Má kannski afnema fleiri mannréttindabrot í leiðinni?

Það er hið besta mál að afnema þessi arfavitlausu eftirlaunalög sem troðið var í gegn um þingið á mettíma rétt fyrir jólaleyfi þingmanna 2003.  Með samþykkt þessara laga sýndu stjórnmálamenn mikið dómgreindarleysi og samþykkt þessa mannréttindabrots var eins og rétta almenningi fingurinn.

Þrátt fyrir að endurskoðun laganna hafi verið sett í stjórnarsáttmála núverandi stjórnar hef ég haft tölvuverðar efasemdir um efndirnar.  En viti menn, allt í einu hóstar Samfylkingarfrúin og setur þar með pressuna á Geir og sjálfstæðismenn.  Þrátt fyrir eftirlaunin er það skoðun mín að þingmenn séu afskaplega illa launaðir.  Nærtækt er að benda á ráðningu afdankaðs poppara í tyllistöðu hjá Reykjavíkurborg þar sem hann er með umtalsvert hærri laun en alþingismaður.  Kjör þingmanna eiga að miðast við það sem best gerist á markaðnum, líka eftirlaunin.

Sá atvinnurekandi sem illa borgar fær yfirleitt starfsfólk í samræmi við launagreiðslur.  Sama á við um okkur, kjósendur sem veljum fulltrúa á fjögurra ára fresti til að fara með hagsmunamál okkar.  Við fáum þá þingmenn sem við eigum skilið.  Gott og hæft fólk úr atvinnulífinu sem fullt erindi ætti til þings kærir sig ekki um það hvorki vegna launanna né þess félagsskapar sem dundar sér hálft árið við Austurvöll en sést varla þess á milli nema síðustu 2-3 vikur fyrir kosningar.

En úr því á að afnema ólög:  Hvenær á að afnema þau mestu ólög sem yfir okkur hafa dundið síðan einokunarlög danska kóngsins liðu undir lok.  Ólög sem fyllilega má líkja við náttúruhamfarir af manna völdum.  Hér á ég við lög um fiskveiðistjórn á Íslandsmiðum.  Það er sárgrætilegt að horfa upp á það gífurlega tjón sem almenningur á landsbyggðinni hefur orðið fyrir með þessum óskapnaði.  Gerðar eru skoðanakannanir eftir skoðanakannanir sem allar sýna það sama.  Fólk vill þessi lög á braut enda flokkaðist setning þeirra ekki undir neitt annað en mannréttindabrot.  Það er líka dapurlegt að þurfa skuli mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna til að slá á puttana á stjórnvöldum hér.

Fresturinn til að skila svari og úrbótum til nefndarinnar er að renna út.  Hvert verður svarið? 


mbl.is Eftirlaunalög Alþingis verða felld úr gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Þór Strand

Væri þá ekki rétt að taka allt eignarhald á náttúruauðlindum og landi til endurskoðunar því allt er þetta af sama meiði eða er það með þetta eins og annað að horfa bara á það sem vinsælt er að horfa á.  Annars er það skrítið hvernig mannréttindanefndin klofnaði í afstöðu sinni það voru 3. heims ríki sem sögðu það þetta væri ólöglegt en vestrænu ríkin voru á þveröfugri skoðun, en það hafa fáir minnst á það kannski vegna þess að það hentar ekki í pólitíkinni.

Einar Þór Strand, 12.5.2008 kl. 11:35

2 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Umhugsunarvert! Kv. B

Baldur Kristjánsson, 12.5.2008 kl. 18:25

3 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Um aldir höfðu íslendingar frelsi til að sækja sér björg úr sjó bæði til atvinnu og eigin nota. Mannréttindabrotið fólst í því að taka þennan rétt og afhenda hann einum tilteknum hópi manna. Af öllum þeim stéttum sem höfðu atvinnu sína og lífsviðurværi af sjávarfangi og vinnslu fengu aðeins útgerðarmann þennan rétt.

Hvað olli því að sjómenn fengu ekki neitt, hvað um fiskvinnslufyrirtæki, hvað um fiskvinnslufólkið, hvað með almenning í sjávarbyggðunum? Allir vita hvernig fór. Útgerðarmenn hafa notað gjafakvótann til að braska með á kostnað íbúa byggðanna. Reyndar eru til undantekningar frá þessu þar sem útgerðarmenn hafa sýnt þroska og samfélagslega ábyrgð. Það eru því miður undantekningar.

Það þýðir lítið að velta sér upp úr skoðunum minnihluta mannréttindanefndarinnar. Í henni eru teknar ákvarðanir byggðar á áliti meirihlutans. Það er 31 dagur þar til íslenska ríkið þarf að bera búið að bregðast við þessu áliti. Það þýðir ekki neitt að segja að þetta hafi ekki lagagildi á Íslandi. Við verðum þá vart teknir gildandi í öðrum ákvörðunum í mannréttindamálum og lendum þar í flokk með Zimbabe og Burma.

Að síðustu: Hvaða árangri hefur kvótakerfið skilað? Hefur aflinn aukist? Hafa sjávarbyggðirnar styrkst svo vitnað sé í stofngreinar laga um fiskveiðistjórn?

Sveinn Ingi Lýðsson, 12.5.2008 kl. 19:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband