Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Fimmtudagur, 4. desember 2008
Davíð, Davíð, "komdu fagnandi", frelsari vor.
Þá liggur hún klár á borðinu, hótunin sem Geir Hilmar hefur óttast mest af öllu. Davíð opinberar í einhverju dönsku héraðsfréttablaði hótun sína að snúa aftur í pólítík. Gott og vel, þetta var eins og margan grunaði. Hæfileikar Davíðs til að vekja á sér athygli og verða miðpunktur umræðunnar eru einstakir. Ég er alveg viss um að hann gæti átt mjög sterkt come back í pólitíkina og lítið mál fyrir hann að velta Geir úr sessi. Geir hefur ekki reynst sá leiðtogi sem við þörfnust, langt frá því. Ákvarðanafælinn, litlaus, skapstyggur auk þess augljósa að hafa látið undirmann sinn, sitjandi í Svörtuloftum svínbeygja sig.
Að sjálfsögðu hefði átt að vera búið að reka manninn. Eru engin takmörk fyrir dellumakeríi hans í embætti seðlabankastjóra? Í hvert einasta sinn sem hann hefur opnað munninn hefur þjóðin skolfið. Ekki við manninn sjálfan heldur það sem út úr honum rennur. Það var átakanlegt að horfa og hlusta á lítt dulbúnar hótanir, sjálfsbirging og dylgjur um menn og málefni. Hræddur maður, úti í horni, sem reynir að verja sig með kjafti og klóm.
Íslendingar hafa marga góða hæfileika. Einn af þeim er hæfileikinn til að gleyma. Annar er að fyrirgefa. Hvoru tveggja sást vel þegar alþekktur tukthúslimur sem hafði orðið uppvís að þjófnaði, mútum og fjárdrætti, allt frá almenningi, átti magnaða endurkomu inn í pólítikina þar sem hæfileikar kjósenda í gleymsku og fyrirgefningu nutu sín til fulls.
Því er alveg viðbúið að það sama gildi um Davíð. Hann hefur það þó fram yfir tutkhúsliminn að hafa haft verðskuldaða almannahylli á velmektardögum sínum. Kostur við að endurkomu hans eru sá helstur að líklega mun hann ekki geta valdið þjóðinni jafn miklu tjóni og í embætti seðlabankastjóra.
Gallarnir eru augljósir. Hér er kominn maður sem þarf að hefna. Og það grimmilega. Undir grímu brandarakarlsins, gjörningameistarans glittir í vansæla, geðvonda smásál með einræðistilhneigingar.
Þá hyggst ég hætta af sjálfsdáðum með sama hætti og ég gerði þegar ég lét af starfi forsætisráðherra. Verði ég hins vegar þvingaður úr starfi horfir málið allt öðruvísi við. Þá mun ég snúa aftur í stjórnmálin,
Eru þessi orð ekki lýsandi fyrir hrokann, einsýnina og sjálfsbirginginn?
Ég bara spyr?
Davíð: Þá mun ég snúa aftur" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 3. desember 2008
Athyglisvert ársgamalt viðtal við HHG
Einn bankaráðsmanna Seðlabankans heitir Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Hannes þessi hefur gert sig mjög gildandi í þjóðmálaumræðunni og hefur verið einn helsti postuli nýfrjálshyggjunnar hér á landi. M.a. hefur hann gefið sig út fyrir að vera sérlega vel að sér í efnahags- og fjármálum. Kannski er hann þess vegna í bankaráðinu með Halldóri Blöndal, Ragnari Arnalds og fleiri fjármálaséníum.
Í ljósi þessa er fróðlegt fyrir umræðu dagins í dag að skoða viðtal frá 13. sept. 2007 (fyrir rúmu ári) þegar seðlabankastjóranum DO varð orðið ljóst að allt stefndi á heljarþröm. Þá sagði vinur hans, ráðgjafi og bankaráðsmaðurinn Hannes Hólmsteinn Gissurarson þetta.
Miðvikudagur, 3. desember 2008
Skyldulesning! Grein Jóns Steinssonar í Fbl.
Þriðjudagur, 2. desember 2008
Það má alls ekki lækka laun æðstu ráðamanna. Til er önnur notadrýgri ráð.
Ekki er viturlegt að lækka laun ráðherra, þingmanna og æðstu embættismanna. Það væri reyndar mjög óviturlegt. Lækkun þeirra gæfi "kærkomið tækifæri" að lækka þar á eftir laun okkar hinna.
Ef það er eindræg og einlæg ósk Ingibjargar, Geirs og allra undirsátanna að lækka launin en fá það ekki fyrir einskæran fautaskap Kjararáðs þá legg ég til:
Þeir er hlut eiga að máli, taki af heildarlaunum sínum þau 15-20% um var rætt að lækka þau um og leggi inn á reikinga viðurkenndra líknar- og hjálparsamtaka. Þar mætti nefna Rauða krossinn, Mæðrastyrksnefnd, Fjölskylduhjálpina, Hjálparstofnun kirkjunnar, Hjálpræðisherinn og efalaust einhverja fleiri sem ég kann ekki að nefna hér.
Með lækkun launa hverfa þessar lækkanir inn í ríkishítina og hverfa þar. Greitt til hjálparsamtaka verða þetta "sjáanlegir" fjármunir sem ganga þá til góðverka.
Kjararáð getur ekki lækkað launin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 1. desember 2008
Erum við að gleyma Fullveldisdeginum?
Á leiðinni í vinnuna í morgun hlutstaði ég á Rás 2. Þar var morgunþáttastjórnandinn að bjóða hlustendum góðann daginn, sagði hann merkilegan, sérlega fyrir þá sök að þennan dag, 1. des. hafi Rás 2 farið í loftið í fyrsta sinn fyrir 25 árum. Síðan taldi stjórnandinn upp hvað helst annað hefði gerst þennan dag í sögu þjóðarinnar.
Ekki man ég hvað stjórnandinn taldi upp en hitt man ég að ekki minntist hann einu orði á að Ísland hlaut fullveldi þennan dag, 1. des. 1918. Íslensk þjóð á þess vegna 90 ára fullveldisafmæli í dag. Einhvern veginn er það svo að þessi merkilegi dagur hefur fallið nokkuð í skuggann af 17. júní en er þó engu að síður ein merkasta og stærsta varðan á þrautagöngu þjóðarinnar til sjálfstæðis. Meira að segja fellur dagurinn í skuggann af 25 ára afmæli Rásar 2. Vissulega má óska þeim rásarmönnum og konum til hamingum með áfangann en hann telst þó ansi léttvægur miðað við 90 ára afmæli sjálfstæðrar þjóðar.
Ísland. Til hamingu með daginn!
Miðvikudagur, 26. nóvember 2008
Geir og Ingibjörg. Takið nú saman höndum með íslenskri þjóð og komið í veg fyrir óöld og óeirðir.
Það stefnir í óefni. Mótmæli almennings munu halda áfram og af enn meiri krafti en áður. Boðuð mánudagsmótmæli verða sérlega viðkvæm. Einfaldlega að þau eru haldin á fullveldisdag íslensku þjóðarinnar, þjóðar sem er niðurlægð, hrædd og reið. Þetta í bland við óbilgjarna, veruleikafirrta stjórnarfrúr og -herra eru fjandi góður kokkteill til vandræðaástands, jafnvel óeirða. Afleiðingar þess vill enginn hugsa til enda.
Hvað er þá til ráða? Sú venja hefur skapast að ráðherraparið Geir og Ingibjörg hafa haldið fjölmiðlafundi síðdegis á föstudögum, væntanlega til að róa og sefa fólk niður fyrir laugardagsmótmælin. Því miður hafa þessir fundir gengisfallið í seinni tíð og innihald þeirra mun minna en umbúnaðurinn gefur til kynna. Borgarafundurinn á mánudagskvöldið gaf tóninn. Þar hljóta þau að hafa gert sér ljóst hversu djúprist óánægjan er. Óásættanlegt var að mæta þeim sjónarmiðum sem þar komu fram með drambi og hroka líkt og sumir ráðherrana gerðu sig seka um í svörum sínum til fundarmanna.
Nú þarf að draga stóru trompin fram úr erminni. Lýsa þarf yfir eftirfarandi:
- Stjórn og yfirmenn FME sé leyst frá störfum. Annað tveggja sváfu menn þar á verðinum eða notuðu ekki rétt mælitæki, t.d. í álagsprófum bankanna.
- Stjórn og bankastjórn Seðlabankans sé leyst frá störfum. Ekki þarf að fjölyrða um þau hörmulegu mistök sem þar hafa átt sér stað. Ekki gengur að einn bankastjórana sér jafnframt á fullu í pólitíkusum slag.
- Tafarlaust fari fram alvöru uppstokkun í yfirstjórnum bankanna þriggja. Ekki er ásættanlegt að sama fólkið sé þar við stjórnvölinn á var í gömlu bönkunum. Byggja þarf upp traust að nýju. Til þess þarf að skifta um fleira en húsgögn.
- Forsætisráðherra þarf að tilkynna að gengið veriði til kosninga á vormánuðum (maí eða júní).
- Gera þarf tafarlausa gangskör að fá erlenda sérfræðinga að rannsaka meinta sviksemi og siðferðisbrot stjórnenda bankana og eiganda þeirra.
- Skipuð verði nefnd sem skila ætti tillögum um endurreisn hins Nýja-Íslands ekki síðar en í lok janúar. Nefndina skipi rektorar Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Akureyri og Viðskiptaháskólans Bifröst. Nefndin fái algjörlega frjálsar hendur til verksins, rúman fjárhag og geti þess vegna kallað til alla þá sérfræðiaðstoð sem þörf verður á.
Liðir 1-4 eru algjört skilyrði fyrir því að geta róað það ástand sem hér hefur skapast. Ég mun aldrei mæla með ofbeldi eða skemmdarverkum en bendi á að mjög lítið þarf til að breyta friðsömum fundi í hreina skelfingu. Látum það ekki gerast.
Ábyrgðin er ykkar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir Hilmar Haarde. Fyrst og síðast eruð það þig sem getið. Til þess þarf áræði, vit og kjark.
Þriðjudagur, 25. nóvember 2008
Hver hinn innri maður forsætisráðherrans?
Þegar hann uppgötvar að fréttamaðurinn spyr hann krefjandi óþægilegrar spurningar breytist viðmótið. Pirringur sést og þegar hann á ekki til svar bregst hann illa við og veit af reynslu að sókn er besta vörnin. Því ræðst hann á fréttamanninn G.Pétur og frávarpar vandræðum sínum yfir á hann. Þetta er vissulega vel þekkt aðferð í sjálfsvörn og rökþroti. Það er því hægt að virða GHH það til vorkunnar að hann er mannlegur og bregst við á mannlegan hátt þegar hann kemst í þrot og kann ekki svar við beittri spurningu G.Péturs.
Að sjálfsögðu átti þetta erindi við þjóðina. Voru þeir ekki báðir í vinnu hjá henni. Er ekki hlutverk forsætis að kunna skil á þeim atriðum sem þarna var spurt um og geta svarað fyrir það. G.Pétur var líka í vinnu hjá þjóðinni. Honum bar að rækja fréttamannsstarf sitt af trúmennsku og kostgæfni og veita stjórnvöldum aðhald með beittri opinni upplýstri umræðu sem varpaði ljósi á raunverulega stöðu mála. Mistök G.Péturs liggja fyrst og fremst í því að birta þetta ekki fyrr. Þó er betra seint en aldrei.
Sérstaklega á þessum umbrotatímum. Þar skiptir miklu persónustyrkur og persónugerð þeirra er með völdin fara. Það sem GHH sýndi þarna var langt frá því að vera viðeigandi af manni í hans stöðu. Í þeirri naflaskoðun sem öll þjóðin þarf nú að ganga í gegn um skal allt upp á borðið. Þetta líka. Því betur sem brotin raðast upp í heildarmyndinni mun þessi skoðun gefa okkur tækifæri á endurmati, endurskoðun gilda, framtíðarsýnar og markmiða. Til þess er sagan að hægt sé að læra af henni.
