Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Mánudagur, 25. febrúar 2008
Er ekki kominn tími á borgarafund á Álftanesi?
Í ljósi síðustu atburða hef ég velt því fyrir mér hvort ekki sé grundvöllur fyrir almennum borgarafundi um það ástand sem ríkir á Álftanesi.
Nú síðast sú glórulausa misgjörð bæjarstjórnar að virða að vettugi vilja meirihluta íbúa varðandi Breiðumýri og Skólastíg og samþykkja breytingu á aðalskipulagi Álftaness 2005 - 2024. Breytingu sem í raun þýðir að umferðarskipulag skóla- og miðsvæðis er sett í uppnám, að því er virðist til að verktakar geti fengið fleiri lóðir undir íbúðir.
Á flestum stöðum leita skipulagsyfirvöld allra leiða til að komast hjá miklum umferðargötum við skóla og leikskóla sé þess nokkur kostur. Það ætti því að vera auðvelt í nýju skipulagi sem þessu. Nei, aldeilis ekki, allri umferð að og frá miðsvæði, skólasvæði, Birkiholti og Asparholti er beint á skólasvæðið með tilheyrandi slysahættu, ónæði og mengun í formi útblásturs og umferðahávaða. Er bæjarstjórn ekki sjálfrátt? Hvaða kverkatak hefur bæjarstjórinn á liðsmönnum sínum sem með ólundarsvip réttu upp hendur á bæjarstjórnarfundinum og samþykktu gjörninginn. Ég hef ekki ástæðu til annars en þetta sé gott fólk og skynsamt og ekki er langt síðan þau lýstu vilja sínum varðandi íbúalýðræði, valkosti í skipulagsmálum og tekið yrði tillit til óska íbúa í þessum efnum. Stefna þeirra var skýr og ljós, var það ekki? Því er sú kúvending sem bæjarfulltrúar eins og Kristín Fjóla og Margrét Jónsdóttir hafa tekið óskiljanleg. Hvað veldur?
Því er það mín skoðun að skynsamlegt gæti verið að halda almennan borgarafund um málið og velta í framhaldi hvað sé til ráða. Málið er komið í algert óefni. VERNDUM BÖRNIN - áhugahópur um barnvænt umhverfi á Álftanesi- hefur lýst yfir að þau muni halda baráttu fyrir markmiðum sínum ótrauð áfram. Slíkt þýðir einfaldlega frestun á frestun ofan og þannig munu framkvæmdir tefjast um ófyrirséðan tíma.
Slík töf er óásættanleg þar sem miklir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi. Samtökin hafa í sjálfu sér ekki neinn hag af slíkri töf, þvert á móti. Það eina sem þau hafa farið fram á er að Breiðumýri verði haldið opinni áfram og áætlanir um Skólaveg verði endurskoðaðar með tilliti til þess viðkvæma svæðis sem hann liggur um.
Hvað veldur að ekki var hægt að verða við þessari einföldu, skýrt afmörkuðu kröfu íbúanna? Engin rök hafa verið lögð fram þessum gjörningi til stuðnings. Hvers vegna?
Þeim vilja styðja hugmynd um borgarafund er bent á að senda höfundi póst á netfangið sveinn.ingi@simnet.is
Breytingar á tillögu duga ekki til | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 22. febrúar 2008
"Hér ráðum við" Valdi beitt gegn íbúum Álftaness
Margt að gerast þessa dagana og gærkvöldi var mikill átakafundur í bæjarstjórn Álftaness þar sem meirhlutinn beitti valdi sínu til að knýja í gegn breytingu á aðalskipulagi í fullkominni andstöðu við 60% atkvæðisbærra íbúa. Afskaplega gerræðisleg ákvörðun þar sem gengið var gegn beiðni íbúa um að halda Breiðumýri í sem mest óbreyttri mynd þannig að allri umferð um hverfið yrði ekki beint á Skólaveg. Skólaveg sem ætlunin er að leggja við hlið leikskólans Krakkakots og lóð Grunnskóla Álftaness.
Í upphaflegri verðlaunatillögu GASSA arkitekta var einmitt gert ráð fyrir að Breiðamýri myndi halda sér auk þess sem Skólavegur yrði gerður þannig úr garði að hann myndi ekki kalla á mikinn gegnumakstur.
Ég mætti ásamt fjölda annara fulltrúa VERNDUN BÖRNIN á bæjarstjórnarfundinn og óskaði eftir við forseta bæjarstjórnar að lesa upp eftirfarandi áskorun fyrir hönd :
Ágætu bæjarfulltrúar.
Í dag er umdeilt mál á dagskrá. Breyting á aðalskipulagi Álftaness 2005 - 2024. Við sem stöndum að hreyfingunni VERNDUM BÖRNIN komum hér á fundarpalla bæjarstjórnar með þá von í hjarta að tekið verði tillit til þeirra liðlega 700 atkvæðisbæru íbúa sem sendu inn skriflegar alvarlegar athugasemdir við auglýstar skipulagsbreytingar.
Þið ykkar sem í dag skipa meirihluta bæjarstjórnar höfðuð uppi fögur orð um íbúalýðræði og kosningar um mikilsverð mál kæmust þið til valda. Þrátt fyrir íbúafundi, skrif íbúa í fjölmiðla, á umræðuvef og nú síðast alvarleg mótmæli og athugasemdir meirihluta bæjarbúa höfum við ekki orðið vör þeirrar lýðræðisástar sem þið kváðuð svo fagurlega til fyrir kosningar.
Ekki er annað að sjá en knýja eigi fyrrgreindar breytingar á skipulaginu í gegn þrátt fyrir þessa miklu andstöðu. Við leggjum fram þá eindregnu áskorun til ykkur ágætu bæjarfulltrúar að draga umrædda tillögu til baka eða öðrum kosti að fresta ákvarðanatöku þar til komið hefur verið til móts við athugasemdir okkar. Ljóst er að aldrei verður sátt um þessar breytingar.
Við mótmælum því harðlega hvernig gengið er gegn vilja þorra bæjarbúa. Bæjarbúa sem kusu ykkur til þjónustu.
Með veru okkar hér á fundinum viljum við sýna þögul mótmæli við þessum gjörningi. Í þessu máli munum við berjast á móti allt til loka.
Forseti lét ekki svo lítið að svara þessari beiðni minni. Að vísu skal tekið fram að hann var ekki skyldugur að verða við beiðninni en það hlýtur að vera lágmarkskurteisi að svara annað hvort af eða á. Lyktir málsins urðu þær að oddviti D-lista spurði forseta hvort hann yrði við beiðni samtakanna. Forseti svaraði því í löngu máli að hann gæti ekki orðið við þessu þar sem áskorunin væri full af rangfærslum.
Guðmundur Gunnarsson oddviti D-listans óskaði þá eftir því að áskorunin yrði lögð fram sem bókun minnihlutans og varð forseti við því.
Síðan var þessi óheillagjörningur samþykktur 4:3. Það er hreint ótrúlegt að verða vitni að því þegar fólk sem mátti ekki vatni halda vegna lýðræðisástar fyrir kosningar hefur svo gjörsamlega snúið við blaðinu. Hvernig geta þau horft framan í kjósendur sína kinnroðalaust?
Skyldi það búast við endurkjöri?
Þriðjudagur, 12. febrúar 2008
Einnota bæjarstjórn?
Í nýjasta hefti Vísbendingar birtist árlegur listi um stöðu sveitarfélaga varðandi búsetugæði. Teknir eru fimm efnahagslegir þættir sem gilda hver um sig fimmtung í lokaeinkunn. Það sem fyrst vekur athygli eru sveitarfélögin sem lenda í fyrstu þrem sætunum, Garðabær, Seltjarnarnes og Mosfellsbær. Þar hafa sjálfstæðismenn að mestu haldið um stjórnartaumana og stjórnun fjármála sem annarra mála í traustum höndum. Þessi sveitarfélög hafa einnig boðið íbúum sínum upp á meiri þjónustu og gæði en víða annars staðar.
En það sem mesta athygli mína vakti var hrap eins sveitarfélags á þessum lista. Sveitarfélagið Álftanes féll um 31 sæti eða úr 5. í það 36. Okkur sem búum þarna kemur þetta ekki svo á óvart. Eftir síðustu kosningar var þvi framþróunarferli sem D-listinn hafði leitt klúðrað með því að stöðva uppbyggingu miðsvæðisins auk þess að skuldbinda sveitarfélagið til a.m.k. 150 milljóna leigugreiðsla til fasteignafélaga sem taka yfir rekstur fasteigna til næstu 30 ára. Að auki hefur tugum milljóna verið eytt í arkitekta og hönnunarferli miðsvæðisins sem af bæjarstjóra hefur verið kallaður grænn miðbær. Staðan er svo alvarleg bæjarstjórn er búin að fá gult spjald frá eftirlitsstofnun með fjármálum sveitarfélaga.
Enn hefur ekkert gerst í uppbyggingu miðsvæðisins og gífurleg óánægja er með hönnun þess, sbr. það að helmingur atkvæðisbærra íbúa sá ástæðu til skriflegra athugasemda við skipulagið. Málið er því komið í pattstöðu sem erfitt verður að sjá hvernig bæjarstjórn ætlar að vinna sig út úr.
Hvað varðar fall Álftaness á lista draumasveitafélaganna svarar Sigurður Magnússon bæjarstjóri því í 24 stundum í dag að D-listinn hafi skilið illa við fjármálin. Meirihluti D-listans lét af völdum á miðju ári 2006. Síðan þá hefur Sigurður og hans félagar í Á-listanum haldið um stjórnartaumanna. Í síðustu könnun Vísbendingar fyrir árið 2006 var Álftanes í 5. sæti. Hvers vegna? Hafði D-listinn ekki verið við stjórn árin þar á undan? Eins og vanalega býður bæjarstjórinn upp á rangfærslur, orðhengilshátt og útúrsnúninga þegar hann er spurður um óþægileg mál. Útsvar Álftnesinga er í toppi auk þess sem fasteignagjöld eru með því hæsta sem gerist.
Þessi könnun vísbendingar segir okkur sögu. Sögu um fjármálaóstjórn, rangar vanhugsaðar framkvæmdir og tálsýnir um atvinnuuppbyggingu, hótelturn, grænan miðbæ (hvað sem það annars táknar). Þessa sögu þarf að stöðva sem fyrst. Bæjarstjórinn og hans fólk hagar sér eins og fílar í postulínsverslun og virðast ekki hafa neinn hug á endurkjöri. Það á að demba yfir íbúanna eins miklu af draumsýnum bæjarstjórans á kjörtímabilinu eins og mögulegt er því hann veit sem er. Þessi meirihluti sem hann styðst við mun ekki ná endurkjöri.
Því sitjum við uppi með einnota bæjarstjórn.
Föstudagur, 8. febrúar 2008
Búið að hleypa loftinu af Svandísi
Allt frá á haustdögum hefur verið mikill póltískur skjálfti vegna REI málsins, meirhluti borgarstjórnar féll og borgarfulltrúar sumir viðhaft stór orð um málið enda má segja að fullt tilefni hafi verið til þess. Svandís Svavarsdóttir kom fram í þessu máli sem fulltrúi heilbrigðrar skynsemi og skaut föstum skotum að borgarstjóra, Birni Inga og stjórnum OR og REI. Öllum mátti vera ljóst að málið var mjög slæmt og þarna hafði hrein og klár græðgi blindað mönnum sýn.
Sú úttekt sem nú hefur verið birt er hreint út sagt einhver alfurðulegasta loðmulla sem sést hefur lengi. Hvar er nú kraftur Svandísar og sexmenningana Sjálfstæðisflokksins? Það er engu líkara en stungið hafi verið prjóni í blöðru þegar hlustað er á Svandísi, nú síðast í Kastljósi. Þvílík flatneskja sem borgarbúum og öðrum landsmönnum er boðið upp á með skýrslu stýrihópsins er algjörlega óásættanleg. Kjósendur sem jafnframt eru eigendur þessara fyrirtækja eiga skýlausan rétt á betri vinnubrögum en þessum. Í Kastljósi var VÞV hreint aumkunarverður, gat engu svarað og stóð hvað eftir annað á gati. Það er held ég öllum ljóst að hans tími í pólítík er liðinn.
Gamli góði Villi. Sorglegt að svona fór. Betra hefði verið að enda feril sinn á annan hátt en þennan. Nú skilur maður kannski Björn Inga. Hann mat greinilega stöðuna þannig að betra væri að koma sér í björgunarbátinn áður er skipið sykki.
En Svandís og Dagur. Hvaða dúsu var stungið upp í ykkur?
Efast um umboð borgarstjóra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 6. febrúar 2008
Er siðrænt að eyða milljörðum af annarra fé?
Undanfarin misseri hafa dunið á landslýð fréttir af ofsagróða banka og alls kyns grúppa þetta og grúppa hitt hvort heldur á heimamarkaði ellegar í útrásinni góðu. Ekki tekur að tala um milljónir, tugi milljóna eða milljarða, heldur er oftast talið í tugum og jafnvel hundruðum milljarða. Tölur sem þessar draga svo mörg núll með sér að venjulegu fólki sundlar við og ber lítt skynbragð á upphæðirnar. Upphæðir sem eru órafjarri raunveruleika hinna venjulegu manna, launaþrælanna sem í reynd halda uppi ofsagróðanum með okurvaxtagreiðslum af handónýtri krónu. Þeirri krónu sem lögð hefur verið undir jöklabréfaþeytivindu erlendra braskara. Allar tölur í þessum stærðum eru nánast óskiljanlegar og erfitt að setja í samhengi við þau raunverulegu verðmæti sem í lífi íslendingsins skipa hvað hæsta sess, þ.e. íbúðin og kannski bíldruslan.
Þessi sýndarhyggja gegnsýrir orðið alla umræðu og fólki finnast milljarðar til eða frá ekki skipta neinu máli. Svo einhver dæmi séu tekin þótti ekki tiltökumál að borga borgarstjórastólinn undir Ólaf F. með kaupum á ónýtu spýtnabraki við Laugaveginn. Þeim sem sömdu við Ólaf F. verður ekki gert að borga dellunna heldur er reikningurinn sendur til skattgreiðenda. Fimmhundruð milljónir þar. Þessum sömu borgarfulltrúm finnst ekkert tiltökumál að setja Sundabraut í jarðgöng þó svo að það kosti skattgreiðendur a.m.k. 9 - 10 milljarða aukalega þrátt fyrir að að færustu sérfræðingar í umferðarmálum telji lausn Vegagerðarinnar bæði mun betri frá umferðarsjónarmiði auk þess að vera milljörðunum ódýrari. Fyrir þessa umframpeninga mætti leysa stóran hluta af öllum umferðarvandamálum höfuðborgarsvæðisins og leggja 2+1 veg frá Selfossi að Borgarnesi.
Mjög er pressað á stjórnvöld að falla frá hugmyndum um slíkan veg (2+1) til Selfoss og Borgarness og velja í stað þess margfalt dýrari lausn sem er 2+2 vegur. Engin umferðarleg rök liggja til lagningu 2+2 vegar auk þess sem kostnaður er margfaldur, verktíminn er mun lengri og á meðan við eyðum tugum milljarða í þetta æpa óunnin verk á okkur um allt landið. Verk sem spara ófá slysin og mikla fjármuni. Benda má á stórgóða grein eins fremsta umferðarsérfræðings landsins, Rögnvaldar Jónssonar verkfræðings, í Morgunblaðinu í dag um þetta mál. Það er eins og margir hafi görsamlega tapað allri vitrænni hugsun varðandi þessar framkvæmdir og vilji fyrst og fremst skara sem mest að eigin köku og þá á kostnað annarra sem skulu á bíða lengur brýnna úrbóta.
Mér finnst kominn tími til að staldra aðeins við og horfa heildrænt af ískaldri rökhyggju á þessi mál og taka ákvarðanir af skynsemi og í samræmi við nauðsyn hverju sinni. Stjórnmálamönnum er þar síst treystandi. Þeirra ákvarðanir miðast því miður oftast við stundarhyggju og atkvæði næstu kosninga.
Því er miður.
Miðvikudagur, 23. janúar 2008
Álftnesingar sýna samtakamátt sinn gegn óbilgjörnum bæjaryfirvöldum
Í samræðum manna á milli kom fram mjög eindregin andstaða við þessa hugmynd og í framhaldi af því leiddu þær Gerður Björk Sveinsdóttir og Brynja Guðmundsdóttir saman hóp fólks sem tilbúið var að leggja málinu lið.
Þessi hópur sem samanstendur af fólki úr fólki af öllum stigum, stéttum, flokkum og ekki flokkum. Hópurinn gekk hús úr húsi síðustu þrjú kvöld og tók við athugasemdum íbúa. Mér sem þátttakanda í hópnum kom þægilega á óvart hvað gífurleg andstaða var við þessum gjörningi og svo var áhuginn mikill að Álftnesingar sem staddir voru í fjarlægum heimsálfum höfðu samband og óskuðu eftir að fá að vera með. Þetta var stórkostleg upplifun fyrir mig sem er búinn að vera að hamra á þessu, í bloggi, blaðagreinum og viðtölum við íbúa. Kynning bæjarstjórnar á málinu hefur öll verið í skötulíki og ekkert tillit hefur verið tekið til sjónarmiða íbúa sem hafa verið að tjá sig í ræðu og riti sem og á íbúafundum.
Sem sagt veruleikafirringin virðist algjör hjá meirihluta bæjarstjórnar. Kannski verður þeim veruleiki hins almenna bæjarbúa ljós kl. 14:15 í dag þegar bæjarstjóra verða afhentar formlega mótmæli tæplega 600 kosningabærra Álftnesinga.
Einnig er mér kunnugt um að fjöldi fólks hefur sjálft skilað inn athugasemdum við skipulagið og skipta þær athugasemdir mörgum tugum. Líklega má reikna með allt að 700 athugasemdum við skipulagstillöguna og flestar þeirra snúa að lokun Breiðumýrar og Skólavegi.
Sjö hundruð athugasemdir:
Skyldi það fá þessa bæjarstjórn til að átta sig á að þeir eru kosnir til að þjóna íbúum en ekki öfugt?
Laugardagur, 22. desember 2007
Vandmeðfarið vald
Um fátt er meira rætt manna á milli þessa síðustu daga fyrir jól en skipun í dómaraembætti norður í landi.
Í það fyrsta þótti fréttnæmt að dómsmálaráðherra viki sæti við skipun í embættið en fyrrverandi aðstoðarmaður hans var einn umsækjendanna. Það gerði hann þó ekki þegar sami umsækjandi sótti annars staðar um dómarastöðu.
Í öðru lagi að umsækjandinn og aðstoðarmaðurinn væri einkasonur Davíðs Oddssonar sem dómsmálaráðherrann hefur þjónustað á fágætu trúlyndi.
Í þriðja lagi samkvæmt ofantöldu var held ég flestum ljóst að fyrir lá að skipa soninn í embættið hvað sem tautaði og raulaði. Og það gekk eftir. Því miður! Þýlyndi setts dómsmálaráðherra var því ekki minna en þess skipaða. Þetta vekur upp spurningar um sjálfstæði dómstóla gagnvart framkvæmdavaldinu sem virðist telja sig yfir sett. Dómnefnd mat þrjá umsækjendur vel hæfa en sonurinn var einungis talinn hæfur. Þar var tvo hæfisflokka á milli.
Settur dómsmálaráðherra hefur af veikum mætti reynt að réttlæta þessa skipun en aumari rökstuðning hef ég ekki heyrt lengi. Það er alveg á tæru að hann skuldar öðrum umsækjendum svo og þjóðinni haldbetri rök en pólitísk aðstoðarmennska ráðherra vegi aðra umsækjendur upp. Uss. uss....svona gera menn ekki.
Talað hefur verið, m.a. á bloggsíðum hér að verið sé að ráðast að persónu þess sem skipaður var í embættið. Það má vera en málið snýst ekki um það. Það snýst ekki um þann ágæta mann sem örugglega vildi fá embættið á eigin forsendum en þessum. Það snýst einfaldlega um lykt af pólitískri spillingu og greiðasemi. Sá fnykur er nú skötulyktinni þorláksmessunnar yfirsterkari.
Svo gleymist þetta....er það ekki?
Fimmtudagur, 15. nóvember 2007
Álftanes. Nei, það var greinilega ekki nóg komið kæri bæjarstjóri.
Það er gengið rösklega til verkanna nú hér á Álftanesinu. Ég var varla búinn að fletta Á-málgagni bæjarstjórans þar sem hann lét okkur af lítillæti sínu vita af væntanlegri skoðanakönnun um ágæti miðsvæðisins sem við myndum eiga von á einhvertíma á næstunni. Ágætt að láta lýðinn vita hvað þetta sé nú allt flott og fínt og allir svo ofboðslega mikið sammála. Bara smá álitamál um eitthvað smávægileg, alls ekki neinn ágreiningur um grundvallaratriði segir bæjarstjórinn.
Sólarhring eftir útburð Á-málgagnsins skall skoðanakönnunin á: Já, og því líkar snilldarpurningar. Þar er spurt um "álitamálin" en alls ekki neitt af grundvallaratriðunum. Spurningar mjög leiðandi og skipulag úthringinga í molum, alla vega veit ég að á tveim heimilum var hringt oftar en einu sinni í sömu manneskjuna. Capacent Gallup framkvæmir þessa skoðanakönnun. Ég hélt reyndar í einfeldni minni að þeir væru vandari að virðingu sinni en þetta.
Það verður að gera þá kröfu að íbúar fái að vita eftirfarandi:
- Hver samdi spurningarnar?
- Af hverju var ekki spurt um heita málið? þ.e. breytt skipulag umferðar með lokun Breiðumýrar og stóra umferðargötu gegn um svæðið.
- Hvað var úrtakið stórt?
- Af hverju var hringt oftar en einu sinni í suma íbúa?
- Hver var svörunin og hverjar urðu niðurstöður könnunarinnar?
Miðvikudagur, 14. nóvember 2007
Álftanes. Er ekki nóg komið, kæri bæjarstjóri?
Þegar ég kom heim áðan hafði borist inn um bréfalúguna bæklingurinn alftanes.is, Sérstök útgáfa til kynningar á nýju miðbæjarskipulagi. Litprentaður, fullur skrautlegra mynda, þar sem léttklætt fólk gengur um tjarnarbakka, ráðhúsklukkan í baksýn og svanurinn heilsar að hætti útlenskra. Ja hérna. Flott skal það vera.
Útgefandinn er Sveitarfélagið Álftanes og ábyrðarmaðurinn er bæjarstjórinn okkar. Maður skyldi þá ætla að hægt sé að fræðast og kynnast ólíkum sjónarmiðum um skipulagið. Á forsíðunni er viðtal við GASSA arkitektana, þau Guðna Tyrfingsson og Auði Alfreðsdóttur. Þau brosa til okkar lesandanna og segjast hafa hannað grænan miðbæ. Satt er það, rækilega hefur verið krotað með græna litnum ofan í annars hnjóskulega teikninguna sem okkur hefur veirð sýnd fram að þessu. Með því að hafa bílastæðin neðanjarðar skapast meira rými fyrir grænu svæðin sem eiga að vera milli lítilla einkalóða húsanna í kring. Þá spyr ég: Hver á að halda grænu svæðunum við? Hefur það gengið svo vel hér fram að þessu? Réttur til umferðar vélknúinna ökutækja skal takmarkaður og hraðanum haldið niðri til að skapa rólega stemmingu. Já það er trúlegt eða hitt þó að stemmingin verði róleg á Skólaveginum þegar nánast öll umferð úr miðbænum, Breiðumýri og að og frá skóla ferð þar um. Hún verður væntanlega einstaklega friðsæl umferðin á Skólaveginum þegar allir 60 - 100 þúsund gestirnir koma eins til að berja forsetasetrið og náttúrufegurðina augum.
Á innsíðu hvetur bæjarstjórinn til sáttar um miðbæinn og segir orðrétt: Þetta er fagnaðarefni og má ætla að í stað ágreinings um grundvallaratriði sem áður var sé nú fyrst og fremst álitamál uppi, en álitamál verða alltaf til staðar þegar fjallað er um skipulagsmál". Við lestur þessara orða bæjarstjóra verður manni hreinlega orðfall. Er maðurinn að meina það sem hann segir og segja það sem hann meinar? Annað tveggja er hann algjörlega veruleikafirrtur eða svona ótrúlega ósvífinn. Ég held að ekki fari framhjá nokkrum manni hér á Álftanesi að hér logar allt í deilum! Deilum sem snúast um grundvallaratriði í skipulaginu. Grundvallaratriði! Reyndar eru álitamálin líka fjölmörg. Með þeirri grundvallarbreytingu sem gerð hefur verið á verðlaunatillögu GASSA sem felst í lokun Breiðumýrar og stóraukinni byggð á miðsvæðinu hefur öllu verið hleypt í loft upp á nýjan leik og ekki sýnt var málið endar.
Bæjarstjórinn upplýsir líka í grein sinni að bæklingurinn eigi að auðvelda íbúunum að svara spurningum í væntanlegri könnun Capacent Gallup um skipulagið. Um hvað skyldi eiga að spyrja? Hvernig verða spurningar orðaðar? Fá íbúar að sjá allar niðurstöður könnunarinnar að henni lokinni? Ég meina ALLAR því hér má ekkert undan draga.
Já, gott fólk. Þessi bæklingur á víst að auðvelda fólki svörin þegar Gallup hringir. Sennilega þá réttu svörin að mati bæjarstjórans því uppsetning og efni hans er einhliða fegrunaraðgerð á dæmalausu klúðri bæjarstjórnar. Allan ferilinn hefur eitthvað verið að bætast við, hús hér og hús þar. Bensínstöð og það nýjasta, gámastöð við hlið hennar. Þetta er æðislegt, skyldu nágrannar hennar ekki verða hrifnir. Og nýjasta bullið er ráðstefnuhótel í tengslum við aðra álíka útópíu, svokallað menningar og ráðstefnuhús. Ég hitti fyrir tilviljun í dag aðila sem hefur mikla reynslu af ráðstefnuhaldi. Hann sagði nánast algjört skilyrði fyrir ráðstefnuhaldi í þéttbýli að þær væru í þægilegu göngufæri við miðbæjar, verslunar og skemmtanakjarna. Nema í þeim tilfellum þar sem farið væri með fólk á afskekkt sveitahótel. Hann sagði að sennilega yrði erfitt að selja ráðstefnur á svona stað, jafnvel þó á móti Bessastöðum væri.
Hér er ekki efni til hlutlægrar opinnar gefandi umræðu um miðbæjarskipulagið. Þarna er einhliða áróðurspési og ekki laust við að maður brosi út í annað þegar manni verður hugsað til margmiðlunardisksins fræga forðum daga.
Finnst fólki þetta ekki góður grundvöllur til sáttar um miðbæjarskipulagið. Ég held ekki.
Miðvikudagur, 24. október 2007
Skólabíll sem þekkist á (skíta)lyktinni!
Þessi gamla rúta er kyrfilega merkt TREX - Hópferðamiðstöðin ...eitthvað og að auki er á henni merki sem auðkenni skólabifreiðar. Út úr vinstri hlið þessarar rútu stendur útblásturrörið þar sem þykkur dökkleitur reykjamökkur stendur út úr. Ekki nóg með það að mökkurinn sé þykkur heldur er lyktin svo skelfilega vond að ég man varla eftir öðru eins frá því ég vann á æfagamalli JCB gröfu fyrir einhverjum áratugum síðan. Sú reykti eins og gamall kolatogari.
Stórar bifreiðar eru flokkaðar eftir stöðlum um útblásturmengun. Staðlarnir eru nefndir Euro-1 - Euro-5 þar sem efsta talan stendur fyrir mestu kröfurnar. Í einfeldni minni hélt ég að gerðar væru lágmarkskröfur til bíla sem flytja að dýrmætasta sem við eigum, börnin. Það er greinilega ekki í þessu tilfelli.
Alla vega er þessi bíll til mikilla óþæginda fyrir aðra vegfarendur, hvað þá börnin sem eru flutt í honum. Væntanlega er þessi aðili í verktöku fyrir einhvert sveitarfélag. Sá verkkaupi hefur greinilega ekki háan "standard" varðandi skólabörnin svo ekki sé um aðra þolendur talað.