Góðir kallar Saudarnir - eða hvað?

Er þetta einhver frétt?  Er þetta ekki bara það sem einræðisstjórn Saudanna hefur stundað árum saman.  Sjaría-lögin eru álíka villimannsleg og spænski rannsóknarrétturinn var á sínum tíma.  Saddam Hussein bannaði sjaría-lögin og kom á fullum réttindum kvenna til jafns við karlana.  Grimmd hans gagnvart eigin þegnum komst þó aldrei í hálfkvisti við hegðun (sic) Saudanna.  Samt eru þetta bestu vinir G. W. Bush í Miðausturlöndum.  Ótrúlegt að maðurinn skuli velja sér svona vini.

Sá sem á svona vini þarfnast ekki óvina.


mbl.is Dæmd til hýðingar fyrir að hitta sér óskyldan mann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Votta samúð mína

Þá er fyrsta banaslysið í umferðinni á þessu ári staðreynd.  Svona slys eru þungbærari en tárum taki og ég vil votta aðstandendum þess látna samúð mína.

Ótrúverðug Framsókn

Það er athyglisvert að fylgjast með framsóknarmönnunum núna að loknum flokksþingi.  Þar er blásið til sóknar og nú á að spyrna sér upp af botninum.  Ástandið er þannig að allt er betra en það ástandi sem blasir við flokknum.  Formaðurinn virðist smátt og smátt vera að aðlagast hinum íslenska raunveruleika stjórnmálanna.  Meir að segja hefur honum tekist að minnka andlitskækina þegar hann kemur fram í sjónvarpi.  Gott mál það og ímyndarfræðingarnir vinna vinnuna sína.

Það sem vekur sérstaka furðu mína er sú óvænta sýn sem þeir hafa fengið á eignarhaldi á fiskveiðiheimildum.  Ég er svo gamall og búinn að fylgjast með pólítík það lengi að Framsóknarflokkurinn stóð fremstur flokka í því að koma þessu óheillakerfi á, viðhalda því, styðja með ráðum og dáð, koma á framsali aflaheimilda.  Það skulu menn líka muna að þarna voru menn líka að fjalla um sína persónulegu hagsmuni og þá sérstaklega þáverandi sjávarútvegsráðherra og síðar formaður Framsóknarflokksins.  

Þess vegna er falskur tónn í söng Sivjar Friðleifsdóttur og annarra Framsóknarmanna sem vilja nú allt í einu sjá sameignarákvæði aflaheimilda fest í stjórnaskrá.  Stjórnarskrárnefnd hefur verið að störfum að undanförnu þar sem Jón Kristjánsson hefur verið fulltrúi Framsóknar.  Ef sameignarákvæðið er Framsóknarmönnum svona heilagt af hverju stóð þá Jón öndverður gegn því í nefndinni.

Nei, nei og aftur nei.  Halda Framsóknarmenn að kjósendur eldri en tvívetra muni þetta ekki? 

Til að ná spyrnunni upp af botni drullupollsins þurfa menn að vita í hvaða átt yfirborðið er.   


Útrunnin matvæli - Annað sjónarmið

Las áðan athyglisverða grein eftir Guðbrand Sverrisson þar sem hann setur fram annað sjónarhorn á umræðuna um útrunnin matvæli.  Reyndar er ég gjörsamlega ósammála honum en það er fróðlegt að lesa greinina.

Hvað ruslatunna er bezt?

Alltof mörg merki eru um að fátækt sé að aukast í samfélaginu.  Þeir sem ég hef talað við og starfa í félags- og skólamálum eru allir á einu máli.  Gamalreyndur kennari sagði mér að oftar og oftar kæmi sú staða upp að börn frá efnalitlum heimilum gætu ekki veitt sér það sem boðið væri upp á í skólanum þar sem foreldrar þyrftu að leggja út peninga.  Þessi börn einangruðust félagslega og væri mun hættara við einelti o.þ.h.  

Talsverð umræða hefur orðið um það ótrúlega framferði Fjölskylduhjálparinnar að afhenda skjólstæðingum sínum matvæli sem hafa runnið út á dagsetningu.  Að stofnun sem þessi sem væntanlega vill gera sig gildandi í geira félagsaðstoðar nær ekki nokkurri átt.  Ekki batnaði það þegar Ásgerður Jóna Flosadóttir forstöðumaður Fjölskylduhjálparinnar mætti í Kastljósið.  Ég held að spyrjandanum, Jóhönnu Vilhjálmsdóttur, hafi hreinlega orðið orðfall.  Þarf nú samt mikið til að gera hana kjaftstopp.

Við litla sjoppu í miðborginni sá ég nú nýverið roskinn mann sniglast við ruslagámana í portinu á bakvið.  Ég spurði starfsstúlku hvað hann væri að gera.  Hún sagði án þess að blikna að þetta væri einn af þessu vandræðaliði sem rótaði í ruslagámunum í leit að einhverju matarkyns auk þess að safna tómum dósum.

Er þetta ekki eitthvað sem okkar forríka þjóð getur lagað?

Svo deila menn um Gini-stuðul.

Þurfa ekki einhverjir að skammast sín?

Ég bara spyr? 


Rasismi lögreglu? - Fordómar hverra?

Nú er í gangi umræða hér í bloggheimum um meint harðræði lögreglunnar í garð þeldökkrar stúlku s.l. föstudagskvöld.  Þar fara menn mikinn og dæma sleggjudóma í allar áttir vitandi það að lögreglu er óheimilt að ræða tilvik sem varða mál einstakra persóna. 

Að er athyglisvert að sjá viðbrögðin fólks við þessu þar sem fordómar og alhæfingar ráða ríkjum á meðan lögregla (já öll heila stéttin) er sökuð um rasisma, fordóma og fantaskap. 

Já, margur heldur mig sig!


"Snillingur" í umferðinni.

Þessi „snillingur“ var á ferðinni í Mosó í dag, á Vesturlandsveginum.  A.m.k. 10 metra há tré á vörubílspalli og allt óbundið.  Allt dinglaði þetta fram og til baka tilviljun ein sem réði því að þau féllu ekki á umferð sem kom á móti.  Ég veit hreinlega ekki hvað er hægt að segja um hugarfar þeirra sem þetta stunda.  Það er alla vega ljóst að dómgreindin er ekki að flækjast fyrir.

Háfermi

Fátækt eða ríkdæmi - Spyrjum herra Gini

Það er ótrúlega skrýtið þetta karp um hvort fátækt og mismunun hafi aukist síðustu ár á Íslandi.  Þar hafa farið fremsti í flokki Þorvaldur Gylfason og Guðmundur Ólafsson sem haldið hafa fram auknum ójöfnuði og meiri fátækt en hins vegar Illugi Gunnarsson, Pétur Blöndal auk þess sem Hannes H. Gissurarson sem hefur gjammað hátt að venju hafi einhver óboðinn hætt sér nærri hænsnagerði auðmanna Íslands.  Að auki hefur Stefán Ólafsson verið iðinn við að benda á ójöfnuð af völdum skattbreytinga síðustu ára og hefur málflutningur hans farið sérstaklega í fínustu taugar Hannesar sem virðist missa alla rökhugsun þegar nafn Stefáns er nefnt.

Í þessari deilu hafa menn farið um víðan völl og m.a. fjasað fram og til baka um einhvern Gini-stuðul.  Þetta minnir sérstaklega á deiluna um keisarans skegg en það er sama hvaða fræðikenningum menn sveifla í kring um sig, sá fátæki verður jafn fátækur og sá ríki jafn ríkur hvaða sem fræðikenningin eða hinn eða þessi stuðullinn heitir.  Þessi umræða er orðin svo bjánaleg að engu tali tekur.

Það blasir við öllum sem hafa augun opin og eru í einhverju sambandi við fólkið í landinu og misskipting hefur aukist gífurlega.  Jafnframt verð ég var við mun meiri þrengingar margra minna viðskiptavina nú upp á síðkastið en áður.  Að sama skapi virðast sumir hafa peninga eins og skít.  Vert er að vekja sérstaka athygli á forustugrein Morgunblaðsins um þessi mál frá 24. febrúar.  Þar heyrist skynsamur tónn sleginn í þessar fátækarsinfóníu.


Góður samgöngukostur - að auki holl hreyfing

Frábært blogg hjá Kára Harðarsyni og finnst það eigi skilið athygli.  Líka á það mikið erindi á prent.  Hjólreiðamenn ekki jafn öflugur þrýstihópur og hestamenn sem fengu sett í vegalög að leggja skyldi reiðvegi meðfram þjóðvegum.  Mér finnst það svo sem í lagi ef allir nytu jafnræðis.  Hver ætlar að halda því fram að hross flokkist til samgöngutækja og tóla.  Var það kannski fyrir hundrað árum en ekki lengur.  Hestar eru sport.  Svo einfalt er það.  Á meðan íslenska þjóðvegakerfið er jafn óburðugt og raun ber vitni finnst mér gjörsamlega út út hött að eyða peningum í reiðvegagerð.  Ekki nema hestamenn leggi samsvarandi fjármuni til og bíleigendur.

Hjólreiðar eru hins vegar fyllilega raunhæfur kostur til styttri samgagna.  Til þess hníga öll rök.  Það er umhverfisvænt, hjól taka minna pláss á umferðarmannvirkjum en bílar og svo er mjög heilsusamlegt að hjóla.  Hins vegar er stígakerfi til hjólreiða mjög ófullkomið og sundurslitið og ekki líkt því að að hafi verið hannað til samgagna, heldur til útivistar (reyndar gott mál) eða hreinlega að stígarnir líti vel út á korti.

Ég bý á Álftanesi en vinn í miðborginni.  Hjólaleiðin er rúmlega 12 km sem er ekkert voðalega langt að hjóla.  Af Álftanesinu liggur hjóla- og göngustígur þétt meðfram þjóðveginum en á honum er mjög hröð og hættuleg umferð.  Síðan liggur leiðin norðan Ásahverfis í Garðabæ en við Sjáland slitnar stígurinn í sundur þannig að taka þarf á sig langan krók.  Talsverð töf og óþægindi.  Eftir að komið er fram hjá Sjálandsskóla kemst ég að stíginn aftur og leiðin liggur greið stuttan spotta að Arnarnesi.  Þar þarf að hjóla krókaleið eftir íbúðagötum þar komið aftur á stíginn sunnan Kópavogs.  Sama sagan er í gegn um Kópavog.  Þegar komið er niður í Fossvoginn liggur góður stígur sunnan Öskjuhlíðar og austan flugvallarins, þaðan yfir Bústaðaveg og niður í Hlíðar.  Og viti menn þar hefur verið lögð hjólreiðabraut meðfram Lönguhlíð að Miklubraut.  Frábært en því miður hafa ökumenn eitthvað misskilið málið og bílum er lagt þvers og kruss á stíginn þrátt fyrir góðar merkingar.  Tvisvar hef ég vakið athygli lögreglu á þessu en ekki fannst mér áhuginn mikill á þessu og svarið í seinna skiptið var:  "Hva, þú getur bara skellt þér eftir gangstéttinni.  Er það ekki"?  Nú síðan liggur leiðin yfir Klambratúnið, eftir Rauðarárstíg á á Hlemm og þá er ég svo gott sem kominn til vinnu.  Leiðin er það ógreiðfær og sundurslitin að þetta er ekki raunhæfur kostur á ekki svo langri leið.  Því miður.

Ástand eins og þetta er ekki nokkrum bjóðandi hreint út sagt.  Í ljósi þess að minnka þarf kolefnislosun er þetta ein þeirra aðferða sem gæti orðið mjög virk samhliða öðrum.  Það þarf líka að skapa stemmingu fyrir hjólreiðum og gera þær að eftirsóknarverðum kosti í samgöngum. 


Hvenær er þjófur ræningi?

Mér finnst að íslenskir fjölmiðlamenn noti orðið ræningi og rán í rangri merkingu.  Sagt var frá manngarmi sem staðinn var að því að stela ósamsettu fjórhjóli á ótilteknum stað í Reykjavík.  Sá fannst með hjólið á öðrum stað þar sem hann var að setja það saman.  Þessi maður var kallaður ræningi og hjólið var orðið að ránsfeng!

Hér er  um algeran hugtakarugling að ræða.  Rán er þegar maður/menn ná tilteknum hlut/hlutum með ofbeldi og eða hótunum um ofbeldi.  Atvik eins og lýst er að ofan er þjófnaður og hjólið er þá þýfi.  Svo einfalt er það nú. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband