Sunnudagur, 30. nóvember 2008
Okkur vantar snjó!
Þessi örsmáu litlu korn lifa yfirleitt ekki nema nokkra klukkutíma, mesta lagi, stundum er ævi þeirra talin í mínútum. Þau sem ekki falla fyrir yfirfrostmarksveðurstofukríslandshitastigi eru strádrepin af saltspúandi vegaskriðdrekum og viðhalda þannig pækilsöltuðu malbikinu af stakri samviskusemi.
Hefur einhver smakkað nætursaltað malbik?
Þetta andskotans svartnætti kríslands er hundleiðinlegt. Minnkum myrkrið, meiri snjó, meiri snjó.
Hann er líka atvinnuskapandi. Er það ekki gott hjá okkur íbúum Kríslands?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 26. nóvember 2008
Geir og Ingibjörg. Takið nú saman höndum með íslenskri þjóð og komið í veg fyrir óöld og óeirðir.
Það stefnir í óefni. Mótmæli almennings munu halda áfram og af enn meiri krafti en áður. Boðuð mánudagsmótmæli verða sérlega viðkvæm. Einfaldlega að þau eru haldin á fullveldisdag íslensku þjóðarinnar, þjóðar sem er niðurlægð, hrædd og reið. Þetta í bland við óbilgjarna, veruleikafirrta stjórnarfrúr og -herra eru fjandi góður kokkteill til vandræðaástands, jafnvel óeirða. Afleiðingar þess vill enginn hugsa til enda.
Hvað er þá til ráða? Sú venja hefur skapast að ráðherraparið Geir og Ingibjörg hafa haldið fjölmiðlafundi síðdegis á föstudögum, væntanlega til að róa og sefa fólk niður fyrir laugardagsmótmælin. Því miður hafa þessir fundir gengisfallið í seinni tíð og innihald þeirra mun minna en umbúnaðurinn gefur til kynna. Borgarafundurinn á mánudagskvöldið gaf tóninn. Þar hljóta þau að hafa gert sér ljóst hversu djúprist óánægjan er. Óásættanlegt var að mæta þeim sjónarmiðum sem þar komu fram með drambi og hroka líkt og sumir ráðherrana gerðu sig seka um í svörum sínum til fundarmanna.
Nú þarf að draga stóru trompin fram úr erminni. Lýsa þarf yfir eftirfarandi:
- Stjórn og yfirmenn FME sé leyst frá störfum. Annað tveggja sváfu menn þar á verðinum eða notuðu ekki rétt mælitæki, t.d. í álagsprófum bankanna.
- Stjórn og bankastjórn Seðlabankans sé leyst frá störfum. Ekki þarf að fjölyrða um þau hörmulegu mistök sem þar hafa átt sér stað. Ekki gengur að einn bankastjórana sér jafnframt á fullu í pólitíkusum slag.
- Tafarlaust fari fram alvöru uppstokkun í yfirstjórnum bankanna þriggja. Ekki er ásættanlegt að sama fólkið sé þar við stjórnvölinn á var í gömlu bönkunum. Byggja þarf upp traust að nýju. Til þess þarf að skifta um fleira en húsgögn.
- Forsætisráðherra þarf að tilkynna að gengið veriði til kosninga á vormánuðum (maí eða júní).
- Gera þarf tafarlausa gangskör að fá erlenda sérfræðinga að rannsaka meinta sviksemi og siðferðisbrot stjórnenda bankana og eiganda þeirra.
- Skipuð verði nefnd sem skila ætti tillögum um endurreisn hins Nýja-Íslands ekki síðar en í lok janúar. Nefndina skipi rektorar Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Akureyri og Viðskiptaháskólans Bifröst. Nefndin fái algjörlega frjálsar hendur til verksins, rúman fjárhag og geti þess vegna kallað til alla þá sérfræðiaðstoð sem þörf verður á.
Liðir 1-4 eru algjört skilyrði fyrir því að geta róað það ástand sem hér hefur skapast. Ég mun aldrei mæla með ofbeldi eða skemmdarverkum en bendi á að mjög lítið þarf til að breyta friðsömum fundi í hreina skelfingu. Látum það ekki gerast.
Ábyrgðin er ykkar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir Hilmar Haarde. Fyrst og síðast eruð það þig sem getið. Til þess þarf áræði, vit og kjark.
Þriðjudagur, 25. nóvember 2008
Hver hinn innri maður forsætisráðherrans?
Þegar hann uppgötvar að fréttamaðurinn spyr hann krefjandi óþægilegrar spurningar breytist viðmótið. Pirringur sést og þegar hann á ekki til svar bregst hann illa við og veit af reynslu að sókn er besta vörnin. Því ræðst hann á fréttamanninn G.Pétur og frávarpar vandræðum sínum yfir á hann. Þetta er vissulega vel þekkt aðferð í sjálfsvörn og rökþroti. Það er því hægt að virða GHH það til vorkunnar að hann er mannlegur og bregst við á mannlegan hátt þegar hann kemst í þrot og kann ekki svar við beittri spurningu G.Péturs.
Að sjálfsögðu átti þetta erindi við þjóðina. Voru þeir ekki báðir í vinnu hjá henni. Er ekki hlutverk forsætis að kunna skil á þeim atriðum sem þarna var spurt um og geta svarað fyrir það. G.Pétur var líka í vinnu hjá þjóðinni. Honum bar að rækja fréttamannsstarf sitt af trúmennsku og kostgæfni og veita stjórnvöldum aðhald með beittri opinni upplýstri umræðu sem varpaði ljósi á raunverulega stöðu mála. Mistök G.Péturs liggja fyrst og fremst í því að birta þetta ekki fyrr. Þó er betra seint en aldrei.
Sérstaklega á þessum umbrotatímum. Þar skiptir miklu persónustyrkur og persónugerð þeirra er með völdin fara. Það sem GHH sýndi þarna var langt frá því að vera viðeigandi af manni í hans stöðu. Í þeirri naflaskoðun sem öll þjóðin þarf nú að ganga í gegn um skal allt upp á borðið. Þetta líka. Því betur sem brotin raðast upp í heildarmyndinni mun þessi skoðun gefa okkur tækifæri á endurmati, endurskoðun gilda, framtíðarsýnar og markmiða. Til þess er sagan að hægt sé að læra af henni.
Krafa um að viðtali við Geir verði skilað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 24. nóvember 2008
Svo sannarlega sjálftökusamfélag
Mitt mat er að kvótakerfið sé í eðli sínu ekkert annað en upptaka gamla lénsveldisins. Byggðir landsins hafa sviðnað undan þessu óréttláta kerfi sérhagsmuna. Þorpin við sjávarsíðuna eru í góðri kreppuæfingu. Fólkið þar er nú þegar búið að upplifa kreppu. Kreppu tilorðinni af því að lénsherrann seldi kvótann burtu. Enga björg var að fá, atvinnan farin, eignir verðlausar
og sjálfsmyndin brotin. Víða situr fólk í verðlausum húsum sínum og fær sig hvergi hrært. Litla vinnu að hafa nema rétt til að skrimta. Þetta fólk hefur ekki sett Ísland ehf á hausinn.
Nú þegar ríkið hefur í raun eignast mestallan kvótann gefst kærkomið tæifæri til að stokka kerfið upp. Ekkert annað en opinber útboð koma til greina. Vissulega má binda aflaheimildir að hluta til við landshluta ef mönnum sýnist svo. Grunnurinn verður að vera á að veiðar og nýting sé arðbær.
Það er hún ekki í dag þegar skuldir útgerðarfyrirtækjanna nema margfaldri ársveltu.
Kvótakerfið varðaði veginn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 24. nóvember 2008
Viðbrögð Birnu bankastjóra gera ekkert annað en staðfesta frásögn Agnesar Bragadóttur
"....er augljóst að þagnarskylda var brotin og bankinn mun grípa til viðeigandi aðgerða þar að lútandi". Þarf frekari vitna við. Ég held ekki. Öll gögn styðja frásögn Agnesar af sukkinu og svínaríinu sem viðgekkst í þessum banka. Ef banka skyldi kalla. Hér er um svo alvarlegt athæfi að ræða gagnvart öðrum viðskiptavinum Glitnis að bankaleyndinni af þessu þarf að létta. Núna strax. Er fólk ekki að átta sig á að hér höguðu svokallaðir "bissniessmenn" og "útrásarvíkingar" eins og ótíndir Nígeríusvindlarar.
Og alltaf flýtur óhroðinn upp. Nú síðast fréttir af peningaþvættismáli starfsmanns Virðingar. Í fréttum kemur fram að starfsmaðurinn hafi notað trúnaðarupplýsingar til að hagnast persónulega og notað fyrirtækið eins og peningaþvottavél. Auðvitað koma svona mál alltaf upp öðru hverju. Það sem gerir þetta mál verra eru fjölskyldutengsl hans við forstjóra Virðingar (bræðrasynir) og við forstjóra Kauphallarinnar en starfmaðurinn er sonur Þórðar kauphallarforstjóra. Að auki blandast bróðir hans inn í málið en hann starfar hjá öðru verðbréfafyrirtæki.
Nú er gott og blessað að lögreglan hafi hendur í hári þeirra sem ljúgja og svíkja. Í þessu tilfelli talað um hundruðir milljóna. Lögreglan gengur þarna vasklega fram og handtekur og húsleitar eins og þörf er á.
Í ljósi þessa er mér alveg óskiljanlegt hvernig í veröldinni stendur á því að enn skulu þeir glæpasnúðar sem komu okkur, heilli þjóð, á kaldan klaka enn ganga enn lausir. Þar erum við ekki að tala um neinar hundruðir milljóna, nei, þúsundir milljarða. MILLJARÐA!!! Hvers konar aumingjadómur er það að ganga ekki strax í verkin. Þessir menn eiga að sjálfsögu að vera í gæslu á meðan mál þeirra eru rannsökuð.
Þar á bankaleynd ekki við. Ég gef skít fyrir hana þegar ég og aðrir saklausir íslendingar þurfa að blæða og borga fyrir þessa svindlara.
Glitnir semur nýjar lánareglur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 22. nóvember 2008
Ekki meir, ekki meir........Geir
Þriðjudagur, 18. nóvember 2008
11. gr. laga nr. 36/2001
Minntist DO ekki á ákvæði þessarar greinar? Skrítið. Greinin fjallar um heimild Seðlabankans um að gera lánastofnunum að leggja ákveðið hlutfall innlána á sérstakan bundinn reikning í Seðlabankanum. Stundum kölluð bindiskyldan. Hún er annað af tveimur stjórntækjum bankans á efnahagsmálum. Hitt eru vextir. Eins og allir þekkja var því stjórntækinu óspart beitt. Hvers vegna beitti DO ekki bindiskylduákvæðinu til að hafa þennan bráðnauðsynlega hemil á útþenslu bankanna?
Manni er spurn. Svo vogar þessi maður sér að mæta með smjördósinar, nei -föturnar og sletta á allt og alla. Allir eiga sök nema hann. OMG, hversu háu stigi getur veruleikafirringin náð. Hann hagar sér eins og illa uppalin frekur krakki í barnaafmæli.
Annað tveggja er maðurinn galinn eða þá að hann er að undirbúa brottför sína úr "pólitík" og bankanum með hvelli, miklum hvelli.
Hvisssss....baaang.
Farinn!!!
Fjölmiðlar í heljargreipum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sunnudagur, 16. nóvember 2008
Ný gildi - Ný viðmið - Nýja Ísland
Undanfarnar vikur hafa verið þær viðburðaríkustu í lífi íslensku þjóðarinnar síðan lýðveldið var stofnað 1944. Þrátt fyrir duglega og kraftmikla þjóð kom í ljós að mörg af gildum okkar voru á sandi byggð og margar meinsemdir hrjáð þjóðarlíkamann. Mein sem við höfum oftar en ekki afgreitt með fullkominni afneitun. Hverju er um að kenna verður manni spurnarefni. Var það minnimáttarkennd - þjóðernisremba, þið vitið -How do you like Iceland- syndromið eða var það eitthvað annað. Ekki get ég dæmt um það. Hitt er ljóst að hægt og bítandi hafa þessi mein vaxið og dafnað og étið okkur innanfrá. Tvö dæmi:
Verðtrygging var sett á í kjölfar óðaverðbólgu áttunda áratugarins, ekki sem lausn á vanda heldur sem plástur á mein. Ekki var gerð minnsta tilraun til að lækna það heldur var lagður sérstakur skattur á þjóðina. Skatturinn er verðtryggingin. Með þessum skatti greiddum við niður kostnað við að halda úti sérstökum gjaldmiðli. Gjaldmiðli sem var eins og eitthvað þjóðartákn, líkt og heilög belja sem ekki mátti snerta og hafði sama status og þjóðfáninn og þjóðsöngurinn. Þetta höfum við burðast með öll þessi ár. Þegar einhver hefur verið svo djarfur að kvarta, þá hefur viðkomandi verið úthrópaður sem landráðamaður. Æðsti prestur þessa trúarhóps hinnar heilögu krónu hefur setið í Seðlabankanum er nú orðinn tákngerfingur um spillingu valdhafanna.
Hitt dæmið er kvótakerfið í sjávarútvegi. Fram til þessara daga má telja þetta einokunarkerfi spillingar og sérhagsmuna eitthvert mesta fjárhagslega umhverfisslys síðan danska einokunarverslunin var aflögð. Fyrir fólkið úti í sjávarþorpunum er "kreppan" eitthvað sem það þekkir af eigin raun. Fólk sem hefur mátt þola fjárhagslegt skipbrot og niðurlægingu þegar sægreifinn seldi lífsafkomu þeirra til hæstbjóðanda. Eftir sat hnípið samfélag í átthagafjötrum, atvinna lítil eða stopul, húsin urðu verðlaus og annað eftir því. Nú er tími til að taka til hendinni í þessari meinsemd. Á þessu sviði sem öðrum þurfum við að moka út úr flórnum. Viðurkenna eign þjóðarinnar á auðlindinni og haga meðferð okkar á henni samkvæmt því.
Nú verðum við að endurmeta gildi okkar, framtíðarsýn og markmið. Viðmiðin hafa breyst og því eigum við kannski ekki bara að tala um Nýja Glitni, Nýja Landsbanka og nýja þetta og nýja hitt. Tækifærið er núna, tökum saman höndum og sköpum hið NÝJA - ÍSLAND.
Fimmtudagur, 13. nóvember 2008
Gálgafrestur Gunnars Páls
Aumingjadómur Gunnars Páls er ótrúlegur. Þetta fer stöðugt að líkjast meir og meir siðferði og atburðarás í Sopranos-þætti en veruleika heiðarlegra kaupsýslumanna. Þarna tekur hann við hverri dúsunni eftir annarri og finnst voða voða gaman að sýna sig í félagsskap stóru strákanna. Strákanna sem notuðu hann til þarfaverka að rétta upp hendi á stjórnarfundum Kaupþings.
Var ekki maðurinn þar til að gæta hagsmun VR og lífeyrisþega? Vandræðalegar útskýringar hans í Kastljósi bentu ekki til þess. Kannski tókst honum betur upp í kvöld.
VR flýtir stjórnarkjöri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 13. nóvember 2008
Reiðina verður að sefa.....núna ef ekki á illa að fara.
Ég held að flestum sé ljós sú mikla reiði sem ríkir meðal almennings. Stjórnvöld virðast halda afspyrnuilla á málum og mál okkar komin í illleysanlegan hnút. Fólk mun safnast saman á Austurvelli á laugardag, hvort sem mönnum líkar betur eða ver. Mjög lítið þarf nú til að upp úr sjóði og allt geti farið í bál og brand. Eignaspjöll, meiðingar eða mannskaðar eru okkur fjarlæg og í huga flestra sem fjarlægar fréttir á sjónvarpsskjám. Hins vegar er málum svo komið að við stöndum frammi fyrir raunverulegri ógn. Óvinurinn er við sjálf. Ég skora á fólk að halda ró sinni en mótmæla af þeim krafti að eftir sé tekið.
Stjórnvöld verða að friða fólk. Fólk sem krefst þess að sökudólgar séu dregnir til ábyrgðar. Bullið í Geir að ekki megi persónugera vandann er í besta falli hlægilegt. Hann og félagar í ríkisstjórn þurfa heldur betur að taka til hendinni og henda út stjórn seðlabankans, stjórn FME auk þess að reynt verði með áþreifanlegum hætti að hafa hendur í hári og eigum þeirra fjárglæframanna sem hér hafa komið heilli þjóð á vonarvöl.
Ríkisstjórn GHH á síðan að leggja fram afsögn samhliða því að óska eftir því að forseti Íslands skipi utanþingsstjórn færustu sérfræðinga (ekki síst í mannlegum samskiptum) og boðað sé til kosninga ekki síðar en um miðjan mars.
Skoðið kjósa.is og leggið lið kröfunni um kosningar.
Máluðu Valhöll rauða í nótt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |