Á ég að borga meðlagið?

Sá skeleggi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór, hefur boðað nýtt frumvarp um tæknifrjógvanir.  Eftir því sem mér og öðrum hefur skilist er opnað þar á möguleika einstæðra kvenna til tæknifrjógvunar.  Já, er það ekki barasta hið besta mál?  Þegar málið er skoðað nánar vakna spurningar. 

Í fyrsta lagi hver er réttur þess barns sem getið er með tæknifrjóvun?  Hver er réttur barnsins til föðurs? Ég hélt í einfeldni minni að útgangspunkturinn í lögum um vernd barna og ungmenna væri réttur þeirra og velferð, ekki blindir eiginhagsmunir foreldra. 

Í öðru lagi hver greiðir meðlagið?  Jú viti menn, haldið ekki að kappinn Guðlaugur hafi lýst því yfir að ríkið myndi sjá um meðlagsgreiðslur!  RÍKIÐ! Hver er ríkið? Eru það ekki við öll sem búum í þessu landi?  Þar með talinn ég sjálfur.  Það er alveg á hreinu að ég sem hluti ríkisins (skattborgarana) neita að taka þátt í þvi að greiða meðlög með börnum sem ég á ekkert í. 

Nú ef einstæð kona óskar tæknifrjógvunar er þá ekki rétt að hún leggi fram áætlun um framfærslu hins ófædda barns næstu 18 árin a.m.k.  Væri ekki betra að hún gæti sýnt fram á það með ótvíræðum hætti?

Mér finnst þessi umræða á villigötum.  Hvað með að skoða siðferðilega þáttinn í þessu auk hins félagslega?   Ég  hef fulla samúð með þeim einstæðu konum sem þrá að eignast barn.  Hingað til hafa þær ekki verið í neinum vandræðum með að lokka einhvern álitlegan til samræðis......skuldabréfið til næstu átján ára er útgefið síðar.......


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ég sömuleiðis neita að borga með dönskum,norskum,sænskum eða finnskum börnum meðlag,held þeir fái sæðið þaðan, en er ekki viss. en í alvöru þá ættu þessar konur sem fara í þessa tæknifrjóvgun að geta séð um sín blessuðu börn án aðstoðar frá ríkinu

haukur (IP-tala skráð) 13.5.2008 kl. 21:46

2 Smámynd: Óli Jón

Er það ekki nokkuð gerræðislegt og í raun hámark forræðishyggjunnar að ætla að krefjast þess að einstæðar konur leggi fram fjármögnunaráætlun til átján ára ef þær vilja verða ófrískar? Nú veit ég ekki hvort greinarhöfundur á börn, en ef svo er, af hverju hefði hið sama ekki átt að gilda um hann? Af hverju þurfti hann ekki að leggja fram skuldabréf? Er hann sjálfur svo mikið betri pappír en einstæð kona? Eru hans yfirburðir svo miklir að eitt skal gilda um hann meðan annað gildir um aðra?

Heldur greinarhöfundur virkilega að fjárhagur einstæðra kvenna muni standa og falla með 20 þúsund króna meðlagi? Hefur hann virkilega ekki meiri trú á dásamlegum freyjum þessa lands en svo að hann telji að 20 þúsund krónur skipti raunverulegu máli? Sú kona sem hefur lagt dæmið niður fyrir sér hefur auðvitað gert fjárhagsáætlun fyrir sig. Hún á bara ekki að þurfa að skila henni til Eftirlitsstofnunar forpokaðra kalla sem þjást af fordómum í garð einstæðra kvenna. Ekkert frekar en allir aðrir borgarar þessa lands.

Réttur barna til að þekkja föður sinn er síður en svo virtur í dag. Reglulega verða konur þungaðar án þess að hafa nokkurn grun um hver faðirinn er. Slíkar þunganir hafa iðulega ekki verið áætlaðar og koma barnsmóður því í opna skjöldu. Það eru gömul sannandi og ný. En þar mun barnið aldrei þekkja föður sinn! Og móðirin ekki þurfa að leggja fram skuldabréf til átján ára. Þá eru börn stundum hreinlega rangfeðruð með ásetningi og er hægt að finna mýmörg dæmi þess í dómaskrám.

Ég sýnist þessi pistill sé skrifaður í skugga fordóma, afturhaldshyggju og jafnvel hálfgerðrar fyrirlitningar gagnvart einstæðum konum. Greinarhöfundur telur augsýnilega að þær séu einskís verðar ef enginn er kallinn og séu þannig bara annars flokks borgarar. Slíkt gæti ekki verið fjær sanni!

Ég hef meiri trú á íslenskum konum en svo!

Óli Jón, 14.5.2008 kl. 00:12

3 identicon

Heldurðu að hugsast geti að barnabætur til þín, hlutur ríkisins í sjúkratryggingum barna þinna, niðurgreiðslur vegna læknisþjónustu barna þinna, kostnaður við skólagöngu barna þinna hafi m.a. komið frá skattgreiðslum einhleypra kvenna?

Skattgreiðandi (IP-tala skráð) 14.5.2008 kl. 00:22

4 Smámynd: Einar Þór Strand

Óli Jón.

Finnst þér í lagi að einstæðar konur fari í tækinfrjógvun og síðan borgi ríkið meðlag með barninu ofaná barnabætur og annað sem einstæðir foreldrar fá?

Finnst þér það vrikilega réttlátt?

Einar Þór Strand, 14.5.2008 kl. 00:28

5 Smámynd: Óli Jón

Einar Þór Strand: Ríkið mun ekki borga meðlag með ófeðruðum börnum einstæðra kvenna, jafnvel þótt mér þætti engin ofrausn í því. Feður borga meðlag sem Innheimtustofnun sveitarfélaga sér um innheimtu á, en það fyrirkomulag tryggir meðlagsþegum skilvísar greiðslur á öllum stundum. Látum samt ekki eins og þetta mál snúist um meðlagsgreiðslur ... það er allt annað og mikið meira sem þjakar kreddupúka þessa lands í þessu máli!

Ríkið mun hins vegar greiða barnabætur og annað það tillag til þessara kvenna sem þær eiga rétt á ... alveg eins og allar aðrar mæður þessa lands. Eins og bent er á hér að ofan, þá eru þær ekki annars flokks borgarar þegar kemur að innheimtu skatta, frekar en aðrir. Því ættu þær ekki að njóta síðri réttinda þegar kemur að barneignum þeirra. Kreddur og þröngsýni eiga ekki að breyta neinu þar um!

Óli Jón, 14.5.2008 kl. 00:56

6 Smámynd: Óli Jón

Hvað varðar meðlagsgreiðslur, þá vil ég benda á eitt dæmi. Nýverið borgaði óttaslegin ríkisstjórn vor 100 milljónir króna fyrir listflug franskrar flugsveitar yfir landinu í sex vikur undir því yfirskini að það þurfi að verja okkur fyrir yfirvofandi innrás (líklega Grænlendinga eða Færeyinga).

Ég deildi þessari upphæð niður og fann út að fyrir hana getum borgað:

  • 104 einstæðum mæðrum fullt meðlag í fjögur ár
  • 69 einstæðum mæðrum fullt meðlag í sex ár
  • 35 einstæðum mæðrum fullt meðlag í tólf ár

Þetta set ég hér fram til gamans því kreddupúkarnir setja sig á háan hest og reyna gjarna að setja þessi mál í fjárhagslegt samhengi. Af ofangreindu má sjá að peningar eru ekki vandamál meðan við getum borgað Frökkum 100 milljónir fyrir sex vikna listflug yfir landinu.

Sleppum því allri vandlætingu hvað varðar meðlag í þessu máli. Það er einfaldlega ekki trúverðugt!

Óli Jón, 14.5.2008 kl. 01:17

7 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Ok, hér höfum við vandlætara sem meira að segja er búinn að finna BOLD lykilinn á skjánum.   Þá er rétt að það komi hér fram að sveitarfélag borgar meðlag með öllum börnum til 18 ára aldurs.  Feðrum eða mæðrum eftir atvikum er síðan gert að greiða til Innheimtustofnana sveitarfélaga samsvarandi upphæð einfalt tvöfalt eða enn hærra meðlag.

Það er áfkörðun fólks hvort það eignast börn og þar eru báðir foreldrar skyldugir að standa straum af framfærslu barna sinna.  Einstæðir foreldrar hafa sama rétt að krefjast meðlags sem er þá endurkrafin af hinu foreldrinu (oftast feður).

Ef einstæðir foreldrar hafa fengið ættleiðingu þá standa þau straum af þeim kostnaði sjálf.  Því ætti sveitarfélagið að taka einstæðar tæknifrjógvaðar mæður út úr og gefa þeim forréttindi umfram aðra.  Slíkt er út í hött. 

Segjum ef ég væri einstæður faðir og vildi eignast barn.  Til þess fengi ég leigumóður og til að hafa sama rétt og konan krefðist ég þess að  sveitarfélagð greiddi fyrir þann kostnað sem af því hlytist.  Síðan fengi ég meðlag til 18 ára aldurs.

Svo er það spurningin um hver er haldinn kreddum? 

Sveinn Ingi Lýðsson, 14.5.2008 kl. 01:55

8 Smámynd: Óli Jón

Það er greiddur barnalífeyrir með börnum þar sem annars foreldris nýtur ekki við, t.d. vegna andláts. Þá er greiddur barnalífeyrir þegar ljóst er að barn verði ekki feðrað og skiptir þá engu hvernig það kom undir. Barnalífeyrir er t.d. þannig greiddur með börnum slysaþungana þar sem móðir hreinlega veit ekki deili á föður.

Ég fagna því að þetta skuli vera komið fram, enda tel ég þetta mikið hagsmuna- og réttindamál. Sjálfur hafði ég ekki hugmynd um að Tryggingastofnun greiddi barnalífeyri. Við verðum þó að athuga að þetta eru ekki réttindi móðurinnar heldur barnsins. Barnið, sem íslenskur ríkisborgari, á að njóta allra þeirra réttinda sem bjóðast og skal ekki vera nokkur mismunun þar á. Barnið á ekki að líða fyrir það hvernig kringumstæður við getnað voru. Greinarhöfundur neitar að borga með börnum sem hann á ekkert í, en virðist ekki gera sér grein fyrir að í dag borgar hann með fjölda barna sem sem þannig er ástatt fyrir, börnin ófeðruð eða annað foreldri látið. Ætti hann því að beina spótum sínum að þeim ómögum fyrst þessar greiðslur fara svo mikið fyrir brjóstið á honum?

Annars er leitt að fólk skuli ekki geta horft út fyrir budduna í þessu mikla hagsmuna- og mannréttindamáli. Auðvitað er það bara gleðiefni þegar nýir Íslendingar líta dagsins ljós, óháð því hverjar kringumstæður við getnað voru. Ef eitthvað er, þá ætti píslarganga einstæðra kvenna að reiknast þeim til tekna, en dagljóst er að þær hafa hingað til þurft að hafa mikið fyrir því að krefjast réttinda sinna. Margar þessara kvenna hafa þurft að steðja margoft til Danmerkur eða lengra í þessum erindagjörðum án nokkurs stuðnings. Með breytingum á frumvarpi er varða tæknifrjóvganir er bara verið að leiðrétta mikinn ójöfnuð meðal þegna landsins.

Ef greinarhöfundur telur það vandlætingu að ætla öllum sama rétt hér heima, þá er honum það auðvitað frjálst. Hins vegar eru tillögur hans um að mismuna verðandi foreldrum eftir aðstæðum þeirra algjörlega á skjön við þá hugsun um jöfnuð sem við viljum viðhafa í landinu. Í fullkomnum heimi greinarhöfundar verður sýn hans einmitt að veruleika þar sem hann segir:

Ég  hef fulla samúð með þeim einstæðu konum sem þrá að eignast barn. Hingað til hafa þær ekki verið í neinum vandræðum með að lokka einhvern álitlegan til samræðis ...

Þetta er fögur draumsýn, biblíuleg í einfeldni sinni og framsetningu. Einstæð tálkvendi flykkjast ofan í bæ um helgar til að fleka og misnota nafnlausa sæðisgjafa svo þær geti haft af þeim gagn. Þannig þurfa þær ekki að skila inn greiðslumati og skuldabréfi til 18 ára. Það er auðvitað mun betra fyrirkomulag. Siðlegra. Og sanngjarnara gagnvart börnunum.

Í mínum huga er engin spurning um hver er haldinn kreddum!

Óli Jón, 14.5.2008 kl. 10:32

9 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Mér finnst rök Sveins Inga vega þungt.  Það er auðvitað óæskilegt að ríkið sjái um að framleiða föðurlaus börn fyrir einstæðar mæður. Og eiginlega ótrúlegt að heilbrigðisyfirvöld skuli taka að sér að gera fljóvga fullfrískar konur á kostnað skattborgara og borga svo meðlög ofan á allt. Hefði þetta gerst í Ráðstjórnarríkjunum fyrir nokkrum áratugum hefðum við annað hvort helgið dátt eða sveiað.  Að auki þetta:  Bæði virðist manni brotið á rétti barna til að þekkja og umgangst föður sinn og einnig má færa sterk rök fyrir því að uppeldisskilyrði barna sem eiga eitt foreldri séu síðri en þeirra sem hafa báða foreldra aðgengilega.   Það er svo gífurlega margt sem fer úrskeiðis hjá einstæðum mæðrum og hreint praktískt verður lífið erfitt, endalaus róður,  óhófleg vinna, lífsbarátta og oft mikill einstæðingsháttur. Og af þessu leiðir að oftsinnis er tími af skornum skammti fyrir börnin.  Þetta skemmir barnæsku þeirra, því foreldranærvera verður óhjákvæmilega af skornum skammti. Nærvera foreldris er besta og öruggasta leið til að koma börnum til manns. Ekkert kemur í staðin fyrir hana fyrstu árin.

En vitum við þetta? Já, við vitum þetta en setjum lepp fyrir augað af öðrum ástæðum. Börnunum er plantað á uppeldisstofnanir skömmu eftir fæðingu og ofsinnis þekkja börnin fóstrur sínar betur en mæður.  Meira að segja fóstrur klaga yfir þessu skeytingarleysi, með börn hjá sér 8-9 tíma á dag. En einstæð móðir hefur enga aðra leið, athugið það.

Hegðunarvandi er algengur aðeins síðar á æfi þessara barna og geðlyf  og geðgreiningar verða oftar en ekki lausnin.  Menn vilja ekki sjá þetta þó það blasi við.  Með þessu bragði er ríkið að framleiða vandamál og brjóta farsæla meginreglu. Auk þess eru gefin skír skilaboð um að fjölskyldueiningin sé óþörf.Guðmundur Pálsson heimilislæknir. PS. Sveinn Ingi þú getur tekið út hraðskriftina mína hér að ofan. Sama pistilinn að efninu til.

Guðmundur Pálsson, 14.5.2008 kl. 13:15

10 Smámynd: Óli Jón

Það er einstaklega ógeðfellt að tala um 'framleiðslu' barna í þessu samhengi. Slíkt orðalag er auðvitað valið til þess eins að særa, meiða og lítillækka og því miður held ég að skrifara athugasemdar lukkist það.

Það að barn þekki föður sinn er engin trygging fyrir því að uppeldi þess verði fullkomið. Hægt er að telja fjölda dæma þar sem hið gagnstæða er einmitt raunin. Auðvitað er æskilegt að foreldrar barna séu í sambúð, en einstæðar konur geta vel búið börnum sínum ástríkt og traust heimili upp á eigin spýtur. Skilnaðartíðni er skuggalega há um þessar mundir og fer vaxandi. Foreldrar barna geta búið saman í ástlausu sambandi, jafnvel hatursfullu, og er börnum þar búnar betri aðstæður en einstæðar konur geta búið þeim? Einstæðar konur geta vel búið að traustu öryggisneti í fjölskyldu sinni og vinahópi og sótt þar stuðning þegar til þarf að taka.

Í greininni sem er kveikjan að þessum athugasemdaþræði er þeim möguleika velt upp að einstæðar konur hafi hingað til ekki verið í vandræðum með að lokka karla til samræðis við sig í því skyni að verða þungaðar. Berum saman tvær þungaðar, einstæðar konur þar sem önnur hefur farið í tæknifrjóvgun meðan hin fór á veiðar. Ber þeirri fyrri ekkert meðan hinni ber allt? Eru þetta skilaboðin sem við, sem þjóðfélag, ætlum að senda einstæðum konum? Náðu rétti þínum fram með óheilindum?

Ef það á að velja hverjir geta orðið hæfir foreldrar, þá þarf eitt yfir alla að ganga. Ég fékk bréf í dag frá konu sem orðaði þetta frábærlega þegar hún sagði að ekki tjáði að taka einn þjóðfélagshóp út fyrir sviga. Þarf þá ekki að gæta að öllum konum á öllum stundum og samþykkja eða hafna beiðni þeirra um barneignir eftir aðstæðum?

Það er ekkert öruggt í þessum heimi. Það sem ég þó veit er að við getum ekki farið að skerða rétt kvenna til barneigna með einhverjum gerræðislegu regluverki. Við eigum að fagna því þegar konur óska eftir því að verða þungaðar og í stað þess að leggja stein í götu þeirra eigum við að styðja við þær. Við eigum ekki að benda á vankanta í dagvistarmálum, við eigum að bæta aðstöðu þar. Við eigum ekki að horfa í einhverjar krónur sem fara til þeirra í formi bóta og greiðslna, við eigum frekar að bæta í og auka greiðslurnar.

Það er það rétta í stöðunni.

Óli Jón, 14.5.2008 kl. 15:22

11 Smámynd: Riddarinn

Þarna hefur þú svo sannarlega rétt fyrir þér Sveinn Ingi og þessi Óli Jó er einfaldlega ekki alveg að sjá muninn á því að þegar konur eignast börn með einhverjum þá mun það 18-20 ára skuldabréf sem því fylgir lenda á þeim sem er faðir barnsins og hefur átt sinn part í málinu.Ekki á Ríkinu við venjulegar kringumstæður.

En í þessum tæknifrjóvgunum þá ákveða mæður að eignast börnin einar án afskipta karlmanna og án þess að hafa skráðan faðir og líklega líta þær á það hvort þær muni geta framfleitt barninu einar í framtíðinni.

Ég er einfaldlega ekki reiðubúinn að borga meðlagið með annarra manna börnum með sköttunum mínum,sem þar að auki eru skipulögð fyrirfram og skráð sem "föðrulaus" frá upphafi..Breitir þá engu hvort það er tæknifrjógun fyrir mér.

 Það er heldur enginn sem tekur að sér að borga þau meðlög sem ég þarf að borga hvort sem ég hef ráð á því eða ekki,ég myndi ekki ætlast til þess að aðrir myndu gera það því ég ákvað að eignast mín börn og tek þann reikning auðvitað  því á mig.

Þær konur sem ákveða að eignast börn án þess að kallmaður komi þar við sögu ættu einfaldlega að hugsa um hvort þær hefðu ráð á því eða ekki.

Það má vel vera að þetta hljómi miskunnarlaust en maður þarf einfaldlega að hafa ráða á því sem maður gerir í svona tilfellum og það er einfaldur sannleikur og marg sannað að það er ekki frítt að eiga börn og kostar bæði foreldra og ríki fé á marga vegu. 

Svo geta menn hoppað hæð sína og sagt að börn séu ekki metin til fjár eða eitthvað í þeim stílnum og sagt eins og Óli Jón sagði hér áður að það kosti 100 milljónir að vera með þotur að passa uppá landið.Það kemur bara ekki þessu máli við þó verið sé að bruðla með almanna fé í þannig bull og réttlætir ekki að almenningur sé látinn borga þessi meðlög með ríkisfé. Nóg er nú vittleysan fyrir.

Við sem borgum skattana okkar eru Ríkið og viljum að þeir sem stofna til reikningana sjái um að borga þá sjálfir takk fyrir. 

Riddarinn , 14.5.2008 kl. 16:51

12 Smámynd: Óli Jón

Málið er að kveikjan að mínum skrifum er ekki það hvort einstæðar tæknifrjóvgaðar konur eigi rétt á barnalífeyri frá ríkinu eða ekki. Ég þykist vita að það atriði vegur ekki mjög þungt í hugum margra þessara kvenna og allavega ekki neitt í hugum þeirra sem ég þekki. Það sem stakk mig í greininni hér að ofan er sá hroki og hleypidómar sem felast í eftirfarandi tilvitnun:

Nú ef einstæð kona óskar tæknifrjógvunar er þá ekki rétt að hún leggi fram áætlun um framfærslu hins ófædda barns næstu 18 árin a.m.k.  Væri ekki betra að hún gæti sýnt fram á það með ótvíræðum hætti?

Þetta er verulega særandi tillaga og neita ég hálfpartinn að trúa því að hægt sé að slá slíku fram, hvort sem er í kaldhæðni, gríni eða alvöru. En raunveruleikinn sýnir annað.

En hvað segið þið þá um það, skoðanabræður Sveinn Ingi og 'Riddari', hver réttur kvenna til barnalífeyris sem hafa orðið þungaðar með náttúrulegum leiðum, en geta ekki bent á barnsföður sinn? Konur sem hafa farið þá leið, sjálfráðar eða ósjálfráðar, sem greinarhöfundur lýsir:

Ég  hef fulla samúð með þeim einstæðu konum sem þrá að eignast barn.  Hingað til hafa þær ekki verið í neinum vandræðum með að lokka einhvern álitlegan til samræðis ...

Eiga þessar konur rétt á barnalífeyri? Hvar eru mörkin dregin?

En ég ítreka að kveikjan að mínum skrifum er ekki þessi barnalífeyrir sem vex mönnum svo ótrúlega í augum. Hún er frekar sú afstaða og sá neikvæði tónn sem er í þessari umfjöllun og beinist að einstæðum konum.

Sá tónn er holur og ljótur.

