Færsluflokkur: Mannréttindi

Barbabrella

Á árum áður þegar dætur mínar voru ungar fannst þeim besta skemmtun að láta lesa fyrir sig.  Ein vinsælasta sögupersónan var Barbapaba og fjölskylda hans.  Þessar sögur voru skemmtilega og ef ég man rétt fylgdu þeim sjónvarpsþættir.

Persónur sögunnar höfðu þann stórkostlega eiginleika að geta breytt um lögun og hlutverk, allt hvað hentaði hverju sinni.  Langfærastur þeirra í þessum brellum var Barbapaba sjálfur.  Hann gat án fyrirhafnar töfrað fram nánast hvað sem var þegar honum hentaði.

Hip, hip, barbabrella og eitthvað nýtt leit dagsins ljós.  Samt var að ekkert nýtt, einungis augnabliks sjónhverfing.  Mér finnst að margir stjórnmálamenn hafi tileinkað sér hugmyndafræði og úrræði Barbapapa.  

Einn þeirra er núverandi sjávarútvegsráðherra.  Þar sem hiti er nú að hlaupa í kosningabaráttuna hef ég tilhneigingu til að halda fyrirhugaðar strandveiðar hans vera einfalda barbabrellu.  Af hverju dregur hann þessa brellu upp núna, maður sem varið hefur kvótakerfið nánast alla tíð.  Mér er spurn.

Ég trúi þessu ekki fyrr en sé þetta gerast.


mbl.is Strandveiðar í stað byggðakvóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnlagaþing er nauðsyn núna!

Ef einhvertíma hefur verið nauðsyn á endurskoðun stjórnarskrár þá er það einmitt núna. Þjóðin hefur orðið fyrir miklu áfalli þar sem lukkuriddarar léku lausum hala og höfðu að engu það siðferðilega gildismat sem okkur var innrætt í æsku.
Ljóst er að þessi gildi þarf að pússa upp, endurskoða og endurskilgreina okkur sem sjálfstæða þjóð. M.a. virðist ljóst það óskrifaðar reglur sem flestum hafa fundist sjálfsagðar eru það ekki lengur. Af hverju? Nú, þær standa hvergi skrifaðar, segja lögspekingarnir.
Það er aumt samfélag og vart á vetur setjandi þar sem hugsunarháttur lögfræðinganna er í hávegum. Samfélag sem afneitar gildum heiðarleika, sannsögli, kærleika og samhjálpar er illa á vegi statt.
Notum því tækifærið nú og efnum til stjórnlagaþings. Gerum það samtímis þingkosningunum þannig að áhrif stjórnmálaflokka verði sem minnst. Hugsanlega mætti velja hluta þingfulltrúa af handahófi úr þjóðskrá. Alla vega skulum við forðast stjórnmálamenn í þessu starfi. Frá lýðveldisstofnum hafa þeir verið að dunda við endurskoðun stjórnarskrárinnar án þess að neitt hafi komið frá þeim sem vit er í.
mbl.is Pétur Blöndal styður stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr gjaldmiðill; Bananar í bananalýðveldi.

Það voru tveir lögreglubílar fyrir utan bensínstöðina.  Ég lagði bílnum og gekk inn.  Á móti mér komu tveir lögreglumenn með mann á milli sín.  Ég þekkti þann handjárnaða frá gamalli tíð og vissi líka að þar fór einn af útigangsmönnum borgarinnir.  Blessaður strákurinn, löngu orðinn útúr steiktur af langvarandi fíkniefnaneyslu auk þess sem honum hafði aldrei verið ljóst hvað hugtakið eignarréttur þýddi.  

Inni á stöðinni heyrði ég á tal starfsfólksins og sagði hneykslað frá því að "rónadjöfullinn" hefði verið gripinn  með tvær kók og bananaknippi inn á sér og reynt að komast með það úr án þess að borga. "Ógeðs skítagaur" sagði rauðhærða afgreiðslustelpan "af hverju lokar löggan ekki þetta inni" spurði hún með vandlætingartón á meðan ég reyndi að vekja athygli hennar á girnilegu rúnnstykki sem mig langaði að gæða mér á.

Ég settist við gluggann með kaffi og rúnnstykki.  Seinni lögreglubíllinn rann út af planinu.  Á borðinu lá Mogginn.  Ég fletti honum annars hugar en allt í einu staldraði ég við fréttina af emírsbróðurnum frá Katar og viðskiptum hans og Ólafs Ólafssonar við Kaupþing.  Enn ein vonda fréttin og það þyrmdi yfir mig.  Þar léku menn sér að því í fullkomnu siðleysi að moka til sín annarra fjármunum og skilja síðan skuldirnar eftir hjá mér, börnunum mínum, barnabörnunum og öllum öðrum íslendingum sem ekkert höfðu til saka unnið annað en trúa þessum siðlausu lygamörðunum sem sögðu allt í himnalagi, allar götur þar til veröldin hrundi.

Ég gerði orð þeirrar rauðhærðu að mínum: "Ógeðs skítagaurar. Búum við í einhverju andsk... bananalýðveldi eða hvað"?

Já, auðvitað búum við í bananalýðveldi.  Er þá ekki lausnin komin.  Auðvitað, skiptum á krónunni og tökum upp nýjan gjaldmiðil; Banana - hvað annað.

Á leiðinni að bílnum hugsaði ég með mér: "Hvað skyldu Ólafur þurfa að stela mörgum banönum til að verða leiddur út í handjárnum?

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband