Miðvikudagur, 5. desember 2007
Eru jólin í boði Euro og Visa?
Stundum kvíði ég jólunum. Það stafar fyrst og fremst af því gengdarlausa kapphlaupi sem hefst yfirleitt um miðjan nóvember og lýkur þegar við gúffum í okkur hamborgarhryggnum á aðfangadagskvöld. Þetta er langt og strangt þetta kapphlaup og við keppendurnir eru misjafnlega undir það búnir. Svo er þetta eins í maraþoni, margir viðkomustaðir þar sem brosandi kaupmenn bíða okkar með freistingarnar. "Svona nú, vertu með og fáðu þér eins og allir aðrir" og rétta varninginn fram. Og við glepjumst, kaupum og stingum í pokaskjattann okkar sem reyndar gerir ekkert annað en þyngja okkur á hlaupinu. Svona komum við á einum viðkomustað eftir annan og allt í einu verða flestir hlutir þess umkomnir þess að bráðnauðsynlegt sé að eignumst þá fyrir jólin.
Svo höldum við áfram fram yfir mánaðamótin og nálgumst hægt og bítandi upp á hæsta hjallann sem er að sjálfsögðu nýtt kretitkortatímabil. Vá, æði, ég meikaði það. Og núna liggur leiðin í bili léttar við fæti og enn erum við að bæta freistingunum í pokann okkar á meðan kapphlaupið heldur áfram. Miskunnarlaust í boði VISA og MasterCard og allra kaupahéðnanna sem eiga þessa guði með okkur. Skyldu þeir nokkurn tíma hafa lagt nýfætt barn í jötu?
Þegar við nálgumst endamarkið kemur dofinn og þreytan, ljósin, bjöllurnar, og jólasöngvarnir sem klingt hafa í eyrunum allt kapphlaupið, verða eitthvað svo einsleit og tilbreytingalaus. Eins og við tökum ekki eftir þeim. Og í markinu á aðfangadagskvöld þegar örmagna keppendurnir eiga þessa öruggu árlegu samverustund fjölskyldunnar og búið er að saga allar neðstu greinarnarnar af jólatrénu til að koma þar undir öllum freistingunum, marglitum og lokkandi. Hverjar eru þá hingar raunverulegu gjafir og erum við þá tilbúin að gefa þær eða þiggja þegar okkur eru réttar þær. Kannski tökum við ekki eftir þeim, svo upptekin sem við vorum í kapphlaupinu og nú litskrúðugum gjöfunum.
Jólin sem nálgast eru hátíð ljóssins. Þess ljóss sem mun lýsa okkur inn í komandi vor. Jólin eru hátíð hins nýfædda barns sem lagt var í jötu forðum daga í Austurlöndum. Á jólum gefum við hvort öðru gjafir. Eru þær gjafir bara freistingar í skrautpappír eða eru þær eitthvað annað og meira. Eru það gjafir sem við viljum gefa og þiggja.
Okkar er valið.....eða setja VISAð á örlítið meiri yfirdrátt eftir áramótin.
Athugasemdir
Við höfum öll algerlega frjálst val, hvernig við viljum gera þetta og hvað við viljum gera fyrir þessa hátíð og hvort við látum glepjast af auglýsingum og öðru skrumi. Ég held jól og finnst þau yndislegur tími, en aðaláheyrslan er á rólegheit, ættingjaheimsóknir og smá frí frá vinnu og ég er ekki með kreditkort
Jónína Dúadóttir, 6.12.2007 kl. 07:53
Þetta er í anda kellingar sem sagði.
Sparaðu peninginn, notaðu kortið.
Leifur Þorsteinsson, 6.12.2007 kl. 09:48
Góð færsla. Við höfum val, það er rétt en því miður eru ekki allir það sterkir að þeir láti ekki undan þrýstingi um hitt og þetta. Lesið, skoðið og hlustið á allar þessar auglýsingar sem dynja á okkur, frá í því í byrjun nóvember og vel það !.........kaupa þetta, kaupa hitt, jólagjöfin í ár er þetta eða hitt......eitthvað sem allir verða að eignast.
Tími með ættingjum og vinum er númer eitt, tvö og þrjú hjá mér um jólin....svo að aðra daga ársins, ég bara passa mig extra vel í desember að vera meðvituð um það
Linda Ósk Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 8.12.2007 kl. 22:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.