Óli Jón, 14.5.2008 kl. 23:03

13 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Snúum þessu dæmi við eitt augnablik bara til að glöggva okkur á aðstæðunum.  Segjum svo í einhverju ímynduðu frjálslyndu vestrænu ríki yrði lögfestur nýr möguleiki:  Karlmenn fengju aðstoð til að eignast börn einir. Þeir fengju staðgöngumóður til að ganga með barn sitt. Henni yrði greitt fyrir sk. ákv. reglum og men forðuðust eftirmála. Mennirnir tækju svo börnin til umsjár og eignar. Svo yrði gengið frá  hnútunum að barnið fengi aldrei að vita hver þessi móðir barnsins var - heldur ekki síðar. Ríkið greiddi dágóðan hluta kostnaðar við barnsburðinn og einnig meðlög barnsins síðar. Sjá menn eitthvað athugavert við þetta?

Guðmundur Pálsson, 15.5.2008 kl. 00:46

14 Smámynd: Óli Jón

Í sjálfu sér sé ég ekkert athugavert við þetta, en engu að síður er langt til jafnað að bera saman réttindi karla og kvenna þegar kemur að barneignum. Frá náttúrunnar hendi eiga konur þennan rétt óskoraðan meðan það þarf allar þær tilfæringar sem lýst er í innlegginu hér að ofan til að karl geti eignast barn. Konur eiga þennan rétt  alveg skuldlaust og borga fyrir hann með margvíslegum hætti. Þetta er þó ekki efni þessa athugasemdaþráðs.

Skattarnir okkar eru jöfnunartæki og renna iðulega til þess að borga reikninga fyrir þá sem ekki geta borgað þá sjálfir. En eins og ég hef áður áréttað, þá er þessi barnalífeyrir ekki endilega málið, þótt ég telji hann sjálfsagt framlag ríkisins til mæðra ófeðraðra barna. Þetta er þó ekki efni þessa athugasemdaþráðs.

Að mínu mati er efnið viðhorf margra til einstæðra kvenna þegar þær vilja eignast börn. Þeir hinir sömu virðast algjörlega blákaldir í þeirri hugsun að fyrst þeim tókst ekki að eignast kall, þá skulu þær bara éta það sem úti frýs. Fyrst þeim tókst ekki að lokka einhvern ræfil til sín, þá skulu þær ekki njóta fullra réttinda. Menn geta farið hringinn í kringum þetta eins og kettir í kringum heitan graut, en við endum alltaf á sama stað. Þetta er spurning um jöfnuð og almenna mannvirðingu. Málið er það viðhorf sem skín í gegn hér, þ.e. 'látum þær leggja fram skuldabréf til 18 ára áður en þær fara í tæknifrjóvgun'-viðhorfið.

Það er efni þessa athugasemdaþráðs.

Óli Jón, 15.5.2008 kl. 10:35

15 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Eins og ég sagði hér að ofan er ég skeptískur út í þennan tæknivædda búskap  Guðlaugs ráðherra:  

Ég velti samt fyrir mér þessari hugmynd að einstæðar konur muni fá nafnlaust gjafasæði,  fara í tæknifrjóvgun, og spyr mig hverjir munu sækjast eftir þessu? Ungu konurnar 18-30 ára? Það er hæpið. Nánast útilokað. Draumar kvenna eru öðru vísi með fullri virðingu. Langflestar konur óska sér fjölskyldu með maka og börnum. Sjá td. hamingjuna í því að börn þeirra eigi föður. Þetta verða langmest konur sem finnst þær vera að brenna út á tíma, ná sér ekki í karlmann,  eða hafa lent í vonbrigðum með samskipti og treysta sér ekki í áhættuna við þetta. Það er náttúrulega dágóður hópur í dag.

Að athuguðu máli held ég að karlmenn (og konur) ættu ekki að taka alltof nærri sér, ef þetta kjánalega frumvarp verður þvingað fram.  Það verður nóg af frambærilegu kvenfólki sem sér hamingjuna í eðlilegum samskiptum manns og konu og klassíska einingin: maður, kona og börn fellur aldrei úr gildi. Það er í senn náttúrlegt og yfirnáttúrulegt fyrirbæri. Ég held það sé inngróið í manneskjuna að leita sér hamingju á þann hátt.

Það er verra með börnin föðurlausu og framleiðslusniðið á þessu. Það minnir á hættulega gamla tíma þegar menn töpuðu áttunum. Maður sér fyrir sér nokkur hundruð eða þúsund manns eftir 20-30 ár sem öll eru föðurlaus og eru ekki sátt, stofna með sér samtök föðurlausra sem lentu í tæknifrjóvgunaráætlun íslenska ríkisins.

En ef menn þurfa að standa í þessu á annað borð held ég að sænska leiðin sé betri : að sæðisgjafinn sé þekktur, því það breytir öllu fyrir börnin.

Guðmundur Pálsson, 16.5.2008 kl. 01:11

16 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Góðar pælingar hjá þér Guðmundur.  Það vill svo til að ég þekki dæmi, bæði persónulega og af afspurn af fólki sem veit ekki né þekkir hvers faðir er.  Þetta hefur mikil og djúp áhrif á sálarlíf þessa fólks, sérlega það fer að eignast börn.  Sá ágæti maður, Óli Jón, sem hefur farið hamförum hér í athugasemdum virðist ekki hafa kafað mjög djúpt í þessi mál og snýr þeim að baráttu kvenna fyrir jöfnum réttindum móts við karla.  Málið snýst fyrst og fremst um réttindi barna.

Svo er lítið við því að gera þegar menn skilja ekki mun, alvöru, kaldhæðni og beinna raka.

Og þannig að enginn vaði í villu né svíma þá kemur hér að lokum smá kaldhæðni:

Í Fossvogskirkjugarði stendur minnismerki óþekkta hermannsins.  Þar stendur líka minnismerki óþekkta sjómannsins.  Kannski er styttra en okkur grunar í minnismerki óþekkta barnsföðurins! 

Sveinn Ingi Lýðsson, 16.5.2008 kl. 08:28

17 Smámynd: Óli Jón

Læknirinn ágæti hittir naglann líklega beint á höfuðið þegar hann segir:

Langflestar konur óska sér fjölskyldu með maka og börnum.

Væntanlega munu fáar konur óska þess að fara í tæknifrjóvgun ef þær eru í góðu sambandi við karlmann eða eygja möguleika á því að komast í samband. En lífið er víst þannig að það liggur ekki fyrir öllum að komast í innilegt samband við aðra manneskju. Það er harður dómur og getur væntanlega orðið óbærilegur ef kona getur vegna hans ekki eignast barn.

Greinarhöfundur talar um að ég hafi misst sjónar á rétti barnsins þegar ég tjái mig um þessi mál. Ég get ekki séð að það sé verið að brjóta á rétti barns þegar það fæðist í faðm konu sem hefur lengt eftir því í langan tíma og er fyllilega reiðubúin til þess að elska það og ala önn fyrir því. Ég hef áður sagt að vissulega sé æskilegra að faðir barnsins sé þekktur og tiltækur, en það getur bara ekki alltaf orðið að veruleika. Fyrir tíma tæknifrjóvgana og jafnvel eftir að þær bjóðast hafa er það þekkt að konur hafi hvort eð er náð sér í óþekkt gjafasæði með þeirri aðferð sem höfundur lýsir í síðustu málsgrein bloggfærslu sinnar. Þegar ljóst er að hægt er að fara tvær leiðir að sama markinu, hvor er þá betri:

  • lokkun einhvers kalls til samræðis
  • tæknifrjóvgun

Hvor leiðin er heilbrigðari, heiðarlegri og öruggari?

Svo vil ég varpa spurningu til læknisins í tengslum við þessi ummæli hans:

Þetta verða langmest konur sem finnst þær vera að brenna út á tíma, ná sér ekki í karlmann,  eða hafa lent í vonbrigðum með samskipti og treysta sér ekki í áhættuna við þetta.

Á að refsa konum fyrir að hafa gengið í gegnum þetta með því að neita þeim um það að eignast barn? Vinnur þetta á móti þeim frekar en með þeim? Eins og hann segir, og ég tek undir, þá munu yngri konur sem eru í sambandi við karlmann almennt ekki leita í tæknifrjóvgun. Þá er auðvitað ekki talið með þegar þörf er á slíku inngripi vegna erfiðleika í tengslum við getnað.

Þá segir læknirinn:

Það verður nóg af frambærilegu kvenfólki sem sér hamingjuna í eðlilegum samskiptum manns og konu og klassíska einingin: maður, kona og börn fellur aldrei úr gildi.

Eru þær konur sem hann lýsir í fyrri tilvitnuninni ekki frambærilegar? Eru þær annars flokks vegna þess að þær hafa ekki náð að falla inn í klassískt þjóðfélagsmynstur? Það er mannskepnunni eiginlegt að leita hamingjunnar í nánum félagsskap, málið er að það ná ekki allir því markmiði. Ég hef á tilfinningunni að í huga læknisins hafi einhleypar konur 'tapað' og eigi þannig ekki rétt á þeirri hamingju sem fylgir barneign.

Mín skoðun er sú að við eigum ekki að greina hvers vegna kona er einhleyp þegar hún óskar eftir tæknifrjóvgun, við eigum frekar að fagna því að hún hafi tekið þessa ákvörðun óháð kringumstæðum. Styðjum hana frekar í stað þess að leggja steina í götu hennar og verum til staðar fyrir hana þegar barnið er komið í heiminn.

Að lokum kemur hér kaldhæðin tillaga sem rímar við kaldhæðið niðurlag athugasemdarinnar hér að ofan. Ef einhleypar konur ná ekki fram þeim rétti sínum að geta gengist undir tæknifrjóvgun hér heima, þarf þá ekki að reisa minnismerki allra þeirra barna sem hefðu getað fæðst í þennan heim og notið ástar og umhyggju kvenna sem vilja gefa sig allar að því að hugsa um þau? Börn sem hefði getað fæðst í fordómalausan heim, hefði hann verið til?

Sem betur fer virðist engin þörf fyrir það minnismerki ef allt fer á besta veg í þingi á næstu dögum.

Óli Jón, 16.5.2008 kl. 19:54

18 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Þú hefur sérstaklega gott hugarþel til kvenna Jón Óli. Það er lofsvert í sjálfu sér, en þarf ekki að hugsa þessi mál frá almennri reglu sem getur gilt fyrir samfélagið allt? Þá þarf að hugsa um ólíka hagsmuni  í senn: barna , kvenna og karlmanna.

Sumir telja að það séu rök í málinu að vegna föðurleysis margra barna frá náttúrunnar hendi ( sem auðvitað er meira nú en áður) sé heimildin frjáls að “framleiða” börn í massavís með tæknilegum hætti án föðurs vegna óska einstæðra mæðra. Er það ekki hæpið Óli? Það er alveg sérstakur kapituli, að ríkið sjálft gangi fram í þessum málum og svo að segja framleiði föðurlaus börn. Í raun ótrúlega tillitslaus gerningur. Eða hefur þú aðra skoðun á því máli? Þú hefur ekki svarað því.

 Annað sem þarf að hafa í huga er að það er ekki réttur neins að eignast barn. Þetta er algengur misskilningur. Það er svo ótal margt sem getur komið í veg fyrir barnseignir ( td. ýmis líffræðileg atriði) og við reynum að hjálpa fólki með þessi vandamál, en það er ekki réttur neins í lagalegum skilningi að eignast barn: Ég er kona og þess vegna á ég rétt á að eignast barn  - með ríkisaðstoð ef ekki vill betra til.  Mér finnst þú endurtekið í fyrri pistlum gefa þetta í skin og leiða af því að einstæðar konur eigi þess vegna rétt á því að eignast börn. En svo kemur við viðbótin:  Ekki bara eignst börn. Heldur föðurlaus börn sem sérstaka einkaeign kvennanna.

Manni virðist þetta ekki eingöngu á kostnað barnanna heldur í vissum skilingi samfélagsins alls því helmingur uppihalds eru barnalífeyir úr sameiginlegum sjóðum sem enginn annar fær nema þeir sem misst hafa foreldri, milljónir króna á ári. Mér finnst þetta hvorki sanngjarnt né mannúðlegt.

Guðmundur Pálsson, 17.5.2008 kl. 00:09

19 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Biðst forláts á þessu stóra letri, það er hreint óþolandi. Ef síðuhöfundur getur minnkað það væri það betra. Hér er ekki meiningin að "letra sig" yfir skoðun síðasta skrifara.

Guðmundur Pálsson, 17.5.2008 kl. 00:14

20 Smámynd: Óli Jón

Við erum búnir að stíga þennan dans til enda og getum litlu sem engu bætt við sem gæti haft áhrif á skoðun hins. Ég vil bara hnykkja á minni skoðun í þessu máli:

  • Konur eiga náttúrulegan rétt á því að eignast börn. Þennan rétt þarf ekki að binda formlega í lög.
  • Ef þær geta ekki eignast börn, t.d. vegna þess að þær eru ekki í sambandi við karlmann, þá aðstoðum við þær í þeim efnum með tæknifrjóvgun. Við köllum þetta 'frjóvgun' frekar en 'framleiðslu', því seinna hugtakið er særandi og meiðandi.
  • Einstæð móðir og ófeðrað barn eiga rétt á fjárhagslegri aðstoð frá ríkinu fyrst það er enginn faðir til staðar. Þetta er vegna þess að einstæða móðirin er núverandi skattgreiðandi og ófeðraða barnið verðandi skattgreiðandi. Ef einstæð móðir getur ekki vænst þessa réttar, hví eiga hennar skattar þá að fara í barnabætur fyrir alla hina?

Málið er svona einfalt.

Óli Jón, 17.5.2008 kl. 02:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband