Færsluflokkur: Bloggar

Ljóssins hátíð læðist gegn.....

Það verður vart jólalegra en nú, með stilltu veðri, nýfallinni mjöllinni og öllum ljósunum sem prýða umhverfið.  En þrátt fyrir alla yrti umgjörð, ljós, jólasnjó og jólagjafirnar sem bíða eiganda sinna undir jólatrénu þá kemur hin sanna jólastemminga alltaf innan frá.  Því ef hugur fylgir ekki máli þá verða jólin okkur innantóm.

Í dag fögnum við hátíð ljóssins, þess ljóss sem ber okkur síðan á næstu vikum og mánuðum til vors og sumars.  Kristnir og fagna fæðingu Jesú sem lagður var í jötu "þar suðurfrá" fyrir 2008 árum.  Hvort sem frásögnin sú er sönn eða ekki er hún falleg og boðskapur hennar eitthvað sem öllum er hollt að tileinka sér.  

Hjá mér byrja jólin á Þorláksmessu þegar við Lionsfélagar eldum skötu og annað fiskmeti og seljum til fjáröflunar.  Það er hluti jólastemmingarinnar að leggja sitt af mörkum öðrum til líknar.  Því kemur lyktin af skötunni mér í jólagírinn.  Flestum finnst lyktin vond og ég get tekið undir það.  En bragðið er gott og hefðirnar sem hafa skapast í kring um skötuát Þorláksmessunnar eru skemmileg viðbót við jólahaldið.  Ég var að lýsa þessari upplifun fyrir kunningja mínum sem greinilega fannst fátt um.  Að morgni Þorláksmessu var þessi vísa hans í póstinum mínum:

Bedúinar báru fregn

um barn í lágri jötu.

Ljóssins hátíð læðist gegn-

um lykt af kæstri skötu.

 

Kæru bloggvinir og aðrir lesendur.  Ég óska ykkur öllum gleðilegrar jóla. 


Vandmeðfarið vald

Um fátt er meira rætt manna á milli þessa síðustu daga fyrir jól en skipun í dómaraembætti norður í landi. 

Í það fyrsta þótti fréttnæmt að dómsmálaráðherra viki sæti við skipun í embættið en fyrrverandi aðstoðarmaður hans var einn umsækjendanna.  Það gerði hann þó ekki þegar sami umsækjandi sótti annars staðar um dómarastöðu.

Í öðru lagi að umsækjandinn og aðstoðarmaðurinn væri einkasonur Davíðs Oddssonar sem dómsmálaráðherrann hefur þjónustað á fágætu trúlyndi.  

Í þriðja lagi samkvæmt ofantöldu var held ég flestum ljóst að fyrir lá að skipa soninn í embættið hvað sem tautaði og raulaði. Og það gekk eftir.  Því miður!  Þýlyndi setts dómsmálaráðherra var því ekki minna en þess skipaða.   Þetta vekur upp spurningar um sjálfstæði dómstóla gagnvart framkvæmdavaldinu sem virðist telja sig yfir sett.  Dómnefnd mat þrjá umsækjendur vel hæfa en sonurinn var einungis talinn hæfur.  Þar var tvo hæfisflokka á milli.

Settur dómsmálaráðherra hefur af veikum mætti reynt að réttlæta þessa skipun en aumari rökstuðning hef ég ekki heyrt lengi.  Það er alveg á tæru að hann skuldar öðrum umsækjendum svo og þjóðinni haldbetri rök en pólitísk aðstoðarmennska ráðherra vegi aðra umsækjendur upp.  Uss. uss....svona gera menn ekki.

Talað hefur verið, m.a. á bloggsíðum hér að verið sé að ráðast að persónu þess sem skipaður var í embættið.  Það má vera en málið snýst ekki um það.  Það snýst ekki um þann ágæta mann sem örugglega vildi fá embættið á eigin forsendum en þessum.  Það snýst einfaldlega um lykt af pólitískri spillingu og greiðasemi.  Sá fnykur er nú skötulyktinni þorláksmessunnar yfirsterkari.

Svo gleymist þetta....er það ekki? 


