaginu 10. Fyrir í salnum voru 5 áhorfendur. Þeim fjölgaði ekki. Næstu 15 mínútur máttum við sitja undir skjáauglýsingum sem endurteknar voru aftur og aftur til að þær færu nú örugglega ekki framhjá okkur. Í þann mund sem þessi örfáu áhorfendur fóru að ræða sín á milli að ganga út var allt í einu skipt yfir á trailera að bíómyndum sem bíóið ætlar að taka til sýninga á næstunni. Þessi trailerasýning stóð yfir næstu 15 mínútur þannig að klukkan var orðin hálf ellefu þegar myndin sem við höfðum keypt okkur aðgang að dýrum dómum hófst.
Ok, í leiðindum okkar höfðum við klárað poppið og kókið þannig að ekki var skrjáfið í popppokunum til að trufla einbeitingu bíógestanna. Enda sáu stjórnendur Smárabíós fyrir því. Hálftíma síðar var gert korters hlé á myndinni.
Þessi fjandast ósiður, þ.e. auglýsingasýningar langt fram í auglýstan sýningartíma myndanna er algerlega óþolandi og virkar á fólk eins og hreinn og klár dónaskapur. Erlendis eru til kvikmyndahús þar sem myndirnar eru niðurklipptar milli auglýsinga. Inn á slíkar sýningar borgar áhorfandinn ekki. Nema á Íslandi. Hér skal auglýsingunum troðið ofan í kok með góðu eða illu.
Svo eru það hléin. Til hvers í andskotanum? Eru þau ekki bara til að selja meira sælgæti? Það getur verið skiljanlegt að hafa hlé í margra klukkutíma kvikmyndum en hlé á stuttmynd eins og Simpsons er einum of mikið af því góða.
Hefur bíógestum ekki farið hlutfallslega fækkandi undanfarin ár? Ekki man ég betur en hafa séð um það einhverja lærða statistik. Skyldi skýringanna að leita í ofansögðu.
Næst þegar ég fer í bíó mæti ég í salinn tuttugu og fimmmínútum eftir auglýstan tíma.
Smárabíóseigendur: Ég vil að þið endurgreiði okkur miðana. Þið rænduð okkur ánægjunni af góðri teiknimynd.
Föstudagur, 20. apríl 2007
Sóknarfæri við Lækjartorg
Ömurlegt að horfa á hús brenna. Samt dregur húseldurinn að sér áhorfendur. Marga. Svo var einnig á miðvikudaginn þegar húsin á horni Austurstrætis og Lækjargötu brunnu. Ég horfði líka með trega, trega vegna minninga sem tengjast þessum húsum, trega vegna þeirrar sögu sem í þeim hefur falist í meir en 200 ár. Þegar frá leið áttaði ég mig á að ég hafði verið að horfa á söguna, söguna sem nú er að gerast og mun lifa áfram. Söguna um húsin sem hýstu Jörund hundadagakonung, Trampe greifa og Gulla heitinn í Karnabæ. Sú saga lifir. Húsin ekki.
Gamli góði Villi var mættur á svæðið. Í rauðum samfesting, með hjálm og öryggisgleraugu. Framan við myndavélarnar var honum augljóslega brugðið. Undir svona kringumstæðum eiga menn ekki að gefa neinar stórar yfirlýsingar. Það er ekki skynsamlegt. Láta daginn líða, nóttina, og hugsa málið betur á morgun. Á morgun er kominn nýr dagur og það sem gerðist í gær er sagan. Sagan sem ekker er öll og verður stöðugt til frá degi til dags.
Mig óaði við yfirlýsingu borgarstjórans. Eldurinn speglaðist í augum hans þegar hann lýsti hátíðlega yfir að hér yrði strax byggt aftur. Byggð aftur hús í sama stíl og helst með sama útliti. Það er ekki sagan. Sagan kennir okkur að allt er breytingum undirorpið. Að ætla sér að frysta augnablikið í einhverri fortíðarfantasíu er hreint óráð. Þarna á auðvitað að byggja aftur. Sem allra fyrst en ekki að óathuguðu máli.
Mín tillaga er að halda samkeppni um uppbyggingu á þessu "besta" horni Reykjavíkur. Það er líka hægt að byggja falleg hús 2007. Ekki bara 1801.
Að byggja hús í dag verður saga morgundagsins.
Það er málið!