Færsluflokkur: Kvikmyndir

Til eiganda Smárabíós: Ég vil fá miðann minn endurgreiddan!

Ákvað að vera innipúki á verslunamannahelginni.  Rétt kíkti austur fyrir fjall í dag og svo beint í bæinn aftur.  Svo ákváðum við hjónakornin að skella okkur í bíó.  Þar sem var verið að sýna Simpsonsmyndina í Smárabíó fórum við á 10 sýningu. 

Mættum í salinn með popp og kók á slaginu 10.  Fyrir í salnum voru 5 áhorfendur.  Þeim fjölgaði ekki.  Næstu 15 mínútur máttum við sitja undir skjáauglýsingum sem endurteknar voru aftur og aftur til að þær færu nú örugglega ekki framhjá okkur.  Í þann mund sem þessi örfáu áhorfendur fóru að ræða sín á milli að ganga út var allt í einu skipt yfir á trailera að bíómyndum sem bíóið ætlar að taka til sýninga á næstunni.   Þessi trailerasýning stóð yfir næstu 15 mínútur þannig að klukkan var orðin hálf ellefu þegar myndin sem við höfðum keypt okkur aðgang að dýrum dómum hófst.

Ok, í leiðindum okkar höfðum við klárað poppið og kókið þannig að ekki var skrjáfið í popppokunum til að trufla einbeitingu bíógestanna.  Enda sáu stjórnendur Smárabíós fyrir því.  Hálftíma síðar var gert korters hlé á myndinni. 

Þessi fjandast ósiður, þ.e. auglýsingasýningar langt fram í auglýstan sýningartíma myndanna er algerlega óþolandi og virkar á fólk eins og hreinn og klár dónaskapur.  Erlendis eru til kvikmyndahús þar sem myndirnar eru niðurklipptar milli auglýsinga.  Inn á slíkar sýningar borgar áhorfandinn ekki.  Nema á Íslandi.  Hér skal auglýsingunum troðið ofan í kok með góðu eða illu.

Svo eru það hléin.  Til hvers í andskotanum?  Eru þau ekki bara til að selja meira sælgæti?  Það getur verið skiljanlegt að hafa hlé í margra klukkutíma kvikmyndum en hlé á stuttmynd eins og Simpsons er einum of mikið af því góða.

Hefur bíógestum ekki farið hlutfallslega fækkandi undanfarin ár?  Ekki man ég betur en hafa séð um það einhverja lærða statistik.  Skyldi skýringanna að leita í ofansögðu.

Næst þegar ég fer í bíó mæti ég í salinn tuttugu og fimmmínútum eftir auglýstan tíma.

Smárabíóseigendur:  Ég vil að þið endurgreiði okkur miðana.  Þið rænduð okkur ánægjunni af góðri teiknimynd. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband