Færsluflokkur: Bloggar
Miðvikudagur, 9. maí 2007
Kvótasvindlið opinberað
Nokkur hreyfing hefur komist á umræðuna um afleiðingar kvótakerfisins. Í kerfinu þrífst margur ósóminn en þar sem nánast allir sem að kerfinu koma eru samofnir svindlinu geta trauðla sagt frá nema skaða sjálfa sig, sína nánustu, vinnuveitendur o.sv.frv. Þó hefur nú einn fyrrverandi útgerðarmaður stigið opinberlega fram og sagt sína sögu. Söguna segir hann í beinu framhaldi af Kompásþætti sem sýndur var á Stöð 2 s.l. sunnudag.
Ég hvet ykkur til að lesa grein Jakobs Kristinssonar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 8. maí 2007
Vafasamir hitaveitumenn og harmonikuleikarar
Í kvöld var dyrabjöllunni hringt og fyrir dyrum stóð kona með skrifspjald í hendi og sagðist vera frá Hitaveitu Suðurnesja. Hana langaði til að lesa af orkumæli. Allt hið besta mál og ég í grandaleysi mínu hleypti henni inn í bílskúr þar sem mælirinn er. Á leið út úr skúrnum fékk ég smá bakþanka og spurði hana um skilríki. Hún sagðist engin slík hafa og ekkert sem sannaði hver hún væri annað en peysu sem merkt var logoi fyrirtækisins.
Það er eitthvað mikið að öryggismálum hjá þessu fyrirtæki að sjá ekki starfsmönnum sínum fyrir skilríkjum þannig að þeir geti sagt á sér deili aðspurðir. Það er vel þekkt aðferð misindismanna að þykjast vera frá síma eða veitufyrirtækjum og komast þannig inn á gafl hjá auðtrúa bjánum eins og mér.
Svo eru sumir að spila á harmoniku skilríkjalausir. Sendi löggan þá ekki úr landi. Eins gott að passa sitt.
Ég ætla að setja hundinn á vakt í nótt....eða þannig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 3. maí 2007
Að vaða út í pytt - hvað er til bjargar?
Mér líður hálf undarlega. Svona svolítið eins og ég hafi verið hafður að fífli sem ég sennilega er. Látum aðra dæma það. Ég hef alla tíð haft áhuga á stjórnmálum og reynt að fylgjast með eftir föngum og stundum lagt litlar pillur í umræðu dagsins. Mér er engin launung á að lengstum hef ég fylgt mínum flokki, Sjálfstæðisflokknum í flestum málum og hugsjónir hans fallið vel að mínum.
Síðustu daga hefur tröllriðið fjölmiðlum mál vegna ríkisfangs stúlku sem mun vera tengd Jónínu Bjartmars umhverfisráðherra. Ég ætla ekki að tíunda það mál hér því flestir ættu að þekkja það. Það er alveg kristaltært í mínum huga að þarna hefur ekki verið farið eftir þeim venjulegu leikreglum sem gilt hafa um veitingu ríkisborgararéttar. Af þeim framsóknarmönnum sem eftir eru hef ég haft nokkuð dálæti á Jónínu og fundist skoðanir hennar, framkoma og málflutningur allur bera vott um einurð og málafylgju. Það urðu mér því nokkur vonbrigði að sjá hvernig hún brást við þessari umfjöllun. Nóg um það.
Enn verra fannst mér til um Bjarna Benediktsson. Þetta er maðurinn sem átti atkvæði mitt í komandi kosningum. Þar var ég viss um að færi vandaður, heill og heiðarlegur stjórnmálamaður. Nei, því miður óð Bjarni tafarlaust út í foraðið þrátt fyrir aðvarnanir. Hann og aðrir nefndarmenn hafa komið fram á þann hátt að ekki telst trúverðugt. Alls ekki. Og enn er Bjarni á leið út í pyttinn og er nú komin upp að hálsi. Með honum hafa fleiri vaðið, Guðrún Ögmunds, þið vitið þessi með pappírstætarann, Guðjón Ólafur sem ég ætla ekki að segja neitt meira um og að síðustu lagði dómsmálaráðherrann af stað og rak tærnar í drullupyttinn.
Bjarni, Guðrún og Björn. Það er enn hægt að snúa við og í guðanna bænum gerið hreint fyrir ykkar dyrum. Guðjón Ólafi hafa hins vegar verið lagðar línurnar; Árangur árfram og ekkert stopp". Sem sagt beint í pyttinn. Þó svo að ég sé fífl og seinn að fatta þá blasa ósannindin við alþjóð. Ég man eftir manni sem rataði beint í sama pytt. Manni sem heitir Árni Johnsen. Árni hafði ekki vit á að snúa við upp úr sínum pytti og því fór sem fór.
Það er enn tækifæri. Notið ykkur það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 22. apríl 2007
Verndun Atlantshafslaxins - Til hamingu Orri
Þetta er með gleðilegustu fréttum vikunnar. Hugsjónamaðurinn Orri Vigfússon hlýtur einhver virtustu umhverfisverðlaun heimsins, Goldberg verðlaunin, fyrir áratugabaráttu fyrir verndun Atlantshafsins. Margir umhverfisverndarsinna mættu taka Orra til fyrirmyndar. Hann lætur ekki duga að tala, hann framkvæmir og markmiðið er ljóst. Ég er ekki viss um að íslendingar viti almennt mikið um þessa baráttu Orra en hann er því betur þekktari meðal áhugafólks um náttúruvernd og áhugamanna um laxveiði. Reyndar fer áhugi á náttúrvernd og veiði yfirleitt saman. Ríkustu hagsmunir sportveiðimanna eru að viðhalda stofnum veiðidýra sterkum og heilbrigðum.
Orri hefur alla tíð verið trúr þessari hugsjón og fórnað miklu til. Höfðingjadjarfur og óbanginn að kynna frumlegar hugmyndir þó sumum sé fyrirmunað að skilja þær, sbr. ummæli hans um þáverandi umhverfisráðherra. Hófsemi en ákveðni er einkennandi fyrir þessa baráttu auk einkar frumlegra fjármögnunarhugmynda. Ég vona að vel önnur náttúruverndarsamtök taki nú undir með Orra og félögum og sýni áhuga á umhverfisvernd á borði ekki bara í orði.
Orri, til hamingu.
Ég segi ekki annað!
![]() |
Orri Vigfússon hlýtur helstu verðlaun baráttufólks fyrir verndun umhverfissins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 20. apríl 2007
Sóknarfæri við Lækjartorg
Ömurlegt að horfa á hús brenna. Samt dregur húseldurinn að sér áhorfendur. Marga. Svo var einnig á miðvikudaginn þegar húsin á horni Austurstrætis og Lækjargötu brunnu. Ég horfði líka með trega, trega vegna minninga sem tengjast þessum húsum, trega vegna þeirrar sögu sem í þeim hefur falist í meir en 200 ár. Þegar frá leið áttaði ég mig á að ég hafði verið að horfa á söguna, söguna sem nú er að gerast og mun lifa áfram. Söguna um húsin sem hýstu Jörund hundadagakonung, Trampe greifa og Gulla heitinn í Karnabæ. Sú saga lifir. Húsin ekki.
Gamli góði Villi var mættur á svæðið. Í rauðum samfesting, með hjálm og öryggisgleraugu. Framan við myndavélarnar var honum augljóslega brugðið. Undir svona kringumstæðum eiga menn ekki að gefa neinar stórar yfirlýsingar. Það er ekki skynsamlegt. Láta daginn líða, nóttina, og hugsa málið betur á morgun. Á morgun er kominn nýr dagur og það sem gerðist í gær er sagan. Sagan sem ekker er öll og verður stöðugt til frá degi til dags.
Mig óaði við yfirlýsingu borgarstjórans. Eldurinn speglaðist í augum hans þegar hann lýsti hátíðlega yfir að hér yrði strax byggt aftur. Byggð aftur hús í sama stíl og helst með sama útliti. Það er ekki sagan. Sagan kennir okkur að allt er breytingum undirorpið. Að ætla sér að frysta augnablikið í einhverri fortíðarfantasíu er hreint óráð. Þarna á auðvitað að byggja aftur. Sem allra fyrst en ekki að óathuguðu máli.
Mín tillaga er að halda samkeppni um uppbyggingu á þessu "besta" horni Reykjavíkur. Það er líka hægt að byggja falleg hús 2007. Ekki bara 1801.
Að byggja hús í dag verður saga morgundagsins.
Það er málið!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 19. apríl 2007
Það er lífsnauðsyn að vera bjartsýnn - er það ekki?
Nágranni minn hefur dregið íslenska fánann að húni í morgun, sumardaginn fyrsta. Hann gerir þetta með mikilli samviskusemi alla fánadaga. Það er mikil prýði að þessu og stundum hef ég hugsað til þess að fá mér sjálfur fánastöng og flagga á tyllidögum. Einhvern veginn hefur ekkert orðið úr þessu.
Svo sannarlega frusu saman sumar og vetur. Hitamælirinn sýndi -5°C kl. hálf átta þegar ég staulaðist niður í hafragraut, kaffi og lestur morgunblaðanna. Sólin skein og þrátt fyrir frostið var mikið fjör hjá störunum sem hömust eins og óðir í vorverkum sínum. Reyndar eru menn misjafnlega hrifnir af vorverkum þeirra sem leitt geta til flóaplágu ef óvarlega er farið.
Samkvæmt þjóðtrúnni veit á gott þegar vetur og sumar frjósa saman. Það er fátt eins lýsandi fyrir bjartsýni þessarar eyþjóðar á mörkum hins byggilega að halda upp á sumardaginn fyrsta þegar víðast hvar er enn vetur, berja sér á brjóst þegar gaddurinn og hríðarbylurinn hafa skekið landið og draga fram eitthvað jákvætt; já það hlýtur að vita á gott þegar frjósa saman sumar og vetur! Yndislegt!
ÉG reyni að vera þessari bjartsýni trúr eftir bestu getu. Auðvitað vona ég að vorið og sumarið verði gott, sólríkt en samt með hæfilegri vætu svona inn á milli. Það er svo gott fyrir gróðurinn segja menn þegar rignir dögum og jafnvel vikum saman. Alltaf sami bjartsýnistónninn. Kom ekki fram í einhverri könnun að við væru bjartsýnasta þjóð í heimi? Jú gott ef ekki var. Enda okkur nauðsynlegt. Við einfaldlega búum á þannig stað á móður Jörð.
Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 18. apríl 2007
Endurreisn á Vestfjörðum - Vonandi
Ég verð að játa það hreinskilnislega að mér fannst ekki mikið til koma hugmynda um olíuhreinsun á Íslandi. Allra síst á mínum ástkæru Vestfjörðum. Nei, aldeilis ekki. Nú er ég búinn að liggja yfir alls kyns upplýsingum sem góðvinur minn, Mr. Google, hefur veitt mér af rausnarskap sínum.
Eftir notadrjúgar samræður okkar félagana, Mr. Google, og mín hafa runnið á mig tvær grímur. Er þetta kannski ekki svo vitlaust eftir allt. Eftir því sem ég kemst næst mun þessi starfsemi ekki vera jafn illa mengandi, né hættuleg eins og ég taldi í fáfræði minni. Allstaðar í nágrannalöndunum eru svona hreinsunarstöðvar, hafa starfað þar án vandræða eða mengunar annarar en sjónmengunar. Þessar stöðvar eru svo sem ekkert augnayndi.
Ísland er allt í einu að komast í miðpunkt skipasiglinga norðurhafa og þar er staðreynd sem við breytum ekki. Hins vegar eigum við að nýta þau sóknarfæri sem slíkar breytingar gefa okkur. Þ.á.m. hugsanlega olíuhreinsistöð á Vestfjörðum, t.d. í Haukadalnum.
Slíkt fyrirtæki gæti breytt miklu um búsetu og afkomumöguleika Vestfirðinga.
Vonandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 17. apríl 2007
Að bukka sig og beygja
Í eina tíð var almenningi gert að líta með undirgefni og virðingu til höfðingjastéttarinnar og menn bukkuðu sig og beygðu fyrir prestinum, sýslumanninum og jafnvel fyrir hreppstjóranum. Þarna voru á ferð yfirstétt landsins sem öðrum var gert að þjóna og þéna.
Mér var hugsað til undirleitra ölmusumanna þegar ég horfði á sjónvarpsútsendingu af kosningafundi á Ísafirði nú í kvöld. Sérkennilegt hátterni stjórnenda er viðhaft þegar spurningar koma utan úr sal. Þetta hátterni felst í því að stjórnandi heldur hljóðnema það lágt að fyrirspyrjandinn þarf að vera í einum keng þegar spurningin er upp borin. Sumir eru líka óvanir sviðsljósinu er eru bullstressaðir og þetta er ekki til að bæta á.
Jafnframt er fólk lítillækkað þegar stjórnandinn nánast æpir: "Hver er spurningin? Ætlarðu að koma með spurningu?" og annað í þeim dúr. Sumar fyrirspurnir eru einfaldlega þess eðlis að hafa þarf nokkurn formála að. Mér þótti þetta sérlega miður að fólk sé lítillækkað með þessum óskammfeilna hætti. Getur verið að þessir stjórnendur séu farnir að líta á sig sem einhver aðal eða er þetta kannski merki um óöryggi og minnimáttarkennd.
Fróðlegt væri að heyra skoðanir fólks á þessu.
P.S. Einna verst þótti mér að Sigmar Guðmundsson ofurbloggari og minn uppáhaldssjónvarpsmaður er einna verstur í þessu. Alla vega í kvöld. Kannski var hann minnugur þess þegar hann missti alla stjórn á töfradís Samfylkingarinnar, Kristrúnu Heimisdóttur, í kappræðu Kastljóss í síðustu viku.
Hver veit?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 17. apríl 2007
Fætur sela og hunda. Fréttablaðið í dag.
Skondin frétt á forsíðu Fbl í dag um skrítinn sel með hundsfætur. Þessi selur sem kallast Kampselur er búinn að vera í Straumsvíkinni s.l. þrjár vikur, fjöldi fólks hefur skoðað hann, fréttir birtst í blöðum og ljósvakamiðlum auk þess að fá sérstaka umfjöllum á vorri bloggsíðu.
Þó grannt sé skoðað sjást engir hundsfætur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 16. apríl 2007
N1 skandallinn eða hvað?
Frekar er nú hugmyndaauðgi þeirra markaðs- auglýsingamanna af skornum skammti þegar merki fyrirtækisins N4 er tekið og afbakað og klesst síðan á bensínstöðvar og bílapartasölur. Logoin eru svo sláandi lík að ekki verður framhjá vikist hjá að þeir geri rækilega grein fyrir tilurðinni.
Ef þarna á að vera með einhvern orðaleik þá er þetta algerlega misheppnað; enneinvitleysan, og dettur mönnum í hug að almenningur gleymi misgjörðum fyrirtækisins í garð hans.
Olíufélag í Danaveldi heitir Q8, hljóðlíkingin er þá kúeit, kuweit. Hér er að bara N1, enneinn skandallinn.
Sorrý!
![]() |
N4 kannar réttarstöðu sína vegna nafns og firmamerkis N1 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)