Eru jólin í boði Euro og Visa?

Stundum kvíði ég jólunum.  Það stafar fyrst og fremst af því gengdarlausa kapphlaupi sem hefst yfirleitt um miðjan nóvember og lýkur þegar við gúffum í okkur hamborgarhryggnum á aðfangadagskvöld.  Þetta er langt og strangt þetta kapphlaup og við keppendurnir eru  misjafnlega undir það búnir.  Svo er þetta eins í maraþoni, margir viðkomustaðir þar sem brosandi kaupmenn bíða okkar með freistingarnar.  "Svona nú, vertu með og fáðu þér eins og allir aðrir" og rétta varninginn fram.  Og við glepjumst, kaupum og stingum í pokaskjattann okkar sem reyndar gerir ekkert annað en þyngja okkur á hlaupinu.  Svona komum við á einum viðkomustað eftir annan og allt í einu verða flestir hlutir þess umkomnir þess að bráðnauðsynlegt sé að eignumst þá fyrir jólin.

Svo höldum við áfram fram yfir  mánaðamótin og nálgumst hægt og bítandi upp á hæsta hjallann sem er að sjálfsögðu nýtt kretitkortatímabil.  Vá, æði, ég meikaði það.  Og núna liggur leiðin í bili léttar við fæti og enn erum við að bæta freistingunum í pokann okkar á meðan kapphlaupið heldur áfram.  Miskunnarlaust í boði VISA og MasterCard og allra kaupahéðnanna sem eiga þessa guði með okkur.  Skyldu þeir nokkurn tíma hafa lagt nýfætt barn í jötu?

Þegar við nálgumst endamarkið kemur dofinn og þreytan, ljósin, bjöllurnar, og jólasöngvarnir sem klingt hafa í eyrunum allt kapphlaupið, verða eitthvað svo einsleit og tilbreytingalaus.  Eins og við tökum ekki eftir þeim. Og í markinu á aðfangadagskvöld þegar örmagna keppendurnir eiga þessa öruggu árlegu samverustund fjölskyldunnar og búið er að saga allar neðstu greinarnarnar af jólatrénu til að koma þar undir öllum freistingunum, marglitum og lokkandi.  Hverjar eru þá hingar raunverulegu gjafir og erum við þá tilbúin að gefa þær eða þiggja þegar okkur eru réttar þær.  Kannski tökum við ekki eftir þeim, svo upptekin sem við vorum í kapphlaupinu og nú litskrúðugum gjöfunum.

Jólin sem nálgast eru hátíð ljóssins.  Þess ljóss sem mun lýsa okkur inn í komandi vor.  Jólin eru hátíð hins nýfædda barns sem lagt var í jötu forðum daga í Austurlöndum.  Á jólum gefum við hvort öðru gjafir.  Eru þær gjafir bara freistingar í skrautpappír eða eru þær eitthvað annað og meira.   Eru það gjafir sem við viljum gefa og þiggja.

Okkar er valið.....eða setja VISAð á örlítið meiri yfirdrátt eftir áramótin.


Eigum við þetta skilið?

Það hefur verið trú mín og jafnvel bjargföst sannfæring að kjósendur fái ætíð þá stjórnmálamenn sem þeir eigi skilið. 

Í ljósi ljósi umræðu á Alþingi um starfsheiti ráherra, liti á ungbarnafötum og nú "málfrelsisumræðu" Vinstri grænna hef ég efast um þessa sannfæringu mína.

Er ég kannski einn um þessar efasemdir mínar?


mbl.is VG gagnrýnir frumvarp um þingsköp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af drukknum einkennisklæddum bílstjóra, lögguhúfu sem skipti litum o.fl. smálegu

Sú saga sem hér verður sögð er sönn, lítillega færð í stílinn og öllum nöfnum hefur verið breytt.

 

 

 

Á fyrri hluta 8unda áratugarins var vinnuflokkur úr Reykjavík við vinnu úti á landi.  Hlutverk flokksins var að leggja síðustu rafmagnslínurnar í sveitir landins.  Þetta var gott sumar, sólríkt og það var gleði og kraftur sem einkenndi líf þessara ungu kraftmiklu stráka sem skipuðu flokkinn að undanskildum verkstjóranum og ráðskonunni sem voru mikið eldri.

Vinnuflokkurinn hélt til á eyðibýli sem reynt hafði verið að gera eins vistlegt til sumarvistarinnar og kostur var.  Eins og gerist og gengur var skemmtanalífið stundað af krafti enda sveitaböll um hverja helgi og oft úr mörgum að velja.  Stundum var því ekki bara eitt  ball á helgi, þau voru stundum tvö og jafnvel þrjú.  Já það var gaman að lifa og þessa helgi sem sagan okkar varð til var ball í næsta þorpi.  Vinnuflokkurinn bjó 40 kílómetra þaðan en á næsta bæ bjó héraðslögreglumaðurinn Kalli.  Hann var bóndi en stundaði löggæslu á böllum til að drýgja tekjurnar.

Liðsmenn flokksins skiptust yfirleytt að vera ökumenn á þessi böll og þetta kvöld hafði það dæmst á Binna sem var hið besta mál því yfirleitt þótti hann viðskotaillur með víni.  Það þótti hittast vel á hann yrði edru þetta kvöldið.

Leiðin lá sem sagt á ballið og allir skemmtu sér hið besta.  Þegar átti að halda heim um nóttina kom í ljós að bílstjórinn, hann Binni, hafði dottið í´að og sagði hinum drafandi að hann gæti sko alveg keyrt heim.  Félögunum fannst það ekki við hæfi og eftir að hafa skotið á ráðstefnu datt einhverjum það í hug að fá lögguna Kalla til að keyra bílinn heim.  Hann átti jú heima á næsta bæ.  Einhver talaði við Kalla sem sagðist vera til í þetta.

Biðin eftir að Kalli lyki skylduverkum sínum í löggunni var orðið ansi löng þegar kappinn birtist í svarta búningnum með hvítan kollinn, glaðbeittur, og spurði hvar bíllinn væri.  Jú, hann var þarna.  Dökkgrænn frambyggður Rússjeppi með sætum fyrir átta manns og verkfærageymslu aftast.   "Inn með ykkur" galaði hann og skellti sér undir stýri.   

Í bílnum lumaði einhver á vodkablöndu í flösku og lét hana ganga á milli.  "Hvur andskotinn er þetta" sagði Kalli lögga, "á ekki að bjóða manni líka".  "Þú ferð nú líklegast ekki að drekka, sjálf löggan og keyrandi bíl!" sagði einhver úr hópnum.  Jú viti menn; Kalli tók hvítu lögguhúfuna af sér og sveiflaði hanni í glæsilegum boga aftast í bílinn þar sem hún lenti á hvolfi ofan á smurolíufötu.

"Húfan er farinn" sagði Kalli og hrifsaði flöskuna til sín: "Nú er í lagi að detta í það"  og svolgraði stórum.  Skemmst er frá að segja að á undraskömmum tíma breyttist þessi héraðslögregluþjónn úr virðulegum embættismanni hins íslenska ríkis í blindfullan röflara.  Það fór að fara um suma í bílnum og ekki laust við að víman rynni af hinum þegar borðalagður ökumaðurinn sveiflaði bílnum kanta á milli og tók einbreiðu brýrnar á ferðinni en ekki fyrirhyggjunni.

Það var komið framundir morgun og stutt eftir heim þegar á veginum stóð gömul Cortina þar sem sprungið hafði á tveim dekkjum.  Eldri hjón voru á bílnum og vantaði sárleg aðstoð.  Sá borðalagði vippaði sér undan stýrinu og gleðibros færðist yfir varir hjónanna þegar þau sáu hjálpina birtast í líki lögreglumanns.  Sú brosvipra var ansi skammvinn þegar meintur bjargvættur hellti sér yfir þau með óbótakömmum og spurði hvurn andskotann þau væri að gera þarna á miðjum veginum.  Hann var orðinn áberandi drukkinn, hávær og dónalegur.  Svona maður enginn vill þekkja.

Þarna voru góð ráð dýr.  Menn litu hver á annan og allir hugsuðu það sama:  Burt héðan..einn, tveir og nú!  Siggi flokkstjóri stökk undir stýri, setti í gang á meðan hinir ruddust inn, allir sem einn.  Siggi gaf nú bensínið í botn og í fyrsta og eina sinnið spólaði gamli Rússinn af stað á rykugum malarveginum.  Til að komast framhjá fólksbílnum þurfti hann að sveigja út í tæpustu vegarbrún og eitt augnablik héldu menn að bíllinn færi fram af brúninni og ylti.  Það gerðist ekki sem betur fer en það var ótrúlega fyndið að sjá blindfulla lögguna á harða spretti á eftir bílnum þar til hann gafst upp.

Siggi ók eins og leið lá heim á leið og síðar sagði hann þetta vera í fyrsta og eina sinnið sem hann hefði ekið bíl undir áhrifum.  Það er trúlegt því Siggi er einn þeirra manna sem ekki mega vamm sitt vita.

Skemmst er frá að segja allir komust heilir heim og í heila viku var hvíta lögguhúfan aftur í Rússajeppanum.  Undir það síðasta var ekki laust við að farið væri að sjá nokkuð á hvíta litnum en á næsta föstudegi fréttum við af Kalla.  Hann hafði þá heimsótt ráðskonuna og beðið hana að finna húfuna góðu og taka hana til varðveislu.

Eitt var ljóst:  Ekki yrði hann aftur beðinn að vera bílstjóri.  Þessi maður varð reyndar ekki lengi í embætti eftir þetta þegar yfirmenn hans komust að því einhverra hluta vegna að hann væri ekki eins vandur að virðingu sinni og æskilegt þætti fyrir mann í hans stöðu.

 


mbl.is Ölvaður farþegi henti bílstjóranum út og ók sjálfur í bæinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álftanes. Nei, það var greinilega ekki nóg komið kæri bæjarstjóri.

Það er gengið rösklega til verkanna nú hér á Álftanesinu.  Ég var varla búinn að fletta Á-málgagni bæjarstjórans þar sem hann lét okkur af lítillæti sínu vita af væntanlegri skoðanakönnun um ágæti miðsvæðisins sem við myndum eiga von á einhvertíma á næstunni.  Ágætt að láta lýðinn vita hvað þetta sé nú allt flott og fínt og allir svo ofboðslega mikið sammála.  Bara smá álitamál um eitthvað smávægileg, alls ekki neinn ágreiningur um grundvallaratriði segir bæjarstjórinn.

Sólarhring eftir útburð Á-málgagnsins skall skoðanakönnunin á:  Já, og því líkar snilldarpurningar.  Þar er spurt um "álitamálin" en alls ekki neitt af grundvallaratriðunum.  Spurningar mjög leiðandi og skipulag úthringinga í molum, alla vega veit ég að á tveim heimilum var hringt oftar en einu sinni í sömu manneskjuna.  Capacent Gallup framkvæmir þessa skoðanakönnun.  Ég hélt reyndar í einfeldni minni að þeir væru vandari að virðingu sinni en þetta.

Það verður að gera þá kröfu að íbúar fái að vita eftirfarandi:

  • Hver samdi spurningarnar?
  • Af hverju var ekki spurt um heita málið? þ.e. breytt skipulag umferðar með lokun Breiðumýrar og stóra umferðargötu gegn um svæðið.
  • Hvað var úrtakið stórt?
  • Af hverju var hringt oftar en einu sinni í suma íbúa?
  • Hver var svörunin og hverjar urðu niðurstöður könnunarinnar?
Það er ekki mikið lýðræði fólgið í að bara annarri hliðinni sé snúið að íbúunum.  Það verða allir að eiga jafnan grundvöll að kynna og viðra sínar skoðanir.  Það er hrein og klár misnotkun á valdi bæjarstjórans að nota skattpeninga okkar í annan eins áróðurspésa eins og þann sem var borinn í hús í gær.

Álftanes. Er ekki nóg komið, kæri bæjarstjóri?

Þegar ég kom heim áðan hafði borist inn um bréfalúguna bæklingurinn alftanes.is, Sérstök útgáfa til kynningar á nýju miðbæjarskipulagi.  Litprentaður, fullur skrautlegra mynda, þar sem léttklætt fólk gengur um tjarnarbakka, ráðhúsklukkan í baksýn og svanurinn heilsar að hætti útlenskra.  Ja hérna.  Flott skal það vera.

Útgefandinn er Sveitarfélagið Álftanes og ábyrðarmaðurinn er bæjarstjórinn okkar.  Maður skyldi þá ætla að hægt sé að fræðast og kynnast ólíkum sjónarmiðum um skipulagið.  Á forsíðunni er viðtal við GASSA arkitektana, þau Guðna Tyrfingsson og Auði Alfreðsdóttur.  Þau brosa til okkar lesandanna og segjast hafa hannað grænan miðbæ.  Satt er það, rækilega hefur verið krotað með græna litnum ofan í annars hnjóskulega teikninguna sem okkur hefur veirð sýnd fram að þessu.   Með því að hafa bílastæðin neðanjarðar skapast meira rými fyrir grænu svæðin sem eiga að vera milli lítilla einkalóða húsanna í kring.  Þá spyr ég:  Hver á að halda grænu svæðunum við?  Hefur það gengið svo vel hér fram að þessu? Réttur til umferðar vélknúinna ökutækja skal takmarkaður og hraðanum haldið niðri til að skapa rólega stemmingu.  Já það er trúlegt eða hitt þó að stemmingin verði róleg á Skólaveginum þegar nánast öll umferð úr miðbænum, Breiðumýri og að og frá skóla ferð þar um.  Hún verður væntanlega  einstaklega friðsæl umferðin á Skólaveginum þegar allir 60 - 100 þúsund gestirnir koma eins til að berja forsetasetrið og náttúrufegurðina augum.

Á innsíðu hvetur bæjarstjórinn til sáttar um miðbæinn og segir orðrétt:  „Þetta er fagnaðarefni og má ætla að í stað ágreinings um grundvallaratriði sem áður var sé nú fyrst og fremst álitamál uppi, en álitamál verða alltaf til staðar þegar fjallað er um skipulagsmál".  Við lestur þessara orða bæjarstjóra verður manni hreinlega orðfall.  Er maðurinn að meina það sem hann segir og segja það sem hann meinar?  Annað tveggja er hann algjörlega veruleikafirrtur eða svona ótrúlega ósvífinn.  Ég held að  ekki fari framhjá nokkrum manni hér á Álftanesi að hér logar allt í deilum!  Deilum sem snúast um grundvallaratriði í skipulaginu.  Grundvallaratriði!  Reyndar eru álitamálin líka fjölmörg.  Með þeirri grundvallarbreytingu sem gerð hefur verið á verðlaunatillögu GASSA sem felst í lokun Breiðumýrar og stóraukinni byggð á miðsvæðinu hefur öllu verið hleypt í loft upp á nýjan leik og ekki sýnt var málið endar.

Bæjarstjórinn upplýsir líka í grein sinni að bæklingurinn eigi að auðvelda íbúunum að svara spurningum í væntanlegri könnun Capacent Gallup um skipulagið.  Um hvað skyldi eiga að spyrja?  Hvernig verða spurningar orðaðar?  Fá íbúar að sjá allar niðurstöður könnunarinnar að henni lokinni?  Ég meina ALLAR því hér má ekkert undan draga.

Já, gott fólk.  Þessi bæklingur á víst að auðvelda fólki svörin þegar Gallup hringir.  Sennilega þá réttu svörin að mati bæjarstjórans því uppsetning og efni hans er einhliða fegrunaraðgerð á dæmalausu klúðri bæjarstjórnar.  Allan ferilinn hefur eitthvað verið að bætast við, hús hér og hús þar.  Bensínstöð og það nýjasta, gámastöð við hlið hennar.  Þetta er æðislegt,  skyldu nágrannar hennar ekki verða hrifnir.    Og nýjasta bullið er ráðstefnuhótel í tengslum við aðra álíka útópíu, svokallað menningar og ráðstefnuhús.  Ég hitti fyrir tilviljun í dag aðila sem hefur mikla reynslu af ráðstefnuhaldi.  Hann sagði nánast algjört skilyrði fyrir ráðstefnuhaldi í þéttbýli að þær væru í þægilegu göngufæri við miðbæjar, verslunar og skemmtanakjarna.  Nema í þeim tilfellum þar sem farið væri með fólk á afskekkt sveitahótel.  Hann sagði að sennilega yrði erfitt að selja ráðstefnur á svona stað, jafnvel þó á móti Bessastöðum væri.

Hér er ekki efni til hlutlægrar opinnar gefandi umræðu um miðbæjarskipulagið.  Þarna er einhliða áróðurspési og ekki laust við að maður brosi út í annað þegar manni verður hugsað til margmiðlunardisksins fræga forðum daga.

Finnst fólki þetta ekki góður grundvöllur til sáttar um miðbæjarskipulagið.  Ég held ekki.


Skólabíll sem þekkist á (skíta)lyktinni!

  Á morgnana liggur leið mín um Hafnarfjarðarveginn og um hálf átta þegar ég ek gegn um Garðabæ liggur oft skelfilega vond útblásturlykt í loftinu, þ.e.a.s. þá fáu daga þegar er logn.  Óþefur þessi takmarkaðist við svæðið frá Engidal að Arnarneshæð.  Fljótlega fann ég upptök brælunnar.  Hún kom frá gamalli hvítri rútu sem ekið norður Hafnarfjarðarveginn  á svipuðum tíma og ég var á. 

Þessi gamla rúta er kyrfilega merkt TREX - Hópferðamiðstöðin ...eitthvað og að auki er á henni merki sem auðkenni skólabifreiðar.  Út úr vinstri hlið þessarar rútu stendur útblásturrörið þar sem þykkur dökkleitur reykjamökkur stendur út úr.  Ekki nóg með það að mökkurinn sé þykkur heldur er lyktin svo skelfilega vond að ég man varla eftir öðru eins frá því ég vann á æfagamalli JCB gröfu fyrir einhverjum áratugum síðan. Sú reykti eins og gamall kolatogari.

Stórar bifreiðar eru flokkaðar eftir stöðlum um útblásturmengun.  Staðlarnir eru nefndir Euro-1 - Euro-5 þar sem efsta talan stendur fyrir mestu kröfurnar.  Í einfeldni minni hélt ég að gerðar væru lágmarkskröfur til bíla sem flytja að dýrmætasta sem við eigum, börnin.  Það er greinilega ekki í þessu tilfelli.

Alla vega er þessi bíll til mikilla óþæginda fyrir aðra vegfarendur, hvað þá börnin sem eru flutt í honum.  Væntanlega er þessi aðili í verktöku fyrir einhvert sveitarfélag.  Sá verkkaupi hefur greinilega ekki háan "standard" varðandi skólabörnin svo ekki sé um aðra þolendur talað.


Lýðræðisástin á Álftanesi. Hún klikkar varla!

Umfjöllun fjölmiðla að undanförnu um málefni stjórnsýslunnar á Álftanesi og nú síðast grein sem ég fékk birta í Morgunblaðinu virðist hafa hreyft við mörgum íbúum Álftaness.  Alla vega er ég búinn að fá ófá samtölin, ábendingar og tölvupósta vegna geinarinnar, fjölmiðlar hafa haft samband og Stöð 2 var með fyrstu umfjöllun um málið í gærkvöldi.

Það verður mér æ betur ljósar að mikil ónægja kraumar undir niðri með stjórnsýslu bæjarstjórans á Álftanesi og gassa-ganginn á að kýla miðbæjarskipulagið í gegn á ógnarhraða og helst nýju íslandsmeti, hver veit.   Fram að þessu hefur hann ekki kannast við neina óánægjuraddir og sagt gleiðbrosandi allt vera í himmnalagi.  Hvað hann hefur haft fyrir sér í því veit ég ekki.  Kannski hann geti bent á einhverjar kannanir eða kannski kosningar máli sínu til stuðnings.  Það var fyrst í gær að örlaði á skilningi eitt augnablik í fréttaviðtali Stöðvar 2 en hann afgreiddi það síðan sem einhverja fýlu tapara siðustu sveitarstjórnarkosninga.

Ég vil og get ekki tekið svo stórt upp í mig að segja að almenn óánægja eða almenn ánægja sé með miðbæjarskipulagið eða stjórnarhætti bæjarstjórans.  Hitt er alveg á hreinu að margir eru óánægðir og aðrir mjög óánægðir og það eru ekki bara einhverjir sárir sjálfstæðismenn.  Aldeilis ekki því sumir af þeim sem glöptust á að skrifa undir kröfu Álftaneshreyfingarinnar og Betri byggðar um íbúakosningar og kusu síðan Álftaneshreyfinguna eru jafn hissa, svekktir og sárir með hvernig loforð bæjarstjórans og fylgifiska hafa þróast í andhverfu sína.  Telja því sig hafa verið plataða upp úr skónum svo ekki sé nú fastar að orðið kveðið.  

Ég hvatti í grein minni fulltrúa Álftaneshreyfingarinnar til að sýna nú lýðræðisást sína í verki og efna til íbúakosninga um þær tillögur sem fyrir liggja.  Ekki var hún lítil þessi ást þeirra á lýðræðinu fyrir kosningarnar.  Þá stóð efst á blaði að setja skyldi reglur um íbúakosningar.  "Látum íbúana kjósa um ásýnd miðsvæðisins" klifuðu þeir fyrir kosningar.  Hvað hefur breyst.  Er lýðræði eitthvað sem tekið er ofan af hillu á tyllidögum eða á það að vera lifandi og virkt.

Hlutirnir gerast hratt þessa dagana og því geri ég þessi orð eins frambjóðanda Álftaneshreyfingarinnar fyrir síðustu kosningar að mínum:  

"...Við skulum átta okkur á því, Álftnesingar góðir, að eftir nokkrar vikur er hætt við að þetta skipulag verði orðið að veruleika. Byrjað verði að grafa og steypa og við sitjum uppi með umhverfisslys hér á fallega nesinu okkar. Tökum höndum saman, látum í okkur heyra ..."Miðbæjarmúrinn" má ekki verða að veruleika!" 

Kannski þetta eigi við í dag líka.  Dæmi hver fyrir sig. 


Álftaneshreyfingin: Hvar eru fögru fyrirheitin?

Mér líður seint úr minni þegar ég sá franska bóndakonu sitja með stóra aligæs sem klemmd var í klafa hafandi sett trekt upp í kok fuglsins.  Trektin sú arna var fyllt kornstöppu.  Stöppunni  tróð síðan kerlingin ofan í fuglinn með rekaldi einu sem smellpassaði í kok fuglsins.  Allt var þetta gert til að fá ofurstóra lifur þegar gæsinni yrði slátrað. 

Mér og fleiri Álftnesingum líður eins og umræddri gæs.  Bæjarstjórinn, Sigurður Magnússon, komst með fulltingi fulltrúa Álftaneshreyfingarinnar fyrir rúmu ári í þá draumastöðu og taka kjósendur klafataki og treður núna gegnum trektina ofan í kokið á okkur arfavitlausu rugli sem hann kallar metnaðarfulla uppbyggingu miðsvæðis. 

Forsöguna ættu flestir að þekkja.  Gerð var uppsteit og safnað undirskriftum vegna skipulags sem samþykkt var í fyrri bæjarstjórn á síðasta ári.  Því var fundið allt til foráttu og gert tortryggilegt á allan hátt.  Ótrúlegustu sögum var komið á kreik upp um meinta spillingu og alls kyns annarlegar hvatir þáverandi bæjarstjóra og bæjarfulltrúa Sjálfstæðisfélagsins.  Þessum sögum (rógburði) var dreift frá manni til manns og síðan vísuðu frambjóðendur Álftaneshreyfingarinnar óspart í þessar sögur með hálfkveðnum hætti m.a. í greinaskrifum og áróðursbæklingum  Þar vantaði ekki fögru fyrirheitin eins og neðangreind dæmi sýna í skrifum Sigurðar Magnússonar þá frambjóðanda Álftaneshreyfingarinnar  en núverandi bæjarstjóra í málgagni hreyfingarinnar fyrir kosningar:

1.        ,,Álftaneshreyfingin hafnar gamaldags stjórnsýslu og verktakapólitík um að byggja mikið og hratt, eins og rekin hefur verið á Álftanesi."

2.        ,, Álftaneshreyfingin vill hinsvegar fá fleiri tillögur og gefa íbúunum kost á að velja úr ólíkum lausnum og koma með sínar hugmyndir."

3.        Við skorum á hinn almenna íbúa að taka undir kröfuna um íbúakosningu vegna miðsvæðisins, ekki síst fylgjendur D-listans sem margir hafa sömu sýn á skipulagsmálin og við sem styðjum Álftaneshreyfinguna. Látum íbúana kjósa um ásýnd miðsvæðisins."

4.       ,,Við viljum lágreista, vandaða húsagerð, þjónustu sem er sniðin að þörfum lítils samfélags og í samræmi við óskir íbúanna. Mikilvægt er að skapa samstöðu um þessa uppbyggingu."

Þessi fögru fyrirheit  Sigurðar virðast gleymd í dag.  Hvað er annað að gerast í skipulagsvinnunni en gamaldags „hér ræð ég" pólitík í bland við hagsmuni verktaka sem virðast beita bæjarstjórn mikilli pressu.  Hvað varð um íbúalýðræðið?  Einn kynningarfundur og öll umræða í skötulíki.  Meira að segja fær skipulags- og byggingarnefnd  ekki að taka þessar tillögur til efnislegrar umræðu fyrr en 4. okt. s.l.  Halló, halló, hvað er að gerast hér? 

Förum yfir málið.  1.  Við höfum í dag samþykkt deiliskipulag af miðsvæði.  2.  Efnt var til verðlaunasamkeppni.  Ein tillaga hlaut samdóma álit dómnefndar til fyrstu verðlauna.  Almenn samstaða virtist vera um hana.  3.  Á grundvelli hennar var verðlaunahöfunum gert kleyft að útfæra hugmyndina til alvöru deiliskipulags.  Það hafa þeir gert en gallinn á núverandi tillögu þeirra er að búið er að gjörbylta hugmyndinni frá upphaflegri verðlaunatillögu fyrst og fremst með því að  auka byggingamagn og kúvenda umferðarskipulagi. 

Þá erum við í raun með þrjár tillögur sem almenningur á Álftanesi mætti taka afstöðu til.  Ég legg til að Álftnesingar fái að kjósa í almennum kosningum um þessar þrjár tillögur.  „Látum íbúana kjósa um ásýnd miðsvæðisins" klifaði núverandi bæjarstjóri á fyrir rúmu ári síðan.  Látum hann standa við stóru orðin.  KJÓSUM!

Að síðustu:  Skipulag miðsvæðisins er mikið hitamál og var lagt undir af hálfu Sjálfstæðisfélagsins í síðustu sveitarstjórnarkosningum.  Þar féll þáverandi meirihluti á þrem atkvæðum.  Þrem atkvæðum!  Fulltrúar Álftaneshreyfingarinnar kusu að túlka kosningarnar sem svo að hverfa ætti frá samþykktri skipulagstillögu og efndu  til arkitektasamkeppni.  Lái þeim hver sem vill.  Með sömu rökum mætti þá líka ætla að hinn helmingurinn hafi verið sáttur við skipulagið.  Ég skynja mikla og nokkuð almenna óánægju með framgöngu bæjarstjórans og fylgifiska hans í þessu máli.  Ég vísa því beint til orða hans í dreifibréfi sem borið var í hús fyrir síðustu kosningar:  Mikilvægt er að skapa samstöðu um þessa uppbyggingu."  Það voru orð að sönnu.  Er það ekki verðugt verkefni hans eimmitt nú?

Þessi grein birtist einnig í Mbl. í dag. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband