Færsluflokkur: Tölvur og tækni
Miðvikudagur, 24. október 2007
Skólabíll sem þekkist á (skíta)lyktinni!
Þessi gamla rúta er kyrfilega merkt TREX - Hópferðamiðstöðin ...eitthvað og að auki er á henni merki sem auðkenni skólabifreiðar. Út úr vinstri hlið þessarar rútu stendur útblásturrörið þar sem þykkur dökkleitur reykjamökkur stendur út úr. Ekki nóg með það að mökkurinn sé þykkur heldur er lyktin svo skelfilega vond að ég man varla eftir öðru eins frá því ég vann á æfagamalli JCB gröfu fyrir einhverjum áratugum síðan. Sú reykti eins og gamall kolatogari.
Stórar bifreiðar eru flokkaðar eftir stöðlum um útblásturmengun. Staðlarnir eru nefndir Euro-1 - Euro-5 þar sem efsta talan stendur fyrir mestu kröfurnar. Í einfeldni minni hélt ég að gerðar væru lágmarkskröfur til bíla sem flytja að dýrmætasta sem við eigum, börnin. Það er greinilega ekki í þessu tilfelli.
Alla vega er þessi bíll til mikilla óþæginda fyrir aðra vegfarendur, hvað þá börnin sem eru flutt í honum. Væntanlega er þessi aðili í verktöku fyrir einhvert sveitarfélag. Sá verkkaupi hefur greinilega ekki háan "standard" varðandi skólabörnin svo ekki sé um aðra þolendur talað.
Laugardagur, 22. september 2007
Etanól sem eldsneyti á bíla - Mikil losun köfnunarefnisoxíðs. Hvern er verið að blekkja?
Það er morgunljóst að ekki er allt sem sýnist. Fátt er hægt að segja manni til að koma á óvart. Þó sperrti ég bæði eyru við að hlusta á frétt RÚV um brennslu svonefnds lífræns eldsneytis. Þar kemur eftirfarandi fram:
Lífrænt eldsneyti sem unnið er úr repju og maís gefur frá sér meira af gróðurhúsa- lofttegundum en eldsneyti úr jarðefnum. Þetta kom fram við rannsókn vísindamanna í Bretlandi, Bandaríkjunum og Þýskalandi.
Munurinn var 70%með repjueldsneyti og 50% með maíseldsneyti. Aðrar tegundir gáfu frá sér minna en jarðefnaeldsneyti. Etanól úr maís er helsta lífræna eldsneytið í Bandaríkjunum en í Evrópu er 80% af öllu lífrænu eldsneyti unnið úr repju.
Þá spyr ég: Er verið að hafa okkur aftur að fífli, samanber vetnisvitleysuna sem reynt var að troða ofan í kokið á okkur?
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 21. september 2007
Var þá Lína.Net ekki alslæmt eftir allt? Athyglisvert mál.
Athyglisverð frétt á RÚV í gærkvöldi sem fjallaði um verðmat Gagnaveitu Reykjavíkur sem áður hét Lína.net. Mat Landsbankans hljóðaði upp á 10 milljarða króna og miklar líkur til að verðið myndi a.m.k. þrefaldast á næstu árum. Annar banki komst að svipaðri niðurstöðu. Þetta eru mjög athyglisverðar upplýsingar í ljósi þess umróts og deilna sem skekið hafa fyrirtækið og stofnendur þess á liðnum árum.
Eins og flestir ættu að muna var Lína.net verkefni á vegum Orkuveitu Reykjavíkur. Stjórnarformaður OR á þessum tíma var Alfreð Þorsteinsson og var hann mjög áfram um vöxt og viðgang þessa verkefnis. Af hálfu þáverandi minnihluta var allt sem viðkoma Línu.net gagnrýnt harðlega og talin alger sóun á fjármunum. Þar gekk borgarfulltrúinn Guðlaugur Þór Þórðarson harðast fram og var á tíðum mjög óvæginn og persónugerði gagnrýni sína og andstöðu í garð Alfreðs.
Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar var málið mjög í brennidepli og notað til linnulausra árása á þáverandi meirihluta og fyrst og síðast Alfreð sem var úthrópaður sem einn af spilltustu stjórnmálamönnum landsins og jafnvel lagður í stokk með Finni Ingólfssyni og Árna Johnsen hvað það varðar.
Í ljósi þessa er ótrúlegt að heyra hver vöxtur og viðgangur þessa fyrirtækis er orðinn og fimm milljarða sóunin" virðist vera orðin ansi mikils virði.
Ég vil taka fram að ég hef ekki neitt dálæti á framsóknarmönnum og tel margt af því þeir hafa staðið fyrir nánast vera eins og hryðjuverk gegn þjóðinni. Má þar tiltaka alls kyns hafta og sérhagsmunapólítík, t.d. er kvótasetning fiskveiða gott dæmi. Varðandi Alfreð hef ég á tilfinningunni að hann sé langt frá því eins slæmur og pólitískir andstæðingar hans hafa útmálað hann. Sumir hafa bent á Orkuveituhúsið (það ljóta hús) og framúrkeyrslu fjármuna við byggingu þess. En er það ekki nánast aðgild regla við opinberar byggingar að framúrkeyrslan fari svo og svo mikið framúr. Ég minnist þjóðarbóhlöðu, perlu og ráðhúss svo eitthvað sé nefnt. Ég held að sagan sé að sýna okkur framsýni og elju karlsins sem alltaf hélt sinni stefnu hvað sem aðrir sögðu. Kannski ekki það lýðræðislegasta en skilar árangri.
Eftir að hafa látið af starfi stjórnarformanns OR var karlinn gerður að formanni byggingarnefndar nýs hátæknisjúkrahúss. Það mál er reyndar efni í nokkrar boggfærslur. Hans gamli andstæðingur, Guðlaugur Þór Þórðarson er nú sestur í stól heilbrigðisráðherra. Og hann lætur Alfreð gossa. Jamm og já.
Eru einhverjir fleiri en ég sem finna pólítíska skítalykt?
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þriðjudagur, 18. september 2007
Eru ekki gerðar neinar kröfur til flytjandans áður en flutningsleyfi er veitt?
Hvernig ætli það sé. Eru ekki gerðar neinar kröfur um verkþekkingu og tækjabúnað í svona flutningi? Mér finnst þetta mál með ólíkindum. Að flytja hús er vandaverk og ekki á færi nema kunnáttumanna. Af fréttum má ætla svo ekki vera. Einnig virðist vera sem tækjabúnaðurinn hafi ekki hæft verkefninu. Vagnar til svona stórflutninga um ósléttar hallandi götur þarf að vera með stillanlegum hliðarhalla. Slíkir vagnar eru til hér á landi auk þekkingar og reynslu framkvæmd flutninga sem þessara. Af hverju var slíkur búnaður ekki notaður?
Getur hver sem er fengið leyfi til að transporta með stórflutninga á götum borgarinnar?
Ferðalagi húss lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Sunnudagur, 8. júlí 2007
Íslenskt hugvit. TCT eldsneytiskerfi; bylting á sviði umhverfismála?
Í síðustu færslum mínum hef ég fjallað um það dæmalausa auglýsingaskrum sem haldið er að almenningi varðandi losun svokallaðra gróðurhúsalofttegunda. Að sjálfsögðu hafa ósvífnir fjárplógsmenn fundið greiða leið að pyngju samborgara sinna með því að selja þeim alls kyns skyndilausnir eins og Hybrid bíla, láta fólk "kolefnisjafna" bíla sína og annað gáfulegt í þessum dúr. Þarna er höfðað til samvisku fólks sem telur sig geta lagt sitt lóð á vogarskál umhverfisverndar með því að láta einhverja aðra um verndina, bara ef það getur keyrt áfram þriggja tonna ameríska trukkinn sem eyðir jafnvel á þriðja tug lítra á hverja hundrað kílómetra.
Samt er hægt að finna ljós í þessari "kolefnamóðu".
Síðast liðin 17 ár hefur íslenskur hugvitsmaður, Kristján B. Ómarsson, þróað ofur einfalda hugmynd að eldsneytiskerfi fyrir brunahreyfla. Hann hefur lagt í þessa hugmynd sína lífið og sálina þrátt fyrir að fáir hafi haft trú á henni fyrst í stað og fjármunir væru af skornum skammti.
Nú er þessi hugmynd hans að verða að veruleika með fjöldaframleiðslu á svokölluðum TCT (Total Combustion Technology) blöndungi. Þessi blöndungur byggir á alveg gjörbreyttri tækni við blöndun eldsneytis og loft þannig að nýting eldsneytisins verður mun betri.
Það sem skiptir okkur kannski mestu máli er að þessi tækni minnkar losun CO2 allt að 80% og HC+NOx allt að 35%. Þetta er eitthvað sem engum hefur tekist áður og nú þegar framleiðsla er að hefjast á fyrstu gerð TCT fyrir smávélar eru mjög miklar vonir bundnar við að þessi tækni geti breytt miklu um losun gróðurhúsalofttegunda frá öllum tegundum brunahreyfla. Þessi tækni ræður við allt fljótandi eldsneyti allt frá bensíni til jurtaolíu auk gass.
Slæmu fréttirnar eru þær að fyrirtæki Kristjáns, Fjölblendir ehf, er að flytja starfsemi sína úr landi til N-Írlands þar sem allur aðbúnaður nýsköpunarfyrirtækja er margfalt betri en hér á landi. Þar hefur reyndar prófunarferli þessarar tækni farið að mestu fram á undanförnum árum. Miklir fjármunir hafa verið lagðir í kaup á einkaleyfum sem víðast um heiminn þannig að í dag er þessi hugmynd vel vernduð.
Hér er á ferðinni eitthvað sem kalla má raunhæfa leið til lausnar á hluta þess vanda sem heimurinn stendur frammi fyrir. Væri ekki nær fyrir stjórnvöld að taka fyrir alvöru á vanda nýsköpunarfyrirtækja þannig það þau flýi ekki land eitt af öðru.
Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér nánar TCT tæknina skal bent á heimasíðu Fjölblendis ehf.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)