Krafa um að viðtali við Geir verði skilað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 24. nóvember 2008
Svo sannarlega sjálftökusamfélag
Mitt mat er að kvótakerfið sé í eðli sínu ekkert annað en upptaka gamla lénsveldisins. Byggðir landsins hafa sviðnað undan þessu óréttláta kerfi sérhagsmuna. Þorpin við sjávarsíðuna eru í góðri kreppuæfingu. Fólkið þar er nú þegar búið að upplifa kreppu. Kreppu tilorðinni af því að lénsherrann seldi kvótann burtu. Enga björg var að fá, atvinnan farin, eignir verðlausar
og sjálfsmyndin brotin. Víða situr fólk í verðlausum húsum sínum og fær sig hvergi hrært. Litla vinnu að hafa nema rétt til að skrimta. Þetta fólk hefur ekki sett Ísland ehf á hausinn.
Nú þegar ríkið hefur í raun eignast mestallan kvótann gefst kærkomið tæifæri til að stokka kerfið upp. Ekkert annað en opinber útboð koma til greina. Vissulega má binda aflaheimildir að hluta til við landshluta ef mönnum sýnist svo. Grunnurinn verður að vera á að veiðar og nýting sé arðbær.
Það er hún ekki í dag þegar skuldir útgerðarfyrirtækjanna nema margfaldri ársveltu.
Kvótakerfið varðaði veginn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 24. nóvember 2008
Viðbrögð Birnu bankastjóra gera ekkert annað en staðfesta frásögn Agnesar Bragadóttur
"....er augljóst að þagnarskylda var brotin og bankinn mun grípa til viðeigandi aðgerða þar að lútandi". Þarf frekari vitna við. Ég held ekki. Öll gögn styðja frásögn Agnesar af sukkinu og svínaríinu sem viðgekkst í þessum banka. Ef banka skyldi kalla. Hér er um svo alvarlegt athæfi að ræða gagnvart öðrum viðskiptavinum Glitnis að bankaleyndinni af þessu þarf að létta. Núna strax. Er fólk ekki að átta sig á að hér höguðu svokallaðir "bissniessmenn" og "útrásarvíkingar" eins og ótíndir Nígeríusvindlarar.
Og alltaf flýtur óhroðinn upp. Nú síðast fréttir af peningaþvættismáli starfsmanns Virðingar. Í fréttum kemur fram að starfsmaðurinn hafi notað trúnaðarupplýsingar til að hagnast persónulega og notað fyrirtækið eins og peningaþvottavél. Auðvitað koma svona mál alltaf upp öðru hverju. Það sem gerir þetta mál verra eru fjölskyldutengsl hans við forstjóra Virðingar (bræðrasynir) og við forstjóra Kauphallarinnar en starfmaðurinn er sonur Þórðar kauphallarforstjóra. Að auki blandast bróðir hans inn í málið en hann starfar hjá öðru verðbréfafyrirtæki.
Nú er gott og blessað að lögreglan hafi hendur í hári þeirra sem ljúgja og svíkja. Í þessu tilfelli talað um hundruðir milljóna. Lögreglan gengur þarna vasklega fram og handtekur og húsleitar eins og þörf er á.
Í ljósi þessa er mér alveg óskiljanlegt hvernig í veröldinni stendur á því að enn skulu þeir glæpasnúðar sem komu okkur, heilli þjóð, á kaldan klaka enn ganga enn lausir. Þar erum við ekki að tala um neinar hundruðir milljóna, nei, þúsundir milljarða. MILLJARÐA!!! Hvers konar aumingjadómur er það að ganga ekki strax í verkin. Þessir menn eiga að sjálfsögu að vera í gæslu á meðan mál þeirra eru rannsökuð.
Þar á bankaleynd ekki við. Ég gef skít fyrir hana þegar ég og aðrir saklausir íslendingar þurfa að blæða og borga fyrir þessa svindlara.
Glitnir semur nýjar lánareglur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 22. nóvember 2008