Færsluflokkur: Matur og drykkur

i kina spiser de hunde

Kínverjar éta hunda og hafa vegna þess fordæmingu alþjóðasamfélagsins, bæði vegna hundaátsins og ekki síður vegna grimmúðlegrar meðferðar á hundunum. Ég hygg að því sé þannig farið að mörgum dettur hundaátið fljótlega í hug þegar Kína eða Kínverjar koma upp í hugann. Oftast þá í neikvæðri merkingu. Hundaátið snýst þess vegna nokkuð um ímynd þjóðarinnar. Líklega gæti hún verið betri létu blessaðir Kínverjarnir af þessum "ósið".

Við íslendingar  höfum nokkuð óvænt dottið inn í miðja umræðu alþjóðasamfélagsins í mjög neikvæðri merkingu.  Við höfðum (eða töldum okkur trú um) nokkuð jákvæða ímynd sem fyrirmyndarsamfélag.  Sú ímynd er brostin og við þurfum nú mjög á því að halda að bæta þessa ímynd og nota til þess allar færar leiðir.

Einhvern veginn hefur svo æxlast til að almenningsálit Vesturlandabúa hefur snúist gegn hvalveiðum og hvalkjötsáti.  Þetta finnst okkur skrítið eins og súrsaða rengið smakkast nú vel á þorrablótunum. Stórskrítið  enda eru þetta bara veruleikafirrt kaffihúsalið, alið upp á latte og malbiksryki.  Sennilega er það líka á móti hundaáti.  Samt hef ég sannfrétt að hundakjötið bragðist með eindæmum vel.

Mér finnst hvalkjöt gott og auðvitað eigum við að nýta okkur gjafir náttúrunnar, hvort heldur sem það eru hvalir eða hundar.  Í ljósi þessa er mér vafi í huga hvort hvalveiðar nú bæti ímyndina sem nú þegar er ansi beygluð og skæld.

Svo er mér spurn:  Er hægt að selja þetta hvalkjöt?  Samkvæmt fréttum hefur myndast hvalkjötsfjall í Japan.  Neysla þar hefur dregist verulega saman og hvalveiðar í suðurhöfum er nánast á framfæri stjórnvalda fjárhagslega.  Mér þætti fróðlegt að sjá hver geymslu- og flutningskostnaður var á langreyðarkjötstonnum sem nú munu loks vera komnar til Japan.  

Er það rétt að verðið hafi ekki dugað fyrir kostnaði?  Hver er þá ávinningurinn?


mbl.is 36 þingmenn vilja hvalveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í vasa kaupmanna fannst áður glötuð skattalækkun.

Athyglisverð vöruverðskönnun hjá ASÍ.  Þarna kemur það í ljós sem margir óttuðust.  Lækkun virðisaukaskattsins sem átti að koma neytendum til góða lendir öll í vasa kaupmanna eða svo virðist vera.   Enda var við öðru að búast?  Virðisaukaskattkerfið er orðið gapandi götótt, þriggja þrepa, með óteljandi undanþágum.   Það ætti að vera augljós hagur almennings og atvinnulífsins að skattkerfið sé einfalt og skilvirkt. 

Einfaldast væri að vera með eitt skattþrep í virðisaukaskatti og engar undanþágur til að svindla á.  Lækka mætti skattinn með slíkri einföldun, kannski niður í 12 - 14%.  Það myndi minnka verulega hættuna á undanskotum og einfalda skatteftirlit.

Slíkt mætti einnig hugsa sér með tekjuskattinn.  Einn flatan skatt 15 - 20% með persónuafslætti sem beintengdur yrði með lánskjaravísitölu.  Engar undanþágur.  Byggja yrði á sértækum aðgerðum varðandi þá sem sem minna mega sín, þ.e. koma á endurgreiðslukerfi.  Hætt yrði að lítillækka fólk með því að kalla slíkar greiðslur bætur heldur nefna þær einfaldlega tekjur.

Við erum komin í ógöngur með skattkerfið, flestir þeir tekjuhæstu greiða sáralítið til samfélagsins og þeir sem eingöngu greiða fjármagnstekjuskatt lifa eins og ómagar á sveitarfélögunum, þiggja alla þeirra þjónustu en greiða ekkert til þeirra.

Þetta verður að taka til gagngerrar endurskoðunar.

Ekki seinna en strax.


....að kveða burt snjóinn - það getur hún

Þá er hann kominn, fuglinn, sem flestir íslendingar tengja við vokomuna.  Þessi fugl sem þjóðin elskar umfram aðra fugla og á sér þennan sérstaka sess í þjóðarsálinni.  Íslendingar flokkar fugla líka niður í góða fugla og slæma.  Þeir slæmu eru oftast þannig gerðir að röddin er rám, ekki hægt að éta, og þeir ógna á einhvern´, oftast óskilgreindan, hagsmunum okkar mannanna.

Suma fugla borðum við með bestu lyst, aðra ekki.  M.a. borðum við ekki lóuna því hún er svo "ljúf og góð" og er vorboðinn okkar ljúfi.  Þannig er ekki farið með frændur okkar Íra.  Þegar lóan flýgur að hausti frá "ísa köldu landi", tyllir sér til hvíldar á eyjunni grænu, þá fara veiðimenn á stjá og skjóta ógrynni af lóum sem þykja þar herramannsmatur og sama gildir um flest þau lönd sem lóan á vetrardvöl í.

Einhver tíma minnti einhver á hvort við mættum ekki nýta þessa náttúruauðlind eins og aðrar.  Vera svona sjálfbær eða þannig!

Ef ég man rétt varð allt vitlaust.

Af hverju?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband