Færsluflokkur: Bloggar

Réttlætiskennd misboðið, ótrúleg niðurstaða dómara.

Marga skrítna dóma hefur maður sé en þessi toppar það alveg.  Dóminn í heild sinni er hægt að lesa hér á dómstólar.is.  Einnig er hér að neðan rökstuðningur dómsins, ef rökstuðning skuli kalla.

        "Brot ákærða er talið varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að mati dómsins er óumdeilt að háttsemi ákærða var til þess fallin að særa blygðunarsemi Y. Til þess að unnt sé að sakfella ákærða fyrir brot á nefndri 209. gr. þarf háttsemin að vera lostug af hans hálfu. Í greinargerð með frumvarpi til breytingar á almennum hegningarlögum sem varð að lögum nr. 40/1992 segir svo m.a. svo: ,,Af nýjum sérákvæðum í 200.--202. gr., sbr. 8.--10. gr. frumvarpsins um kynferðislega áreitni, leiðir hins vegar að undir 209. gr. fellur nú fyrst og fremst ýmiss konar háttsemi önnur en káf og þukl á líkama, t.d. gægjur á glugga, berháttun og önnur strípihneigð, klúrt orðbragð í síma.“ Þetta bendir ótvírætt til þess að með lostugu athæfi sé átt við háttsemi af kynferðislegum toga sem er til þess fallin að veita þeim sem slíka háttsemi hefur í frammi einhverja kynferðislega fullnægju. Ekkert bendir til þess að svo hafi verið í tilfelli ákærða. Eru því ekki efni til að sakfella hann fyrir brot gegn nefndri 209. gr. almennra hegningarlaga".

Þetta er ekki boðlegt.

Alls ekki!


mbl.is Sýknaður af ákæru fyrir að taka mynd af naktri konu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf ekki að huga betur að örygginu?

Þetta Heiðmerkurmál virðist líta út eins og algert klúður frá upphafi.  Ekki verður forsagan rakin hér því annars staðar hefur verið gerð rækileg grein fyrir henni.  Svæðið er mjög viðkvæmt og vegir ekki gerðir fyrir stóra þunga bíla.  Tvö óhöpp með stuttu millibili segja allt sem þarf. 

Öryggismálin þarf að taka til rækilegrar endurskoðunar.


mbl.is Vörubíll með fullfermi valt í Heiðmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dramatík í Stykkishólmi

Það var æsispennandi leikur í Hólminum í kvöld þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en á síðustu sekúndunum.  Mikil spenna, hraður leikur og mörg mistök.  Um tíma hélt ég að Hólmarnir væru að glutra þessu niður.  Klárlega þeirra lakasta vörn í langan tíma.

Næst er að vinna KR heima og taka þar með forustuna í einvíginu.  Draumastaðan er að Snæfell og Njarðvík eigist við í úrslitunum, tvö bestu lið landsins í dag. 

Mitt gamla hólmarahjarta slær alltaf með Snæfelli.  Gangi þeim allt í haginn. 


mbl.is Snæfell vann í æsispennandi leik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

....að kveða burt snjóinn - það getur hún

Þá er hann kominn, fuglinn, sem flestir íslendingar tengja við vokomuna.  Þessi fugl sem þjóðin elskar umfram aðra fugla og á sér þennan sérstaka sess í þjóðarsálinni.  Íslendingar flokkar fugla líka niður í góða fugla og slæma.  Þeir slæmu eru oftast þannig gerðir að röddin er rám, ekki hægt að éta, og þeir ógna á einhvern´, oftast óskilgreindan, hagsmunum okkar mannanna.

Suma fugla borðum við með bestu lyst, aðra ekki.  M.a. borðum við ekki lóuna því hún er svo "ljúf og góð" og er vorboðinn okkar ljúfi.  Þannig er ekki farið með frændur okkar Íra.  Þegar lóan flýgur að hausti frá "ísa köldu landi", tyllir sér til hvíldar á eyjunni grænu, þá fara veiðimenn á stjá og skjóta ógrynni af lóum sem þykja þar herramannsmatur og sama gildir um flest þau lönd sem lóan á vetrardvöl í.

Einhver tíma minnti einhver á hvort við mættum ekki nýta þessa náttúruauðlind eins og aðrar.  Vera svona sjálfbær eða þannig!

Ef ég man rétt varð allt vitlaust.

Af hverju?


Virðing Hæstaréttar

 

Lagaprófessor emeritus, Sigurður Líndal, skrifar athyglisverða grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann þakkar ritstjóra Morgunblaðisins þann heiður að leggja fyrsta hluta Reykjavíkurbréfs s.l. sunnudag undir hugleiðingar sínar um aðkomu hæstaréttardómarans, Jóns Steinars Gunnlaugssonar, að Baugsmálum.  Þar hafa ásakanir gengið á víxl milli dómarans og Ingibjargar Pálmadóttur um frumkvæði Jóns Steinars og skjólstæðings hans, Jóns Geralds, að upphafi Baugsmálanna. 

Ég hef lítil  kynni Jóni Steinari og þau litlu kynni voru af góðu einu.  Mér kom hann fyrir sjónir sem réttsýnn mannasættir sem öllum vildi vel.  Fljóthuga og skjótráður sem sennilega er hans stærsti galli.  Að gefa sér ekki tíma til íhugunar áður en gripið er til vopna og maður og annar veginn.

Í þessu máli sýnist mér að þarna hafi hann svipt af sér skikkju dómarans og undir henni verið í búningi vígamannsins sem höggur í fljótræði.  Lögmaðurinn fyrrverandi hafi gleymt því það hann er í breyttu hlutverki, hlutverki hæstaréttardómarans, dómarans sem skal hafinn yfir daglegt orðaskak og hjaðningavíg.  Það efast varla nokkur maður um lögfræðilega hæfni Jóns Steinars og reynsla hans er mikil.  Því miður virðist vera að þarna hafi skert dómgreind borið kosti hans ofurliði.

Hæstiréttur má ekki við að virðingu hans sé meira misboðið en orðið er. Grein Sigurðar um þetta efni má öllum vera holl lesning.


Öðruvísi mér áður brá.....

Ja hérna, er þetta ekki aðferðin sem íslenzkir kaupahéðnar hafa notað leynt og ljóst bæði í skráðum sem óskráðum félögum.  Ef þetta leggst til refsingar almennt þarf þá ekki snarlega að byggja nýtt fangelsi, stórt?

Kannski má leigja 5 stjörnu hótel fyrir sem fangelsi.

Væri það ekki við hæfi?


mbl.is Spilling á hæsta stigi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íbúalýðræði hverra?

Nú þegar tæp vika er til kosninga innmúraðra og innvígðra Hafnfirðinga um stækkun álverksmiðjunnar í Straumsvík er hollt að staldra við og líta yfir völlinn.  Þessar kosningar eru kallaðar íbúalýðræði.  Þá spyr ég:  Íbúalýðræði hvers?  Er þetta íbúalýðræði Álftnesinga sem búa hinu megin fjarðarins og eru á svokölluðu þynningarsvæði verksmiðjunnar að láta Hafnfirðinga um sitt íbúalýðræði?  Er þetta íbúalýðræði fólks á höfuðborgarsvæðinu sem hefur sína afkomu, beint eða óbeint, af álverinu?  Er þetta íbúalýðræði Sunnlendinga sem þurfa að sæta skerðingu á land og lífsgæðum vegna virkjana í Þjórsá?

Svona ákvörðun verður að taka í sátt við íbúa þessara svæði hvort heldur lífsgæði og afkoma þeirra rýrnar eða batnar.

Að síðustu vil ég vekja athygli á kynningarfundi í hátíðarsal Íþróttamiðstöðvarinnar á Álftanesi kl. 20:00 í kvöld þar sem fulltrúar málsaðila munu kynna sig og sín mál.  Það er ástæða til að mæta og láta skoðanir sínar í ljós.


Íbúalýðræði á Álftanesi í orði en ekki á borði

Fyrir rúmu ári, rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar, lá fyrir samþykkt skipulag svokallaðs miðsvæðis á Álftanesi.  Vegna þessa skipulags urðu miklir flokkadrættir þar sem margir andstæðingar skipulagsins fóru hamförum, fundu þessu skipulagi allt til foráttu, töluðu um pólitíska spilllingu, mannfjandsamlega háhýsabyggð og nánast allt í skipulaginu var þeim andsnúið.

Hér gengu menn fram af fáheyrðri hörku og efnt var til undirskriftarsöfnunar meðal íbúana.  Þessi söfnun undirskrifta var vægast sagt með óvenjulegum hætti, þ.e. notuð var maður á mann aðferðin þar sem mjög var lagt að fólki að skrifa undir.  M.a. var þrisvar sinnum komið á mitt heimili og miklum þrýstingi beitt til að fá okkur til að skrifa undir.  Talað var um íbúalýðræði, ýjað að meintri spillingu bæjarstjóra og fulltrúa sjálfstæðisfélagsins í samningum við verktaka.  Ekki gat þetta blessað fólk bent á nein "concret" dæmi því allir áttu þessir samningar að vera leynilegir.  Ja hérna svona baktjaldamakk í reykfylltum herbergjum með dökkþiljuðum veggjum og grænum borðum.  Kunnuglegar aðferðir í rógburði. 

Vissulega skal ég viðurkenna að þetta skipulag hafði galla, galla sem mátti þó auðveldlega breyta án mikillar tilfæringa.  Svokölluð "háhýsabyggð" reyndist vera  3ja hæða húsaþyrping í miðju svæðisins.  Byggðin fór síðan lækkandi út til jaðranna.  Reyndar hef ég aldrei séð gallalaust skipulag og sennilega er það ekki til.  Hvergi.

Sem sagt, mikið var lagt undir og linnulaus áróðurinn gekk yfir bæjarbúa.  Ótrúlega margir gleyptu við þessu, sérstaklega kenningunni um "massíva háhýsabyggð" og sumir trúa þessu enn.  Það virðist því vera að viðkomandi hafi ekki kynnt sér skipulagið.  Á vormánuðum var gengið til kosninga og orðið íbúalýðræði var æ oftar notað.  Kosningarnar skyldu snúast um skipulagið og fólkið skyldi ráða.

Niðurstaða kosninganna var einhver naumur 3ja atkvæða sigur Á-listans ef hægt er að tala um sigur í því sambandi.  Á-lista fólk gekk hratt og skipulega til verks, haldin skyldi arkitektasamkeppni um miðsvæði til tilheyrandi kostnaði, töfum á framgangi málsins, auk þess sem rifta þurfti gerðum samningum.  Samningum sem gerðir höfðu verið á grundvelli samþykkts skipulags.

Nú liggur fyrir niðurstaða úr samkeppninni.  Margar hugmyndir bárust en dómnefndin var einróma í þeirri afstöðu að velja tillögu GASSA arkitekta.  Eftir að hafa skoðað verðlaunatillöguna er mér efst í huga hversu lík hún er núverandi skipulagi, skipulagi sem fyrir ári síðan var algerlega ómögulegt.  Verðlaunatillagan gerir reyndar ráð fyrir mun þéttari byggð auk þessi sem "háhýsunum" þ.e. hlutfalli þriggja hæða húsa eykst nokkuð frá gildandi skipulagi.  

Mér líst vel á þessa tillögu þó hún sé engan veginn gallalaus frekar en annað skipulag.  Þó er fyrst og fremst eitt sem verður að laga:  Krossgatnamót við innkomur á svæðið eru ekki heppileg.  Þarna væri hringtorg mun heppilegara en það lítur kannski betur út á kortinu að hafa þetta svona.

Nú sem sagt liggur þetta fyrir og þá reynir á íbúalýðræði Á-listans.  Á sama hátt og kosið var um gildandi skipulag hlýtur að liggja í augum uppi að íbúarnir fái að kjósa um tillöguna.  Það er sjálfsagður réttur þeirra eftir tekið er mið af því sem á undan hefur gengið.  Þó virðist sem Á-listinn hafi ekki lengur neinn áhuga á íbúalýðræðinu sem allt snerist um fyrir ári síðan.

Það er miður. 


Þenur brjóst og sperrir stél.....

Smára Geirssyni einum helsta forkólfi stóriðjustefnunnar var mikið niðri fyrir í hádegisviðtalinu á Stöð 2.  Þar þandi hann sitt brjóst og sperrti stél og m.a. minnti hann ágætan spyrjanda á yfirlýsingu einhverra Vestfirðinga frá árinu 2003 þar sem þeir lýstu Vestfirði stóriðjulaust svæði og ákölluðu "náttúruverndarsinna" að koma með lausnir á atvinnuvanda þeirra.  Síðan spurði Smári ábúðarfullur:  "Veistu hvað kom út úr þessu?"  Ekki vissi spyrjandinn það þannig að Smári svaraði því sjálfur:  "Ekki neitt, alls ekki neitt".

Vegna þessara orða Smára Geirssonar finnst mér rétt að þarna er ólíku saman að jafna.  Mér hefur skilist að til framkvæmda í hans heimasveit hafi runnið 250 milljarðar króna.  Ætli mætti ekki byggja hressilega upp atvinnu- og mannlíf til framtíðar á Vestfjörðum væru þeim réttar aðrar eins upphæðir í hendurnar.

Það er líka rétt að minnast þess að þau lönd sem hvað mestum árangri hafa náð í sínum efnahags og atvinnumálum undanfarin 10 - 15 ár hafa ekki byggt sína afkomu á hráefnisframleiðslu.  Það hafa þau gert með því dæla fjármunum í menntakerfi og virkjað hugvit og orku fólksins.  Sem dæmi má nefna Írland, Finnland og Malasíu. 

Mér finnast þessi orð Smára Geirssonar lýsa dæmalausum hroka í garð þeirra sem ekki eru tilbúnir að dansa stóriðjuvalsinn hans og þeirra sem ekki eru tilbúnir að selja takmarkaðar orkulindir til þess að hægt sé að framleiða einnota umbúðir. 


Þjóðsöngur Spaugstofumanna

Þjóðsöngurinn er fallegt verk - það er víst.  Hins vegar er hann erfiður í flutningi og vart nema á færi atvinnumanna í söng.  Þetta hefur oft farið í mínar fínustu að geta með engu móti tekið undir á hátíðastundum nema verða mér rækilega til skammar.

Í kvöld fluttu Spaugstofumenn sinn 300. þátt á 18 ára ferli hjá RÚV.  Frægasti þátturinn er efalaust Guðlastarþátturinn þar sem kirkjunar menn fóru á límingunum yfir þeirri ósvífni þeirra og kærðu þá fyrir guðlast.  (Var einhver að minnast á múslima? Ha?)  Í kvöld tóku þeir þjóðsönginn með nýjum texta og efalaust hefur þessi skrumskæling hans farið yfir brjóstið á einhverjum. 

Kannski mega þeir búast við kæru frá vegna brots á lögum nr. 7 frá 1983 en þar segir m.a í 3. gr. laganna:   "Þjóðsönginn skal ekki flytja eða birta í annarri mynd en hinni upprunalegu gerð. Ekki er heimilt að nota þjóðsönginn á nokkurn hátt í viðskipta- eða auglýsingaskyni".  

 Hver veit?

Spyr sá er ekki veit.... 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband