Færsluflokkur: Bloggar

Fjölmiðladrama í Hnífsdal

Fyrir rúmum mánuði gengu deilur milli hjóna í Hnífsdal á það stig að eiginmaðurinn greip til þess óyndisúrræðis að ógna konu sinni með haglabyssu.  Það sem ljóst virðist vera í málinu að skot var í hlaupi, skotinu var skotið þannig að sást á konunni.  Sérsveit lögreglu var kölluð til sem náði að yfirbuga manninn sem mun hafa setið í gæsluvarðhaldi síðan. 

Þetta er allt ósköp sorglegt og ég haf alltaf samúð með fólki sem komist hefur eða komið hefur verið í aðstæður sem þessar.  Það sem hins vegar vekur athygli mína er það fjölmiðladrama sem verið hefur í kringum málið. 

Það er nú einfaldlega þannig að á hverjum einasta degi eru konur (oftast) beittar líkamlegu ofbeldi af hálfu maka sinna.  Fjölmiðlar virðast ekki hafa sama áhuga á manninum sem höfuðkúpubraut eiginkonuna með borðfæti auk handleggsbrots og fleiri áverka.  Sá eina smá klausu um þetta á innsíðu Fréttablaðsins. 

Getur verið að fréttamat fjölmiðla sé eitthvað brenglað án þess að ég sé að bera í bætifláka fyrir ölóðan byssumanninn í Hnífsdal.

Er byssan áhugaverðari en borðfóturinn?

 


mbl.is „Ég sá blossa nálægt vanganum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klukkun tekin

Það fór þá svo að maður yrði gripinn og klukkaður.  Benedikt sem ybbir gogg bera alla ábyrgð á því.

1.  Ég er veiðimaður og hef alltaf horft á flesta hluti með augum veiðimannsins.

2.  Skelfilega vanafastur.  Allir hlutir verða að vera á sínum stað (í óreiðunni)

3.  Mér þykir gaman að segja sögur

4.  Fæ stundum skelfileg letiköst og samviskubit í kjölfarið

5.  Les allt sem að kjafti kemur, skáldskap, þjóðlegan fróðleik, og síðast en ekki síst fuglabækur.

6.  Einhverjar bestu stundir mínar eru í faðmi fjölskyldunnar á sólríkum sumardegi við glóandi grill.

7.  Á það til að nöldra út af einhverju sem skiptir mig svo sem engu máli.

8.  Ferðalög eru mér að skapi, nánast ástríða.  Hlakka ætíð til ferðalaga, nýt þeirra og finnst alltaf gott að koma heim.

9.  Bloggið er frábært.  Get komið skoðunum mínum á framfæri þar.

10.  Finnst flestur matur góður og þá helst mikið af honum.  Samt er ég lítið fyrir P-mat (pizzur, pylsur, pasta og pítur).

11.  Þykir vænna um hunda en ketti.

 

Svo klukka ég:  Lindu Ósk, Ómar Ragnarsson, Óttar Guðlaugsson og Pálma Gunnarsson. 

 

Góða skemmtun! 


Í vasa kaupmanna fannst áður glötuð skattalækkun.

Athyglisverð vöruverðskönnun hjá ASÍ.  Þarna kemur það í ljós sem margir óttuðust.  Lækkun virðisaukaskattsins sem átti að koma neytendum til góða lendir öll í vasa kaupmanna eða svo virðist vera.   Enda var við öðru að búast?  Virðisaukaskattkerfið er orðið gapandi götótt, þriggja þrepa, með óteljandi undanþágum.   Það ætti að vera augljós hagur almennings og atvinnulífsins að skattkerfið sé einfalt og skilvirkt. 

Einfaldast væri að vera með eitt skattþrep í virðisaukaskatti og engar undanþágur til að svindla á.  Lækka mætti skattinn með slíkri einföldun, kannski niður í 12 - 14%.  Það myndi minnka verulega hættuna á undanskotum og einfalda skatteftirlit.

Slíkt mætti einnig hugsa sér með tekjuskattinn.  Einn flatan skatt 15 - 20% með persónuafslætti sem beintengdur yrði með lánskjaravísitölu.  Engar undanþágur.  Byggja yrði á sértækum aðgerðum varðandi þá sem sem minna mega sín, þ.e. koma á endurgreiðslukerfi.  Hætt yrði að lítillækka fólk með því að kalla slíkar greiðslur bætur heldur nefna þær einfaldlega tekjur.

Við erum komin í ógöngur með skattkerfið, flestir þeir tekjuhæstu greiða sáralítið til samfélagsins og þeir sem eingöngu greiða fjármagnstekjuskatt lifa eins og ómagar á sveitarfélögunum, þiggja alla þeirra þjónustu en greiða ekkert til þeirra.

Þetta verður að taka til gagngerrar endurskoðunar.

Ekki seinna en strax.


Hvenær er nauðgun nauðgun?

Margir hafa sagt sína skoðun á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í meintu nauðgunarmáli sem kveðinn var upp í síðustu viku.  Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að fjalla frekar um þennan dóm.  Hann er hins vegar ofarlega í huga mér og nú í kvöld sá ég þau Sif Konráðsdóttur og Svein Andra Sveinsson hæstaréttarlögmenn takast á um þetta mál í Kastljósi Sjónvarpsins.

Í mínum huga eru þær forsendur sem dómurinn leggur einhver furðulegasta röksemdafærsla sem ég hef séð í nýlegum dómum.  Það er því rökrétt að niðurstaðan sé í samræmi við forsendurnar.  

Ég ætla ekki að rekja söguna hér en að halda því fram að ekki hafi verið beitt ofbeldi þegar málsaðilar eru sammála um að stúlkunni hafi verið ýtt inn á klósettið, ýtt síðan niður á gólf og klefanum læst að innan.  Stúlkan kemur síðan út af klóettinum með áverka sem dómnum er ljóst að hún hafi hlotið vegna kynferðisofbeldis.  Nei, að ofbeldi var að mati dómsins var það ekki ofbeldi samkvæmt dómvenju á 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.

Í skilningi alls þorra fólks hefur fólk verið beitt ofbeldi þegar það gengur skrámað, marið og blóðugt af vettvangi.  Að túlka það á annan hátt hlýtur að mínum skilningi að vera hreinn og klár orðhengilsháttur.

Hvenær er nauðgun nauðgun?

Það er spurningin. 

 


Drykkjutengd ferðaþjónusta?

Eins og flestum ætti að vera kunnugt er mikill vöxtur í ferðaþjónustu um land allt.  Hér á árum áður ferðast fólk um og skoðaði fossa, hveri og sögufræg fjöll og aðrar sagnaslóðir.  Menn slógu upp tjaldi í túnjaðri einhvers bóndans og fengu sér kannski smá "brennsa" út í kaffið svona rétt áður en skriðið var í svefnpokann að kvöldi.  

Unglingarnir áttu Verslunarmannahelgina og gátu óáreittir drukkið þar frá sér ráð og rænu á tilteknum skemmtisvæðum eins og Húsafelli, Eyjum, Húnaveri og einhverjir þekktir sukkstaðir séu nú nefndir.

Hins vegar voru þorpin flest hver nokkuð afskipt af ferðamannastraumi.  Þar búa að sjálfsögðu áhugamenn um þjóðaríþróttina peningaflokk.  Þessir áhugamenn eygðu skemmtilega leið til að laða til sína íslendinginn á nýja felli- eða hjólhýsinu.  Efnt var til þorpshátíða undir hinum ýmsustu nöfnum eins og Bíladagar Akureyringa, Humarhátíð Hornfirðinga, Færeyskir dagar Ólsara og og nú síðast Írskir dagar Skagamenna.  Þessar hátíð hafa aðallega getið sér orð fyrir drykkju, óspektir og eril hjá lögregluþjónum.  

Með tilliti til þess að yfirvöld ferðamála hafa eindregið hvatt til nýbreytni í ferðaþjónustu landsbyggðarinnar verður að telja þetta nokkurt nýmeti á diskinn þann.  Diskinn sem skartað hefur sögutengdri, menningartengdri, náttúrutengdri, hestatengdri þjónustu svo eitthvað sé nefnt.  Nýjasti rétturinn á diskinum eru þessar bæjarhátíðar.

Skyldu þær þá ekki vera drykkjutengd ferðaþjónusta? 


mbl.is Mikið um ólæti og ryskingar á Akranesi í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskt hugvit. TCT eldsneytiskerfi; bylting á sviði umhverfismála?

Í síðustu færslum mínum hef ég fjallað um það dæmalausa auglýsingaskrum sem haldið er að almenningi varðandi losun svokallaðra gróðurhúsalofttegunda.  Að sjálfsögðu hafa ósvífnir fjárplógsmenn fundið greiða leið að pyngju samborgara sinna með því að selja þeim alls kyns skyndilausnir eins og Hybrid bíla, láta fólk "kolefnisjafna" bíla sína og annað gáfulegt í þessum dúr.  Þarna er höfðað til samvisku fólks sem telur sig geta lagt sitt lóð á vogarskál umhverfisverndar með því að láta einhverja aðra um verndina, bara ef það getur keyrt áfram þriggja tonna ameríska trukkinn sem eyðir jafnvel á þriðja tug lítra á hverja hundrað kílómetra.

Samt er hægt að finna ljós í þessari "kolefnamóðu". 

Síðast liðin 17 ár hefur íslenskur hugvitsmaður, Kristján B. Ómarsson, þróað ofur einfalda hugmynd að eldsneytiskerfi fyrir brunahreyfla.  Hann hefur lagt í þessa hugmynd sína lífið og sálina þrátt fyrir að fáir hafi haft trú á henni fyrst í stað og fjármunir væru af skornum skammti.

Nú er þessi hugmynd hans að verða að veruleika með fjöldaframleiðslu á svokölluðum TCT (Total Combustion Technology) blöndungi.  Þessi blöndungur byggir á alveg gjörbreyttri tækni við blöndun eldsneytis og loft þannig að nýting eldsneytisins verður mun betri.  

Það sem skiptir okkur kannski mestu máli er að þessi tækni minnkar losun CO2 allt að 80% og HC+NOx allt að 35%.  Þetta er eitthvað sem engum hefur tekist áður og nú þegar framleiðsla er að hefjast á fyrstu gerð TCT fyrir smávélar eru mjög miklar vonir bundnar við að þessi tækni geti breytt miklu um losun gróðurhúsalofttegunda frá öllum tegundum brunahreyfla.  Þessi tækni ræður við allt fljótandi eldsneyti allt frá bensíni til jurtaolíu auk gass.

Slæmu fréttirnar eru þær að fyrirtæki Kristjáns, Fjölblendir ehf, er að flytja starfsemi sína úr landi til N-Írlands þar sem allur aðbúnaður nýsköpunarfyrirtækja er margfalt betri en hér á landi.  Þar hefur reyndar prófunarferli þessarar tækni farið að mestu fram á undanförnum árum.  Miklir fjármunir hafa verið lagðir í kaup á einkaleyfum sem víðast um heiminn þannig að í dag er þessi hugmynd vel vernduð.

Hér er á ferðinni eitthvað sem kalla má raunhæfa leið til lausnar á hluta þess vanda sem heimurinn stendur frammi fyrir.  Væri ekki nær fyrir stjórnvöld að taka fyrir alvöru á vanda nýsköpunarfyrirtækja þannig það þau flýi ekki land eitt af öðru.

Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér nánar TCT tæknina skal bent á heimasíðu Fjölblendis ehf.


Eru hybrid bílar umhverfisvænir?

Það er alveg magnað hvernig hver étur vitleysuna upp eftir öðrum.  Vissulega eyða hybrid bílar heldur minna eldsneyti en aðrir og kolefnislosun þeirra því nokkuð minni en bensínbíla.  Á móti kemur að rafgeymar þeirra eru mjög stórir og innihalda mikið af alvarlega mengandi efnum.  Niðurstaða sérfærðinganefndar á vegum Bandaríkjaþings komst að þeirri niðurstöðu í vetur að hybrid bílar væru ekki eins umhverfisvænn kostur og talið hefur verið.  Nefndin lagði til að reynt yrði að auka hlutfall dísilbíla sem kostur væri en þar sem mikil spilliefni eru í rafgeymum hybrid væru þeir ekki góður kostur að sinni.  Á nýlegum lista yfir umhverfisvæna bíla til almenningsnota í neytendablaðinu Consumer Report komst aðeins einn hybrid bíll á topp tíu listann, allir hinir voru dísilbílar.  Hins vegar viðgengist ótrúlegt auglýsingaskrum varðandi þessa hybrid bíla þar sem lofið sem á þá væri borið stæðist ekki nákvæma skoðun.

Áhugasömum má benda á þessa síðu


mbl.is Forsetaembættið fær umhverfisvænan bíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kolefnisjöfnunardellan

Eitthvert snjallasta auglýsingatrikk seinni tíma eru allar þær bábiljur og bull sem haldið er að almenningi og varða svokölluð gróðurhúsaáhrif (global warming).  Nýjasta dellan er svokölluð kolefnisjöfnun.   Þar er fólki talin trú um að nægilegt sé að gróðursetja svo og svo mörg tré á einhverjum óskilgreinum stað og það dugi til að gleypa allt CO2 sem heimilisbíllinn framleiðir.  Það er ekki á fólk logið.  Það kaupir allt.  Já ég meina allt, bara ef því er pakkað í nógu fallegar umbúðir og gæti hugsanlega höfðað til samvisku þess.

Væri ekki nær að sleppa kolefnisjöfnun af stóra ameríska trukknum og velja eitthvað umhverfisvænna sem gerir nákvæmlega sama gagn.  Af hverju er fólki ekki gert auðveldara að nota reiðhjól sem samgöngutæki?  Af hverju er fólki ekki gert auðveldara að kaupa litla dísilbíla?  Af hverju eru almenningssamgöngur ekki gerðar að raunhæfum valkosti svo einhver dæmi séu nefnd.

Það eru svo ótalmargir hlutir sem við getum gert til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.  Kolefnisjöfnunin er öllu líkara sölu aflátsbréfa páfagarðs hér á öldum áður.  

Meira síðar. 


Hamingusamasta þorp í heimi

Jæja, þá er ég mættur við tölvuna aftur eftir langt hlé frá öllu bloggi.  Búinn að vera á flakki vestur í henni Ammríku, úða þar í mig hormónastreittum hamborgurum, versta kaffi í veröldinni með þjóðarrétti þeirra vesturheimsku, fylltum donouts.  Því líkt gúmmúlaði!

En það var ekki það sem ég ætlaði að tala um í dag.  Ég ætlaði að tala um veðrið.  Þetta dásamlega veður sem hefur leikið við okkur upp á síðkastið.  Hér á þessu útskeri Atlantshafsins skiptir veðrið svo miklu máli.  Skiptir kannski í sumu öllu máli.  Yfirbragð alls tekur á sig nýja og glaðari mynd.  Fólk verður afslappað og stöku brosvipra tekur sig upp.  Með sólinni vinnum við hormóna sem gefa okkur vellíðan sem yljar sál og líkama.  Fólk fær aukinn kraft, rífur sig upp fyrir allar aldir, gengur glatt til vinnu og leiks og borgarbúarnir þyrpast síðan út í sveitir landsins um helgar með tilheyrandi umferðarteppum hér og þar.  

Ég og mín elskulega ætlum að gera það líka.  Um helgina stefnum við á að heimsækja hamingusamasta þorp í heimi.  Þar eru íbúarnir svo hamingusamir að þeir halda hamingunni sérstaka hátíð á hverju sumri.  Sem sagt haminguþorpið Hólmavík verður heiðrað með nærveru okkar þess helgi.  

Enda er veðurspáin með eindæmum góð! 


Að skríða úr híði fyrir kosningar

Á vorin gerast undrin, örsmáir grænir angar stinga upp kolli undir suðurveggnum, farfuglar gleðja augu og eyru og smátt og smátt slaknar á kaldri krumlu Veturs konungs.  Sum dýr hafa legið í dvala allan veturinn en skríða eitt og eitt úr híði sínu.  Mér finnst gaman á vorin.  Þá sannfærist maður um blessunarlega árssveiflu móður náttúru.  Hún klikkar ekki.

Í pólitíkinni vorar á fjögurra ára fresti.  Þá er kosið.  Valdið til fólksins segja pólítíkusar á hátíðastundum.  Það er ýmislegt sem kviknar í kring um kosningar.  Upp gægjast frjóir angar sem kannski verða að fögru blómskrúði.  Kannski.  Sumir angarnir eru bara arfi og annað illgresi.  Þeir verða aldrei neitt annað.  Alls kyns furðufuglar fara á kreik en ein dýrategundin virðist bara koma upp úr híðinu síðustu daga fyrir kosningar.  Framsóknarmenn.  Allir halda að þeir séu deyjandi dinosaurar og fáir þeirra kannast við upprunann nema rétt fyrir kosningarnar.  Þá fer þeim allt í einu fjölgandi en enginn veit hvaðan þeir koma eða hvert þeir fara að kosningum loknum.

Þeir eru eins og nútíma huldufólk eða álfar, við bara vitum af þeim á kosningum á fjögurra ára fresti en álfar og huldufólk dansar á þrettándanum.

Þá fá líka kýrnar mál.

Er þetta ekki skrítið?  Spyr sá er ekki veit. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband