Færsluflokkur: Bloggar

"Snillingur" í umferðinni.

Þessi „snillingur“ var á ferðinni í Mosó í dag, á Vesturlandsveginum.  A.m.k. 10 metra há tré á vörubílspalli og allt óbundið.  Allt dinglaði þetta fram og til baka tilviljun ein sem réði því að þau féllu ekki á umferð sem kom á móti.  Ég veit hreinlega ekki hvað er hægt að segja um hugarfar þeirra sem þetta stunda.  Það er alla vega ljóst að dómgreindin er ekki að flækjast fyrir.

Háfermi

Fátækt eða ríkdæmi - Spyrjum herra Gini

Það er ótrúlega skrýtið þetta karp um hvort fátækt og mismunun hafi aukist síðustu ár á Íslandi.  Þar hafa farið fremsti í flokki Þorvaldur Gylfason og Guðmundur Ólafsson sem haldið hafa fram auknum ójöfnuði og meiri fátækt en hins vegar Illugi Gunnarsson, Pétur Blöndal auk þess sem Hannes H. Gissurarson sem hefur gjammað hátt að venju hafi einhver óboðinn hætt sér nærri hænsnagerði auðmanna Íslands.  Að auki hefur Stefán Ólafsson verið iðinn við að benda á ójöfnuð af völdum skattbreytinga síðustu ára og hefur málflutningur hans farið sérstaklega í fínustu taugar Hannesar sem virðist missa alla rökhugsun þegar nafn Stefáns er nefnt.

Í þessari deilu hafa menn farið um víðan völl og m.a. fjasað fram og til baka um einhvern Gini-stuðul.  Þetta minnir sérstaklega á deiluna um keisarans skegg en það er sama hvaða fræðikenningum menn sveifla í kring um sig, sá fátæki verður jafn fátækur og sá ríki jafn ríkur hvaða sem fræðikenningin eða hinn eða þessi stuðullinn heitir.  Þessi umræða er orðin svo bjánaleg að engu tali tekur.

Það blasir við öllum sem hafa augun opin og eru í einhverju sambandi við fólkið í landinu og misskipting hefur aukist gífurlega.  Jafnframt verð ég var við mun meiri þrengingar margra minna viðskiptavina nú upp á síðkastið en áður.  Að sama skapi virðast sumir hafa peninga eins og skít.  Vert er að vekja sérstaka athygli á forustugrein Morgunblaðsins um þessi mál frá 24. febrúar.  Þar heyrist skynsamur tónn sleginn í þessar fátækarsinfóníu.


Góður samgöngukostur - að auki holl hreyfing

Frábært blogg hjá Kára Harðarsyni og finnst það eigi skilið athygli.  Líka á það mikið erindi á prent.  Hjólreiðamenn ekki jafn öflugur þrýstihópur og hestamenn sem fengu sett í vegalög að leggja skyldi reiðvegi meðfram þjóðvegum.  Mér finnst það svo sem í lagi ef allir nytu jafnræðis.  Hver ætlar að halda því fram að hross flokkist til samgöngutækja og tóla.  Var það kannski fyrir hundrað árum en ekki lengur.  Hestar eru sport.  Svo einfalt er það.  Á meðan íslenska þjóðvegakerfið er jafn óburðugt og raun ber vitni finnst mér gjörsamlega út út hött að eyða peningum í reiðvegagerð.  Ekki nema hestamenn leggi samsvarandi fjármuni til og bíleigendur.

Hjólreiðar eru hins vegar fyllilega raunhæfur kostur til styttri samgagna.  Til þess hníga öll rök.  Það er umhverfisvænt, hjól taka minna pláss á umferðarmannvirkjum en bílar og svo er mjög heilsusamlegt að hjóla.  Hins vegar er stígakerfi til hjólreiða mjög ófullkomið og sundurslitið og ekki líkt því að að hafi verið hannað til samgagna, heldur til útivistar (reyndar gott mál) eða hreinlega að stígarnir líti vel út á korti.

Ég bý á Álftanesi en vinn í miðborginni.  Hjólaleiðin er rúmlega 12 km sem er ekkert voðalega langt að hjóla.  Af Álftanesinu liggur hjóla- og göngustígur þétt meðfram þjóðveginum en á honum er mjög hröð og hættuleg umferð.  Síðan liggur leiðin norðan Ásahverfis í Garðabæ en við Sjáland slitnar stígurinn í sundur þannig að taka þarf á sig langan krók.  Talsverð töf og óþægindi.  Eftir að komið er fram hjá Sjálandsskóla kemst ég að stíginn aftur og leiðin liggur greið stuttan spotta að Arnarnesi.  Þar þarf að hjóla krókaleið eftir íbúðagötum þar komið aftur á stíginn sunnan Kópavogs.  Sama sagan er í gegn um Kópavog.  Þegar komið er niður í Fossvoginn liggur góður stígur sunnan Öskjuhlíðar og austan flugvallarins, þaðan yfir Bústaðaveg og niður í Hlíðar.  Og viti menn þar hefur verið lögð hjólreiðabraut meðfram Lönguhlíð að Miklubraut.  Frábært en því miður hafa ökumenn eitthvað misskilið málið og bílum er lagt þvers og kruss á stíginn þrátt fyrir góðar merkingar.  Tvisvar hef ég vakið athygli lögreglu á þessu en ekki fannst mér áhuginn mikill á þessu og svarið í seinna skiptið var:  "Hva, þú getur bara skellt þér eftir gangstéttinni.  Er það ekki"?  Nú síðan liggur leiðin yfir Klambratúnið, eftir Rauðarárstíg á á Hlemm og þá er ég svo gott sem kominn til vinnu.  Leiðin er það ógreiðfær og sundurslitin að þetta er ekki raunhæfur kostur á ekki svo langri leið.  Því miður.

Ástand eins og þetta er ekki nokkrum bjóðandi hreint út sagt.  Í ljósi þess að minnka þarf kolefnislosun er þetta ein þeirra aðferða sem gæti orðið mjög virk samhliða öðrum.  Það þarf líka að skapa stemmingu fyrir hjólreiðum og gera þær að eftirsóknarverðum kosti í samgöngum. 


Hvenær er þjófur ræningi?

Mér finnst að íslenskir fjölmiðlamenn noti orðið ræningi og rán í rangri merkingu.  Sagt var frá manngarmi sem staðinn var að því að stela ósamsettu fjórhjóli á ótilteknum stað í Reykjavík.  Sá fannst með hjólið á öðrum stað þar sem hann var að setja það saman.  Þessi maður var kallaður ræningi og hjólið var orðið að ránsfeng!

Hér er  um algeran hugtakarugling að ræða.  Rán er þegar maður/menn ná tilteknum hlut/hlutum með ofbeldi og eða hótunum um ofbeldi.  Atvik eins og lýst er að ofan er þjófnaður og hjólið er þá þýfi.  Svo einfalt er það nú. 


Göldróttir Strandamenn

Frábært hjá ykkur galdrakörlunum á Ströndum.  Innilegar hamingjuóskir með Eyrarrósina.  Þig eruð svo sannarlega vel að henni komnir.  Galdrasafnið á Hólmavík auk Kotbýlis kuklarans er að mínu mati eitthvert mest spennandi og áhugaverðasta safn Íslands í dag.  Einstaklega skemmtileg uppsetning auk þess hvað safnið er lifandi með krúnkandi hröfnum og sjálfum galdramanninum, Sigurði Atlasyni, sem fer á kostum í hlutverki sínu.

Svo er ástæða til að minna á annað safn á Ströndum.  Það er Sauðfjársetrið á Sævangi við Steingrímsfjörð.  Það er vel varið dagsparti að skoða söguna og alls kyns hefðir, siði og venjur sem tengjast sauðfé.  Þetta fer vel í einu mesta sauðfjárræktarhéraði landsins og eitt sem "fjandmenn" sauðkindarinnar mættu athuga:  Hvernig stendur á því að öll fjöll á Ströndum eru grasi gróin upp undir fjallstoppa þar sem þéttleiki sauðfjárins er hvað mestur? 


Rauði rokkarinn enn og aftur

Þá er komin niðurstaða.  Settist niður með fjölskyldunni og horfði á Júróvísjon.  Lögin misjafnlega áheyrileg en tvö af þessum lögum fannst mér bera af; "Ég og heilinn minn" og hitt var "Þú tryllir mig".  Virkilegir hittarar og blessunarlega lausir við þessa grautarvellu sem sí og æer borin á borð í þessari keppni.  Yfirleitt hef ég fylgst með þessari keppni og haft gaman af.  Mér finnst líka að þegar lög sem virkilega skera sig úr fjöldanum hafi sópað að sér atkvæðum, sbr. þungarokkið hjá Lordi.  Frábært lag og mögnuð umgjörð.  

En það var semsagt rauði rokkarinn sem kom fra Norge, sá og sigraði.  Ég er mikill aðdándi Eíríks Haukssonar en það sem flutti okkur í kvöld var ekki gott.  Langt frá því.  Ég ætla að leyfa mér að spá einu af neðstu 5 sætunum í undankeppninni í vor.  Því miður.  Ég leyfi mér að efast um að tónlistarsmekkur okkar íslendinga sé í takt við það sem almennt gerist í Evrópu.  Það sjáum við mjög vel á atkvæðagreiðslum Íslands í aðalkeppnum undanfarinna ára.

En svo fór sem fór.  Eiríkur stendur alltaf fyrir sínu en hráefnið sem hann þarf að vinna úr er einfaldlega ekki nægilegt til árangurs.

Næst legg ég til að við höldum glæsilega keppni eins og tvö síðustu ár en atkvæði almennings gildi að hálfu á móti völdum einvaldi, t.d. Þorvaldi Bjarna.

Síðast en ekki síst var stóri sigurvegari þessara kvölda:  Ragnhildur Steinunn.  Glæsileiki, fágun og einstæð útgeislun gera hana að stjörnu.  Stórstjörnu! 


Afsakið orðbragðið en....

...en mér bæði var og er virkilega mikið niðri fyrir í síðustu bloggfærslu.  

Í fullvissu þess að kjósendur séu fífl - "Þjóðarsátt" Framsóknar

Þessi kosningagjörningur Jónínu og Jóns er með þvílíkum ólíkindum að manni var fyrstu dagana hreinlega orðfall.  Að kalla þetta þjóðarsátt ber vott um mikið dómgreindarleysi og fullvissu þess að kjósendur séu almennt fífl.  Meiru átti ég þó von á frá Jónínu sem ein fárra framsóknarmanna sem einhverju ljósi stafar enn frá.  Sorrý, þarna slokknaði sú týra.

Að setja fram einhverja áætlun um hvað eigi að gera þegar við erum búin að virkja allt sem hægt er að virkja og sóa orkunni í álver á Húsavík, álver í Helguvík, álversstækkun í Straumsvík og guð má vita hvað.  Eru þessi framsóknarmenn og alóðir - fyrirgefið mér - réttara að segja álóðir?

Svo mikinn fnyk leggur af þessum gjörningi að kjósendurnir eru lagðir á flótta.  Þótt fífl séu þekkja þeir þó alltaf dauninn. 


Misheppnað skúbb eða hvað?

Í dag gaf ofurbloggarinn og leiðtogi Íslands í dag, Steingrímur Sævarr,  okkur til kynna á bloggi sínu að flett yrði ofan af stórskandal í Unglingaheimilinu í Kópavogi (sem var og hét).  Að sjálfsögðu plantaði maður sér framan við kassann og viti menn:  Fréttin byggðist upp á viðtali við fyrrverandi starfsmann sem fréttamaðurinn Sölvi Tryggvason reyndi eftir bestu getu að leiða inn á réttar slóðir og spurði ítrekað um meintar misþyrmingar á vistmönnum þar.  Viðmælandi gat raunverulega ekki svarað neinu beint, hann hafði ekkert misjafnt séð nema dreng sem löggan kastaði inn og átti að hafa misþyrmt í bíl.  Allt sem manngreyið hafði fram að færa voru óljósar sögusagnir, hafðar jafnvel eftir þriðja aðila.  Sérhvert var nú skúbbið!

Ég veit hreinlega ekki hvað þeim Stöðvar2 mönnum gekk til þarna.  Að setja fram einhverja frétt með svona slökum rökstuðningi, hvað þá ef þær eru einungis byggðar á frásögn þessa fyrrum starfsmanns, er með öllu óskiljanlegt.  Viðtalið varð fyrir vikið sérlega vandræðalegt og var hvorki fugl né fiskur.  Nú er ég ekki að segja að ekkert misjafnt hafi gerst þarna.  Síður en svo.  Það er hlutur sem ég hef ekki hugmynd um.  En þarna voru menn ekki að vanda sig meira og koma fram  með skýra og klára hluti.  Allt annað var upp á teningnum í umfjöllun DV og Kastljóss á Breiðavíkurmálinu.  Þar var fagmannlega staðið að verki.  

Nei Steingrímur.  Á morgun verður að vera meira kjöt á beinum til að mark sé á takandi! 


Eiga svona menn að hafa ökuréttindi?

Hvað skyldi þurfa til að menn, stjórnendur fyrirtækja, yfirvöld, ökumenn og aðrir sem koma að rekstri stórra bifreiða, fari að ganga tryggilega frá farmi.  Atvik eins og þetta gerast ekki af sjálfu sér.  Alls ekki.  Málið er afskaplega einfalt.  Það hefur ekki verið gengið frá farminum eins og skylt er.  Þetta gerist ekki öðruvísi.  Frá fyrstu hendi hef ég þær upplýsingar að litlu hafi munað að pallurinn félli á aðvífandi bíl.  Svona atvik eru að gerast sí og æ.  Þarf stórslys til að koma vitinu fyrir menn?

Samtök verslunar og þjónustu geisuðu um það í Morgunblaðinu í síðustu viku að reglugerðin um frágang farms væri ónýt.  Því er ég ekki sammála þó margt í henni megi bæta.  Hins vegar mega menn ekki alltaf skýla sér á bak við óskýrar reglur.  Það til nokkuð sem heitir heilbrigð skynsemi.

Henni mætti gjarnan beita oftar.

Svo er spurningin:  Er réttlætanlegt að ökumenn sem eru tilbúnir að leggja samborgara sína í stóra lífshættu eigi að vera með réttindi til að aksturs stórra bíla?


mbl.is Mildi að ekki varð stórslys á Vesturlandsvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband